Umhverfis- og auðlindaráðuneyti

750/2013

Reglugerð um viðmiðanir í sjálfbærri lífeldsneytisframleiðslu.

1. gr.

Markmið.

Markmið reglugerðar þessarar er að kveða á um viðmiðanir sem ráða því hvort líf­eldsneyti sem notað er í samgöngum á landi teljist framleitt með sjálfbærum hætti.

2. gr.

Skilgreiningar.

Í reglugerð þessari er merking eftirfarandi orða og orðasambanda sem hér segir:

  1. Endurnýjanlegt eldsneyti: Eldsneyti sem er unnið úr endurnýjanlegum orkugjöfum.
  2. Leifar: Hvers kyns efni eða hlutir sem verða afgangs að loknu framleiðsluferli, þegar meginmarkmið framleiðslunnar er ekki að framleiða viðkomandi efni eða hlut.
  3. Lífeldsneyti: Endurnýjanlegt eldsneyti, í formi vökva eða gass, sem er unnið úr líf­massa.
  4. Lífmassi: Lífbrjótanlegur hluti afurða. Úrgangur og leifar af lífrænum uppruna frá land­búnaði, skógrækt og tengdum iðnaði, fiskveiðum og fiskeldi ásamt lífrænum hluta úrgangs frá iðnaði og heimilum.
  5. Losun gróðurhúsalofttegunda: Það magn gróðurhúsalofttegunda sem losnar í and­rúms­loftið á lífsferli eldsneytis frá framleiðslu til og með notkun.
  6. Úrgangur: Hvers kyns efni eða hlutir sem einstaklingar eða lögaðilar ákveða að losa sig við eða er gert að losa sig við á tiltekinn hátt.

3. gr.

Viðmiðanir um sjálfbæra framleiðslu lífeldsneytis.

Lífeldsneyti sem notað er í samgöngum hér á landi skal, óháð því hvar viðkomandi hrá­efni er upprunnið, uppfylla viðmiðanir 4.-7. gr. reglugerðar þessarar til að framleiðsla þess geti talist sjálfbær í skilningi laga nr. 40/2013 um endurnýjanlegt eldsneyti í sam­göngum á landi.

Lífeldsneyti sem framleitt er úr úrgangi og leifum, að frátöldum leifum frá landbúnaði, fiskeldi, sjávarútvegi og skógrækt, þarf þó eingöngu að uppfylla viðmiðanir 4. gr.

4. gr.

Losun gróðurhúsalofttegunda.

Losun gróðurhúsalofttegunda vegna notkunar lífeldsneytis skal að lágmarki vera 35% minni en dæmigerð losun gróðurhúsalofttegunda ef jarðefnaeldsneyti hefði verið notað í stað þess.

Frá 1. janúar 2017 skal hlutfallið sem getið er í 1. mgr. að lágmarki vera 50%. Ef líf­eldsneyti var framleitt í starfsstöð sem hóf framleiðslu 1. janúar 2017 eða síðar skal hlut­fallið sem getið er í 1. mgr. að lágmarki vera 60% frá 1. janúar 2018.

Samanburður á losun gróðurhúsalofttegunda vegna notkunar lífeldsneytis annars vegar og vegna dæmigerðrar notkunar jarðefnaeldsneytis hins vegar skal gerður með eftir­far­andi hætti:

a)

með því að nota staðalgildi, þar sem það er gefið upp, fyrir minnkun á losun gróður­húsa­lofttegunda fyrir framleiðsluferli í A- eða B-hluta 1. viðauka reglugerðar þessarar og þar sem el-gildið fyrir lífeldsneyti, sem er reiknað í samræmi við 7. lið C-hluta 1. viðauka reglugerðar þessarar, er jafnt og/eða minna en núll,

b)

með því að nota raunverulegt gildi sem reiknað er í samræmi við aðferðina sem mælt er fyrir um í C-hluta 1. viðauka reglugerðar þessarar, eða

c)

með því að nota gildi sem er reiknað sem samtala stuðla formúlunnar sem um getur í 1. lið C-hluta 1. viðauka reglugerðar þessarar, þar sem nota má sundurgreind staðalgildi, í D- eða E-hluta 1. viðauka reglugerðar þessarar, fyrir suma stuðla, og raunveruleg gildi sem reiknuð eru í samræmi við aðferðina sem mælt er fyrir um í C-hluta 1. viðauka reglugerðar þessarar fyrir alla aðra stuðla.



5. gr.

Líffræðileg fjölbreytni.

Lífeldsneyti skal ekki framleitt úr hráefni sem kemur frá landsvæði sem hefur mikið gildi vegna líffræðilegrar fjölbreytni, þ.e. landsvæði sem í janúar 2008 eða síðar gat talist eitt af eftirfarandi, óháð því hvort svo er enn:

a)

frumskógur og annað skóglendi, þ.e. skógur og annað skóglendi með upprunalegum tegundum þar sem engin greinileg ummerki eru um umsvif mannsins og vistfræðileg ferli hafa ekki orðið fyrir marktækri röskun,

b)

svæði sem eru útnefnd:

 

i.

sem náttúruverndarsvæði skv. lögum eða af viðeigandi lögbæru yfirvaldi, eða

 

ii.

sem verndarsvæði vistkerfa sem eru sjaldgæf, er ógnað eða eru í hættu, og sem eru viðurkennd í alþjóðasamningum eða tilgreind í skrám milliríkja­stofnana eða Alþjóðanáttúruverndarsambandsins, að því gefnu að verndar­svæðin hafi hlotið viðurkenningu skv. samningnum um Evrópska efnahags­svæðið, eða

 

iii.

sem verndarsvæði tegunda sem eru sjaldgæfar, er ógnað eða eru í útrým­ingar­hættu, og sem eru viðurkenndar í alþjóðasamningum eða til­greind­ar í skrám milliríkjastofnana eða Alþjóðanáttúruverndarsambandsins, að því gefnu að verndarsvæðin hafi hlotið viðurkenningu skv. samningnum um Evrópska efnahagssvæðið,

 

nema sýnt sé fram á að framleiðslan á hráefninu hafi ekki farið í bága við við­komandi markmið um náttúruvernd,

c)

graslendi þar sem líffræðileg fjölbreytni er mikil og er:

 

i.

náttúrulegt, þ.e. graslendi sem myndi vera áfram graslendi án mannlegrar íhlutunar og sem viðheldur náttúrulegri samsetningu tegunda og vistfræði­legum eiginleikum og ferlum, eða

 

ii.

ekki náttúrulegt, þ.e. graslendi sem myndi ekki vera graslendi áfram án mann­legrar íhlutunar og sem ríkt er af tegundum og hefur ekki hnignað, nema lagðar séu fram sannanir fyrir því að uppskera hráefnanna sé nauð­syn­leg til að vernda stöðu þess sem graslendi.



6. gr.

Kolefnisbirgðir.

Lífeldsneyti skal ekki framleitt úr hráefni sem fengið er af landi þar sem eru miklar kolefnisbirgðir, þ.e. landi sem hafði öðlast einhverja eftirfarandi stöðu í janúar 2008 en hefur ekki þá stöðu lengur:

a)

votlendi, þ.e. land sem er varanlega eða stóran hluta ársins þakið vatni eða mettað af vatni,

b)

samfellt skóglendi, þ.e. land sem er meira en einn hektari að stærð með trjám sem eru hærri en fimm metrar og meira en 30% laufþekju eða með trjám sem geta náð þessum viðmiðunarmörkum á upprunastað,

c)

land sem er meira en einn hektari að stærð með trjám sem eru hærri en fimm metrar og 10-30% laufþekju eða með trjám sem geta náð þessum viðmið­unar­mörkum á upprunastað, nema lagðar séu fram sannanir fyrir því að kolefnis­birgðir svæðisins fyrir og eftir breytingu séu slíkar að þegar notuð er aðferðin sem mælt er fyrir um í C-lið 1. viðauka reglugerðar þessarar séu skilyrðin sem mælt er fyrir um í 4. gr. reglugerðar þessarar uppfyllt.



Ákvæði þessarar greinar gilda ekki ef landið hafði sömu stöðu á þeim tíma sem hráefnið var fengið og það hafði í janúar 2008.

7. gr.

Framræsla lands.

Lífeldsneyti skal ekki framleitt úr hráefni sem fengið er af landi sem var mómýri í janúar 2008, nema lagðar séu fram sannanir fyrir því að ræktun og tekja hráefnisins feli ekki í sér framræslu lands sem ekki hefur verið ræst fram áður.

8. gr.

Innleiðing EES-gerða.

Reglugerðin er sett til innleiðingar á eftirfarandi EES-gerðum:

a)

Ákvæðum 17. - 21. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2009/28/EB frá 23. apríl 2009 um að hvetja til notkunar orku frá endurnýjanlegum orkugjöfum og niðurfellingu tilskipana 2001/77/EB og 2003/30/EB, sem vísað er til í tölul. 41 í IV. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, sbr. ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 162/2011 frá 19. desember 2011, með þeim breytingum og viðbótum sem leiða af reglugerð þessari, IV. viðauka samningsins, bókun 1 við samninginn og öðrum ákvæðum hans.

b)

Ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar 2010/335/ESB frá 10. júní 2010 um leið­beiningar fyrir útreikning á kolefnisbirgðum lands að því er varðar V. viðauka við til­skipun 2009/28/EB, sem vísað er til í tölul. 44 í IV. viðauka samningsins um Evr­ópska efnahagssvæðið, sbr. ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 221/2012 frá 6. desember 2012, með þeim breytingum og viðbótum sem leiða af reglu­gerð þessari, IV. viðauka samningsins, bókun 1 við samninginn og öðrum ákvæðum hans.



9. gr.

Lagastoð og gildistaka.

Reglugerð þessi er sett með stoð í 2. mgr. 4. gr. laga nr. 40/2013 um endurnýjanlegt eldsneyti í samgöngum á landi.

Reglugerðin öðlast þegar gildi.

Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, 25. júlí 2013.

F. h. r.

Stefán Thors.

Hugi Ólafsson.

VIÐAUKAR
(sjá PDF-skjal)


Þetta vefsvæði byggir á Eplica