Fara beint í efnið

Prentað þann 29. mars 2024

Stofnreglugerð

1078/2015

Reglugerð um endurnýtingu úrgangs.

1. gr. Markmið.

Markmið reglugerðar þessarar er að stuðla að endurnýtingu úrgangs þannig að hann teljist ekki lengur vera úrgangur og svo að ekki skapist hætta fyrir heilbrigði manna og dýra og umhverfið verði ekki fyrir skaða.

2. gr. Gildissvið.

Reglugerðin gildir um endurnýtingu úrgangs í atvinnuskyni að svo miklu leyti sem ekki hafa verið sett viðmið um lok úrgangsfasa fyrir úrganginn skv. 21. gr. laga um meðhöndlun úrgangs.

3. gr. Skilgreiningar.

Í reglugerð þessari er merking eftirtalinna orða og orðasambanda sem hér greinir:

Endurnýting: Aðgerð þar sem aðalútkoman er sú að úrgangur verður til gagns þar eð hann kemur í stað annars efniviðar sem hefði annars verið notaður í tilteknum tilgangi, eða hann er útbúinn til þeirrar notkunar, í móttökustöð eða úti í hagkerfinu.

Ráðgefandi álit: Álit Umhverfisstofnunar á því hvort stofnunin telji að tiltekinn úrgangur geti hætt að vera úrgangur með endurnýtingaraðgerð í samræmi við þá matsþætti sem taldir eru upp í reglugerðinni.

Úrgangur: Hvers kyns efni eða hlutir sem handhafi úrgangs ákveður að losa sig við, ætlar að losa sig við eða er gert að losa sig við.

4. gr. Hlutverk Umhverfisstofnunar.

Áður en tiltekinn úrgangur, sem ekki eru til viðmið um lok úrgangsfasa fyrir, fer í gegnum endurnýtingaraðgerð og áður en varan sem gera á úr úrganginum fer á markað, skal sá rekstraraðili sem hyggst markaðssetja vöruna sækja um ráðgefandi álit Umhverfisstofnunar á því hvort úrgangurinn hætti að vera úrgangur þegar hann hefur farið í gegnum endurnýtingaraðgerðina.

Þegar sérstök þörf krefur er Umhverfisstofnun heimilt, að höfðu samráði við umsækjanda, að kalla til sérfræðinga sér til ráðgjafar á kostnað umsækjanda vegna vinnslu ráðgefandi álits.

5. gr. Umsókn um ráðgefandi álit.

Umsókn um ráðgefandi álit skal vera skrifleg og send Umhverfisstofnun. Umsóknin skal vera í samræmi við leiðbeiningar Umhverfisstofnunar og skal innihalda:

  1. Upplýsingar um umsækjanda.
  2. Upplýsingar um starfsleyfi.
  3. Gögn og upplýsingar um þann úrgang sem á að endurnýta og um endurnýtingaraðgerðina sem notast á við.
  4. Gögn og upplýsingar um þá vöru sem verður til eftir að úrgangur hefur farið í gegnum endurnýtingaraðgerðina. Í þessum lið felst meðal annars rökstuðningur fyrir því að matsþættir 6. gr. verði uppfylltir.

Umhverfisstofnun metur hvort fullnægjandi gögnum og upplýsingum hafi verið skilað með umsókn. Stofnunin skal skila ráðgefandi áliti innan þriggja mánaða frá því að fullnægjandi gögn og upplýsingar umsækjanda liggja fyrir.

Fyrir umsókn, vinnslu ráðgefandi álits um endurnýtingu úrgangs og kostnað við aðkeypta ráðgjöf ef við á, er Umhverfisstofnun heimilt er að taka gjald samkvæmt gjaldskrá stofnunarinnar í samræmi við 4. mgr. 65. gr. laga um meðhöndlun úrgangs. Umhverfisstofnun ber að gera umsækjanda grein fyrir áætluðum kostnaði við álitsgerð áður en vinnsla hennar hefst. Stofnuninni ber ekki að skila ráðgefandi áliti fyrr en fullnaðargreiðsla hefur borist.

6. gr. Matsþættir.

Við gerð ráðgefandi álits skal Umhverfisstofnun meðal annars taka mið af eftirfarandi þáttum þegar hún metur hvort tiltekinn úrgangur hættir að vera úrgangur þegar hann hefur farið í gegnum þá endurnýtingaraðgerð sem lýst er í umsókn:

  1. Að úrganginum verði breytt í vöru sem hægt sé að setja á markað.
  2. Að hægt sé að nota úrganginn sem fer í gegnum endurnýtingaraðgerð á sambærilegan hátt og sambærilega vöru á markaði sem hefur ekki verið unnin úr úrgangi.
  3. Að hægt sé að geyma úrganginn sem fer í gegnum endurnýtingaraðgerð og nota hann á þann hátt að hann valdi ekki verri umhverfisáhrifum en sambærileg vara á markaði sem hefur ekki verið unnin úr úrgangi.
  4. Að umsækjandi tryggi að varan uppfylli ávallt settar kröfur.

Umhverfisstofnun er heimilt að líta til tiltækra innlendra viðmiða um lok úrgangsfasa í einstökum EES-ríkjum við vinnslu ráðgefandi álits.

7. gr. Ráðgefandi álit Umhverfisstofnunar um endurnýtingu úrgangs.

Ráðgefandi álit Umhverfisstofnunar skal rökstutt.

Rekstraraðili sem hyggst endurnýta úrgang í vöru sem ætlunin er að setja á markað ber ábyrgð á að starfsemi hans sé á hverjum tíma í samræmi við lög og reglugerðir sem eiga við um starfsemina og skal hafa hliðsjón af ráðgefandi áliti um endurnýtingu úrgangs.

Við setningu viðmiða um lok úrgangsfasa fyrir úrganginn fellur ráðgefandi álit Umhverfisstofnunar úr gildi og ber rekstraraðilanum þá að fara eftir þeim viðmiðum um lok úrgangsfasa.

Umhverfisstofnun er heimilt að afturkalla ráðgefandi álit sitt ef mengun af notkun viðkomandi vöru er meiri en búast mátti við þegar álitið var veitt eða ef breytingar verða á öðrum forsendum er lágu til grundvallar álitinu.

Stofnunin skal haga málsmeðferð umsókna um endurnýtingu úrgangs í samræmi við stjórnsýslulög nr. 37/1993.

8. gr. Gildistaka og lagastoð.

Reglugerð þessi, sem sett er með stoð í 3. mgr. 11. gr., sbr. 43. gr. laga nr. 55/2003, um meðhöndlun úrgangs, tekur þegar gildi. Reglugerðin er sett að höfðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga og Samtök atvinnulífsins. Reglugerð þessi hefur verið tilkynnt í samræmi við lög nr. 57/2000, um skipti á upplýsingum um tæknilegar reglur um vörur og fjarþjónustu.

Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, 3. desember 2015.

Sigrún Magnúsdóttir.

Sigríður Auður Arnardóttir.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.