Umhverfis- og auðlindaráðuneyti

71/2013

Reglugerð um skráningarkerfi fyrir losunarheimildir. - Brottfallin

1. gr.

Gildissvið.

Reglugerð þessi mælir fyrir um kröfur sem varða starfrækslu og viðhald skráningarkerfis fyrir losunarheimildir íslenska ríkisins, losunarheimildir aðila sem heyra undir gildissvið viðskiptakerfis ESB og losunarheimildir annarra aðila. Reglugerðin gildir einnig um eftirlit rafrænna eftirlitskerfa með aðgerðum í skráningarkerfinu.

2. gr.

Skilgreiningar.

Í reglugerð þessari er merking orða og orðasambanda sem hér segir:

Aðili: Einstaklingur eða lögaðili.

Flugrekandi: Aðili sem rekur loftfar og notar það til að stunda flugstarfsemi sem tilgreind er í II. viðauka laga nr. 70/2012 um loftslagsmál eða, ef aðilinn er óþekktur eða ekki tilgreindur af eiganda loftfars, eigandi loftfarsins. Flugrekandi er einnig nefndur umráðandi loftfars.

Koldíoxíðsígildi: Eitt tonn af koldíoxíðsígildi samsvarar einu tonni af koldíoxíði eða því magni gróðurhúsalofttegunda sem getið er í III. viðauka laga nr. 70/2012 um loftslagsmál sem hefur sambærilegan hnatthlýnunarmátt.

Landsstjórnandi: Stjórnvald eða annar aðili sem ber ábyrgð fyrir hönd ríkis Evrópska efnahagssvæðisins á umsjón reikninga sem tilheyra viðkomandi ríki í skráningarkerfi með losunarheimildir.

Losunarheimild: Heimild til losunar gróðurhúsalofttegunda. Ein losunarheimild jafngildir heimild til losunar á einu tonni af koldíoxíðsígildi á tilteknu tímabili.

Lögbært stjórnvald: Stjórnvald sem ber ábyrgð á framkvæmd reglna um viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir.

Rekstraraðili: Aðili sem starfrækir eða stjórnar starfsstöð eða ber fjárhagslega ábyrgð á tæknilegri virkni starfsstöðvar þar sem fram fer starfsemi sem getið er í I. viðauka laga nr. 70/2012 um loftslagsmál.

Skrá sambandsins: Sameiginlegt skráningarkerfi Evrópusambandsins þar sem vistaðir eru allir reikningar sem tilheyra ríkjum Evrópska efnahagssvæðisins.

Viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir: Kerfi sem starfrækt er á Evrópska efnahags­svæðinu samkvæmt tilskipun 2003/87/EB, sbr. samninginn um Evrópska efnahagssvæðið.

Vottuð losunarskýrsla: Skýrsla rekstraraðila eða flugrekanda um losun gróðurhúsa­lofttegunda á undangengnu almanaksári skv. 3. mgr. 13. gr. eða 5. mgr. 21. gr. laga nr. 70/2012 um loftslagsmál, sem vottuð er af óháðum vottunaraðila í samræmi við ákvæði VII. kafla sömu laga.

3. gr.

Lögbært stjórnvald og landsstjórnandi.

Umhverfisstofnun er lögbært stjórnvald vegna viðskiptakerfis ESB með losunarheimildir.

Umhverfisstofnun er landsstjórnandi íslenska ríkisins vegna skráningarkerfis fyrir losunar­heimildir og hefur umsjón með stofnun og lokun reikninga, aðgangi að reikningum og skráningu upplýsinga um reikningseigendur og aðgangshafa hvað varðar reikninga íslenska ríkisins og reikninga í skrá sambandsins sem eru í eigu aðila sem heyra undir lögsögu Íslands. Umhverfisstofnun skal einnig veita reikningseigendum og aðgangshöfum skráningar­kerfisins aðstoð við notkun þess.

Stjórnvaldsákvarðanir Umhverfisstofnunar skv. reglugerð þessari eru kæranlegar til ráð­herra.

4. gr.

Samræmdar reglur um skráningarkerfi á Evrópska efnahagssvæðinu.

Til fyllingar ákvæðum VI. kafla laga nr. 70/2012 um loftslagsmál og reglugerðar þessarar skulu gilda samræmdar reglur um skráningarkerfi losunarheimilda í viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir, sbr. 9. gr. reglugerðar þessarar.

5. gr.

Skilyrði fyrir stofnun reikninga aðila innan Evrópska efnahagssvæðisins.

Aðilar innan Evrópska efnahagssvæðisins geta aðeins óskað eftir því að stofnaður verði einkavörslureikningur eða einkaviðskiptareikningur í skrá sambandsins ef þeir hafa fasta búsetu á Íslandi. Ef um lögaðila er að ræða skal hann vera skráður á Íslandi.

6. gr.

Staðfesting vottaðrar losunar.

Umhverfisstofnun er heimilt að fela vottunaraðila að staðfesta með yfirlýsingu að losun sem tilgreind er í vottaðri losunarskýrslu rekstraraðila eða flugrekanda sé rétt áður en viðkomandi losunartala í skráningarkerfinu verður merkt sem vottuð, sbr. 4. mgr. 32. gr. reglugerðar (ESB) nr. 1193/2011, sbr. 2. tl. 9. gr. reglugerðar þessarar.

7. gr.

Tímafrestur fyrir framkvæmd tiltekinna aðgerða.

Við útreikning á tímafresti sem getið er í 3. mgr. 36. gr. reglugerðar (ESB) nr. 1193/2011, sbr. 2. tl. 9. gr. reglugerðar þessarar, skal ekki telja með almenna frídaga á Íslandi milli 00:00 og 24:00 að Mið-Evróputíma.

8. gr.

Þagnarskylda starfsmanna.

Starfsfólk Umhverfisstofnunar sem sinnir verkefnum skv. reglugerð þessari er bundið trúnaði um allar trúnaðarupplýsingar sem það verður áskynja í starfi sínu og leynt skulu fara. Undir trúnaðarupplýsingar heyra m.a. upplýsingar um mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni aðila, upplýsingar um eignarhald reikninga, stöðu losunarheimilda og millifærslur í skrán­ingar­kerfi með losunarheimildir. Þagnarskyldan helst þótt látið sé af starfi.

Þrátt fyrir 1. mgr. er Umhverfisstofnun heimilt að afhenda upplýsingar innlendum og erlendum stjórnvöldum og stofnunum sem fara með eftirlits- og stjórnsýsluhlutverk í tengslum við skráningarkerfið, þó eingöngu að því marki sem þessum aðilum er nauðsynlegt til að rækja hlutverk sitt. Við afhendingu upplýsinga skal tryggt að upplýsingar berist ekki óviðkomandi aðilum.

Notendur skráningarkerfisins geta óskað eftir því að litið verði á tilteknar upplýsingar, aðrar en þær sem tilgreindar eru í 1. mgr., sem sendar eru Umhverfisstofnun skv. reglugerð þessari, sem trúnaðarmál. Ef ósk berst um afhendingu slíkra upplýsinga er Umhverfisstofnun óheimilt að afhenda þær nema aðila hafi verið veittur a.m.k. sjö daga frestur til að tjá sig um framkomna beiðni.

9. gr.

Innleiðing EES-gerða.

Eftirfarandi EES-gerðir skulu öðlast gildi hér á landi:

  1. Reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 920/2010 frá 7. október 2010 um staðlað og varið skráningarkerfi samkvæmt tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2003/87/EB og ákvörðun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 280/2004/EB, sem vísað er til í tölulið 21an, III. kafla, XX. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 156/2011, frá 1. desember 2011, með þeim breytingum og viðbótum sem leiðir af reglugerð þessari, XX. viðauka samningsins, bókun 1 við samninginn og öðrum ákvæðum hans. Reglugerðin er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 12 frá 1. mars 2012, 2012/EES/12/39, bls. 306-357.
  2. Reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 1193/2011 frá 18. nóvember 2011 um stofnun skrár Sambandsins yfir viðskiptatímabilið sem hefst 1. janúar 2013 og síðari viðskiptatímabil í kerfi Sambandsins fyrir viðskipti með heimildir til losunar gróðurhúsalofttegunda samkvæmt tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2003/87/EB og ákvörðun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 280/2004/EB og um breytingu á reglugerðum framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 2216/2004 og (ESB) nr. 920/2010, sem vísað er til í töluliðum 21an og 21ana, III. kafla, XX. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 236/2012, frá 31. desember 2012, með þeim breytingum og við­bótum sem leiðir af reglugerð þessari, XX. viðauka samningsins, bókun 1 við samning­inn og öðrum ákvæðum hans. Reglugerðin er birt í fylgiskjali 1 við reglugerð þessa.

10. gr.

Lagastoð og gildistaka.

Reglugerð þessi er sett með stoð í 22. gr. g laga nr. 70/2012 um loftslagsmál.

Reglugerðin öðlast þegar gildi. Við gildistöku þessarar reglugerðar fellur úr gildi reglugerð nr. 360/2012 um skráningarkerfi fyrir losunarheimildir.

Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, 4. janúar 2013.

Svandís Svavarsdóttir.

Sigríður Auður Arnardóttir.

Fylgiskjal.
(sjá PDF-skjal)

Reglugerð sem fellur brott:


Þetta vefsvæði byggir á Eplica