Leita
Hreinsa Um leit

Umhverfis- og auðlindaráðuneyti

590/2018

Reglugerð um stjórnvaldssektir fyrir brot á efnalögum.

I. KAFLI

Almenn ákvæði.

1. gr.

Markmið.

Markmið reglugerðar þessarar er að ákveða fjárhæðir stjórnvaldssekta fyrir brot á einstökum ákvæðum efnalaga nr. 61/2013 innan þess ramma sem ákveðinn er í 62. gr. laganna og tryggja að beiting stjórnvaldssekta vegna brota á einstökum ákvæðum laganna sé fyrirsjáanleg og gegnsæ.

2. gr.

Gildissvið.

Reglugerð þessi gildir um fjárhæð og beitingu stjórnvaldssekta fyrir brot á einstökum ákvæðum efnalaga innan þess ramma sem ákveðinn er í 62. gr. þeirra laga.

3. gr.

Skilgreiningar.

Í reglugerð þessari er merking eftirtalinna orða, orðasambanda og hugtaka sem hér segir:

Áþreifanleg viðvörun: Viðvörun sem vekur athygli sjónskertra og blindra á hættu.

Birgir: Framleiðandi, innflytjandi, eftirnotandi eða dreifandi með staðfestu á Evrópska efnahags­svæðinu sem setur efni á markað, hvort sem það er hreint, í efnablöndu eða í hlutum.

Efnablanda: Blanda eða lausn tveggja eða fleiri efna í föstu, fljótandi eða loftkenndu formi.

Efni: Frumefni og sambönd þeirra, bæði náttúruleg og manngerð, þ.m.t. aukaefni sem eru nauð­syn­leg til að viðhalda stöðugleika efnisins eða breyta samsetningu þess.

Hættumerki: Grafísk skýringarmynd sem er með einu tákni og öðrum myndeiningum, t.d. kanti, bakgrunnsmynstri eða -lit, sem eiga að miðla sérstökum upplýsingum um hættuna sem um er að ræða.

Hættusetning: Setning sem er tengd við hættuflokk og hættuundirflokk og lýsir því hvers konar hættur stafi af hættulegu efni eða hættulegri blöndu þ.m.t. hættustigið, ef við á.

Sölueining: Hvert eintak eða eining tiltekinnar vöru.

Vara: Söluvarningur eða vara með nafni og strikamerki og/eða annars konar skráningarnúmeri. Með vöru er átt við allar sölueiningar tiltekinnar vöru.

Varnaðarsetning: Setning sem lýsir þeim ráðstöfunum sem mælt er með til að lágmarka eða koma í veg fyrir skaðleg áhrif vegna váhrifa við notkun eða förgun hættulegs efnis eða blöndu.

Viðvörunarorð: Orð sem gefur til kynna alvarleikastig hættunnar til að gera lesandanum viðvart um mögulega hættu. Greinarmunur er gerður á tveimur stigum:

 1. Hætta: Viðvörunarorð sem tilgreinir hættuundirflokka fyrir mjög alvarlega hættu.
 2. Varúð: Viðvörunarorð sem tilgreinir hættuundirflokka fyrir hættu sem er ekki mjög alvarleg.

Vörureikningur: Reikningur fyrir kaupum eða sölu á vöru þar sem andvirði hverrar sölueiningar kemur fram.

Öryggislok: Lok á endurlokanlegum umbúðum sem börn geta ekki opnað.

II. KAFLI

Stjórnvaldssektir.

4. gr.

Almennt um stjórnvaldssektir.

Umhverfisstofnun getur lagt stjórnvaldssektir á einstaklinga eða lögaðila sem brjóta gegn þeim ákvæðum sem talin eru upp í 1. mgr. 62. gr. efnalaga, í samræmi við ákvæði laganna og reglu­gerðar þessarar. Við ákvörðun sekta vegna brota á einstökum ákvæðum efnalaga skal taka tillit til ákvæða 4. og 6. mgr. 62. gr. laganna.

Almennt verða stjórnvaldssektir ekki lagðar á einstaklinga og lögaðila nema að undangenginni beitingu þvingunarúrræða skv. XIII. kafla efnalaga. Þegar ekki er mögulegt að knýja á um fram­kvæmd ráðstöfunar samkvæmt efnalögum eða þegar brot eru ítrekuð er þó heimilt að leggja stjórn­valds­sektir á lögaðila eða einstaklinga án undangenginnar beitingu þvingunarúrræða.

Þar sem fjárhæð stjórnvaldssekta er miðuð við gjaldskrá Efnastofnunar Evrópu (ECHA) vísast til reglugerðar framkvæmdastjórnar (EB) nr. 340/2008 um þóknanir og gjöld sem greiða ber til Efna­stofnunar Evrópu samkvæmt reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1907/2006 um skrán­ingu, mat, leyfisveitingu og takmarkanir að því er varðar efni (REACH), með síðari breyt­ingum, og skal gengi evru miðast við þann dag sem ákvörðun um álagningu stjórnvaldssektar er tekin, sbr. og reglugerð nr. 888/2015 um skráningu, mat, leyfisveitingu og takmarkanir að því er varðar efni (REACH).

5. gr.

Skráningarskylda.

Við ákvörðun sektar, allt að 25.000.000 kr., vegna brota á 22. gr. efnalaga um skráningarskyldu skal, fyrir hvert efni- eða efnablöndu, miða við tvöfalt skráningargjald Efnastofnunar Evrópu (ECHA), samkvæmt gjaldskrá stofnunarinnar, að viðbættu tvöföldu andvirði þess efnis eða efna­blöndu samkvæmt vörureikningi.

6. gr.

Framleiðsla, markaðssetning og notkun.

Við ákvörðun sektar, allt að 25.000.000 kr., vegna brota á 23. gr. efnalaga um framleiðslu, mark­aðs­setningu og notkun skal, fyrir hvert efni, hvort heldur það er hreint, í efnablöndu eða í hlutum, miða við tvöfalt skráningargjald Efnastofnunar Evrópu (ECHA), samkvæmt gjaldskrá stofn­unar­innar, að viðbættu tvöföldu andvirði þess efnis eða efnablöndu samkvæmt vörureikningi.

7. gr.

Markaðssetning eiturefna og tiltekinna varnarefna.

Við ákvörðun sektar, allt að 25.000.000 kr., vegna brota á 24. gr. efnalaga um markaðssetningu eiturefna sem og tiltekinna varnarefna sem ætluð eru til notkunar í atvinnuskyni, skal miða við 10.000 kr. fyrir hverja selda eða afhenta sölueiningu af vöru, að viðbættu andvirði hverrar sölu­einingar af vörunni.

8. gr.

Ósoneyðandi efni.

Við ákvörðun sektar, allt að 25.000.000 kr., vegna brota á 25. gr. efnalaga um ósoneyðandi efni skal fjárhæð hennar nema allt að 2.000.000 kr., fyrir hvert ósoneyðandi efni að viðbættu andvirði ósoneyðandi efnisins samkvæmt vörureikningi, margfaldað með eftirfarandi stuðli eftir því sem við á:

  Efnaflokkur Stuðull
  Halónar 10
  Klórflúorkolefni 5
  Vetnisklórflúorkolefni 2

9. gr.

Markaðsleyfi Efnastofnunar Evrópu.

Við ákvörðun sektar, allt að 25.000.000 kr., vegna brota á 27. gr. efnalaga um markaðsleyfi Efna­stofnunar Evrópu skal, fyrir hvert efni, miða við þrefalt umsóknargjald Efnastofnunar Evrópu (ECHA), samkvæmt gjaldskrá stofnunarinnar, að viðbættu þreföldu andvirði efnisins samkvæmt vöru­reikningi.

10. gr.

Öryggisblöð og öryggisskýrslur.

Við ákvörðun sektar vegna brota á 1. mgr. 30. gr. efnalaga um öryggisblöð og öryggisskýrslur skal sekt fyrir hvert efni eða efnablöndu vera allt að 100.000 kr.

11. gr.

Merkingar og umbúðir.

Við ákvörðun sektar, allt að 620.000 kr., vegna brota á 32. gr. efnalaga um merkingar og umbúðir skal sekt fyrir hverja vöru vera allt að fjárhæð:

 1. 60.000 kr. fyrir hvert eftirtalinna atriða sem er ábótavant á vöru:
  1. hættumerki vantar,
  2. hættusetningar eru ekki á íslensku eða eru rangar,
  3. varnaðarsetningar eru ekki á íslensku eða eru rangar,
  4. áþreifanlega viðvörun vantar,
  5. öryggislok vantar,
  6. merkingar eru ekki festar við þær umbúðir sem eru í beinni snertingu við efni eða efna­blöndu,
  7. merkingar á málningu eða lakki samkvæmt reglugerð nr. 1025/2005 um rokgjörn lífræn efnasambönd í málningu, lakki og efnum til lakkviðgerða ökutækja, vantar,
 2. 40.000 kr. fyrir hvert eftirtalinna atriða sem er ábótavant á vöru:
  1. viðvörunarorð er ekki á íslensku eða er rangt,
  2. á vöruna vantar upplýsingar um birgi,
  3. upplýsingar um innihaldsefni, þar sem það á við, vantar,
  4. á vöruna vantar skammtastærðir þvottaefna með tilliti til hörku vatns og hreinleika þvotts,
  5. efni eða efnablanda er enn flokkuð samkvæmt eldra íslenska flokkunar- og merk­inga­kerfinu.

12. gr.

Markaðsleyfi fyrir plöntuverndarvörum og sæfivörum.

Við ákvörðun sektar, allt að 25.000.000 kr., vegna brota á 35. gr. efnalaga um markaðsleyfi plöntu­verndarvara og sæfivara skal, fyrir hverja vöru, miða við tvöfalt umsóknargjald Umhverfis­stofnunar, samkvæmt gjaldskrá stofnunarinnar, að viðbættu tvöföldu andvirði vörunnar sam­kvæmt vörureikningi.

13. gr.

Snyrtivörur.

Við ákvörðun sektar, allt að 25.000.000 kr., vegna brota á 40. gr. efnalaga um snyrtivörur skal fjárhæð hennar nema 250.000 kr. fyrir hverja vöru sem inniheldur efni sem þegar hafa verið bönnuð og 150.000 kr. fyrir hverja vöru sem inniheldur leyfileg innihaldsefni í hærri styrk en heim­ilað er.

14. gr.

Brennisteinsinnihald í eldsneyti.

Við ákvörðun sektar, allt að 25.000.000 kr., vegna brota á 47. gr. i. efnalaga um brenni­steins­innihald í eldsneyti skal miða við mælt brennisteinsinnihald í eldsneytinu, deilt með leyfi­legu brennisteinsinnihaldi þess og margfaldað með andvirði eldsneytisins samkvæmt vöru­reikningi.

15. gr

Gæði eldsneytis.

Við ákvörðun sektar, allt að 25.000.000 kr., vegna brota á 47. gr. l. efnalaga um gæði eldsneytis skal miða við þrefalt andvirði eldsneytisins samkvæmt vörureikningi.

16. gr.

Gildistaka og lagastoð.

Reglugerð þessi er sett með stoð í 24. tölul. 1. mgr. 11. gr. efnalaga nr. 61/2013, sbr. einnig 2. mgr. 62. gr. laganna.

Reglugerðin öðlast þegar gildi.

Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, 15. maí 2018.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson.

Sigríður Auður Arnardóttir.
Þetta vefsvæði byggir á Eplica