Umhverfis- og auðlindaráðuneyti

769/2019

Reglugerð um (5.) breytingu á reglugerð nr. 814/2010, um hollustuhætti á sund- og baðstöðum.

1. gr.

Eftirfarandi breytingar verða á 1. gr. reglugerðarinnar:

Í stað orðsins náttúrulaugar í 2. ml. 3. mgr. kemur: baðstaði í náttúrunni.

2. gr.

2. gr. reglugerðarinnar orðast svo:

Í reglugerð þessari er merking orða og orðasambanda sem hér greinir:

Álagsþol: Afkastageta mannvirkis.

Baðstaður í náttúrunni: Náttúrulaug, afþreyingarlaug eða baðströnd sem eru notuð til baða af almenningi og vatn er ómeðhöndlað af sótthreinsiefnum, geislun eða á annan hátt. Til baðstaðar telst einnig búnings- og salernisaðstaða og önnur aðstaða fyrir baðgesti sem getur verið til staðar, eftir því sem við á.

Baðstofa: Klefi eða aflokað rými sem hitað er upp með vatnsgufu, svokallað eimbað, eða sána­bað sem oftast er hitað upp með rafmagni.

Baðvatn: Vatn sem notað er í laugar.

Bakskolun: Ferli við hreinsun sandsíu.

Bundinn klór: Klór sem bundist hefur lífrænum efnum og hefur því takmarkaða virkni til sótt­hreinsunar.

Endurnýjunarhraði: Hraði endurnýjunar á fersku vatni.

Frír klór: Klór sem er virkur og nýtist til sótthreinsunar.

Hleypiefni: Efni sem binda óhreinindi við hreinsun laugavatns.

Hringrásartími: Sá tími sem það tekur allt laugarvatnið að fara í gegnum hreinsitækin.

Iðulaug: Laug þar sem lofti er dælt í laugarvatnið.

Innra eftirlit: Eigið eftirlit rekstraraðila með starfseminni framkvæmt af honum sjálfum, starfs­mönnum hans eða þjónustuaðila í þeim tilgangi að tryggja að kröfur í starfsleyfi og reglugerðum séu uppfylltar.

Kalt ker: Laug eða ker með köldu vatni þar sem hitastig vatnsins er á bilinu 0°C - 16°C.

Laug: Ker eða þró með köldu eða volgu vatni, samheiti yfir hvers konar laugar, stórar sem smáar.

Laugargæsla: Stöðug öryggisgæsla laugarvarðar með gestum í laug.

Neyðaráætlun: Verklagsreglur starfsfólks um viðbrögð við slysum.

Rekstraraðili: Einstaklingur eða lögaðili sem ber ábyrgð á viðkomandi rekstri.

Setlaug: Laug eða ker þar sem hitastig vatnsins er á bilinu 34°C - 44°C.

Síunarhraði: Hraði vatnsins yfir flatarmál síu.

Sund- og baðstaður: Hvers konar sundlaugar úti sem inni, setlaugar, iðulaugar, kennslulaugar, varmalaugar, endurhæfingarlaugar, barnalaugar, busllaugar, köld ker, laugar á hótelum, sumar­dvalar­stöðum og baðstofur.

Sundlaug: Laug, notuð til sundiðkunar, þar sem hitastig vatnsins er 27°C - 29°C.

Starfsleyfi: Ákvörðun heilbrigðisnefndar í formi skriflegs leyfis sem heimilar tilteknum rekstrar­aðila að starfrækja sund- eða baðstað.

Sýrustig: pH-gildi.

Varmalaug: Laug þar sem hitastig vatnsins er á bilinu 30°C - 34°C, svo sem í barnalaugum og endurhæfingarlaugum.

Viðbragðsáætlun: Verklagsreglur starfsmanna um viðbrögð og aðgerðir ef eldsvoða, náttúruvá, alvarleg slys eða aðra almannahættu ber að.

Viðurkenndur klórgjafi: Klórgjafi sem Umhverfisstofnun viðurkennir.

Öryggisreglur: Reglur sem rekstraraðili setur sér til að stuðla að öryggi gesta.

Öryggiskerfi: Rafrænn búnaður, t.d. myndavélar, bjöllur, rofar eða hljóðmerki sem notað er til þess að tryggja öryggi.

3. gr.

6. mgr. 14. gr. reglugerðarinnar orðast svo:

Óheimilt er að veita einstaklingum undir augljósum áhrifum áfengis eða annarra vímuefna aðgang að sund- og baðstöðum.

4. gr.

Reglugerð þessi er sett með stoð í 15. tölul. 4. gr. laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og meng­unarvarnir, að höfðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga, sbr. 3. mgr. 43. gr. laganna, og öðlast þegar gildi.

Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, 22. ágúst 2019.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson.

Sigríður Auður Arnardóttir.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica