Umhverfisráðuneyti

155/2000

Reglugerð um öryggislok og áþreifanlega viðvörun. - Brottfallin

Markmið.

1. gr.

Markmið reglugerðar þessarar er að auka öryggi við meðferð efnavöru, einkum með tilliti til barna annars vegar og sjónskertra einstaklinga hins vegar.

Gildissvið.

2. gr.

Ákvæði reglugerðar þessarar taka til umbúða af öllum stærðum og gerðum sem í eru hættuleg efni eða efnablöndur sem tilgreind eru í 3. og 4. gr. og falla undir reglugerð nr. 236/1990, um flokkun, merkingu og meðferð eiturefna, hættulegra efna og vörutegunda, sem innihalda slík efni, ásamt síðari breytingum.

Reglugerðin gildir um vörur sem ætlaðar eru til dreifingar á almennum markaði. Sjá þó jafnframt ákvæði um takmarkanir á sölu eiturefna í 22. gr. reglugerðar nr. 236/1990 og ákvæði 7. gr. reglugerðar nr. 857/1999, um bann við notkun tiltekinna eiturefna og hættulegra efna.

Umbúðir efna og vörutegunda sem tilgreindar eru í 3. gr. skulu vera með öryggislok sem börn geta ekki opnað. Umbúðirnar skulu samræmast ákvæðum í A-hluta viðauka við reglugerð þessa.

Á umbúðum efna og vörutegunda sem tilgreindar eru í 4. gr. skal vera áþreifanleg viðvörun, sem vekur athygli sjónskertra á hættu. Viðvörunin skal vera í samræmi við ákvæði í B-hluta viðauka við reglugerð þessa.

Öryggislok.

3. gr.

Umbúðir eftirtalinna hættulegra efna og vörutegunda, skulu búnar öryggislokum sem börn geta ekki opnað:

1) Efni og vörutegundir flokkaðar sem ,,Sterkt eitur" (Tx), ,,Eitur" (T) eða ,,Ætandi" (C).

2) Efni og vörutegundir sem fá hættusetningu H65: ,,Hættulegt: getur valdið lungnaskaða við inntöku" og varnaðarmerki ,,Hættulegt heilsu" (Xn). Undanþegin þessu ákvæði eru efni eða vörutegundir í úðabrúsum eða öðrum úðunarílátum.

3) Vörutegundir sem í eru 3% eða meira af metanóli, CAS nr.1) 67-56-1.

4) Vörutegundir sem í eru 1% eða meira af díklórmetani, CAS nr. 75-09-2.

Áþreifanleg viðvörun um hættu.

4. gr.

Áþreifanleg viðvörun um hættu skal vera á umbúðum hættulegra efna og vörutegunda, ef þær flokkast sem ,,Sterkt eitur" (Tx), ,,Eitur" (T), ,,Ætandi" (C), ,,Hættulegt heilsu" (Xn), ,,Afar eldfimt" (Fx) eða ,,Mjög eldfimt" (F).

Undanþegin ákvæði 1. mgr. eru efni og vörutegundir í úðabrúsum eða öðrum úðunarílátum sem eingöngu eru hættuflokkaðar sem ,,Afar eldfimt" (Fx) eða ,,Mjög eldfimt" (F).

Eftirlit.

5. gr.

Heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga, undir yfirumsjón Hollustuverndar ríkisins, hefur eftirlit með framkvæmd reglugerðar þessarar.

Leiki vafi á að búnaðurinn sem um getur í 3. og 4. gr. sé í samræmi við ákvæði viðauka við reglugerð þessa, geta eftirlitsaðilar farið þess á leit við þann sem er ábyrgur fyrir dreifingu vörunnar, að hann láti þeim í té allar upplýsingar sem máli skipta, þ.m.t. prófunarvottorð í samræmi við A-hluta viðaukans.

Viðurlög.

6. gr.

Um refsingar fer samkvæmt 26. gr. laga nr. 52/1988, um eiturefni og hættuleg efni, ásamt síðari breytingum.

1) CAS nr.: Chemical Abstract Service - Alþjóðlegt númer efna og efnasambanda.

Gildistaka.

7. gr.

Reglugerð þessi er sett með stoð í lögum nr. 52/1988, um eiturefni og hættuleg efni, ásamt síðari breytingum, svo og lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir, með síðari breytingum.

Einnig er höfð hliðsjón af ákvæðum 1. og 10. tl., XV. kafla, II. viðauka, samningsins um Evrópskt efnahagssvæði, tilskipun 91/410/EBE um fjórtándu aðlögun að tækniframförum á tilskipun 67/548/EBE um samræmingu ákvæða í lögum og stjórnsýslufyrirmælum um flokkun, pökkun og merkingu hættulegra efna, svo og 9. gr. og IV. viðauka tilskipunar 1999/45/EB um samræmingu ákvæða í lögum og stjórnsýslufyrirmælum aðildarríkjanna varðandi flokkun, pökkun og merkingu á hættulegum efnablöndum.

Reglugerðin öðlast gildi við birtingu. Frá sama tíma fellur úr gildi reglugerð nr. 609/1997 um öryggislok og áþreifanlega viðvörun.

Umhverfisráðuneytinu, 10. mars 2000.

Siv Friðleifsdóttir.

Ingimar Sigurðsson.

 

VIÐAUKI

A-hluti.

Umbúðir búnar öryggislokum sem börn geta ekki opnað, skulu vera í samræmi við ISO-staðal 8317 (útgáfa frá 1. júlí 1989) varðandi "Umbúðir sem eru þannig að börn geti ekki opnað þær - Kröfur og aðferðir við prófun á endurlokanlegum umbúðum" sem samþykktur er af Alþjóðastaðlastofnuninni (ISO).

Einungis rannsóknarstofur sem fylgja staðli númer ÍST EN 45 000 geta vottað að ofangreindum staðli sé fylgt.

Sérstök tilvik.

Ekki þarf að framkvæma ofangreinda prófun ef augljóst er að umbúðirnar eru þannig að börn geti ekki komist í innihaldið án þess að nota til þess áhald.

Í öðrum tilvikum, þegar gildar ástæður eru til að draga í efa að um barnhelt öryggislok sé að ræða, geta eftirlitsaðilar farið þess á leit við þann sem er ábyrgur fyrir dreifingu efnisins eða vörunnar að hann leggi fram vottorð frá rannsóknarstofu eins og lýst er hér að ofan, sem annaðhvort staðfestir:

- að lokið sé þannig að ekki sé nauðsynlegt að prófa það í samræmi við ofangreindan ISO-staðal, eða

- að lokið hafi verið prófað og reynst vera í samræmi við ofangreindan staðal.

B-hluti.

Áþreifanleg viðvörun um hættu er upphleyptur þríhyrningur og skal útfærslan samræmast staðli númer ÍST EN 272 (útgáfa frá 20. ágúst 1989) um áþreifanlega viðvörun um hættu.

 


Þetta vefsvæði byggir á Eplica