Leita
Hreinsa Um leit

Umhverfis- og auðlindaráðuneyti

1061/2018

Reglugerð um raf- og rafeindatækjaúrgang.

1. gr.

Markmið.

Markmið reglugerðar þessarar er að stuðla að því að komið sé í veg fyrir myndun raf- og raf­eindatækja­úrgangs sem og að stuðla að endurnotkun, endurvinnslu eða annars konar endur­nýtingu hans. Jafnframt að auka umhverfisvitund allra aðila sem framleiða, selja og nota raf- og rafeinda­tæki og þeirra sem meðhöndla raf- og rafeindatækjaúrgang.

2. gr.

Gildissvið.

Reglugerðin tekur til raf- og rafeindatækjaúrgangs, sbr. I. viðauka A og B.

Reglugerðin gildir um móttöku, geymslu, söfnun, endurvinnslu og aðra meðhöndlun raf- og rafeinda­tækja­úrgangs.

Reglugerð þessi gildir ekki um:

 1. tæki sem eru nauðsynleg til verndar öryggis ríkisins, þ.m.t. skotfæri og vopn,
 2. tæki sem eru hönnuð og sett upp sem hluti af annars konar tæki, sem er undanskilið gildis­sviði þessarar reglugerðar, og gegnir aðeins hlutverki sínu ef það er hluti þess tækis,
 3. glóþráðarperur,
 4. tæki sem eru ætluð til sendingar út í geim,
 5. stór, föst iðnaðartæki,
 6. stór, föst tæki, nema útbúnaður sem er ekki sérstaklega hannaður og settur upp sem hluti af því tæki,
 7. farartæki til farþega- eða vöruflutninga, að undanskildum rafknúnum ökutækjum á tveimur hjólum sem eru ekki gerðarviðurkennd,
 8. færanlegan vélbúnað til nota utan vega, sem eingöngu er notaður í atvinnuskyni,
 9. tæki sem eru sérstaklega hönnuð fyrir rannsóknir og þróunarstarfsemi eingöngu og eru aðeins fáanleg í viðskiptum á milli fyrirtækja,
 10. lækningatæki og lækningabúnað til sjúkdómsgreiningar í glasi, þegar gert er ráð fyrir að þau séu smitberar áður en þau eru úr sér gengin, og virk, ígræðanleg lækningatæki.

3. gr.

Skilgreiningar.

Merking orða og orðasambanda í reglugerð þessari er sem hér segir:

Að bjóða fram á markaði: Öll afhending vöru til dreifingar, neyslu eða notkunar hér á landi á meðan á viðskiptastarfsemi stendur, hvort sem það er gegn greiðslu eða án endurgjalds.

Brottnám: Handvirk, vélræn, efnafræðileg eða málmtæknileg meðhöndlun sem veldur því að hættu­leg efni, blöndur eða efnisþættir eru í auðgreinanlegu flæði eða eru auðgreinanlegur hluti flæðis innan meðhöndlunarferlisins. Efni, blanda eða efnisþáttur er auðgreinanlegur ef hægt er að fylgjast með honum til að staðfesta umhverfisvæna meðhöndlun.

Dreifingaraðili: Einstaklingur eða lögaðili sem býður raf- og rafeindatæki fram á markaði. Jafnframt getur dreifingaraðili talist vera framleiðandi samkvæmt skilgreiningu á framleiðanda og innflytjanda raf- og rafeindatækja.

Endurnotkun: Hvers kyns aðgerð þar sem raf- og rafeindatæki eða íhlutir þeirra, sem ekki eru úrgangur, eru notuð í sama tilgangi og þau voru ætluð í upphafi.

Endurnýting: Aðgerð þar sem aðalútkoman er sú að raf- og rafeindatækjaúrgangur verður til gagns þar eð hann kemur í stað annars efniviðar sem hefði annars verið notaður í tilteknum tilgangi, eða hann er útbúinn til þeirrar notkunar, í stöðinni eða úti í hagkerfinu.

Endurvinnsla: Hvers kyns endurnýtingaraðgerð sem felst í því að endurvinna raf- og rafeinda­tækja­úrgang í vörur, efnivið eða efni, hvort sem er til notkunar í upphaflegum tilgangi eða öðrum tilgangi. Undir þetta fellur þó ekki orkuvinnsla og uppvinnsla sem skilar efni sem á að nota sem elds­neyti eða til fyllingar.

Fjármögnunarsamningur: Samningur eða fyrirkomulag um lán, eignarleigu, leigu eða sölu með afborgunum á hvers konar tækjum, hvort sem skilmálar þess samnings eða fyrirkomulags gerir ráð fyrir því að eignarréttur á þeim tækjum hafi verið eða verði framseldur.

Framleiðandi og innflytjandi raf- og rafeindatækja: Aðili sem, óháð þeirri sölutækni sem er notuð:

 1. framleiðir raf- og rafeindatæki undir eigin heiti eða vörumerki eða lætur hanna eða fram­leiða raf- og rafeindatæki og markaðssetur undir eigin heiti eða vörumerki, í því ríki þar sem hann hefur starfsstöð,
 2. endurselur raf- og rafeindatæki undir eigin heiti eða vörumerki, sem aðrir birgjar framleiða í því ríki þar sem hann hefur starfsstöð; endursöluaðili telst þó ekki vera framleiðandi ef vörumerki framleiðandans er á tækjabúnaðinum eins og kveðið er á um í i. lið,
 3. setur raf- og rafeindatæki frá öðru ríki á markað í atvinnuskyni í því ríki þar sem hann hefur starfsstöð,
 4. selur raf- og rafeindatæki með fjarsamskiptamiðlum beint til notenda yfir landamæri, eða
 5. flytur raf- og rafeindatæki inn eða út úr landinu í atvinnuskyni.

Sá sem eingöngu leggur til fjármagn samkvæmt einhvers konar samningi um fjármögnun telst ekki framleiðandi.

Förgun: Hvers kyns aðgerð sem er ekki endurnýting, jafnvel þótt aðgerðin hafi að auki í för með sér endurheimt efna eða orku.

Færanlegur vélbúnaður til nota utan vega: Vélbúnaður með innbyggðan aflgjafa, sem útheimtir annað­hvort hreyfanleika eða samfelldan, eða því sem næst samfelldan, flutning milli nokkurra fastra vinnustöðva við vinnslu.

Hreinsun: Að fjarlægja spilliefni úr raf- og rafeindatækjaúrgangi.

Meðhöndlun úrgangs: Söfnun, geymsla, böggun, flokkun, flutningur, endurnotkun, endurnýting, pökkun og förgun úrgangs, þ.m.t. eftirlit með slíkri starfsemi og umsjón með förgunarstöðvum eftir að þeim hefur verið lokað.

Móttökustöð: Staður og aðstaða þar sem tekið er við úrgangi til geymslu til lengri eða skemmri tíma, til umhleðslu, flokkunar eða annarrar meðhöndlunar. Þaðan fer úrgangurinn til förgunar eða nýtingar, eða honum er fargað á staðnum. Undir móttökustöð falla förgunarstaðir.

Raf- og rafeindatæki: Búnaður sem þarf rafstraum eða rafsegulsvið til að geta starfað á réttan hátt og búnaður til að framleiða, flytja og mæla slíkan rafstraum og rafsegulsvið og er hannaður til notkunar við rafspennu sem fer ekki yfir 1000 volt þegar um er að ræða riðstraum og ekki yfir 1500 volt þegar um er að ræða jafnstraum, þ.m.t. allir íhlutir, undireiningar og aukahlutir sem eru hluti af búnaðinum.

Raf- og rafeindatækjaúrgangur: Raf- og rafeindatæki sem fleygt er, í heild eða að hluta, þar á meðal íhlutir, undireiningar og aukahlutir.

Setja á markað: Það að bjóða fram vöru í fyrsta sinn á markaði hér á land í atvinnuskyni.

Stór, föst tæki: Stór samsetning margs konar tækja og, eftir atvikum, annars búnaðar sem:

 1. er settur saman, settur upp og tekinn niður af fagmönnum,
 2. er ætlaður til varanlegrar notkunar, sem hluti byggingar eða mannvirkis, á fyrirfram­ákveðnum og sérstökum stað og
 3. er aðeins hægt að skipta út með sama sérhannaða búnaði.

Stór, föst iðnaðartæki: Stór samstæða véla, búnaðar og/eða hluta, sem vinna saman til ákveðinna nota, sem sett er upp varanlega og tekin niður af fagmönnum á tilteknum stað og sem er notuð og haldið við af fagmönnum í starfsstöð í framleiðsluiðnaði, rannsóknum eða þróunarstarfsemi.

Söfnunarstöð (gámastöð): Staður og aðstaða þar sem tekið er við úrgangi frá almenningi og/eða smærri fyrirtækjum. Þaðan fer hann til endurnotkunar og endurnýtingar eða er fluttur til móttöku­stöðva.

 

4. gr.

Upplýsingaskylda til kaupenda um skil.

Raf- og rafeindatækjaúrgangi skal skila til söfnunarstöðva eða móttökustöðva sem hafa starfsleyfi til að meðhöndla slíkan úrgang.

Framleiðandi og innflytjandi skulu í upplýsingum sem ætlaðar eru til dreifingar til kaupanda upplýsa um hvar sé heimilt að skila raf- og rafeindatækjaúrgangi, að hægt sé að skila raf- og rafeinda­tækja­úrgangi án greiðslu og að ábyrgst sé að hann verði meðhöndlaður í samræmi við gildandi reglur. Einnig skal kaupandi upplýstur um hlutverk sitt varðandi endurnotkun, endurvinnslu og aðrar leiðir til endurnýtingar raf- og rafeindatækjaúrgangs. Enn fremur skal kaupandi upplýstur um hugsan­leg áhrif hættulegra efna í raf- og rafeindatækjaúrgangi á umhverfið og heilsu manna og dýra.

Framleiðandi og innflytjandi skulu merkja raf- og rafeindatæki með merki skv. IV. viðauka. Einnig skulu koma fram leiðbeiningar um þýðingu merkisins, þ.e. að raf- og rafeindatækjaúrgangi skuli safna sérstaklega.

5. gr.

Skyldur sveitarfélaga.

Söfnunarstöðvar sem sveitarstjórnir sjá um að starfræktar séu í sveitarfélagi, sbr. 8. gr. laga um meðhöndlun úrgangs, skulu hafa aðstöðu fyrir móttöku á raf- og rafeindatækjaúrgangi. Ber söfn­unar­stöðvum að taka við slíkum úrgangi gjaldfrjálst.

Sveitarfélög skulu veita leiðbeiningar um hvernig beri að flokka raf- og rafeindatækjaúrgang og skila honum til söfnunarstöðva sveitarfélaga og upplýsa um að raf- og rafeindatækjaúrgangur megi ekki fara með öðrum úrgangi.

Hægt er að synja um móttöku á raf- og rafeindatækjaúrgangi sem getur stofnað heilsu og öryggi starfsmanna í hættu vegna mengunar, enda sé tryggt að umræddum úrgangi sé skilað í mót­töku­stöð fyrir spilliefni og honum fargað eða hann endurnýttur í samræmi við lög um með­höndlun úrgangs og reglugerðir settar samkvæmt þeim.

6. gr.

Ábyrgð framleiðenda og innflytjenda.

Framleiðandi og innflytjandi raf- og rafeindatækja bera ábyrgð á þeim raf- og rafeindatækjum sem framleidd eru hér á landi eða flutt inn. Í ábyrgð framleiðanda og innflytjanda felst að þeir skulu fjármagna og tryggja meðhöndlun raf- og rafeindatækjaúrgangs að frátalinni söfnun til söfn­unar­stöðvar sveitarfélaga og fjármagna upplýsingagjöf samkvæmt ákvæðum 46. gr. laga um með­höndlun úrgangs sem og rekstur skráningarkerfis skv. 50. gr. sömu laga. Seljandi raf- og raf­einda­tækja sem seld eru í tollfrjálsri verslun hér á landi og ætluð til innlendra nota ber ábyrgð fram­leið­anda og innflytjanda samkvæmt reglugerð þessari.

Óheimilt er að setja á markað, selja hér á landi eða taka til eigin nota í atvinnuskyni, raf- og raf­einda­tæki sem falla undir þessa reglugerð, nema framleiðandi og innflytjandi þeirra greiði úrvinnslu­gjald, sbr. lög 162/2002, um úrvinnslugjald, með síðari breytingum.

7. gr.

Hlutverk framleiðenda og innflytjenda raf- og rafeindatækja.

Framleiðendur og innflytjendur raf- og rafeindatækja skulu:

 1. kosta geymslu raf- og rafeindatækjaúrgangs á söfnunarstöðvum sveitarfélaga,
 2. tryggja söfnun og móttöku raf- og rafeindatækjaúrgangs alls staðar á landinu svo sem frá söfnunarstöðvum sveitarfélaga,
 3. tryggja að raf- og rafeindatækjaúrgangur sé meðhöndlaður af atvinnurekstri sem hefur gilt starfsleyfi og
 4. upplýsa Umhverfisstofnun fyrir 1. apríl ár hvert um heildarmagn raf- og rafeindatækja í kílóum sem þeir hafa sett á markað eða tekið til eigin nota fyrir undangengið ár óski stofnunin eftir því.

8. gr.

Greiðsla úrvinnslugjalds.

Til að tryggja viðeigandi endurnotkun, endurvinnslu eða annars konar endurnýtingu skulu fram­leið­endur og innflytjendur raf- og rafeindatækja uppfylla skyldur sínar með greiðslu úrvinnslu­gjalds.

Úrvinnslugjald skal standa undir kostnaði við geymslu raf- og rafeindatækjaúrgangs á söfn­unar­stöðvum sveitarfélaga, söfnun og móttöku hans alls staðar á landinu og að hann sé með­höndl­aður af atvinnurekstri sem hefur gilt starfsleyfi.

9. gr.

Meðhöndlun raf- og rafeindatækjaúrgangs.

Allur raf- og rafeindatækjaúrgangur sem er safnað skal meðhöndlaður á viðeigandi hátt í samræmi við gildandi reglur.

Fylgja skal að lágmarki þeim kröfum um meðhöndlun raf- og rafeindatækjaúrgangs sem getið er um í II. viðauka áður en raf- eða rafeindatækið er endurunnið eða sent úr landi til endurvinnslu. Fjarlægja skal lausa hluti með þeim hætti að tryggt sé að hægt sé að endurnota eða endurnýta þá og skulu allir vökvar fjarlægðir. Hreinsun raf- og rafeindatækjaúrgangs skal framkvæma eins fljótt og mögulegt er. Óheimilt er að farga söfnuðum raf- og rafeindatækjaúrgangi án viðeigandi meðhöndlunar.

Staðir fyrir geymslu og meðhöndlun raf- og rafeindatækjaúrgangs skulu vera í samræmi við kröfur, sem settar eru fram í III. viðauka og ákvæði starfsleyfis.

Meðhöndlunin getur einnig átt sér stað erlendis, að því tilskildu að flutningur raf- og rafeinda­tækja­úrgangsins sé í samræmi við reglugerð um flutning úrgangs milli landa.

Raf- og rafeindatækjaúrgangur sem er fluttur út til annarra landa skal einungis teljast uppfylla skyldur og markmið 1. og 2. mgr. 10. gr. ef útflytjandinn getur sannað að endurnýtingin, endur­notkunin og/eða endurvinnslan hafi farið fram við aðstæður sem eru sambærilegar þeim sem krafist er í þessari reglugerð.

Fylgja skal að lágmarki kröfum V. viðauka við flutning notaðra raf- og rafeindatækja úr landi.

10. gr.

Móttaka lítilla raf- og rafeindatækja í verslunum.

Í verslunum þar sem sölusvæði raf- og rafeindatækja er a.m.k. 400 m² skal tekið á móti litlum raf- og rafeindatækjum, með ekkert ytra mál yfir 25 sm, án endurgjalds og skilyrða.

11. gr.

Söfnunarmarkmið.

Lágmarkssöfnunarhlutfall raf- og rafeindatækja skal vera 45% af meðalþyngd raf- og rafeindatækja sem sett eru á markað 1. janúar 2014 - 31. desember 2016.

Frá 1. janúar 2019 skal árlegt lágmarkssöfnunarhlutfall vera 65% af meðalþyngd raf- og rafeinda­tækja sem sett eru á markað 1. janúar 2016 - 31. desember 2018 eða öðrum kosti 85% af raf- og rafeindatækjaúrgangi sem fellur til hér á landi.

Úrvinnslusjóður skal sjá til þess að markmiðum 1. og 2. mgr. sé náð, sbr. einnig b. lið 13. gr.

12. gr.

Endurnýtingarmarkmið.

Lágmarksmarkmið sem gilda fyrir hvern flokk I. viðauka:

 1. fyrir raf- og rafeindatækjaúrgang í 1. eða 4. flokki skal endurnýta 85% og undirbúa 80% fyrir endurnotkun og endurvinna.
 2. fyrir raf- og rafeindatækjaúrgang í 2. flokki skal endurnýta 80% og undirbúa 70% fyrir endurnotkun og endurvinna.
 3. fyrir raf- og rafeindatækjaúrgang í 5. eða 6. flokki skal endurnýta 75% og undirbúa 55% fyrir endurnotkun og endurvinna.
 4. fyrir raf- og rafeindatækjaúrgang í 3. flokki skal endurvinna 80%.

13. gr.

Hlutverk Úrvinnslusjóðs.

Úrvinnslusjóður skal:

 1. safna upplýsingum um magn raf- og rafeindatækja sem sett eru á markað, um magn raf- og rafeindatækjaúrgangs sem safnað er og ráðstöfun hans og skila þeim til Umhverfisstofnunar fyrir 1. apríl ár hvert fyrir undangengið ár og
 2. ná tölulegum markmiðum um undirbúning fyrir endurnotkun, endurvinnslu, endurnýtingu, söfnun og förgun raf- og rafeindatækjaúrgangs.

14. gr.

Skráningarkerfi framleiðenda og innflytjenda.

Framleiðanda og innflytjanda raf- og rafeindatækja ber að skrá sig hjá Umhverfisstofnun a.m.k. 15 dögum áður en vara, sem fellur undir lög um úrvinnslugjald, er sett á markað, seld eða tekin til eigin nota hér á landi. Umhverfisstofnun er heimilt að notast við upplýsingar frá toll- og skatta­yfirvöldum um greiðendur úrvinnslugjalds samkvæmt lögum um úrvinnslugjald við skráningu fram­leið­enda og innflytjenda raf- og rafeindatækja í skráningarkerfi framleiðenda og innflytjenda.

Umhverfisstofnun ber ábyrgð á og heldur skrá með upplýsingum um alla framleiðendur og inn­flytjendur raf- og rafeindatækja. Við skráningu skal framleiðandi og/eða innflytjandi veita eftir­far­andi upplýsingar, eftir því sem við á:

 1. Nafn framleiðanda, innflytjanda eða viðurkennds fulltrúa (og hvern hann er í fyrirsvari fyrir), aðsetur, kennitölu, símanúmer, tölvupóstfang og upplýsingar um tengilið.
 2. Flokk raf- og rafeindatækja.
 3. Tegundarheiti raf- og rafeindatækja.
 4. Söluaðferð sem notuð er.
 5. Yfirlýsingu um að veittar upplýsingar séu réttar.

Úrvinnslusjóður skal skila inn til Umhverfisstofnunar eftirfarandi gögnum til skráningarkerfis fram­leiðenda og innflytjenda fyrir 1. apríl ár hvert fyrir árið á undan:

 1. Upplýsingum um magn raf- og rafeindatækjaúrgangs sem er safnað, skipt upp eftir flokkum. Einnig upplýsingum um magn raf- og rafeindatækjaúrgangs sem er meðhöndlað hér á landi eða erlendis, skipt upp eftir flokkum.
 2. Upplýsingum um magn í hverjum flokki sem er endurnýtt annars vegar og magn íhluta, efni­viðar og efna sem er endurnotað eða endurunnið hins vegar.
 3. Upplýsingum um magn raf- og rafeindatækjaúrgangs sem er endurnotað í heilu lagi flokkað eftir tegund.

15. gr.

Viðurkenndur fulltrúi.

Erlendum framleiðanda raf- og rafeindatækja, sbr. i.-iii. lið skilgreiningar á framleiðanda og inn­flytjanda raf- og rafeindatækja í 3. gr., er heimilt að tilnefna viðurkenndan fulltrúa sinn hér á landi með skriflegu umboði og skal hann vera ábyrgur fyrir því að uppfylla skyldur framleiðandans sam­kvæmt lögum þessum og reglugerðum settum samkvæmt þeim.

Framleiðandi raf- og rafeindatækja sem selur raf- og rafeindatæki með fjarsamskiptamiðlum beint til notenda í öðru EES-ríki skal tilnefna viðurkenndan fulltrúa í því ríki með skriflegu umboði og skal hann vera ábyrgur fyrir því að uppfylla skyldur framleiðandans samkvæmt tilskipun 2012/19/ESB.

16. gr.

Eftirlit með framleiðendum og innflytjendum.

Umhverfisstofnun hefur eftirlit með framleiðendum og innflytjendum raf- og rafeindatækja. Eftirlit Umhverfisstofnunar felst meðal annars í að sjá til þess að framleiðendur og innflytjendur raf- og rafeindatækja séu skráðir í skráningarkerfi framleiðenda og innflytjenda.

Umhverfisstofnun er heimilt að óska eftir upplýsingum frá tolla- og skattayfirvöldum um heildar­magn, magn í einstökum flokkum, sbr. 51. gr. laga um meðhöndlun úrgangs, og magn frá ein­stökum framleiðendum og innflytjendum vegna framleiðslu og innflutnings á raf- og rafeinda­tækjum sem falla undir lög um meðhöndlun úrgangs. Ákvæði 188. gr. tollalaga nr. 88/2005, og 117. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, með síðari breytingum, skulu ekki vera því til fyrir­stöðu að starfsmenn tolla- og skattayfirvalda veiti Umhverfisstofnun upplýsingar samkvæmt þessari grein.

Til að sannreyna framleiðslu-, innflutning- og sölumagn raf- og rafeindatækja er Umhverfisstofnun heimilt að óska eftir gögnum um sölu raf- og rafeindatækja úr bókhaldi framleiðanda og inn­flytjanda. Löggiltur endurskoðandi skal staðfesta með undirskrift sinni að gögn og upplýsingar skv. 1. málsl. séu réttar. Skylt er að veita aðgang að umbeðnum gögnum innan 14 daga frá því að þeirra er óskað.

Umhverfisstofnun er bundin þagnarskyldu um atriði er varða framleiðslu- og verslunarleynd. Sama gildir um atriði sem hún fær vitneskju um og leynt skulu fara samkvæmt lögum og eðli máls.

17. gr.

Upplýsingar til þeirra er meðhöndla úrgang.

Framleiðendur og innflytjendur skulu veita upplýsingar um rétta meðhöndlun raf- og rafeinda­tækja­úrgangs til þeirra sem hafa starfsleyfi til að meðhöndla raf- og rafeindatækjaúrgang. Slíkar upp­lýsingar skulu veittar eigi síðar en ári frá því að raf- og rafeindatæki var markaðssett.

Framleiðendur og innflytjendur raf- og rafeindatækja skulu koma á framfæri upplýsingum varðandi sundurhlutun tækjanna, t.d. með handbókum eða rafrænum miðlum, til þeirra sem hafa starfsleyfi til að meðhöndla raf- og rafeindatækjaúrgang. Þessar upplýsingar skulu vera tiltækar í síðasta lagi einu ári eftir að raf- og rafeindatæki, eða íhlutir þeirra, eru sett á markað til að tryggja rétta úrvinnslu raf- og rafeindatækjaúrgangs, þ.e. sem ekki skaðar umhverfið. Þessar upplýsingar skulu vera á íslensku, ensku eða Norðurlandamáli öðru en finnsku. Í upplýsingunum skal tilgreina öll þau atriði sem eru nauðsynleg til að geta uppfyllt ákvæði reglugerðar þessarar, upplýsingar um mis­munandi íhluti og efnivið raf- og rafeindatækja og einnig staðsetningu hættulegra efna og efna­blandna í slíkum búnaði.

18. gr.

Upplýsingagjöf.

Þeir sem taka á móti eða sjá um meðhöndlun raf- og rafeindatækjaúrgangs og íhluta hans skulu halda skrá yfir magn úrgangsins, í samræmi við flokkun í I. viðauka A, og það hvernig honum er ráðstafað. Halda skal skrá yfir gerð og magn spilliefna og ráðstöfun þeirra. Skrárnar skulu vera aðgengi­legar eftirlitsaðila.

19. gr.

Þvingunarúrræði.

Til að knýja á um framkvæmd ráðstöfunar samkvæmt reglugerð þessari er Umhverfisstofnun heimilt að veita viðkomandi aðila áminningu. Jafnframt skal veita hæfilegan frest til úrbóta ef þess er þörf.

Ef aðili verður ekki við tilmælum um úrbætur innan tiltekins frests er heimilt að ákveða aðila dag­sektir þar til úr er bætt. Dagsektir renna til ríkissjóðs og skal hámark þeirra vera 500.000 kr. á dag.

Heimilt er að láta vinna verk á kostnað hins vinnuskylda ef tilmæli um framkvæmd eru vanrækt og skal sá kostnaður þá greiddur til bráðabirgða af Umhverfisstofnun eða hlutaðeigandi heil­brigðis­nefnd þar sem hún fer með eftirlit en innheimtast síðar hjá hinum vinnuskylda. Kostnað við verkið sem og dagsektir skv. 2. mgr. má innheimta með fjárnámi.

Leita skal aðstoðar lögreglu ef með þarf við framkvæmd þvingunarúrræða.

Að öðru leyti gildir 66. gr. laga nr. 55/2003, um meðhöndlun úrgangs, um þvingunarúrræði.

20. gr.

Viðurlög.

Brot gegn ákvæðum reglugerðar þessarar varða sektum hvort sem þau eru framin af ásetningi eða stórfelldu gáleysi. Sé um stórfelld eða ítrekuð ásetningsbrot að ræða varða brot á reglugerð þessari fangelsi allt að fjórum árum. Tilraun til brota gegn reglugerðinni varðar refsingu sem fullframið brot, sbr. III. kafla almennra hegningarlaga. Sama gildir um hlutdeild í brotum.

Sektir má ákvarða lögaðila þó að sök verði ekki sönnuð á fyrirsvarsmenn eða starfsmenn hans eða aðra þá einstaklinga sem í þágu hans starfa, enda hafi brotið orðið eða getað orðið til hagsbóta fyrir lögaðilann. Einnig má, með sama skilorði, gera lögaðila sekt ef fyrirsvarsmenn eða starfsmenn hans eða aðrir einstaklingar sem í þágu hans starfa gerast sekir um brot.

21. gr.

Gildistaka.

Reglugerð þessi er sett með stoð í 5. mgr. 50. gr. og 53. gr. laga nr. 55/2003, um meðhöndlun úrgangs.

Reglugerðin er sett til innleiðingar á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2012/19/ESB frá 4. júlí 2012 um raf- og rafeindabúnaðarúrgang, sem vísað er til í tölulið 32fa í XX. viðauka við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið, eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndar­innar nr. 195/2015 frá 10. júlí 2015. Jafnframt er reglugerðin sett að höfðu samráði við Sam­band íslenskra sveitarfélaga og Samtök atvinnulífsins, sbr. 1. mgr. 53. gr. laga nr. 55/2003, um með­höndlun úrgangs.

Reglugerðin öðlast þegar gildi. Reglugerð nr. 442/2015, um raf- og rafeindatækjaúrgang fellur úr gildi frá sama tíma.

Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, 15. nóvember 2018.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson.

Sigríður Auður Arnardóttir.

VIÐAUKAR
(sjá PDF-skjal)

 

 

 

Reglugerð sem fellur brott:
Þetta vefsvæði byggir á Eplica