Fara beint í efnið

Prentað þann 19. mars 2024

Stofnreglugerð

823/2016

Reglugerð um timbur og timburvöru.

1. gr. Gildistaka tiltekinna EES-gerða.

Eftirfarandi reglugerðir sem vísað er til í XVII. kafla II. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, skulu öðlast gildi hér á landi með þeim breytingum og viðbótum sem leiðir af II. viðauka samningsins, bókun 1 um altæka aðlögun og öðrum ákvæðum samningsins:

  1. Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 995/2010 frá 20. október 2010 um skyldur rekstraraðila sem setja timbur og timburvörur á markað sem vísað er til í lið 9c í II. viðauka við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 75/2013. Reglugerðin er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 37 frá 27. júní 2013, bls. 51-62. Þrátt fyrir 1. málsl. öðlast ESB-gerðin gildi hér á landi með eftirfarandi viðbótum:

    1. Ákvæði fyrstu málsgreinar 3. gr. gilda ekki að því er varðar EFTA-ríkin.
    2. Í stað orðanna "viðauka A, B eða C við reglugerð (EB) nr. 338/97" í annarri málsgrein 3. gr. komi orðin: viðeigandi hlutum löggjafar um framkvæmd samningsins um alþjóðaverslun með tegundir villtra dýra og plantna sem eru í útrýmingarhættu í því EFTA-ríki.
    3. Í stað orðsins "framkvæmdastjórnin(a)" í 3., 5. og 6. mgr. 8. gr., ef vöktunarstofnanir EFTA-ríkis eru annars vegar og með fyrirvara um bókun 1 við samninginn, komi orðin: Eftirlitsstofnun EFTA.
  2. Framkvæmdarreglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 607/2012 frá 6. júlí 2012 um ítarlegar reglur varðandi kerfi áreiðanleikakannana og varðandi tíðni og eðli eftirlits með vöktunarstofnunum sem kveðið er á um í reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 995/2010 frá 20. október 2010 um skyldur rekstraraðila sem setja timbur og timburvörur á markað sem vísað er til í lið 9cb í II. viðauka við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 75/2013. Reglugerðin er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 37 frá 27. júní 2013, bls. 63-65. Þrátt fyrir 1. málsl. öðlast ESB-gerðin gildi hér á landi með eftirfarandi viðbótum:

    1. Í stað orðsins "framkvæmdastjórnin" í staflið b) í 2. mgr. 6. gr., ef vöktunarstofnanir í EFTA-ríki eru annars vegar og með fyrirvara um bókun 1 við samninginn, komi orðin: Eftirlitsstofnun EFTA.
  3. Framseld reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 363/2012 frá 23. febrúar 2012 um reglur um málsmeðferð við viðurkenningu og afturköllun á viðurkenningu fyrir vöktunarstofnanir eins og kveðið er á um í reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 995/2010 um skyldur rekstraraðila sem setja timbur og timburvörur á markað sem vísað er til í lið 9ca í II. viðauka við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 75/2013. Reglugerðin er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 46 frá 15. ágúst 2013, bls. 131-135. Þrátt fyrir 1. málsl. öðlast ESB-gerðin gildi hér á landi með eftirfarandi viðbótum:

    1. Í stað orðsins "framkvæmdastjórnin" ef vöktunarstofnanir EFTA-ríkis eru annars vegar og með fyrirvara um bókun 1 við samninginn, komi orðin: Eftirlitsstofnun EFTA.

2. gr. Hlutverk Mannvirkjastofnunar.

Mannvirkjastofnun gegnir hlutverki lögbærs yfirvalds, sbr. 7. gr. reglugerðar (ESB) nr. 995/2010, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 1. gr.

3. gr. Kerfi áreiðanleikakannana.

Rekstraraðilar sem setja timbur og timburvörur í fyrsta skipti á innri markað Evrópska efnahagssvæðisins skulu, á grundvelli kerfisbundinnar nálgunar, gera viðeigandi ráðstafanir til að ganga úr skugga um að timbur úr ólöglegu skógarhöggi og vara úr slíku timbri sé ekki sett á markað. Skal rekstraraðili nota kerfi áreiðanleikakannana sem vöktunarstofnanir bjóða upp á.

Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er rekstraraðila heimilt að nota eftirlitskerfi eða verklagsreglur sem hann notar nú þegar við gildistöku laga um timbur og timburvöru svo fremi sem það kerfi sem notað er samræmist kröfum reglugerðar (ESB) nr. 995/2010.

Að öðru leyti en kveðið er á um í lögum um timbur og timburvöru nr. 95/2016 og reglugerð þessari fer um kerfi áreiðanleikakannana samkvæmt ákvæðum reglugerðar (ESB) nr. 607/2012.

4. gr. Vöktunarstofnun.

Lögaðili með staðfestu innan Evrópska efnahagssvæðisins getur fengið viðurkenningu sem vöktunarstofnun, að uppfylltum skilyrðum um sérþekkingu og hæfni.

Aðili sem óskar eftir því að fá viðurkenningu sem vöktunarstofnun skal sækja um það til Eftirlitsstofnunar EFTA sem að höfðu samráði við stjórnvöld viðurkennir umsækjanda sem uppfyllir skilyrði 1. mgr.

Aðili sem hefur fengið viðurkenningu sem vöktunarstofnun skal sinna þeim skyldum sem kveðið er á um í 10. gr. laga um timbur og timburvöru, nr. 95/2016, að öðrum kosti getur Eftirlitsstofnun EFTA afturkallað viðurkenningu aðila sem vöktunarstofnun.

Að öðru leyti fer um vöktunarstofnanir samkvæmt ákvæðum laga um timbur og timburvöru, nr. 95/2016, og ákvæðum reglugerðar (ESB) nr. 363/2012.

5. gr. Eftirlit og þvingunarúrræði.

Um eftirlit með reglugerð þessari og þvingunarúrræði fer samkvæmt V. kafla laga um timbur og timburvöru, nr. 95/2016.

6. gr. Viðurlög.

Um brot gegn ákvæðum reglugerðar þessarar fer samkvæmt VI. kafla laga um timbur og timburvöru, nr. 95/2016.

7. gr. Innleiðing tiltekinna EES-gerða.

Reglugerðin er sett til innleiðingar á eftirfarandi EES-gerðum:

  1. Reglugerð Evrópusambandsins og ráðsins (ESB) nr. 995/2010 frá 20. október 2010 um skyldur rekstraraðila sem setja timbur og timburvörur á markað.
  2. Framkvæmdarreglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 607/2012 frá 6. júlí 2012 um ítarlegar reglur varðandi kerfi áreiðanleikakannana og varðandi tíðni og eðli eftirlits með vöktunarstofnunum sem kveðið er á um í reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 995/2010 frá 20. október 2010 um skyldur rekstraraðila sem setja timbur og timburvörur á markað.
  3. Framseld reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 363/2012 frá 23. febrúar 2012 um reglur um málsmeðferð við viðurkenningu og afturköllun á viðurkenningu fyrir vöktunarstofnanir eins og kveðið er á um í reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 995/2010 um skyldur rekstraraðila sem setja timbur og timburvörur á markað.

8. gr. Gildistaka.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í 3. mgr. 8. gr., 4. mgr. 9. gr. og 20. gr. laga um timbur og timburvöru, nr. 95/2016, og öðlast þegar gildi.

Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, 28. september 2016.

Sigrún Magnúsdóttir.

Hugi Ólafsson.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.