Umhverfisráðuneyti

505/2000

Reglugerð um hættumat vegna ofanflóða, flokkun og nýtingu hættusvæða og gerð bráðabirgðahættumats.

I. KAFLI
Gildissvið og skilgreiningar.
1. gr.
Gildissvið.

Reglugerð þessi gildir um gerð og notkun hættumats vegna ofanflóða og um nýtingu hættusvæða, svo og um gerð bráðabirgðahættumats.


2. gr.
Skilgreiningar.

Í reglugerð þessari er merking eftirtalinna orða og orðasambanda sem hér segir:
Aðgerðaáætlun: Áætlun sveitarfélags um aðgerðir til að tryggja öryggi fólks í húsum á hættusvæðum.

Aðsópssvæði: Svæði sem snjó getur skafið af inn á upptakasvæði snjóflóða.

Áhætta (e. risk): Mælikvarði sem tekur til þess hve líklegt er að atburður eigi sér stað og þess hversu víðtækar og afdrifaríkar afleiðingar eru.

Áhætta = fall (líkur, afleiðingar).

Ástreymisþrýstingur: Þrýstingur frá ofanflóði á flöt sem er hornréttur á flóðstefnu.

Ásættanleg áhætta: Ákvörðuð mörk ásættanlegrar árlegrar staðaráhættu að teknu tilliti til viðveru, 0,3 af 10.000.

Endurkomutími: Tími sem að meðaltali líður á milli hliðstæðra atburða.

Hætta (e. hazard): Hugsanlegur atburður sem leiðir til tjóns á mönnum eða eignum.

Hættumatslína: Lína sem dregin er um staði þar sem árleg staðaráhætta er ásættanleg.

Jafnáhættulína: Lína sem dregin er gegnum staði þar sem árleg staðaráhætta er jöfn.

Ofanflóð: Snjóflóð, skriðufall, berghlaup eða grjóthrun.

Óhappaálag: Álag sem aðeins verður vegna óhapps eða við aðrar ófyrirsjáanlegar aðstæður, sbr. ÍST DS 409:1982.

Óstyrkt hús: Hús sem ekki hefur verið styrkt sérstaklega vegna álags frá hugsanlegu ofanflóði.

Staðaráhætta: Árlegar dánarlíkur einstaklings af völdum ofanflóða ef dvalið er öllum stundum í óstyrktu einbýlishúsi.

Varanleg varnarvirki: Þver- og leiðigarðar, stoðvirki í upptökum snjóflóða.


Varnaraðgerðir: Bygging varanlegra varnarvirkja, uppkaup íbúðarhúsnæðis á hættusvæðum, styrking húsa, eftirlit og rýming.

Viðvera: Líkur þess að einstaklingur sé staddur á hættusvæði þegar ofanflóð fellur, án tillits til aðgerða sem auka öryggi, t.d. rýmingar og eftirlits.

Þéttbýli: Þyrping húsa þar sem búa a.m.k. 50 manns og fjarlægð milli húsa fer að jafnaði ekki yfir 200 metra.


II. KAFLI
Hættumatsnefnd, kynning og staðfesting hættumats.
3. gr.
Hættumatsnefnd.

Sveitarstjórnir í þeim sveitarfélögum þar sem ofanflóð hafa fallið á byggð eða nærri henni eða hætta er talin á slíku skulu láta meta hættu á ofanflóðum. Beiðni sveitarstjórnar um gerð hættumats skal berast umhverfisráðherra og skipar hann fjögurra manna nefnd um hættumat, hættumatsnefnd.

Hættumatsnefnd ber að stýra gerð hættumats í viðkomandi sveitarfélagi og gera samning við Veðurstofu Íslands um gerð hættumats þar sem m.a. skal kveðið á um kostnað og verktíma. Hættumatsnefnd ákveður í samráði við sveitarstjórn til hvaða svæða hættumat skuli ná. Nefndirnar taka við og meta athugasemdir frá aðilum sem málið snertir og kynna tillögur að hættumati þegar þær berast frá Veðurstofu Íslands. Hættumatsnefnd skal ganga frá tillögu að hættumati til staðfestingar umhverfisráðherra.


4. gr.
Skipan hættumatsnefnda.

Ráðherra skipar fjóra fulltrúa í hættumatsnefnd að beiðni viðkomandi sveitarstjórnar. Skulu tveir tilnefndir frá viðkomandi sveitarstjórn hverju sinni en ráðherra skipar tvo fulltrúa í nefndina án tilnefningar. Skal annar þeirra vera formaður og hafa oddaatkvæði en hinn skal vera sérfróður aðili með þekkingu á mati á ofanflóðahættu. Hættumatsnefnd skal ljúka störfum þegar hættumat hefur verið staðfest af ráðherra.


5. gr.
Kynning og staðfesting hættumats.

Viðkomandi sveitarstjórn ber ábyrgð á og annast kynningu á hættumati í samráði við hættumatsnefnd. Auglýsa skal hættumat og kynna á almennum fundi í sveitarfélaginu. Eftir að kynning hefur farið fram skal hættumatið liggja frammi á skrifstofu sveitarfélagsins til kynningar í fjórar vikur. Hættumat skal staðfest af umhverfisráðherra og tekur gildi við birtingu í Stjórnartíðindum.


6. gr.
Veðurstofa Íslands.

Veðurstofa Íslands annast gerð hættumats að beiðni hættumatsnefndar samkvæmt framkvæmdaáætlun sem gerð er í samráði við sveitarstjórnir og ofanflóðanefnd.

Veðurstofa Íslands annast enn fremur gerð bráðabirgðahættumats, sbr. 7. kafla, og mat á snjóflóðahættu á skíðasvæðum, sbr. 14. gr.


7. gr.
Kostnaður við gerð hættumats.

Kostnaður við gerð hættumats, þar með talinn kostnaður vegna hættumatsnefnda, er greiddur af Ofanflóðasjóði.


III. KAFLI
Gerð og notkun hættumats.
8. gr.
Gerð og framsetning hættumats.

Sveitarstjórnir í þeim sveitarfélögum þar sem ofanflóð hafa fallið á byggð eða nærri henni eða hætta er talin á slíku skulu láta meta hættu á ofanflóðum.

Hættumat skal fyrst og fremst ná til þéttbýlis og svæða þar sem þétt byggð er fyrirhuguð. Jafnframt fari fram mat á snjóflóðahættu á skipulögðum skíðasvæðum. Hættumat fyrir svæði utan þéttbýlis, s.s. einstaka sveitabæi, skal framkvæma enda liggi fyrir gildar ástæður að mati ofanflóðanefndar, t.d. þegar ofanflóð hafa fallið á eða staðnæmst í nálægð við íbúðarhúsnæði.

Niðurstöður hættumats skulu fela í sér mat á þeirri hættu sem lífi fólks er búin vegna ofanflóða, þ.e. áhættumat, og skal við matið tekið tillit til varnarvirkja sem reist hafa verið.

Hættumat skal sett fram á korti í mælikvarða 1:5000 þar sem hættusvæði eru afmörkuð og í greinargerð með hættumatskorti, eins og nánar er gerð grein fyrir í reglugerð þessari.


9. gr.
Gagnaöflun.

Til grundvallar hættumati skal að lágmarki liggja fyrir:
1. Grunnkort: Kortin skulu ná yfir svæði sem tilgreind eru í 8. gr. og sýna landslag upp á efstu fjallsbrúnir og ná yfir aðliggjandi aðsópssvæði. Framsetning korta skal miðast við mælikvarðann 1:5000 og skulu þau uppfylla kröfur Veðurstofu Íslands svo sem varðandi nákvæmni og uppsetningu. Ný kort skulu vera stafræn.
2. Gögnum um ofanflóð á viðkomandi svæði og í námunda við það skal safna saman með því að kanna ritaðar heimildir, auglýsa eftir upplýsingum og ábendingum og með viðtölum við staðkunnuga um snjóflóð, aurskriður og snjósöfnun. Skrá skal upplýsingar um veður tengd ofanflóðum, upptakasvæði flóða, snjódýpt í upptökum og á úthlaupssvæði, fallbraut flóða, tegund þeirra, skriðlengd, lögun snjóflóðatungu og annað sem máli skiptir. Ef ekki er til kort sem sýnir útlínur þekktra flóða skal útbúa það á stafrænu formi, sbr. lið 1.
3. Könnun á veðurfari. Safna skal saman upplýsingum um veður á nálægum veðurathugunarstöðvum og gera yfirlit yfir veðurfar. Kanna skal sérstaklega hlutfallslega tíðni snjóflóðavindátta, aftakaúrkomu og aftakasnjódýptar með tölfræðilegum aðferðum.
4. Könnun byggðasögu. Gera skal yfirlit yfir aldur húsa á svæðinu, einkum þeirra sem standa eða staðið hafa næst brekku og/eða undir hugsanlegum snjóflóðafarvegum.
5. Vettvangskönnun. Framkvæma skal ítarlega könnun á staðháttum, upptakasvæðum, snjósöfnunarmöguleikum, farvegum ofanflóða og huga að jarð- og gróðurfarslegum vísbendingum um umfang og tíðni þeirra. Meta skal hvar aðstæður geta leitt til vatns- og krapaflóða. Meta skal stærð hugsanlegra aurflóða með því að meta magn jarðefna sem geta losnað og útbreiðslu þeirra. Lagt skal mat á aldur aurskriðna sem ummerki sjást eftir. Ef náttúrulegir varnargarðar eða garðar gerðir af manna höndum eru fyrir hendi skal lagt mat á virkni þeirra.


10. gr.
Áhættumat.

Við hættumat skal reikna áhættu vegna ofanflóða og skulu útreikningarnir meðal annars byggðir á gögnum sem aflað hefur verið skv. 9. gr. Við áhættureikninga skal taka tillit til skráðrar tíðni ofanflóða úr viðkomandi brekku/brekkum, byggðasögu svæðisins, skriðlengdardreifingar skráðra snjóflóða á landinu og hugsanlega í öðrum löndum eftir færslu yfir í viðkomandi brekku/brekkur og til dánarlíkan fólks í ofanflóðum. Einnig skal taka mið af veðurfari og landslagi, t.d. vindáttum, snjódýpt, stærð og afstöðu aðsópssvæða, viðhorfi brekku og lögun upptakasvæða. Meta skal og/eða reikna út virkni byggðra varnarvirkja til breytingar á áhættu. Þetta á einkum við um þver- og leiðigarða á úthlaupssvæðum snjóflóða og stoðvirki á upptakasvæðum þeirra.

Aðgerðir sem miða að því að breyta snjósöfnun, t.d. snjósöfnunargrindur eða annar hliðstæður búnaður í grennd við upptakasvæði snjóflóða eða á aðsópssvæðum, skulu að jafnaði ekki hafa áhrif á hættumat.

Þar sem ekki er unnt að framkvæma áhættureikninga vegna ónógra upplýsinga skal engu að síður gera hættumatskort, sbr. 12. gr., og skal við gerð þess reynt að leggja mat á áhættu.


11. gr.
Ásættanleg áhætta.

Staðaráhætta fólks í íbúðarhúsum, skólum, barnaheimilum, sjúkrahúsum, samkomuhúsum og sambærilegum húsum telst ásættanleg ef hún er minni en 0,3 af 10.000 á ári. Í atvinnuhúsnæði þar sem unnið er að staðaldri telst áhætta ásættanleg ef staðaráhætta er minni en 1 af 10.000 á ári. Í frístundahúsum telst áhætta ásættanleg ef staðaráhætta er minni en 5 af 10.000 á ári. Við ákvörðun þessara marka hefur verið miðað við 75% viðveru í íbúðarhúsi, 40% viðveru í atvinnuhúsnæði og 5% viðveru í frístundahúsi. Auk þess hefur verið tekið mið af því að í atvinnuhúsnæði, öðru en skólum og leikskólum, dveljist börn ekki að staðaldri.

Heimilt er að meta viðveru fólks á annan hátt en kveðið er á um í 1. mgr. enda sé það mat rökstutt. Slíkt mat á t.d. við um atvinnuhúsnæði þar sem ekki er stöðug viðvera fólks. Einnig getur verið ástæða til þess að gera meiri kröfu til öryggis en kveðið er á um í 1. mgr., til dæmis ef gert er ráð fyrir mikilli viðveru fólks að vetrarlagi í frístundahúsi eða ef vinnustaðir eru fjölmennir.


12. gr.
Hættumatskort og flokkun hættusvæða.

Niðurstöður hættumats skal afmarka á korti í mælikvarðanum 1:5000 sem sýnir hættusvæði og flokkun þeirra og einnig á aðalskipulagsuppdrætti viðkomandi sveitarfélags. Sveitarfélag, umhverfisráðuneyti, Veðurstofa Íslands, Almannavarnir ríkisins og Skipulagsstofnun varðveita hver um sig eitt eintak af staðfestu hættumatskorti ásamt greinargerð.

Á hættumatskorti skal sýna hættumatslínu, þ.e. línu sem afmarkar svæði þar sem staðaráhætta er ásættanleg frá svæðum þar sem áhætta er meiri. Svæði brekkumegin við hættumatslínu skulu merkt bókstöfum A, B og C, eftir vaxandi áhættu, sbr. 5. kafla. Útlínur þess svæðis, sem hættumat nær til, skal sýna á hættumatskorti.

Á svæðum, sem varin eru með varnarvirkjum, skal sýna staðaráhættu eins og ef engar varnir væru til staðar og staðaráhættu að teknu tilliti til varnarvirkja. Á hættumatskorti skal auðkenna sérstaklega mannvirki og landslag sem dregur úr áhættu og ekki má breyta af öryggisástæðum.


13. gr.
Greinargerð með hættumatskorti.

Greinargerð með hættumatskorti skal innihalda:
1. Samantekt á þeirri könnun sem gerð var skv. 9. gr., þ.á m. yfirlitskort um skráð snjóflóð og aurskriður.
2. Tíðnikort sem sýnir fyrir hvern stað á svæðinu, sem matið nær til, reiknaða eða metna tíðni snjóflóða. Kortið skal hið minnsta sýna línur þar sem búast má við að snjóflóð geti fallið að meðaltali einu sinni á hverjum 100, 300, 1000 og 3000 árum. Ef fyrirliggjandi gögn eru ekki fullnægjandi til þess að leggja reikningslegt mat á tíðni snjóflóða má í stað þessa korts koma umsögn um endurkomutíma flóða.
3. Í greinargerð með áhættumati skv. 10. gr. skal vera yfirlit um forsendur matsins og þau gögn sem það byggist á. Einnig skal gera grein fyrir útreikningum sem gerðir hafa verið og niðurstöðum þeirra. Ef ekki reynist unnt að byggja matið á útreikningum skal skýra hvernig niðurstaðan er fengin og rökstyðja hana.


14. gr.
Skíðasvæði.

Áður en hafist er handa við mannvirkjagerð á skipulögðum skíðasvæðum skal viðkomandi sveitarfélag láta meta hættu vegna snjóflóða og skal tekið tillit til þess við skipulag svæðisins og fyrirkomulag mannvirkja, sbr. 6. kafla. Safna skal saman upplýsingum um þekkt snjóflóð, leggja skal mat á möguleg upptakasvæði, rennslisstefnu og skriðlengd snjóflóða og annað sem kann að skipta máli. Niðurstöður þessarar athugunar skulu settar fram á korti og í greinargerð þar sem gerð er grein fyrir forsendum og þeim upplýsingum sem aflað hefur verið. Sé hætta talin stafa af snjóflóðum skal rekstraraðili gera áætlun um daglegan viðbúnað vegna snjóflóðahættu. Veðurstofa Íslands annast gerð hættumats á skipulögðum skíðasvæðum að beiðni viðkomandi sveitarstjórnar.


IV. KAFLI
Skipulagning svæða.
15. gr.
Skipulagning svæða.

Ef gildandi svæðis- og/eða aðalskipulag er ekki í samræmi við gert hættumat skal endurskoða skipulagið þannig að það verði í samræmi við hættumatið. Hættumati skal skila inn sem fylgiskjali með tillögu að svæðis- og aðalskipulagi þar sem það á við. Skipulagsáætlanir fyrir svæði utan þéttbýlis skulu ætíð samþykktar og/eða staðfestar með fyrirvara um hugsanlega ofanflóðahættu sem ljós kann að verða við hættumat á einstökum svæðum, sbr. 1. mgr. 8. gr.

Taka skal fullt tillit til hættumats við alla skipulagsgerð. Ef ágreiningur verður um samræmi milli hættumats og svæðis- og/eða aðalskipulags skal úrskurðarnefnd í skipulags- og byggingarmálum úrskurða í málinu skv. skipulags- og byggingarlögum, nr. 73/1997, með áorðnum breytingum. Við endurskoðun aðalskipulags skal sveitarstjórn meta hvort ástæða sé til að endurskoða hættumat.

Óheimilt er að skipuleggja íbúðabyggð, frístundabyggð eða svæði fyrir atvinnustarfsemi á áður óbyggðum svæðum nema tryggt sé að áhætta fólks m.t.t. ofanflóða verði ásættanleg, sbr. 11. gr.


16. gr.
Skipulagsáætlanir.

Í svæðis-, aðal- og deiliskipulagi skal auðkenna hættusvæði, sbr. 8. og 12. gr. Gera skal grein fyrir hvaða reglur gilda á hverju þeirra varðandi umgengni og mannvirkjagerð. Jafnframt skal gera grein fyrir þegar byggðum og fyrirhuguðum varnarvirkjum vegna ofanflóða og hvaða landnotkun er fyrirhuguð á hættusvæðum og nærliggjandi svæðum og hvernig hún fellur að reglum sem gilda á hverju svæði fyrir sig.


V. KAFLI
Flokkun, skilgreining og nýting hættusvæða.
17. gr.
Skilgreining hættusvæða.

Hættusvæði afmarkast af línu, hættumatslínu, sem dregin er á grundvelli ákvörðunar um ásættanlega staðaráhættu skv. 11. gr. Brekkumegin hættumatslínunnar skiptast hættusvæði í þrjá flokka eftir vaxandi áhættu. Hættusvæði A afmarkast af jafnáhættulínum 0,3 – 1 af 10.000. Hættusvæði B afmarkast af jafnáhættulínum 1 - 3 af 10.000. Hættusvæði C er svæði þar sem staðaráhætta er meiri en 3 af 10.000. Neðan hættumatslínu er árleg staðaráhætta minni en 0,3 af 10.000.

TAFLA I.
Skilgreining hættusvæða.
Staðaráhætta - af 10.000
Neðri mörk
Staðaráhætta - af 10.000
Efri mörk
A-hættusvæði
0,3
1,0
B-hættusvæði
1,0
3,0
C-hættusvæði
3,0
-



18. gr.
Aðgerðaáætlun.
Sveitarstjórn skal gera áætlun um aðgerðir sem tryggja öryggi fólks í húsum á hættusvæði og skal hún liggja fyrir innan sex mánaða frá því að hættumat er staðfest. Áætlunin skal taka mið af framkvæmdaáætlun ofanflóðasjóðs þar sem miða skal við að brýnustu varnaraðgerðum gegn ofanflóðum fyrir svæði C verði lokið eigi síðar en 2010 og öðlast hún gildi við staðfestingu ofanflóðanefndar.

Á hættusvæði C skal öryggi tryggt með varanlegum varnarvirkjum eða uppkaupum íbúðarhúsnæðis. Fyrir hættusvæði A og B er heimilt að tryggja öryggi fólks með eftirliti og rýmingu.


19. gr.
Nýting hættusvæða.
Á hættusvæðum A er heimilt að reisa nýtt íbúðar- og atvinnuhúsnæði, svo og skála sem ætlaðir eru til næturgistingar á skíðasvæðum. Skóla, leikskóla, sjúkrahús, samkomuhús, fjölbýlishús með fleiri en 4 íbúðum og önnur sambærileg hús er heimilt að reisa enda séu þau styrkt til að standast ástreymisþrýsting, sbr. töflu II.

Á hættusvæðum B er heimilt að reisa ný einbýlishús og fjölbýlishús með allt að 4 íbúðum, svo og byggja við skóla, leikskóla, sjúkrahús, samkomuhús, fjölbýlishús með fleiri en 4 íbúðum og önnur sambærileg hús enda séu húsin og/eða viðbyggingarnar styrktar til þess að standast ástreymisþrýsting, sbr. töflu II. Heimilt er að reisa atvinnuhúsnæði svo og skála á skíðasvæðum, sem ekki eru ætlaðir til næturgistingar, án kvaða um styrkingar. Nýja skóla, leikskóla, sjúkrahús, samkomuhús, fjölbýlishús með fleiri en 4 íbúðum og önnur sambærileg hús er óheimilt að reisa.

Á hættusvæði C er einungis heimilt að reisa ný mannvirki þar sem ekki er búist við stöðugri viðveru fólks til búsetu eða til vinnu, s.s. dælu- og spennistöðvar, línumöstur og önnur sambærileg mannvirki enda skapist ekki frekari hætta gagnvart annarri byggð ef mannvirkið yrði fyrir áraun af völdum ofanflóða. Heimilt er að breyta íbúðar- og atvinnuhúsnæði þó þannig að heildaráhætta á viðkomandi svæði aukist ekki, t.d. með fjölgun íbúða eða fjölgun starfsmanna.

TAFLA II.
Ástreymisþrýstingur innan hættusvæða, reiknað sem óhappaálag, kN/m².
Íbúðar-, sjúkra- og samkomuhús, skólar,
leikskólar og samb. hús
Svæði
Neðri mörk
Efri mörk
A-hættusvæði
5
20
B-hættusvæði
20
90

streymisþrýsting á tilteknum stað innan svæðis skal meta út frá staðsetningu og staðháttum.


Hönnun burðarvirkja skal miðast við ástreymisþrýsting frá ofanflóðum skv. töflu II. Álagið reiknast sem óhappaálag og skal reikna mannvirkið í brotmarkaástandi. Almennt gildir að hús á hættusvæðum skulu vera steinsteypt með steyptri loftplötu og veggir, sem snúa að brekku, skulu að jafnaði vera án opa og glugga. Að öðrum kosti skulu gluggar og hurðir standast ástreymisþrýsting. Við hönnun mannvirkja á hættusvæðum skal stuðst við Rb-blöð nr. Rb(V9).003, Rb(V9).004 og Rb(V9).005, útgefin af Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins. Hönnuðir skulu undantekningarlaust leggja fram útreikninga sína til samþykktar hjá viðkomandi byggingafulltrúa sem sannreynir hönnunargögn.


20. gr.
Sérstök nýting hættusvæða A og B.

Á hættusvæðum A og B er heimilt að reisa mannvirki án þeirra kvaða sem getið er um í 19. gr. enda liggi fyrir ákvörðun sveitarstjórnar um að innan fimm ára verði viðkomandi svæði varið með varanlegum varnarvirkjum skv. staðfestri aðgerðaáætlun um aðgerðir sveitarfélagsins, sbr. 18. gr.


21. gr.
Nýting svæða neðan varnarvirkja.

Á svæðum þar sem öryggi fólks gagnvart ofanflóðum er aukið með varnarvirkjum samkvæmt endurskoðuðu hættumati er heimilt að þétta byggð og endurnýja mannvirki, sbr. 19. gr. Þrátt fyrir að varnir séu hannaðar og reistar með það í huga að öryggi fólks neðan þeirra sé ásættanlegt ber sveitarstjórn að leitast við að stýra skipulagsgerð og þróun byggðar með tilliti til ofanflóðahættu.


VI. KAFLI
Varnarvirki.
22. gr.
Varnarvirki.

Varnir gegn ofanflóðum eru eingöngu reistar til þess að auka öryggi fólks á svæðum sem eru í byggð. Ef kröfum skv. 11. gr. er ekki fullnægt án sérstakra varnarvirkja gegn ofanflóðum er óheimilt að skipuleggja ný áður óbyggð svæði fyrir íbúðabyggð, frístundabyggð eða atvinnustarfsemi.

Við hönnun varnarvirkja gegn ofanflóðum skal leitast við að auka öryggi þannig að eftir byggingu þeirra sé staðaráhætta fólks neðan þeirra sem næst ásættanlegri staðaráhættu skv. 11. gr. og aldrei meiri en 1,0 af 10.000.

Í frumathugun ofanflóðavarna skulu ráðgjafar leggja mat á staðaráhættu með og án varanlegra varnarvirkja. Á sérstökum uppdráttum, sem fylgi tillögum þeirra að vörnum, skal sýna jafnáhættulínur skv. 17. gr. þar sem skýrt komi fram hvaða svæði séu varin með varnarvirkjum og hver sé staðaráhætta að teknu tilliti til varnarvirkja og án þeirra.

Eftirlit með ofanflóðahættu og rýmingaráætlanir hafa ekki áhrif á staðsetningu jafnáhættulína né hættumatskort. Endurskoða skal uppdrætti og rýmingaráætlanir ef reist eru varanleg varnarvirki gegn ofanflóðum.

Í skipulagsáætlunum skal gera grein fyrir varnarvirkjum sem reist hafa verið eða eru fyrirhuguð og sérstökum skilyrðum um styrkingu eða útfærslu mannvirkja.


23. gr.
Sveitarstjórn.

Sveitarstjórn gerir tillögu til ofanflóðanefndar að varnarvirkjum fyrir hættusvæði sem þegar hafa verið byggð.

Sveitarstjórn skal annast framkvæmdir við varnarvirki í samræmi við ákvörðun ofanflóðanefndar.

Sveitarstjórn ber ábyrgð á viðhaldi varnarvirkja.


VII. KAFLI
Bráðabirgðahættumat.
24. gr.
Gildissvið.

Ákvæði 7. kafla þessarar reglugerðar gilda um meðferð skipulagstillagna, veitingu byggingarleyfa og gerð bráðabirgðahættumats á svæðum þar sem ofanflóð hafa fallið eða hætta er talin á slíku og staðfest hættumat liggur ekki fyrir.


25. gr.
Skipulagstillögur og byggingarleyfi.

Áður en sveitarstjórn gerir breytingu á deiliskipulagi eða aðalskipulagi, samþykkir nýtt skipulag eða veitir byggingarleyfi samkvæmt gildandi deiliskipulagi á svæði þar sem ofanflóð eru hugsanleg, án þess að staðfest hættumat liggi fyrir, skal hún leita álits Skipulagsstofnunar á málsmeðferð. Skipulagsstofnun metur hvort óska beri eftir bráðabirgðahættumati hjá Veðurstofu Íslands. Það mat fer eftir eðli máls, m.a. því hvort hætta hafi þegar verið metin á einn eða annan hátt. Telji Skipulagsstofnun þörf á gerð bráðabirgðahættumats sendir hún beiðni um það til Veðurstofu Íslands.


26. gr.
Bráðabirgðahættumat.

Þegar Veðurstofu Íslands berst erindi um bráðabirgðahættumat vegna skipulagstillögu eða leyfisumsóknar skal hún áætla umfang matsins. Ef það er mjög viðamikið skal Veðurstofan óska eftir að viðkomandi sveitarstjórn fari með matið eins og kveðið er á um í 2. kafla þessarar reglugerðar. Að öðrum kosti gerir Veðurstofan bráðabirgðahættumat fyrir svæðið og afmarkar hættusvæði í samræmi við 5. kafla. Veðurstofan skal að jafnaði afgreiða erindi innan 6 vikna frá því að það berst stofnuninni. Sé ekki hægt að afgreiða erindið innan frests skal gera hlutaðeigandi grein fyrir því skriflega og gera grein fyrir áætlun um málsmeðferð.


27. gr.
Álit Skipulagsstofnunar.

Skipulagsstofnun skal taka til afgreiðslu erindi sveitarstjórnar skv. 25. gr. og tilkynna henni um álit sitt eins fljótt og unnt er. Í áliti Skipulagsstofnunar skal koma fram hvort framkvæmdir samkvæmt skipulagstillögu eða leyfisumsókn eru heimilar. Skipulagsstofnun skilgreinir í samráði við Veðurstofu Íslands þær kröfur sem nýbyggingar skulu fullnægja og setur önnur viðeigandi skilyrði fyrir samþykki skipulagstillögu eða stakri leyfisveitingu.

Í bráðabirgðahættumati vegna byggingarleyfis skal hið minnsta tilgreina þær styrkleikakröfur sem gera verður til byggingar sem þar verður reist.


28. gr.
Gildistaka.

Reglugerð þessi er sett skv. 4. mgr. 4. gr. laga nr. 49/1997 með síðari breytingum og öðlast þegar gildi.


Ákvæði til bráðabirgða.
I.

Hættumatsnefndir skulu hafa lokið við gerð hættumats, sbr. 3. gr., fyrir eftirfarandi þéttbýliskjarna eigi síðar en á árinu 2001: Bíldudal, Bolungarvík, Eskifjörð, Hnífsdal, Ísafjörð, Neskaupstað, Ólafsvík, Patreksfjörð, Seyðisfjörð og Siglufjörð.


Umhverfisráðuneytinu, 6. júlí 2000.

Siv Friðleifsdóttir.
Smári Þorvaldsson.

Þetta vefsvæði byggir á Eplica