Fara beint í efnið

Prentað þann 29. mars 2024

Breytingareglugerð

1055/2017

Reglugerð um (5.) breytingu á reglugerð nr. 678/2009 um raforkuvirki.

1. gr.

1. gr. reglugerðarinnar orðast svo:

Að bjóða fram á markaði: Öll afhending raffanga til dreifingar eða til notkunar á Evrópska efnahagssvæðinu á meðan á viðskiptastarfsemi stendur, hvort sem það er gegn greiðslu eða án endurgjalds.

CE-merking: Merki þar sem framleiðandinn tilgreinir að raffangið sé í samræmi við gildandi kröfur sem settar eru fram í löggjöf þar sem kveðið er á um áfestingu merkisins.

CEE (International Commission on Rules for the Approval of Electrical Equipment): Alþjóðanefnd sem setur reglur um samþykki raffanga.

CENELEC (Comité Européen de Normalisation Électrotechnique): Evrópsku rafstaðlasamtökin.

Einkarafstöð: Rafstöð í einkaeign sem er staðbundin og framleiðir rafmagn fyrir neysluveitu sem fær ekki rafmagn frá rafveitu.

Dreifingaraðili: Einstaklingur eða lögaðili í aðfangakeðjunni, annar en framleiðandi eða innflytjandi, sem býður rafföng fram á markaði.

Faggilding: Aðferð sem þar til bær aðili beitir til að veita formlega viðurkenningu á því að aðili sé hæfur til að vinna tiltekin verkefni.

Framleiðandi: Einstaklingur eða lögaðili sem framleiðir rafföng eða lætur framleiða eða hanna rafföng og markaðssetur þann búnað undir sínu nafni eða vörumerki.

Gerðarmerki (type identification): Nafn, gerðarmerking (type) eða númer sem aðgreinir rafföng framleiðanda.

Heildarskoðun: Skoðun á öllum raflögnum og rafbúnaði virkis.

IEC (International Electrotechnical Commission): Alþjóðaraftækniráðið.

Iðjuver/stóriðja: Virki, háspennt og/eða lágspennt, þar sem aðflutt raforka kemur á háspennu inn í veituna, eða er framleidd í eigin aflstöð á athafnasvæðinu eða hvort tveggja.

Innflytjandi: Einstaklingur eða lögaðili með staðfestu á Íslandi sem setur rafföng frá ríki utan EES á markað á Íslandi.

Landsskrá yfir rafverktaka: Upplýsingar um alla löggilta rafverktaka sem Mannvirkjastofnun skráir.

Innri öryggisstjórnun: Skilgreint eftirlitskerfi til að tryggja að kröfum um gæði vinnu og öryggi búnaðar, sem gerðar eru í samræmi við lög og reglugerðir, sé fullnægt. Sjá öryggisstjórnun.

Innri öryggisstjórnunarkerfi: Kerfisbundnar ráðstafanir sem tryggja að starfsemi sé samkvæmt öryggiskröfum laga og reglugerða og sönnur eru færðar á með skráningu. Sjá öryggisstjórnunarkerfi.

Innköllun: Hvers konar ráðstöfun sem miðar að því að raffangi, sem þegar er aðgengilegt endanlegum notanda, sé skilað til baka.

Lokayfirferð rafverktaka: Yfirferð allra virkja með samanburði við teikningar, verklýsingar og verklagsreglur, svo og skráning á reyndarteikningar og í yfirferðarskýrslur eins og við á.

Löggilding til rafvirkjunarstarfa: Leyfi sem Mannvirkjastofnun veitir aðilum til rafvirkjunarstarfa, á eigin ábyrgð, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.

Löggiltur rafverktaki: Sá sem hlotið hefur löggildingu Mannvirkjastofnunar til rafvirkjunarstarfa.

Markaðseftirlit með rafföngum: Markvisst og skipulegt eftirlit með rafföngum á markaði til að tryggja að þau uppfylli ákvæði um öryggi og séu ekki hættuleg.

Neysluveita: Raflögn og rafbúnaður innan við stofnkassa (eða búnað, sem gegnir hlutverki stofnkassa). Á einni heimtaug geta verið fleiri en ein neysluveita.

Raffang: Hvers konar hlutur sem að einhverju leyti kemur að gagni við nýtingu raforku, þ.e. til vinnslu, flutnings, dreifingar, geymslu, mælinga, breytinga og notkunar raforku, svo sem spennar, hreyflar, mælitæki, neyslutæki, varnarbúnaður og búnaður til raflagna.

Raforkuvirki: Mannvirki og búnaður til vinnslu og dreifingar rafmagns.

Rafveita: Fyrirtæki sem flytur, dreifir og/eða selur rafmagn.

Rekstraraðilar: Framleiðandi, viðurkenndur fulltrúi, innflytjandi og dreifingaraðili.

Reyndarteikning: Teikning er sýnir endanlegan frágang verks, t.d. endanlegt samhengi og tengingar raflagna.

Samhæfðir staðlar: Staðlar sem samdir hafa verið með hliðsjón af grunnkröfum og samþykktir eru af CENELEC.

Samræmismat: Ferli sem sýnir fram á hvort öryggismarkmiðin fyrir rafföng, sem um getur í gr. 7.2 hafi verið uppfyllt.

Samræmisyfirlýsing: Yfirlýsing framleiðanda um ábyrgð hans á að vara, ferli eða þjónusta sé í samræmi við staðla og önnur kröfuskjöl.

Setning á markað: Það að raffang er boðið fram í fyrsta sinn á Evrópska efnahagssvæðinu.

Skoðun: Faglegt mat á hönnun virkja, frágangi þeirra og samsetningu eða þjónustu við þau til að ákvarða samræmi þeirra við kröfur gildandi laga, reglugerða og annarra lögmætra fyrirmæla.

Skoðunarhandbók: Handbók um yfirferð hönnunargagna og framkvæmd áfanga-, öryggis- og lokaúttekta, sbr. viðauka II með reglugerð þessari. Þar kemur fram yfirlit yfir þá þætti sem eru til skoðunar, ákvæði um verklag við framkvæmd skoðunar, skoðunaraðferðir, gerð skoðunarskýrslu, flokkun athugasemda og áhrif á afgreiðslu og framsetningu niðurstöðu.

Skoðunarstofa: Faggiltur óháður aðili sem hefur starfsleyfi frá Mannvirkjastofnun til að annast skoðanir.

Tækniforskrift: Skjal þar sem mælt er fyrir um tæknikröfur sem raffang þarf að uppfylla.

Úrtaksskoðun: Skoðun á ákveðnum hundraðshluta virkja eða hluta virkja sem valin eru með úrtaki.

Úttekt: Skoðun virkis og/eða verks, sem lýkur með undirskrift/staðfestingu úttektaraðila og verktaka um að lagfæringum sé lokið og að virkið og/eða verkið uppfylli í einu og öllu tilskilin ákvæði í gildandi lögum, reglum og öðrum fyrirmælum.

Vara tekin af markaði: Hvers konar ráðstöfun sem miðar að því að koma í veg fyrir að raffang í aðfangakeðjunni sé boðið fram á markaði.

Viðurkenndur fulltrúi: Einstaklingur eða lögaðili með staðfestu á Evrópska efnahagssvæðinu sem hefur skriflegt umboð frá framleiðandanum til að koma fram fyrir hans hönd í tengslum við tilgreind verkefni.

Virki: Samheiti fyrir raforkuvirki og neysluveitur.

Vottun: Aðferð sem þriðji aðili beitir til að veita formlega staðfestingu á því að vara, ferli eða þjónusta sé í samræmi við tilgreindar kröfur.

Vottunarstofa: Aðili sem annast vottun.

Vörumerki (trade mark): Einkennismerki framleiðanda.

Yfireftirlit: Eftirlit með að ákvæðum laga, nr. 146/1996, um öryggi raforkuvirkja, neysluveitna og raffanga sé fylgt í framkvæmd með fullnægjandi hætti í samræmi við lögin og reglugerðir sem settar eru á grundvelli þeirra.

Öryggisstjórnun: Skilgreint eftirlitskerfi til að tryggja að kröfum um gæði vinnu og öryggi búnaðar, sem gerðar eru í samræmi við lög og reglugerðir, sé fullnægt.

Öryggisstjórnunarkerfi: Kerfisbundnar ráðstafanir sem tryggja að starfsemi sé samkvæmt öryggiskröfum laga og reglugerða og sönnur eru færðar á með skráningu.

2. gr.

7. gr. reglugerðarinnar orðast svo:

7.1 Almennt.

Ákvæði þessarar greinar um eftirlit með rafföngum eiga við um framleiðslu þeirra, innflutning, sölu, hvers konar framsal, notkun og aðra meðhöndlun.

Einungis er heimilt að bjóða fram á markaði rafföng sem uppfylla ákvæði reglugerðar þessarar.

7.2 Ákvæði um öryggi raffanga.

Rafföng má því aðeins bjóða fram á markaði að góðum verkfræðilegum starfsvenjum hafi verið fylgt við smíði þeirra og að hönnun þeirra, gerð og frágangur stofni ekki öryggi manna, húsdýra eða eigna í hættu þegar þau eru rétt upp sett, þeim við haldið og þau notuð með þeim hætti sem til er ætlast.

7.2.1 Almenn ákvæði.

  1. Helstu kennistærðir sem einkenna rafföng og taka þarf tillit til svo að tryggja megi örugga og rétta notkun þeirra skulu skráðar á rafföngin eða, sé slíkt ekki mögulegt, í leiðbeiningum sem þeim fylgja.
  2. Gerðarmerki raffanga, raðnúmer eða annað sérkenni ásamt nafni framleiðanda eða vörumerki, heimilisfang hans og aðrar samskiptaupplýsingar skulu standa skýrum stöfum á rafföngunum eða, sé slíkt ekki mögulegt, á umbúðum þeirra. Innflytjendum sem setja rafföng á markað ber að tryggja að þau séu einnig merkt með nafni innflytjanda, heimilisfangi hans og öðrum samskiptaupplýsingum.
  3. Rafföng og íhlutir þeirra skulu þannig gerð að tryggt sé að hægt sé að setja þau saman og tengja rétt og örugglega.
  4. Hönnun og framleiðsla raffanga skal vera með þeim hætti að tryggð sé vörn gegn hættum sem nefndar eru í gr. 7.2.2. og 7.2.3, að því tilskildu að rafföngin séu rétt tengd, notuð eins og til er ætlast og viðhald þeirra sé fullnægjandi.

7.2.2 Vörn gegn hættum sem stafa af rafföngum.

Ráðstafanir tæknilegs eðlis skulu miða við:

  1. að fólk og húsdýr séu nægilega varin gegn hættu á meiðslum eða öðrum hættum sem stafað geta af beinni eða óbeinni snertingu við rafmagn;
  2. að ekki myndist hiti, ljósbogar eða geislun sem valdið geta hættu;
  3. að fólk, húsdýr og eignir séu nægilega varin gegn hættum sem ekki eru raftæknilegs eðlis, en reynsla sýnir að rafföng geta valdið;
  4. að einangrun raffanga sé fullnægjandi við þær aðstæður sem sjá má fyrir.

7.2.3 Vörn gegn hættum sem orsakast geta af ytri áraun á rafföng.

Ráðstafanir tæknilegs eðlis skulu miða við:

  1. að rafföngin fullnægi þeim kraftrænu kröfum sem af þeim má vænta þannig að fólki, húsdýrum eða eignum sé ekki stofnað í hættu;
  2. að rafföngin þoli þá áraun sem þau verða fyrir við þær umhverfisaðstæður sem vænta má, og ekki er kraftræn, þannig að fólki, húsdýrum og eignum sé ekki stofnað í hættu;
  3. að rafföngin stofni ekki fólki, húsdýrum né eignum í hættu við óeðlileg rekstrarskilyrði sem sjá má fyrir, þ.m.t. fyrirsjáanlegt yfirálag.

7.3 Skyldur rekstraraðila.

  1. Rekstraraðilar skulu tryggja að rafföng sem boðin eru fram á markaði uppfylli kröfur þessarar reglugerðar. Óheimilt er að bjóða fram á markaði rafföng sem uppfylla ekki þessar kröfur.
  2. Innflytjendur og dreifingaraðilar sem setja rafföng á markað undir eigin nafni eða eigin vörumerki eða gera breytingar á raffangi, sem þegar hefur verið sett á markað, þannig að breytingarnar kunni að hafa áhrif á það hvort raffangið uppfylli kröfur þessarar reglugerðar gegna skyldum framleiðanda, sbr. gr. 7.3.1.
  3. Rekstraraðilar skulu halda skrá yfir öll rafföng sem þeir hafa á boðstólum og einnig skrá yfir þá rekstraraðila sem þeir afhenda rafföng og sem afhenda þeim rafföng. Rekstraraðilar skulu geta lagt fram slíkar skrár að beiðni Mannvirkjastofnunar í tíu ár eftir að þeim hefur verið afhent raffang og í tíu ár eftir að þeir hafa afhent raffang.

7.3.1 Skyldur framleiðenda.

  1. Þegar framleiðendur setja raffang á markað skulu þeir sjá til þess að það hafi verið hannað og framleitt í samræmi við ákvæði um öryggi raffanga sbr. gr. 7.2.
  2. Framleiðendur raffanga skv. viðauka 4 skulu útbúa tæknigögnin sem um getur í viðauka 2 og framkvæma eða láta framkvæma samræmismatsaðferðina sem um getur í viðauka 2.
    Ef sýnt hefur verið fram á að raffang skv. viðauka 4 uppfylli ákvæði um öryggi raffanga sbr. gr. 7.2, með samræmismatsaðferðinni sem um getur í 1. mgr. þessa tölul. skulu framleiðendur gera ESB-samræmisyfirlýsingu og festa CE-merkinguna á.
  3. Framleiðendur raffanga skv. viðauka 4 skulu varðveita tæknigögnin sem um getur í viðauka 2 og ESB samræmisyfirlýsinguna í tíu ár eftir að raffang hefur verið sett á markað.
  4. Framleiðendur skulu tryggja að aðferðir séu til staðar til að raðframleiðsla haldist í samræmi við þessa reglugerð. Taka skal fullnægjandi tillit til breytinga á hönnun eða eiginleikum vöru og breytinga á samhæfðum stöðlum, alþjóðlegum stöðlum eða landsstöðlum sem um getur í gr. 7.4 eða öðrum tækniforskriftum sem lýst er yfir að samræmi raffangs miðist við.
    Ef það telst viðeigandi með tilliti til áhættu, sem stafar af raffangi, skulu framleiðendur, í því skyni að vernda heilbrigði og öryggi neytenda, framkvæma úrtaksprófun á rafföngum sem boðin eru fram á markaði, rannsaka og, ef nauðsyn krefur, halda skrá yfir kvartanir, yfir rafföng sem uppfylla ekki kröfur og yfir innköllun raffanga og veita dreifingaraðilum upplýsingar um alla slíka vöktun.
  5. Framleiðendur skulu tryggja að á raffangi sem þeir hafa sett á markað sé gerðar-, framleiðslueiningar- eða raðnúmer, eða annað sérkenni eða, ef það er ekki hægt vegna stærðar eða eðlis raffangs, að tilskildar upplýsingar séu veittar á umbúðunum eða í skjali sem fylgir raffanginu.
  6. Framleiðendur skulu skrá á raffangið nafn sitt, skráð viðskiptaheiti eða skráð vörumerki og heimilisfang þar sem hafa má samband við þá eða, ef það er ekki mögulegt, á umbúðirnar eða í skjal sem fylgir raffanginu. Heimilisfangið skal tilgreina einn stað þar sem hægt er að hafa samband við framleiðandann. Samskiptaupplýsingarnar skulu vera á íslensku, ensku, dönsku, norsku eða sænsku, eða öðru tungumáli sem Mannvirkjastofnun samþykkir.
  7. Framleiðendur skulu tryggja að raffanginu fylgi leiðbeiningar og upplýsingar um öryggismál á íslensku, ensku, dönsku, norsku eða sænsku. Slíkar leiðbeiningar og upplýsingar um öryggismál, sem og hvers kyns merkingar, skulu vera skýrar, skiljanlegar og greinilegar.
  8. Framleiðendur sem telja eða hafa ástæðu til að ætla að raffang sem þeir hafa sett á markað samrýmist ekki þessari reglugerð skulu tafarlaust gera þær ráðstafanir til úrbóta sem eru nauðsynlegar til að raffangið samrýmist kröfum, til að taka það af markaði eða innkalla það, ef við á. Ef áhætta stafar af raffanginu skulu framleiðendur enn fremur tafarlaust upplýsa Mannvirkjastofnun, einkum um tilvik þar sem ekki er farið að ákvæðum og um allar ráðstafanir sem gerðar eru til úrbóta.
  9. Framleiðendur skulu, á grundvelli rökstuddrar beiðni frá Mannvirkjastofnun, afhenda stofnuninni allar upplýsingar og skjöl, á pappír eða rafrænu formi, sem nauðsynleg eru til að sýna fram á að raffangið samrýmist þessari reglugerð, á íslensku, ensku, dönsku, norsku eða sænsku, eða öðru tungumáli sem Mannvirkjastofnun samþykkir. Þeir skulu hafa samvinnu við Mannvirkjastofnun, að beiðni stofnunarinnar, að því er varðar allar aðgerðir sem beitt er til að útiloka áhættu sem stafar af rafföngum sem þeir hafa sett á markað.

7.3.2 Viðurkenndir fulltrúar vegna raffanga skv. viðauka 4.

  1. Framleiðanda er heimilt að tilnefna viðurkenndan fulltrúa með skriflegu umboði.
    Skyldurnar, sem mælt er fyrir um í 1. tölul. gr. 7.3.1, og sú skylda að útbúa tæknigögn, sem um getur í 2. tölul. gr. 7.3.1, skulu ekki vera hluti af umboði viðurkennds fulltrúa.
  2. Viðurkenndur fulltrúi skal inna af hendi þau verkefni sem tilgreind eru í umboðinu frá framleiðandanum. Umboðið skal a.m.k. gefa viðurkennda fulltrúanum heimild til:

    1. að varðveita ESB-samræmisyfirlýsinguna og tæknigögnin svo þau séu tiltæk fyrir Mannvirkjastofnun í tíu ár eftir að raffangið hefur verið sett á markað,
    2. að afhenda Mannvirkjastofnun, á grundvelli rökstuddrar beiðni frá stofnuninni, allar upplýsingar og skjöl sem nauðsynleg eru til að sýna fram á samræmi raffangs,
    3. að hafa samvinnu við Mannvirkjastofnun, að beiðni stofnunarinnar, að því er varðar allar aðgerðir sem beitt er til að útiloka áhættu sem stafar af raffangi sem fellur undir umboð viðurkennds fulltrúa.

7.3.3 Skyldur innflytjenda.

  1. Innflytjendur skulu aðeins setja rafföng sem uppfylla kröfur á markað.
  2. Áður en raffang er sett á markað skal innflytjandi tryggja að framleiðandi hafi unnið samræmismat með viðeigandi aðferð og að raffanginu fylgi þau skjöl sem krafist er og að framleiðandinn hafi uppfyllt kröfurnar sem settar eru fram í 5. og 6. tölul. gr. 7.3.1.
    Innflytjandi raffangs skv. viðauka 4 skal að auki tryggja að framleiðandinn hafi útbúið tæknigögn og að raffangið beri CE-merkingu.
    Ef innflytjandi telur eða hefur ástæðu til að ætla að raffang sé ekki í samræmi við ákvæði um öryggi raffanga sbr. gr. 7.2, skal hann ekki setja raffangið á markað fyrr en það hefur verið fært til samræmis við kröfur. Ef áhætta stafar af raffanginu skal innflytjandi enn fremur upplýsa framleiðandann og Mannvirkjastofnun þar um.
  3. Innflytjendur skulu skrá á raffangið nafn sitt, skráð viðskiptaheiti eða skráð vörumerki og heimilisfang þar sem hafa má samband við þá eða, ef það er ekki mögulegt, á umbúðirnar eða í skjal sem fylgir raffanginu. Samskiptaupplýsingarnar skulu vera á íslensku, ensku, dönsku, norsku eða sænsku, eða öðru tungumáli sem Mannvirkjastofnun samþykkir.
  4. Innflytjendur skulu tryggja að raffanginu fylgi leiðbeiningar og upplýsingar um öryggismál á íslensku, ensku, dönsku, norsku eða sænsku.
  5. Innflytjendur skulu sjá til þess að á meðan tiltekið raffang er á þeirra ábyrgð tefli geymslu- eða flutningsskilyrði ekki í tvísýnu samræmi þess við ákvæði um öryggi raffanga sbr. gr. 7.2.
  6. Ef það telst viðeigandi með tilliti til áhættu sem stafar af raffangi skulu innflytjendur, í því skyni að vernda heilbrigði og öryggi neytenda, framkvæma úrtaksprófun á rafföngum sem boðin eru fram á markaði, rannsaka og, ef nauðsyn krefur, halda skrá yfir kvartanir, rafföng sem uppfylla ekki kröfur og innköllun raffanga og veita dreifingaraðilum upplýsingar um alla slíka vöktun.
  7. Innflytjendur sem telja eða hafa ástæðu til að ætla að raffang sem þeir hafa sett á markað samrýmist ekki þessari reglugerð skulu tafarlaust gera þær ráðstafanir til úrbóta sem eru nauðsynlegar til að raffangið samrýmist kröfum, til að taka það af markaði eða innkalla það, ef við á. Ef áhætta stafar af raffanginu skulu innflytjendur enn fremur tafarlaust upplýsa Mannvirkjastofnun þar um, einkum um tilvik þar sem ekki er farið að ákvæðum og um allar ráðstafanir sem gerðar eru til úrbóta.
  8. Innflytjendur raffanga skv. viðauka 4 skulu varðveita afrit af ESB-samræmisyfirlýsingunni í tíu ár eftir að raffangið hefur verið sett á markað og hafa tiltæka fyrir Mannvirkjastofnun og tryggja að stofnunin geti haft aðgang að tæknigögnunum, sé þess óskað.
  9. Innflytjendur skulu, á grundvelli rökstuddrar beiðni frá Mannvirkjastofnun, afhenda stofnuninni allar upplýsingar og skjöl, á pappír eða á rafrænu formi, sem nauðsynleg eru til að sýna fram á að raffang uppfylli kröfur, á íslensku, ensku, dönsku, norsku eða sænsku, eða öðru tungumáli sem Mannvirkjastofnun samþykkir. Þeir skulu hafa samvinnu við Mannvirkjastofnun, að beiðni stofnunarinnar, að því er varðar allar aðgerðir sem beitt er til að útiloka áhættu sem stafar af rafföngum sem þeir hafa sett á markað.

7.3.4 Skyldur dreifingaraðila.

  1. Þegar dreifingaraðili býður raffang fram á markaði skal hann gæta þess vandlega að það sé í samræmi við kröfur þessarar reglugerðar.
  2. Áður en dreifingaraðili býður raffang fram á markaði skal hann staðfesta að því fylgi þau skjöl sem krafist er og einnig leiðbeiningar og upplýsingar um öryggismál á íslensku, ensku, dönsku, norsku eða sænsku, eða öðru tungumáli sem Mannvirkjastofnun samþykkir og að framleiðandinn og innflytjandinn hafi uppfyllt kröfurnar sem settar eru fram í 5. og 6. tölul. gr. 7.3.1 annars vegar og 3. tölul. gr. 7.3.3 hins vegar.
    Áður en dreifingaraðili býður raffang skv. viðauka 4 fram á markaði skal hann að auki staðfesta að raffangið beri CE-merkingu.
    Ef dreifingaraðili telur eða hefur ástæðu til að ætla að raffang sé ekki í samræmi við ákvæði um öryggi raffanga sbr. gr. 7.2, skal hann ekki bjóða raffangið fram á markaði fyrr en það hefur verið fært til samræmis við kröfur. Ef áhætta stafar af raffangi skal dreifingaraðilinn enn fremur upplýsa framleiðandann eða innflytjandann, ásamt Mannvirkjastofnun, þar um.
  3. Dreifingaraðilar skulu sjá til þess að á meðan tiltekið raffang er á þeirra ábyrgð tefli geymslu- eða flutningsskilyrði ekki í tvísýnu samræmi þess við ákvæði um öryggi raffanga sbr. gr. 7.2.
  4. Dreifingaraðilar, sem telja eða hafa ástæðu til að ætla að raffang, sem þeir hafa boðið fram á markaði, sé ekki í samræmi við þessa reglugerð, skulu ganga úr skugga um að gerðar séu ráðstafanir til úrbóta, sem nauðsynlegar eru, til að færa raffangið til samræmis, til að taka það af markaði eða innkalla, ef við á. Ef áhætta stafar af raffanginu skulu dreifingaraðilar enn fremur tafarlaust upplýsa Mannvirkjastofnun þar um, einkum um tilvik þar sem ekki er farið að ákvæðum og um allar ráðstafanir sem gerðar eru til úrbóta.
  5. Dreifingaraðilar skulu, á grundvelli rökstuddrar beiðni frá Mannvirkjastofnun, afhenda stofnuninni allar upplýsingar og skjöl, á pappír eða á rafrænu formi, sem nauðsynleg eru til að sýna fram á samræmi raffangsins. Þeir skulu hafa samvinnu við Mannvirkjastofnun, að beiðni stofnunarinnar, að því er varðar allar aðgerðir sem beitt er til að útiloka áhættu sem stafar af rafföngum sem þeir hafa boðið fram á markaði.

7.4 Samræmi við staðla.

Rafföng eru álitin uppfylla ákvæði um öryggi raffanga sbr. gr. 7.2, ef þau eru í samræmi við viðeigandi íslenska staðla sem innleiða samhæfða evrópska staðla og staðfestir hafa verið af Staðlaráði Íslands.

Ef ekki eru til staðar viðeigandi íslenskir staðlar sbr. 1. mgr. fyrir raffangið er það þó talið uppfylla ákvæði um öryggi raffanga sbr. gr. 7.2, ef það uppfyllir samþykkt öryggisákvæði IEC-staðla, sem tilvísun hefur verið birt fyrir í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins.

Þá er heimilt að styðjast við öryggisákvæði staðla sem gilda í framleiðslulandi innan EES ef ekki eru til staðar staðlar skv. 1. og 2. mgr., enda tryggi þeir öryggi í samræmi við ákvæði um öryggi raffanga sbr. gr. 7.2.

Mannvirkjastofnun birtir á vef stofnunarinnar skrá yfir samhæfða evrópska staðla sem staðfestir hafa verið sem íslenskir staðlar af Staðlaráði Íslands og samþykkt öryggisákvæði IEC-staðla.

7.5 CE-merking raffanga skv. viðauka 4.

Áður en raffang skv. viðauka 4 er boðið fram á markaði skal framleiðandi festa á það CE-merkingu, sbr. viðauka 1 til staðfestingar á því að farið sé að öllum ákvæðum reglugerðar þessarar, þar með töldum reglum um samræmismat sem mælt er fyrir um í viðauka 2.

Framleiðandi eða viðurkenndur fulltrúi hans ber ábyrgð á réttri notkun CE-merkingar og að hún sé fest á raffangið eða merkiplötu þess þannig að hún sé auðsjáanleg, auðlæsileg og óafmáanleg. Ef það er ekki mögulegt eða það er ástæðulaust vegna eðlis raffangsins skal festa merkinguna á umbúðir eða fylgiskjöl.

Með áfestingu CE-merkingar axlar framleiðandi eða viðurkenndur fulltrúi hans ábyrgð á því að raffangið uppfylli kröfur þeirrar löggjafar sem um það kunna að gilda og kveða á um CE-merkingu.

Óleyfilegt er að setja á rafföng merki sem líklegt er að villi um fyrir þriðja aðila hvað varðar þýðingu og form CE-merkingar. Setja má hvers konar aðrar merkingar á rafföng eða merkjaplötur raffanga að því tilskildu að þær hindri ekki að CE-merkingin sjáist vel og sé læsileg.

7.6 ESB-samræmisyfirlýsing með rafföngum skv. viðauka 4.

Þegar raffang skv. viðauka 4 er boðið fram á markaði skal því fylgja ESB-samræmisyfirlýsing. ESB-samræmisyfirlýsingin er yfirlýsing um að ákvæði um öryggi raffanga sbr. gr. 7.2 séu uppfyllt.

ESB-samræmisyfirlýsingin skal byggð upp eins og fyrirmyndin sem sett er fram í viðauka 3, innihalda þá þætti sem tilgreindir eru í aðferðareiningu A í viðauka 2 og vera uppfærð. Hún skal vera á íslensku, ensku, dönsku, norsku eða sænsku, eða öðru tungumáli sem Mannvirkjastofnun samþykkir.

Þegar raffang fellur undir gildissvið annarrar löggjafar þar sem krafist er ESB-samræmisyfirlýsingar, skal gera eina ESB-samræmisyfirlýsingu að því er varðar allar slíkar kröfur. Í þeirri yfirlýsingu skal tilgreina viðkomandi löggjöf, þ.m.t. tilvísanir í birtingu.

Með samningu ESB-samræmisyfirlýsingar axlar framleiðandinn ábyrgð á að raffangið samrýmist þeim kröfum sem mælt er fyrir um í þessari reglugerð.

7.7 Opinber markaðsgæsla með rafföngum.

Mannvirkjastofnun annast markaðseftirlit með rafföngum. Stofnunin fylgist með rafföngum á markaði og aflar á skipulegan hátt upplýsinga um þau og tekur við ábendingum frá neytendum og öðrum aðilum.

7.8 Markaðsskoðun og rannsókn raffanga.

Mannvirkjastofnun er heimilt að skoða rafföng hjá rekstraraðila og krefjast nauðsynlegra gagna, s.s. samræmisyfirlýsingar sbr. gr. 7.6, tæknigagna sbr. viðauka 2, skrá yfir rafföng sem hann hefur á boðstólum auk skrár yfir þá rekstraraðila sem hann afhendir rafföng og sem afhenda honum rafföng, sbr. gr. 7.3. Mannvirkjastofnun getur einnig krafið rekstraraðila um fylgiskjöl, leiðbeiningar, tæknilegar upplýsingar og aðrar nauðsynlegar upplýsingar um rafföng.

Rekstraraðila skal veittur eðlilegur frestur til að leggja fram gögn og upplýsingar.

Mannvirkjastofnun er heimilt að fela faggiltri skoðunarstofu að skoða rafföng hjá rekstraraðila og krefjast viðeigandi gagna og upplýsinga, sbr. 1. mgr. og meta hvort þau séu í samræmi við reglugerð þessa. Samræmismat fer fram með faglegu mati sem lýtur skilgreindum reglum gefnum út af Mannvirkjastofnun eða með prófun. Prófun skal framkvæmd af prófunarstofu á Evrópska efnahagssvæðinu sem hefur faggildingu á þessu sviði.

Mannvirkjastofnun og skoðunarstofa geta tekið sýnishorn raffanga til rannsóknar.

Starfsmenn Mannvirkjastofnunar og skoðunarstofu eru bundnir þagnarskyldu um atriði er fram koma við rannsókn og varða atvinnuleyndarmál.

7.9 Úrræði Mannvirkjastofnunar.

Ef raffang uppfyllir ekki formleg skilyrði reglugerðar þessarar, s.s. um CE-merkingu sbr. gr. 7.5, merkingar rekstraraðila og kröfur til þeirra sbr. gr. 7.3.1 - 7.3.4, og þau gögn og upplýsingar sem hafa ber tiltæk sbr. gr. 7.8, er Mannvirkjastofnun heimilt að krefjast þess að rekstraraðili grípi án tafar til viðeigandi aðgerða til úrbóta. Þá er Mannvirkjastofnun heimilt að taka raffangið af markaði eða banna sölu eða afhendingu þess.

Ef rökstuddur grunur leikur á að raffang uppfylli ekki ákvæði um öryggi raffanga, sbr. gr. 7.2, er Mannvirkjastofnun heimilt að krefjast úrbóta og ákveða tímabundið bann við sölu þess á meðan á rannsókn stendur.

Ef ljóst þykir að raffang uppfyllir ekki ákvæði um öryggi raffanga sbr. gr. 7.2, er Mannvirkjastofnun heimilt að taka það af markaði eða banna sölu þess eða afhendingu.

Ef raffang er álitið hættulegt ber Mannvirkjastofnun að krefjast tafarlausrar innköllunar allra eintaka raffangsins. Mannvirkjastofnun er heimilt að ákveða að óheimilt sé að lagfæra raffang eða endurnýta það á annan hátt ef það telst sérstaklega hættulegt eða varhugavert að mati stofnunarinnar.

Ef rekstraraðili torveldar skoðun eða rannsókn raffangs er Mannvirkjastofnun heimilt að taka það af markaði eða banna sölu þess eða afhendingu.

Allar breytingar sem rekstraraðilar hyggjast gera á rafföngum sem Mannvirkjastofnun hefur gert athugasemdir við skulu hljóta samþykki Mannvirkjastofnunar áður en þau eru boðin fram á markaði á ný.

7.10 Tilkynningar til Eftirlitsstofnunar EFTA vegna raffanga skv. viðauka 4.

Ef Mannvirkjastofnun innkallar eða hindrar á einhvern hátt að raffang sem ber CE-merkingu sé boðið fram á markaði skal stofnunin tilkynna Eftirlitsstofnun EFTA ákvörðun sína, ásamt rökstuðningi og útskýringum.

Mannvirkjastofnun er einnig heimilt að senda slíkar tilkynningar um rafföng sem ekki bera CE-merkingu, sbr. gr. 7.5, hafi þau verið innkölluð eða stofnunin hindrað á annan hátt að þau séu boðin fram á markaði.

Með tilkynningar skv. þessari grein skal að öðru leyti farið í samræmi við reglur sem gilda á hinu Evrópska efnahagssvæði.

7.11 Samvinna við rekstraraðila, rökstuðningur ákvörðunar og málskot.

Mannvirkjastofnun skal, eftir því sem unnt er, hafa samvinnu við rekstraraðila um málsmeðferð, s.s. öflun gagna, skoðun og prófun raffanga, úrbætur og aðgerðir s.s. stöðvun sölu, afturköllun af markaði og innköllun raffanga.

Mannvirkjastofnun ber að tilkynna rekstraraðila um rökstudda ákvörðun sína svo fljótt sem unnt er. Ákvörðunin skal studd viðeigandi gögnum, sem eru eftir aðstæðum skoðunarskýrslur, prófunarskýrslur eða önnur gögn.

Rekstraraðila skal veittur 10 daga frestur til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri, þ.m.t. að fara fram á prófun eða endurprófun raffangs. Heimilt er að víkja frá þessu ákvæði ef raffang er álitið sérstaklega hættulegt, en þá skal rekstraraðili fá tækifæri til þess að tjá sig eins fljótt og auðið er og aðgerðin sem gripið var til skal endurskoðuð tafarlaust eftir það.

Mannvirkjastofnun er heimilt að endurskoða ákvörðun ef breyttar aðstæður eru fyrir hendi.

Ákvörðunum Mannvirkjastofnunar má skjóta til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, sbr. gr. 2.13, en málskot frestar ekki framkvæmd ákvörðunar.

7.12 Kostnaður við sýnishorn, rannsókn, o.fl.

Rekstraraðili ber kostnað vegna þeirra sýnishorna raffanga sem hann lætur af hendi vegna rannsókna. Að loknum rannsóknum skal sýnishornum skilað eða þau eyðilögð með öruggum hætti.

Sé raffang ekki í samræmi við reglugerð þessa skal rekstraraðili bera þann kostnað sem hlýst af skoðun, rannsókn og prófun, svo og annan kostnað.

Rekstraraðili ber allan kostnað af innköllun raffangs.

Rekstraraðili greiðir allan kostnað af tilkynningum um hættulega vöru sem beint er til almennings, svo sem kostnað við tilkynningar í fjölmiðlum. Rekstraraðila er heimilt að annast tilkynningar til almennings enda sé það gert í samráði við Mannvirkjastofnun og með þeim hætti að eðlileg varnaðaráhrif náist.

3. gr.

Eftirfarandi breytingar verða á 14. gr. reglugerðarinnar:

  1. Á undan grein 14.1 kemur ný grein, 14.1, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi, og breytist röð annarra greina samkvæmt því:
    14.1 Þvingunarúrræði.
    Um dagsektir, birtingu skýrslna og stjórnvaldssektir fer samkvæmt V. kafla laga nr. 146/1996 um öryggi raforkuvirkja, neysluveitna og raffanga.
  2. Grein 14.3, sem verður grein 14.4, orðist svo: Í 7. gr. eru sett ákvæði til innleiðingar á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014/35/ESB um samræmingu laga aðildarríkjanna um að bjóða rafföng fram á markaði sem notuð eru innan ákveðinna spennumarka (endurútgefin) sem felldi úr gildi tilskipun 2006/96/EB sama efnis. Túlka ber ákvæði 7. gr. í samræmi við ákvæði tilskipunarinnar um rafföng skv. viðauka 4.
  3. Heiti greinarinnar verður: Þvingunarúrræði, viðurlög og gildistaka.

4. gr.

Viðaukar 1 og 2 við reglugerðina falla brot og í stað þeirra koma fjórir nýjir viðaukar 1, 2, 3 og 4, sem birtir eru með reglugerð þessari. Þessu til samræmis verður viðauki 3 að viðauka 5.

5. gr.

Reglugerðin er til innleiðingar á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014/35/ESB um samræmingu laga aðildarríkjanna um að bjóða rafföng fram á markaði sem notuð eru innan ákveðinna spennumarka (endurútgefin) sem felldi úr gildi tilskipun 2006/95/EB.

6. gr.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í 13. gr. laga nr. 146/1996 um öryggi raforkuvirkja, neysluveitna og raffanga.

Reglugerðin öðlast þegar gildi.

Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, 29. nóvember 2017.

Björt Ólafsdóttir.

Sigríður Auður Arnardóttir.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.