Umhverfisráðuneyti

437/1995

Reglugerð um refa- og minkaveiðar.

Orðskýringar.

1. gr.

Í reglugerð þessari merkir:

Friðun: Bann við veiðum og öðrum aðgerðum sem geta aukið vanhöld eða dregið úr viðkomu refa eða minka.

Veiðar: Að handsama eða drepa refi og minka.

Tjón af völdum refa og minka: Fjárhagslegt tjón sem einstaklingar, fyrirtæki eða aðrir verða fyrir, heilsufarslegt tjón fólks eða búfénaðar og tjón á náttúru landsins.

Markmið og umsjón veiða.

2. gr.

Veiðistjóri hefur umsjón með opinberum aðgerðum til að meta og draga úr tjóni af völdum refa og minka. Í því skyni stundar veiðistjóri hagnýtar rannsóknir í samvinnu við Náttúrufræðistofnun Íslands, aðrar stofnanir eða einstaklinga eftir því sem þörf krefur. Niðurstöður rannsókna skulu birtar opinberlega og lagðar til grundvallar aðgerðum til að draga úr tjóni af völdum refa og minka.

3. gr.

Í þeim tilgangi að koma í veg fyrir eða draga úr tjóni af völdum refa er friðun þeirra aflétt á tímabilinu 1. ágúst til 30. apríl um allt land, nema á svæðum þar sem veiðar eru bannaðar skv. sérstökum reglum sem settar eru á grundvelli laga nr. 47/1971 um náttúruvernd, sbr. 1. viðauka.

Heimilt er að veiða mink allt árið um land allt, nema á svæðum þar sem umhverfisráðherra hefur auglýst friðun hans tímabundið í rannsóknaskyni og á svæðum þar sem veiðar eru bannaðar skv. sérstökum reglum sem settar eru á grundvelli laga nr. 47/1971 um náttúruvernd, sbr. 1. viðauka.

Á eignarlöndum eru refa- og minkaveiðar einungis heimilar með leyfi veiðiréttarhafa.

4. gr.

Þar sem umhverfisráðherra ákveður, að fengnum tillögum veiðistjóra, að veiðar séu nauðsynlegar til þess að koma í veg fyrir tjón af völdum refa og minka er sveitarstjórn skylt að ráða skotmenn til grenjavinnslu og minkaveiða árlega. Svæði sem hér um ræðir eru tilgreind í 2. viðauka. Eigi fleiri sveitarfélög sameiginlegt upprekstrarland skulu sveitarfélög fela stjórn viðkomandi upprekstrar- eða fjallskilafélags umsjón veiðanna.

Telji sveitarstjórn og veiðistjóri ekki þörf á að stunda grenjavinnslu og minkaveiðar á hluta þeirra svæða sem tilgreind eru í 2. viðauka er þeim heimilt með samþykki umhverfisráðherra að gera með sér samkomulag um takmörkun veiða á svæðinu.

Eftirlit með því að sveitarfélög sjái um refa- og minkaveiðar er í höndum veiðistjóra.

Sérákvæði um refaveiðar.

5. gr.

Á grenjatíma, sem telst vera frá 1. maí til 31. júlí, eru refaveiðar heimilar skotmönnum sem ráðnir eru til grenjavinnslu skv. 4. gr. Þó geta bændur og æðarræktendur eða aðilar á þeirra vegum, skotið refi sem búfénaði eða æðarvarpi stafar bein hætta af. Skal viðkomandi tilkynna skotmönnum ráðnum skv. 4. gr. um slíka veiði svo fljótt sem auðið er.

Skotmenn sem ráðnir eru samkvæmt 4. gr. skulu einnig vera til reiðu á grenjatíma ef refir valda tjóni og greni þeirra finnast eigi.

Þar sem veiðistjóra og sveitarstjórn þykir betur henta má skipuleggja refaveiði að vetrarlagi í stað grenjavinnslu.

6. gr.

Menn sem ráðnir eru til grenjavinnslu skulu aðeins leita einu sinni á hverju sumri á hverju þekktu greni á viðkomandi svæði.

Telji sveitarstjórn þörf á að leita áður óþekktra grenja skal haft um það samráð við veiðistjóra og skal kostnaðaráætlun samþykkt af veiðistjóra áður en leit hefst.

Grenjaskyttur skulu vera vel vopnum búnar og kappkosta að vinna hvert greni á sem stystum tíma.

Séu dýrabogar lagðir fyrir yrðlinga í grenjum skal búa þannig um bogana að sem minnst hætta sé á að yrðlingar meiðist. Gerðir fótboga og gildra skulu hafa hlotið samþykki ráðgjafarnefndar um villt dýr. Ekki má yfirgefa greni þar sem bogar hafa verið lagðir fyrir yrðlinga. Yrðlingar skulu aflífaðir á skjótvirkan hátt.

7. gr.

Skylt er að ganga vel um greni og skilja þar ekkert rusl eftir. Heimilt er að merkja greni með því að hlaða smávörðu eða byrgi í námunda við það.

Óheimilt er að eyðileggja greni.

>Ekki má láta hunda hlaupa um á greni á grenjatíma né hafa þar óþarfa umgang.

Sveitarstjórnir skulu halda skrá yfir öll þekkt greni og er grenjaskyttum skylt að viðhalda henni með upplýsingum um ný greni sem þeir kunna að finna. Afrit af grenjaskrá skal vera í vörslu veiðistjóra.

Sérákvæði um minkaveiðar.

8. gr.

Menn sem ráðnir eru til minkaveiða skulu að jafnaði veiða á tímabilinu 20. apríl til 30. júní. Þar sem sveitarstjórn og veiðistjóra þykir betur henta má skipuleggja minkaveiðar á öðrum árstímum.

Skylt er að ganga þannig um minkabæli að ekki hljótist landspjöll af.

Ráðnir minkaveiðimenn skulu leita meðfram sjó, ám og vötnum þar sem líklegt telst að minkabæli finnist.

Minkaveiðimenn skulu vera vel tækjum búnir og hafa með sér vana minkaveiðihunda ef þess er nokkur kostur.

Séu gildrur lagðar fyrir mink skal þannig um þær búið að öðrum dýrum stafi sem minnst hætta af. Ef fótbogar og dauðagildrur eru notaðar skal búa um þær þannig að minkurinn láti lífið á sem skjótastan hátt. Gerðir fótboga og gildra skulu hafa hlotið samþykki ráðgjafarnefndar um villt dýr.

Minkur sem næst lifandi skal aflífaður á sem skjótvirkastan hátt.

Leiðbeiningar og uppgjör vegna veiða.

9. gr.

Skylt er veiðistjóra að leiðbeina grenjaskyttum og minkaveiðamönnum, sem sveitarfélög semja við um refa- og minkaveiðar, um veiðiaðferðir, veiðitækni og búnað við veiðar. Veiðistjóri skal og veita allar upplýsingar og aðstoð sem tök eru á, halda námskeið fyrir veiðimenn eftir þörfum og gera tilraunir með ný tæki og veiðiaðferðir.

Grenjaskyttur og minkaveiðmenn, sem sveitarfélög semja við um refa- og minkaveiðar, skulu í starfi stuðla að aukinni þekkingu á refum og minkum í samvinnu við veiðistjóra og láta í té sýni úr felldum dýrum sér að kostnaðarlausu, fari veiðistjóri fram á það eða aðrir sem hann samþykkir.

10. gr.

Umhverfisráðherra ákveður árlega viðmiðunartaxta launa grenjaskyttna og minkaveiðimanna og verðlauna fyrir löglega unna refi og minka. Verðlaun fyrir unnin dýr skulu aðeins greidd sé skott af hverju unnu dýri lagt fram til sönnunar. Gildir þetta jafnt um ráðnar grenjaskyttur og minkaveiðimenn sem aðra.

Vilji veiðimaður hagnýta sér skinn af unnu dýri getur hann sannað veiði sína með því að leggja skinnið fram hjá sveitarstjórn. Skal þá skinnið auðkennt með merkibleki á innanvert skottið og skal stungið í merkið með oddhvassri nál.

Við uppgjör skulu grenjaskyttur og menn sem ráðnir eru til minkaveiða leggja fram sundurliðaða reikninga og útdrátt úr dagbók þar sem skráð er hvar og hvenær grenjaleit og veiðar fóru fram. Skulu afrit af kvittunum og útdráttur úr dagbók fylgja árlegu reikningsyfirliti til veiðistjóra, sbr. 11. gr.

11. gr.

Uppgjörstímabil vegna refa- og minkaveiða er frá 1. september ár hvert til 31. ágúst næsta ár. Skylt er oddvitum, sveitarstjórum, bæjarstjórum og öðrum þeim, er sjá um framkvæmd refa- og minkaveiða, að senda veiðistjóra skýrslu um veiðina ásamt reikningsyfirliti innan 6 vikna frá lokum uppgjörstímabils.

Veiðistjóri endurskoðar reikninga vegna refa- og minkaveiða. Úrskurði veiðistjóri að reikningar séu réttir og hóflegir endurgreiðir ríkissjóður viðkomandi sveitarfélagi helming útlagðs kostnaðar við veiðarnar.

Veiðistjóri skal árlega birta upplýsingar um veiðarnar og kostnað við þær.

Vanræki sveitarstjórn að framfylgja fyrirmælum þessarar greinar er umhverfisráðherra heimilt að svipta það sveitarfélag framlagi því úr ríkissjóði sem gert er ráð fyrir í reglugerðinni, eitt ár í senn.

Refsiákvæði.

12. gr.

Brot gegn reglugerð þessari varða sektum, varðhaldi eða fangelsi, upptöku skotvopna og sviptingu veiðileyfis, sbr. 19. gr. laga nr. 64/1994. Mál út af slíkum brotum sæta meðferð opinberra mála.

Heimildarákvæði.

13. gr.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt 7., 12. og 13. gr. laga nr. 64/1994 um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum og öðlast þegar gildi. Jafnframt er felld úr gildi reglugerð nr. 358/1994 um að aflétta friðun refa og um veiðar á refum og minkum.

Umhverfisráðuneytið, 31. júlí 1995.

F. h. r.
Magnús Jóhannesson.

Sigurður Á. Þráinsson.

1. VIÐAUKI

Friðlýst svæði, skv. lögum nr. 47/1971 um náttúruvernd, þar sem veiðar eru óheimilar, sbr. 10. gr. laga nr. 64/1994.

Heiti

Eðli friðlýsingar

Auglýsing í Stjórnartíð.

Ástjörn

friðland

189/1978

Borgir

náttúruvætti

269/1981

Búðahraun

friðland

357/1979

Díma í Lóni

náttúruvætti

523/1975

Dverghamrar

náttúruvætti

446/1987

Eldey

friðland

119/1974

Esjufjöll

friðland

188/1978

Geitland

friðland

283/1988

Grótta

friðland

131/1984

Gullfoss

friðland

141/1979

Herdísarvík

friðland

121/1988

Hornstrandir

friðland

332/1985

Hraunfossar og Barnafossar

náttúruvætti

410/1987

Húsafellsskógur

friðland

217/1974

Hvannalindir

friðland

32/1973

Ingólfshöfði

friðland

388/1978

Jökulsárgljúfur

þjóðgarður

359/1993

Kringilsárrani

friðland

524/1975

Melrakkaey

friðland

118/1974

Skaftafell

þjóðgarður

319/1984

Skógarfoss

náttúruvætti

477/1987

Spákonufellshöfði

fólkvangur

444/1980

Surtsey

friðland

122/1974

Varmárósar

friðland

506/1987

Víghólasvæðið

náttúruvætti

778/1983

Þjórsárver

friðland

507/1987

2. VIÐAUKI

Svæði þar sem refa- og minkaveiðar skulu stundaðar, sbr. 12. gr. laga nr. 64/1994.

Til þess að draga úr tjóni af völdum refa og minka skal stunda skipulega grenjaleit, grenjavinnslu og minkaveiðar um allt land á öðrum svæðum en þeim sem óheimilt er að veiða á, sbr. 1. viðauka, og á svæði á miðhálendi landsins sem afmarkast af línu er hugsast dregin milli eftirtalinna hnita, sbr. kort Landmælinga Íslands:

Mýra- og Borgarfjarðarsýsla

  1. ÞÓRISJÖKULL, hæðarpunktur 1350
  2. EIRÍKSJÖKULL, hæðarpunktur 1675
  3. VEIÐITJÖRN, vesturendi

Vestur- og Austur-Húnavatnssýsla

  1. HALLDÓRSHÓLL, hæðarpunktur 475
  2. SAUÐAFELL, hæðarpunktur 679

Skagafjarðarsýsla

  1. SANDFELL, hæðarpunktur 827

Suður-Þingeyjarsýsla

  1. SANDMÚLAVATN, norðurendi
  2. BLÁFJALL, hæðarpunktur 1222
  3. BÚRFELL, hæðarpunktur 953
  4. ÁRMÓT JÖKULSÁR Á FJÖLLUM OG SKARÐSÁR

Norður-Múlasýsla

  1. ÞRÍHYRNINGUR, hæðarpunktur 958
  2. ÁRMÓT SAUÐÁR OG JÖKULSÁR Á BRÚ

Suður-Múlasýsla

  1. ÞRÁNDARJÖKULL, hæðarpunktur 1248
  2. HOFSJÖKULL, hæðarpunktur 1190, sýslumörk

Austur-Skaftafellssýsla

  1. EFSTAFELL, hæðarpunktur 1275
  2. MÁFABYGGÐIR, hæðarpunktur 1440
  3. FREMRIMENN, hæðarpunktur 834

Vestur-Skaftafellssýsla

  1. HOLTASKER, hæðarpunktur 834
  2. LEIÐÓLFSFELL, hæðarpunktur 548
  3. EINHYRNINGUR, hæðarpunktur 684
  4. SANDFELL, hæðarpunktur 597

Rangárvallasýsla

  1. ENTA, hæðarpunktur 1350
  2. HEKLA, hæðarpunktur 1491
  3. HRAUNEYJARFOSS Í TUNGNAÁ

Árnessýsla

  1. LAMBAFELL, hæðarpunktur 714
  2. BLÁFELL, hæðarpunktur 1204
  3. ELDBORGIR Í LAMBAHRAUNI, hæðarpunktur 678, hreppamörk
  4. SKJALDBREIÐUR, hæðarpunktur 1060, bein lína í hnit 1

Undantekning er þó gerð að því er varðar minkaveiðar (A) í Herðubreiðarfriðland, sbr. auglýst mörk friðlandsins í auglýsingu nr. 272/1974 í B-deild Stjórnartíðinda og (B) í Veiðivötnum í Rangárvallasýslu, á svæði sem takmarkast af eftirfarandi hnitum:

I.HÓFSVAÐ í Tungnaá

II.FONTUR, hæðarpunktur 738

III. TUNGNAÁ við Jökulvatn (Jökullón) með vesturbakka Tungnaár í hnit I.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica