Umhverfisráðuneyti

39/1984

Reglugerð um útgáfu og afgreiðslu eiturbeiðna og annarra tilsvarandi leyfa - Brottfallin

1. gr.

Eiturbeiðnir eru leyfi, er lögreglustjórar gefa út handa einstaklingum (eiturbeiðendum) samkvæmt beiðni þeirra og gilda til kaupa á eiturefnum til eigin nota. Gildistími eiturbeiðna er lengst 3 mánuðir frá útgáfudegi. Þegar að neðan er rætt um eiturbeiðnir, er átt við eiturbeiðnir, er lögreglustjóri hefur gefið út og eru enn í gildi.

Eiturbeiðnir þarf ekki til kaupa á eiturefnum eða varningi, sem inniheldur tiltekin eiturefni og leyft er að selja á frjálsum markaði.

Sölu eiturefna mega þeir einir annast, sem greindir eru í 1.-5. tölulið 1. málsgreinar 5. gr. laga um eiturefni og hættuleg efni. Um sölu eiturefna í X og A hættuflokkum gilda sérákvæði, sbr. reglugerð um notkun eiturefna og hættulegra efna í landbúnaði og garðyrkju og til útrýmingar meindýra, sbr. einnig 9. gr. Heimilt er þó að selja á frjálsum markaði varning, er inniheldur tiltekin eiturefni (sbr. 7. gr. laga um eiturefni og hættuleg efni), enda skal þá gæta settra fyrirmæla um notkun. Slíkar undanþágur frá ákvæðum 5. gr. laganna skal auglýsa sérstaklega.

2. gr.

Eiturbeiðnir skulu hljóða á eitt tilgreint eiturefni, eina tilgreinda blöndu eða samsetningu, er inniheldur tiltekin eiturefni eða hljóða á eina tegund varnings, sem tilgreindur er og hefur að geyma tiltekin eiturefni.

Seljandi ber fulla ábyrgð á því, að eiturbeiðnir séu rétt afgreiddar.

3. gr.

Eiturbeiðandi skal á eyðublaði greina nákvæmlega, hve mikið magn (g, ml. kg, l) eiturefnis eða varnings hann hyggst nota og til hvers. Skal hann með undirskrift sinni staðfesta, að hann heiti að fara með fyllstu gát með umrætt eiturefni og þannig, að hvorki hljótist af tjón á mönnum, húsdýrum né friðuðum dýrum, eða plöntum, og muni ekki framselja neinn hluta þess öðrum til notkunar.

4. gr.

Eiturbeiðnir skal gefa út í þríriti á sérstök eyðublöð (sbr. viðauka 1). Skal lögreglustjóri varðveita annað afrit, en eiturbeiðandi hitt. Eiturbeiðandi skal framvísa seljanda frumrit. Seljandi skal halda eftir frumritum eiturbeiðna og senda þau eiturefnanefnd í árslok.

5. gr.

Eiturbeiðandi skal vera 18 ára eða eldri og sanna með persónuskilríkjum, hver hann er. Frá ákvæði þessu má þó víkja, ef eiturbeiðandi er lögreglustjóra svo kunnur, að slíks gerist ekki þörf.

Eigi má afhenda eiturefni öðrum en eiturbeiðanda. Skal seljandi krefja eiturbeiðanda skilríkja á sama hátt og lögreglustjóri. Frá ákvæði þessu má þó víkja, ef eiturbeiðandi er seljanda svo kunnur, að slíks gerist ekki þörf.

Eigi má gefa út eiturbeiðnir né afhenda gegn þeim eiturefni, ef ástæða er til þess að ætla, að hlutaðeigendur kynnu að fara sjálfum sér að voða eða gætu unnið öðrum tjón með efnunum sökum geðveiki, ölvunar, vanþroska, vanstillingar eða fákunnáttu o. s. frv.

6. gr.

Eiturbeiðnir mega ekki hljóða á eiturefni til notkunar í landbúnaði og garðyrkju og til útrýmingar meindýra (sbr. 9. gr.)

Hvorki mega eiturbeiðnir hljóða á eiturefni sem algert bann liggur við að nota, né á eiturefni til einhverra þeirra nota, sem bann liggur við.

7. gr.

Nú nota iðnaðarmenn eða aðrir einstaklingar tiltekin eiturefni að staðaldri við störf sín, og má þá veita leyfi til kaupa á umræddum efnum, er gilda til 1 - 3 ára í senn.

Lögreglustjóri gefur út; að fengnu samþykki eiturefnanefndar, númerað skírteini (sjá viðauka 2), er veitir leyfi til slíkra kaupa. Skal hlutaðeigandi ávallt bera skírteinið á sér við störf sín. Leyfi eru bundin við notendur efnanna persónulega, og eru þeir ábyrgir, ef tjón hlýst af notkun þeirra. Greina skal á leyfisskírteininu þau eiturefni (sbr. 1. málsgr. 2. gr.), sem leyfð eru kaup á.

Umsóknir um leyfi þessi skal senda hlutaðeigandi yfirvaldi (lögreglustjóra), er sendir þær eiturefnanefnd til umsagnar. Eiturefnanefnd leitar álits um umsækjendur eftir því sem við á hverju sinni. Umsóknum skal fylgja vottorð Vinnueftirlits ríkisins, yngra en tveggja ára, um skoðun á vinnuhúsnæði umsækjenda. Er eiturefnanefnd óheimilt að mæla með útgáfu leyfisskírteina þessara, ef vinnuhúsnæði umsækjenda er að mati Vinnueftirlitsins ófullnægjandi. Eiturefnanefnd skal senda hlutaðeigandi yfirvaldi umsögn sína innan 2 mánaða.

Eiturefnanefnd getur farið þess á leit við hlutaðeigandi yfirvald, að leyfi þessi verði numin úr gildi, ef gildar ástæður eru til þess að ætla, að leyfishafar brjóti svo af sér við störf sín, að hætta geti stafað af. Hlutaðeigandi yfirvald getur, hvenær sem er, numið slík leyfi úr gildi, ef fyrrgreindar ástæður mæla með því. Heimilt er í slíkum tilvikum að áfrýja úrskurði yfirvalds til ráðherra.

Seljandi má eigi afhenda eiturefni gegn leyfum þessum öðrum en þeim er þau skal nota. Seljanda er þó heimilt, ef sérstaklega stendur á, að afhenda öðrum umræddan varning fyrir hönd notenda, enda hafi notandi með símtali eða á annan viðhlítandi hátt tilkynnt, að varninginn skuli afhenda þeim, er hann tilgreinir. Sá er veita á varningnum viðtöku fyrir hönd notanda, skal þá með skilríkjum sanna seljanda, hver hann er, nema hann sé seljanda svo kunnur, að slíks gerist ekki þörf. Notandi ber jafnt ábyrgð á varningnum, hvort sem hann hefur verið afhentur sjálfum honum eða öðrum, er hann hefur tilnefnt í sinn stað.

Um útgáfu leyfa og afhendingu eiturefna gegn þeim gilda ennfremur ákvæði 1. og 3. málsgr. 5. gr., svo og ákvæði 6. gr.

8. gr.

Skylt er öllum þeim, er fengið hafa leyfi til þess að kaupa og nota eiturefni við störf sín, sbr. ákvæði 7. gr., að geyma efnin tryggilega og merkja greinilega með viðeigandi varnaðarorðum ("varúð", "eitur" o. s. frv.). Vanræksla í þessu efni varðar missi leyfisskírteinis. Vinnueftirlit ríkisins skal hafa eftirlit með leyfishöfum, sbr. 11. gr. reglugerðar nr. 455/1975, enda tilkynnir eiturefnanefnd Vinnueftirlitinu um nöfn og vinnustaði leyfishafa.

9. gr.

Þeir einir mega kaupa og nota eiturefni í hættuflokki X eða hættuflokki A, er þörf hafa fyrir eiturefni í þessum hættuflokkum við störf sín og til þess hafa fengið leyfi (sbr. 2. og 3. málsgr. 4. gr. reglugerðar um notkun eiturefna og hættulegra efna í landbúnaði og garðyrkju og til útrýmingar meindýra).

Leyfishafar skulu ávallt bera á sér við störf sín númeruð leyfisskírteini (sbr. viðauka 3 og 4), er lögreglustjóri gefur út að fengnu samþykki eiturefnanefndar.

10. gr.

Ef sérstakar ástæður mæla með, er lögreglustjóra heimilt, að fengnum meðmælum eiturefnanefndar, að veita einstaklingum, er ekki hafa gild leyfisskírteini til kaupa á efnum og efnasamsetningum í hættuflokki A, leyfi til kaupa á takmörkuðu magni slíkra efna og efnasamsetninga (sbr. 5. málsgr. 4. gr. reglugerðar um notkun eiturefna og hættulegra efna í landbúnaði og garðyrkju og til útrýmingar meindýra).

Gegn slíkum leyfum má aðeins láta úti einu sinni og skulu þau hljóða á einungis eitt tilgreint eiturefni (sbr. 1. málsgr. 2. gr.).

Seljandi skal halda eftir leyfum þessum og senda þau eiturefnanefnd í árslok.

11. gr.

Um hegningu og viðurlög fyrir brot á ákvæðum þessum skal fara samkvæmt 22. gr. laga um eiturefni og hættuleg efni.

12. gr.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt 6. gr. laga um eiturefni og hættuleg efni og öðlast þegar gildi 1. mars 1984. Samtímis fellur úr gildi reglugerð nr. 131/1971 svo og reglugerð nr. 248/1981 um breyting á þeirri reglugerð.

Ákvæði til bráðabirgða

Eiturbeiðnir og leyfisskírteini, sem gefin hafa verið út samkvæmt ákvæðum reglugerðar nr. 131/1971, sbr. einnig reglugerð nr. 132/1971, halda gildi sínu, svo sem gildistími þeirra segir til um, enda þótt fyrrnefndar reglugerðir hafi verið úr gildi felldar.

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið, 23. janúar 1984.

Matthías Bjarnason.

Ingimar Sigurðsson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica