Fara beint í efnið
Fyrri útgáfa

Prentað þann 29. mars 2024

Reglugerð með breytingum síðast breytt 1. júní 2016

414/2014

Reglugerð um stafrænar landupplýsingar.

1. gr. Markmið.

Markmið reglugerðar þessarar er að byggja upp og viðhalda grunngerð fyrir stafrænar landupplýsingar á vegum stjórnvalda og tryggja aðgengi stjórnvalda og almennings að landupplýsingum um Ísland.

2. gr. Gildissvið.

Reglugerð þessi tekur til stafrænna landupplýsinga sem eru í eigu eða á vegum stjórnvalda og varða íslenskt land, landhelgi og efnahagslögsögu, sbr. 1. og 3. gr. laga um landhelgi, efnahagslögsögu og landgrunn, nr. 41/1979.

Reglugerð þessi tekur einnig til stafrænna landupplýsinga í eigu eða á vegum lögaðila sem falla undir ákvæði b-c-liðar 3. tölul. 3. gr. að svo miklu leyti sem þær verða til eða er aflað í tilefni af hinu opinbera hlutverki þeirra eða þjónustu.

Reglugerð þessi hefur ekki áhrif á höfundarétt stjórnvalda að landupplýsingum sem falla undir reglugerðina.

Stafrænar landupplýsingar í eigu annarra en reglugerð þessi tekur til falla undir reglugerð þessa hafi eigandi þeirra fengið leyfi til að tengja þær við landupplýsingagátt, sbr. 5. gr. og 7. gr. laga nr. 44/2011, um grunngerð fyrir stafrænar landupplýsingar.

Séu til mörg samsvarandi eintök af sömu gögnum nær reglugerðin einungis til upprunalegrar útgáfu þeirra.

3. gr. Skilgreiningar.

Í reglugerð þessari er merking eftirtalinna orða og orðasambanda sem hér segir:

  1. Grunngerð fyrir stafrænar landupplýsingar: Tækni, stefnur, staðlar og mannauður sem þarf til að afla stafrænna landupplýsinga, vinna úr þeim, varðveita, miðla og auðvelda notkun þeirra.
  2. Landupplýsingar: Gögn og upplýsingar sem tengjast stað á, í eða yfir jörðu, hvort heldur með hnitum eða auðkenni, t.d. staðfang eða póstnúmer.
  3. Stjórnvöld:

    1. Öll stjórnvöld sem falla undir gildissvið upplýsingalaga.
    2. Lögaðili sem hefur verið falið opinbert hlutverk eða veitir almenningi opinbera þjónustu sem varðar umhverfið á grundvelli laga, stjórnvaldsfyrirmæla eða samnings við stjórnvöld sem falla undir a-lið.
    3. Lögaðili sem gegnir opinberu hlutverki eða veitir opinbera þjónustu sem varðar umhverfið og lýtur stjórn þeirra stjórnvalda sem falla undir a-lið. Lögaðili er talinn lúta opinberri stjórn í þessum skilningi þegar stjórnvöld skv. a-lið tilnefna meira en helming stjórnarmanna í stjórn lögaðilans eða hafa á annan hátt virk yfirráð yfir honum.
  4. Lýsigögn: Upplýsingar um gögn og/eða þjónustu eða lýsing einkenna gagnasafna, svo sem innihalds, eiginleika eða ástands.
  5. Samhæfni: Hæfni tveggja eða fleiri kerfa eða gagnasafna til samtengdrar vinnslu.
  6. Landupplýsingagátt: Vefsetur sem veitir aðgang að stafrænum landupplýsingum og tengdri þjónustu.

4. gr. Hlutverk Landmælinga Íslands.

Landmælingar Íslands fara með framkvæmd reglugerðar þessarar.

5. gr. Þættir stafrænna landupplýsinga sem reglugerðin tekur til.

Í I., II. og III. viðauka við reglugerð þessa eru taldir upp þeir þættir stafrænna landupplýsinga sem reglugerðin tekur til.

6. gr. Landupplýsingagátt.

Landmælingar Íslands skulu starfrækja landupplýsingagátt til að veita aðgang að stafrænum landupplýsingum og upplýsingum um þær. Eftirtalin vefþjónusta skal vera aðgengileg öllum í gegnum landupplýsingagáttina:

  1. Lýsigagnaþjónusta sem gefur kost á að leita að stafrænum landupplýsingum og tengdri þjónustu.
  2. Skoðunarþjónusta sem að lágmarki gefur kost á að skoða gögn, skýringar þeirra og lýsigögn, fara um þau, þysja inn/út, hliðra þeim eða skara.
  3. Niðurhalsþjónusta sem gefur kost á að hala niður afritum stafrænna landupplýsinga eða fá beinan aðgang að þeim, hvort sem er að öllu leyti eða að hluta.
  4. Vörpunarþjónusta sem gefur kost á að varpa stafrænum landupplýsingum til að samhæfni náist.
  5. Þjónusta sem gefur kost á að virkja ólíka vefþjónustu landupplýsinga.

Aðgangur að þjónustu skv. 1.-5. tölul. 1. mgr. skal opinn öllum með þeim takmörkunum á upplýsingarétti sem greinir í 6. gr. laga um upplýsingarétt um umhverfismál.

Upplýsingatexti skal vera til í íslenskri útgáfu eftir því sem unnt er. Lýsigögn öll skulu vera til í íslenskri útgáfu.

Að því er varðar þjónustuna, sem um getur í 1. tölul. 1. mgr., skal a.m.k. innleiða eftirfarandi samsetningu leitarskilyrða:

  1. lykilorð,
  2. flokkun landupplýsinga og þjónustu,
  3. gæði og réttmæti landupplýsinga,
  4. samræmi við framkvæmdarreglurnar sem kveðið er á um í 6. gr.
  5. landfræðilega staðsetningu,
  6. skilyrði sem gilda um aðgang að og notkun á landupplýsingum og -þjónustu,
  7. opinber yfirvöld sem bera ábyrgð á stofnun, umsjón, viðhaldi og dreifingu landupplýsinga og -þjónustu.

Vörpunarþjónustan, sem um getur í 4. tölul. 1. mgr., skal sameinuð annarri þjónustu, sem um getur í 1. mgr., þannig að kleift sé að starfrækja alla þjónustuþættina í samræmi við framkvæmdarreglurnar sem kveðið er á um í 6. gr.

7. gr. Gildistaka tiltekinna gerða Evrópusambandsins.

Eftirfarandi gerðir sem vísað er til í I. kafla, XX. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, öðlast gildi hér á landi með þeim breytingum og viðbótum sem leiðir af XX. viðauka samningsins, bókun 1 um altæka aðlögun og öðrum ákvæðum samningsins:

  1. Ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar 2009/442/EB frá 5. júní 2009 um framkvæmd tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2007/2/EB að því er varðar vöktun og skýrslugjöf, sem vísað er til í lið 1jb í XX. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 124/2010 frá 10. nóvember 2010. Ákvörðunin er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 40 frá 14. júlí 2011 - 2011/EES/40/07 bls. 84-92.
    Þrátt fyrir 1. málsl. öðlast EB-gerðin gildi hér á landi með eftirfarandi viðbótum:

    1. Að því er varðar EFTA-ríkin, skal árið sem getið er í annarri undirgrein 2. mgr. 11. gr. vera hið sama og árið sem getið er í 18. gr., samkvæmt ákvæðum til aðlögunar fyrir EFTA-ríkin.
    2. Að því er varðar EFTA-ríkin, skal túlka dagsetningu sem getið er í 18. gr. þannig að hún taki til þriggja ára viðbótartímabils.
  2. Reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 976/2009 frá 19. október 2009 um framkvæmd tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2007/2/EB að því er varðar netþjónustu, sem vísað er til í lið 1jc í XX. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 137/2012 frá 13. júlí 2012. Reglugerðin er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 54 frá 27. september 2012 - 2012/EES/54/67 bls. 712-721.
    Þrátt fyrir 1. málsl. öðlast EB-gerðin gildi hér á landi með þeirri viðbót að því er varðar EFTA-ríkin að túlka skuli dagsetningar sem getið er í 4. gr. þannig að þær taki til þriggja ára viðbótartímabils.
  3. Reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 268/2010 frá 29. mars 2010 um framkvæmd tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2007/2/EB að því er varðar aðgang stofnana og aðila Bandalagsins að landgagnasöfnum og -þjónustu aðildarríkjanna við samræmd skilyrði, sem vísað er til í lið 1jd í XX. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 137/2012 frá 13. júlí 2012. Reglugerðin er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 59 frá 18. október 2012 - 2012/EES/59/06 bls. 269-270.
    Þrátt fyrir 1. málsl. öðlast ESB-gerðin gildi hér á landi með þeirri viðbót að því er varðar EFTA-ríkin að túlka skuli frest sem er settur í 8. gr. þannig að hann taki til þriggja ára viðbótartímabils.
  4. Reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 1088/2010 frá 23. nóvember 2010 um breytingu á reglugerð (EB) nr. 976/2009 að því er varðar niðurhals- og vörpunarþjónustu, sem vísað er til í lið 1jc í XX. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 137/2012 frá 13. júlí 2012. Reglugerðin er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 67 frá 29. nóvember 2012 - 2012/EES/67/04 bls. 5-14.
  5. Reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 1089/2010 frá 23. nóvember 2010 um framkvæmd tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2007/2/EB að því er varðar rekstrarsamhæfi landgagnasafna og -þjónustu, sem vísað er til í lið 1je í XX. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 137/2012 frá 13. júlí 2012. Reglugerðin er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 67 frá 29. nóvember 2012 - 2012/EES/67/05 bls. 15-106.
  6. Reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 102/2011 frá 4. febrúar 2011 um breytingu á reglugerð (ESB) nr. 1089/2010 um framkvæmd tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2007/2/EB að því er varðar rekstrarsamhæfi landgagnasafna og -þjónustu, sem vísað er til í lið 1je í XX. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 137/2012 frá 13. júlí 2012. Reglugerðin er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 67 frá 29. nóvember 2012 - 2012/EES/67/06 bls. 107-128.
  7. Reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 1253/2013 frá 21. október 2013 um breytingu á reglugerð (ESB) nr. 1089/2010 um framkvæmd tilskipunar 2007/2/EB að því er varðar rekstrarsamhæfi landgagnasafna og -þjónustu, sem vísað er til í tölulið 1je, I. kafla, XX. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 137/2014, þann 27. júní 2014. Reglugerðin er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 16 frá 19. mars 2015, 2015/EES/16/26, bls. 321-587.
  8. Reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 1311/2014 frá 10. desember 2014 um breytingu á reglugerð (EB) nr. 976/2009 að því er varðar skilgreiningu á INSPIRE-lýsigagnastaki, sem vísað er til í tölulið 1jc, I. kafla, XX. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 30/2016, þann 5. febrúar 2016. Reglugerðin er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 18 frá 31. mars 2016, 2016/EES/18/38, bls. 281-282.
  9. Reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 1312/2014 frá 10. desember 2014 um breytingu á reglugerð (ESB) nr. 1089/2010 um framkvæmd tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2007/2/EB að því er varðar rekstrarsamhæfi landgagnasafna, sem vísað er til í tölulið 1je, I. kafla, XX. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 30/2016, þann 5. febrúar 2016. Reglugerðin er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 18 frá 31. mars 2016, 2016/EES/18/39, bls. 283-291.

8. gr. Innleiðing.

Reglugerðin er sett til innleiðingar á eftirfarandi gerðum:

  1. Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2007/2/EB frá 14. mars 2007 um notkun og miðlun landupplýsinga, sem vísað er til í lið 1j í XX. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 55/2010 frá 30. apríl 2010.
  2. Ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar 2009/442/EB frá 5. júní 2009 um framkvæmd tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2007/2/EB að því er varðar vöktun og skýrslugjöf, sem vísað er til í lið 1jb í XX. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 124/2010 frá 10. nóvember 2010.
  3. Reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 976/2009 frá 19. október 2009 um framkvæmd tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2007/2/EB að því er varðar netþjónustu, sem vísað er til í lið 1jc í XX. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 137/2012 frá 13. júlí 2012.
  4. Reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 268/2010 frá 29. mars 2010 um framkvæmd tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2007/2/EB að því er varðar aðgang stofnana og aðila Bandalagsins að landgagnasöfnum og -þjónustu aðildarríkjanna við samræmd skilyrði, sem vísað er til í lið 1jd í XX. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 137/2012 frá 13. júlí 2012.
  5. Reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 1088/2010 frá 23. nóvember 2010 um breytingu á reglugerð (EB) nr. 976/2009 að því er varðar niðurhals- og vörpunarþjónustu, sem vísað er til í lið 1jc í XX. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 137/2012 frá 13. júlí 2012.
  6. Reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 1089/2010 frá 23. nóvember 2010 um framkvæmd tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2007/2/EB að því er varðar rekstrarsamhæfi landgagnasafna og -þjónustu, sem vísað er til í lið 1je í XX. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 137/2012 frá 13. júlí 2012.
  7. Reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 102/2011 frá 4. febrúar 2011 um breytingu á reglugerð (ESB) nr. 1089/2010 um framkvæmd tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2007/2/EB að því er varðar rekstrarsamhæfi landgagnasafna og -þjónustu, sem vísað er til í lið 1je í XX. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 137/2012 frá 13. júlí 2012.

9. gr. Gildistaka.

Reglugerð þessi er sett með stoð í 1. mgr. 13. gr. laga nr. 44/2011 um grunngerð fyrir stafrænar landupplýsingar og öðlast þegar gildi.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.