Leita
Hreinsa Um leit

Umhverfis- og auðlindaráðuneyti

285/2015

Reglugerð um landshlutaverkefni í skógrækt.

1. gr.

Landshlutaverkefni í skógrækt.

Samkvæmt lögum nr. 95/2006 er markmið landshlutaverkefna í skógrækt að skapa skógar­auðlind á Íslandi, rækta fjölnytjaskóga og skjólbelti, treysta byggð og efla atvinnulíf.

2. gr.

Stjórnsýsla.

Stjórn landshlutaverkefnis í skógrækt ræður framkvæmdastjóra. Hlutverk stjórnar er að öðru leyti skilgreint í starfsreglum sem ráðherra setur og má sjá í viðauka 1. Fram­kvæmda­stjóri annast daglegan rekstur landshlutaverkefnis.

Stjórn landshlutaverkefnis og framkvæmdastjóri bera ábyrgð á rekstri landshlutaverkefnis í samræmi við lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins nr. 70/1996 og lög nr. 88/1997 um fjárreiður ríkisins.

3. gr.

Landshlutaáætlanir.

Fyrir hvert landshlutaverkefni skal gera sérstaka landshlutaáætlun og skal hún unnin af viðkomandi landshlutaverkefni. Landshlutaáætlun skal innihalda:

 

a)

Stöðu- og árangursmat fyrir viðkomandi landshlutaverkefni með hliðsjón af mark­miðum laga um landshlutaverkefni í skógrækt nr. 95/2006, í samræmi við skipulags­áætlanir og gagnvart annarri opinberri stefnumörkun.

 

b)

Stefnumörkun fyrir landshlutaverkefnið til 40 ára þar sem fram kemur framtíðarsýn, markmið, áherslur og forgangsröðun. Stefnumörkun skal endurskoðuð ekki sjaldnar en á 10 ára fresti.

 

c)

Framkvæmdaáætlun fyrir landshlutaverkefnið til 5 ára þar sem gerð er grein fyrir samningsbundnum verkefnum, áætluðum verkefnum og áætlun um fjármögnun m.a. með hliðsjón af þingsályktun, sbr. 4. gr. laga nr. 95/2006. Framkvæmdaáætlun skal endurskoðuð eigi sjaldnar en á fjögurra ára fresti.Heimilt er að vinna landshlutaáætlanir fyrir tvö eða fleiri landshlutaverkefni sameiginlega.

4. gr.

Umsóknarferli.

Sótt er um þátttöku í skógræktarverkefni á þar til gerðu umsóknarblaði sem er samræmt hjá öllum landshlutaverkefnum í skógrækt og aðgengilegt á vefsíðum þeirra. Þar koma fram upplýsingar um:

 

a)

eignarhald, stærð og staðsetningu á landi sem fyrirhugað er að taka til skógræktar eða skjólbeltaræktar,

 

b)

umsækjanda (nafn, kennitala, heimilisfang),

 

c)

markmið umsækjanda með skógrækt á svæðinu.Rétt til að sækja um þátttöku hafa eigendur og ábúendur lögbýla. Ábúendur skulu afla sér heimildar landeiganda.

Starfsmenn viðkomandi landshlutaverkefnis meta fyrirhugað skóg­ræktar­svæði m.t.t. skógræktar­skilyrða, verndarákvæða og hvort skógræktarsvæðið sé í samræmi við skipulags­áætlanir og taka saman greinargerð sem lögð er fyrir stjórn landshlutaverkefnisins sem tekur afstöðu til umsóknar. Liggi fyrirhugað skógræktarsvæði að landamerkjum skal skógar­bóndi kynna afmörkun þess landeigendum aðliggjandi jarða. Skógarbóndi skal tilkynna fyrirhugaða framkvæmd til sveitarstjórnar.

5. gr.

Forgangsröðun umsókna.

Við forgangsröðun umsókna skulu landshlutaverkefni í skógrækt taka mið af lands­hluta­áætlun, sbr. 3. gr. og landsskipulagsstefnu. Landshlutaverkefnum er heimilt við forgangs­röðun umsókna að taka mið af því hvort umsækjandi er búsettur á viðkomandi jörð.

6. gr.

Samningar.

Samningar landshlutaverkefna í skógrækt við þátttakendur skulu vera í samræmi við form í viðauka 2 sem ráðherra staðfestir.

7. gr.

Undirbúningur skógræktar.

Þegar samningi um þátttöku í skógræktarverkefni hefur verið þinglýst skal vinna rækt­unar­áætlun fyrir viðkomandi svæði. Gagnaöflun um landgæði og form ræktunaráætlana skal fylgja staðli sem gefinn er út af Skógrækt ríkisins og unninn í samráði við lands­hluta­verkefnin (viðauki 4). Ræktunaráætlanir skulu taka fullt tillit til náttúruverndar og umhverfis­sjónarmiða í samræmi við gildandi lög s.s. varðandi lífríki, fornleifar, náttúru­minjar, verndarsvæði og landslag í samræmi við viðauka 3. Ræktunaráætlanir skulu unnar í samráði við viðkomandi þátttakanda í landshlutaverkefni.

8. gr.

Framlög.

Landshlutaverkefni greiða allt að 97% af samþykktum kostnaði við skógrækt samkvæmt ræktunaráætlun. Framkvæmdastjórar landshlutaverkefna í skógrækt skulu ákveða, að fenginni umsögn Landssamtaka skógareigenda, sameiginleg viðmið fyrir landshlutaverkefnin um endurgreiðslu samþykkts kostnaðar þ.m.t. krónutölu hámarksendurgreiðslu fyrir hverja einingu og hlutfall endurgreiðslu. Til samþykkts kostnaðar teljast eftirfarandi:

 

a)

friðun og varsla skógræktarlands á meðan þess er þörf að mati landshlutaverkefnis,

 

b)

slóðagerð sem er nauðsynleg vegna gróðursetninga, eftirlits og umhirðu,

 

c)

jarðvinnsla,

 

d)

plöntukaup,

 

e)

gróðursetning,

 

f)

áburður og áburðargjöf,

 

g)

umhirða ungskógar skv. umhirðuáætlun og umhirðureglum skv. viðauka 5,

 

h)

ræktun skjólbelta sem leiða til bættra ræktunarskilyrða í landbúnaði og/eða skógrækt. Landshlutaverkefni setja lágmark á umfang skjólbelta eða skjólbeltakerfa og

 

i)

aðrar sambærilegar framkvæmdir sem einnig eru tilgreindar í ræktunaráætlun.Skógarbóndi skal árlega skila framkvæmdaskráningu til landshlutaverkefnis að loknum fram­kvæmdum. Framkvæmdaskráning er forsenda greiðslu framlaga vegna skógræktar­framkvæmda.

Uppgjör greiðslu framlaga fer fram að lokinni gæðaúttekt, sbr. 9. gr.

9. gr.

Gæðaúttekt.

Landshlutaverkefnin skulu ár hvert meta gróðursetningar að framkvæmdum loknum sam­kvæmt samræmdu gæðaeftirlitskerfi landshlutaverkefnanna. Við gæðaúttekt skal mat lagt á hvort staðið hafi verið með fullnægjandi hætti að framkvæmdum með hliðsjón af þeim markmiðum sem sett voru fram í ræktunaráætlun, sbr. 7. gr.

Standist framkvæmdir gæðaúttekt er landshlutaverkefni heimilt að greiða allt að 97% af samþykktum kostnaði. Standist framkvæmdir ekki gæðaúttekt skal landshlutaverkefni tilkynna viðkomandi um ástæður þess skriflega og er jafnframt heimilt að fresta greiðslum framlaga til viðkomandi þátttakanda. Þátttakanda skal gefinn hæfilegur frestur til að bæta úr þeim ágöllum sem fram koma í gæðaúttekt, í þeim tilfellum sem það er mögulegt. Geri þátttakandi úrbætur skal landshlutaverkefni leggja mat á hvort þær úrbætur séu full­nægjandi og greiða eftir atvikum framlög í samræmi við samþykktan kostnað. Sé ekki mögu­legt að bæta úr ágöllum skal þátttakanda gefinn frestur til andsvara. Komi ekki fram full­nægjandi skýringar á vanefndum af hálfu þátttakanda falla framlög niður að því leyti sem ágallar gefa tilefni til.

10. gr.

Árangursmat.

Landshlutaverkefnin skulu framkvæma árangursmat þar sem metin eru afföll af gróður­setningum. Úttektin skal framkvæmd skv. aðferðarfræði sem samþykkt er af Skóg­rækt ríkisins.

11. gr.

Lagastoð og gildistaka.

Reglugerð þessi er sett með stoð í 11. gr. laga um landshlutaverkefni í skógrækt, nr. 95/2006. Reglugerðin öðlast þegar gildi.

Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, 9. mars 2015.

Sigrún Magnúsdóttir.

Jón Geir Pétursson.

VIÐAUKAR
(sjá PDF-skjal)
Þetta vefsvæði byggir á Eplica