Fara beint í efnið

Prentað þann 28. mars 2024

Stofnreglugerð

520/2017

Reglugerð um gagnasöfnun og upplýsingagjöf stofnana vegna bókhalds Íslands yfir losun gróðurhúsalofttegunda og bindingu kolefnis úr andrúmslofti.

I. KAFLI Almenn ákvæði.

1. gr. Gildissvið.

Reglugerð þessi fjallar um gagnasöfnun og upplýsingagjöf stofnana vegna bókhalds yfir losun gróðurhúsalofttegunda og bindingu kolefnis úr andrúmslofti í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar Íslands á því sviði.

2. gr. Skilgreiningar.

Í reglugerð þessari er merking orða og orðasambanda sem hér segir:

Binding kolefnis úr andrúmslofti: Binding frumefnisins kolefnis (C) úr andrúmslofti með ljóstillífun, svo sem með skógrækt og landgræðslu.

Gróðurhúsalofttegundir: Lofttegundir sem tilgreindar eru í viðauka I við reglugerð ESB nr. 525/2013 sem birt er í viðauka við reglugerð þessa.

Kýótó-bókunin (Kyoto Protocol to the United Nations Framework Convention on Climate Change) ásamt Doha-breytingunni á Kýótó-bókuninni: Bókun við rammasamning Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar sem samþykkt var á aðildarríkjaþingi loftslagssamningsins árið 1997. Doha-breytingin á Kýótó-bókuninni var samþykkt á aðildarríkjaþingi loftslagssamningsins árið 2012.

Landsskýrsla um losun gróðurhúsalofttegunda (National Inventory Report): Skýrsla um losun gróðurhúsalofttegunda sem Íslandi ber skv. rammasamningi Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar að senda skrifstofu samningsins árlega.

Losun gróðurhúsalofttegunda: Útstreymi gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftið af manna-völdum.

Losunarbókhald: Bókhald yfir losun gróðurhúsalofttegunda og bindingu kolefnis úr andrúmslofti sem Íslandi er skylt að halda skv. rammasamningi Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar. Ísland þarf að standa skil á losun gróðurhúsalofttegunda frá eftirfarandi uppsprettum:

  1. Flokkur 1: Orka.
  2. Flokkur 2: Iðnaðarferlar og efna-/vörunotkun.
  3. Flokkur 3: Landbúnaður.
  4. Flokkur 4: Landnotkun, breytt landnotkun og skógrækt.
  5. Flokkur 5: Úrgangur.
  6. Flokkur 6: Annað.

Rammasamningur Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (United Nations Framework Convention on Climate Change): Alþjóðlegur samningur um loftslagsmál sem undirritaður var á heimsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um umhverfi og þróun árið 1992.

Samkomulag um sameiginlegar efndir: Samkomulag á milli Íslands annars vegar og Evrópusambandsins og aðildarríkja þess hins vegar um þátttöku Íslands, í sameiginlegum efndum á skuldbindingum aðila á öðru skuldbindingartímabili Kýótó-bókunarinnar við rammasamning Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar.

Skýrsla um upphafsstöðu Íslands á öðru skuldbindingartímabili Kýótó-bókunarinnar, 2013-2020 (Iceland´s Initial Report for the second commitment period under the Kyoto Protocol): Skýrsla sem Ísland sendi skrifstofu rammasamnings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar árið 2016 í samræmi við ákvæði Doha-breytingarinnar á Kýótó-bókuninni. Í skýrslunni koma fram forsendur fyrir útreikningi á losunarheimildum Íslands á öðru skuldbindingartímabili Kýótó-bókunarinnar og lýsing á því hvernig Ísland hyggst standa við skuldbindingar sínar skv. bókuninni.

3. gr. Leiðbeiningarefni.

Í ákvæðum reglugerðar þessarar er vísað til alþjóðlegs leiðbeiningarefnis varðandi aðferðafræði við skráningu og vinnslu upplýsinga vegna bókhalds yfir losun gróðurhúsalofttegunda og bindingu kolefnis úr andrúmslofti. Leiðbeiningarefnið hefur að geyma viðeigandi og tækar leiðir til að fullnægja skilyrðum þeim sem í reglugerð þessari er lýst eða er þeim til frekari fyllingar.

Umhverfisstofnun skal halda utan um, uppfæra og hafa aðgengilegt skjal þar sem koma fram nánari upplýsingar um það leiðbeiningarefni sem hver stofnun skal styðjast við og fara eftir við gerð bókhaldsins.

4. gr. Hlutverk Umhverfisstofnunar.

Umhverfisstofnun hefur yfirumsjón með og ber ábyrgð á gerð bókhalds Íslands yfir losun gróðurhúsalofttegunda og bindingu kolefnis úr andrúmslofti. Athuga ber að hver stofnun sem fjallað er um í III. kafla þessarar reglugerðar ber ábyrgð á þeim gögnum sem sú stofnun sendir frá sér.

Umhverfisstofnun safnar árlega saman upplýsingum sem nauðsynlegar eru vegna bókhaldsins með aðstoð annarra stofnana líkt og kveðið er á um í reglugerð þessari og vinnur úr þeim landsskýrslu um losun gróðurhúsalofttegunda í samræmi við rammasamning Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar.

Umhverfisstofnun veitir leiðbeiningar í tengslum við bókhaldið.

5. gr. Skýrslugjöf og tímafrestir vegna samkomulags um sameiginlegar efndir.

Umhverfisstofnun skal sinna skýrslugjöf, sbr. samkomulag um sameiginlegar efndir á öðru skuldbindingartímabili Kýótó-bókunarinnar, samkvæmt tímafrestum sem gefnir eru í reglugerð (ESB) nr. 525/2013 um stjórntæki til vöktunar og skýrslugjafar um losun gróðurhúsalofttegunda og einnig skýrslugjafar um annars konar upplýsingar innanlands eða á sviði sambandsins sem snerta loftslagsbreytingar sem fellir úr gildi ákvörðun nr. 280/2004/EB, sbr. 23. gr. og viðauka við reglugerð þessa og samkvæmt frestum sem gefnir eru í gildandi og síðari framseldum gerðum og framkvæmdagerðum sem byggjast á reglugerð (ESB) nr. 525/2013.

II. KAFLI Upplýsingar um orkumál.

6. gr. Upplýsingar frá Orkustofnun.

Orkustofnun skal safna og veita upplýsingar vegna losunarbókhaldsins að því er varðar orku. Orkustofnun skal 15. maí ár hvert afhenda Umhverfisstofnun bráðabirgðaupplýsingar og 30. september ár hvert heildarupplýsingar vegna undangengis almanaksárs er varðar eftirfarandi:

  1. Orkujöfnuð (e. energy balance) í samræmi við handbók Alþjóðaorkumálastofnunarinnar um tölfræði orkumála.
  2. Orkureikning (e. energy account) með upplýsingum um notkun allra tegunda jarðefnaeldsneytis hér á landi, eftir notkunarflokkum í samræmi við flokkun leiðbeininga milliríkjanefndar um loftslagsbreytingar um losunarbókhald, eftir því sem best á við. Þessu skal skilað á því formi sem Umhverfisstofnun óskar eftir. Einnig skal veita upplýsingar á sveiflum í eldsneytisnotkun milli ára (e. trend analysis).
  3. Upplýsingar um jarðhita, nánar tiltekið um orkuframleiðslu eftir staðsetningu, losun gróðurhúsalofttegunda, sbr. viðauka við þessa reglugerð, þ. á m. frá holum í blæstri, aðferðafræði við gagnaöflun og aðferðafræði við mat á útstreymi mengandi efna.

Tölulegum gögnum skal skilað á stöðluðu formi sem Umhverfisstofnun lætur Orkustofnun í té.

Upplýsingar um eftirfarandi skulu einnig fylgja:

  1. Sveiflur í eldsneytisnotkun eftir flokkum milli ára.
  2. Gagnasöfnun.
  3. Gæðaferla.
  4. Óvissumat.
  5. Breytingar á gögnum aftur í tímann.

Orkustofnun, í samráði við Umhverfisstofnun, skal tryggja að við söfnun og vinnslu upplýsinga sem fjallað er um í grein þessari séu að lágmarki uppfyllt viðmið sem fram koma í leiðbeiningum milliríkjanefndar um loftslagsbreytingar um losunarbókhald. Í upplýsingunum skal koma fram hvernig greint er á milli innlendrar notkunar og notkunar á milli landa á eldsneyti. Orkustofnun skal í samráði við Umhverfisstofnun meta óvissu gagnanna í samræmi við leiðbeiningar milliríkjanefndar um loftslagsbreytingar og skýra frá þeim gæðaferlum sem framkvæmdir eru.

III. KAFLI Upplýsingar um landnotkun, breytta landnotkun og skógrækt.

7. gr. Samvinna stofnana er varðar gagnasöfnun um landnotkun,breytta landnotkun og skógrækt.

Landbúnaðarháskóli Íslands skal, í samvinnu við Skógræktina og Landgræðslu ríkisins, rita tilheyrandi kafla um landnotkun, breytta landnotkun og skógrækt í landsskýrslu um losun gróðurhúsalofttegunda á þann hátt sem tilgreint er í viðauka 1 við leiðbeiningar rammasamnings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar um landsskýrslur og í viðauka við leiðbeiningar um upplýsingagjöf skv. 7. gr. Kýótó-bókunarinnar.

8. gr. Upplýsingar frá Landbúnaðarháskóla Íslands.

Landbúnaðarháskóli Íslands ritar kafla um landnotkun, breytta landnotkun og fjarlægingu tengda þeim aðgerðum, í landsskýrslu um losun gróðurhúsalofttegunda og skilar viðkomandi tölulegum upplýsingum, öðrum en varða skóga, skógrækt og landgræðslu.

Landbúnaðarháskóli Íslands skal skila bráðabirgðatölum, öðrum en varða skóga, skógrækt og landgræðslu í skilagátt rammasamnings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar eigi síðar en 15. júlí ár hvert. Endanlegar upplýsingar skulu berast í skilagátt rammasamnings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar fyrir 1. desember ár hvert vegna undangengins almanaksárs.

Gagnasöfnun samkvæmt ákvæði þessu skal að lágmarki uppfylla skilyrði sem fram koma í leiðbeiningum milliríkjanefndar um loftslagsbreytingar um losunarbókhald. Hið sama gildir um gæði viðkomandi gagna. Óvissumat gagna skal vera í samræmi við leiðbeiningar milliríkjanefndar um loftslagsbreytingar um losunarbókhald. Eftir því sem við á, skal einnig stuðst við leiðbeiningarnar að því er varðar landnotkun, breytta landnotkun og skógrækt.

9. gr. Upplýsingar frá Skógræktinni.

Rannsóknastöð skógræktar á Mógilsá (rannsóknasvið Skógræktarinnar) hefur umsjón með vinnslu upplýsinga sem fjallað er um í ákvæði þessu fyrir hönd Skógræktarinnar.

Rannsóknastöð skógræktar á Mógilsá skal fyrir 1. júlí ár hvert afhenda Landbúnaðarháskóla Íslands bráðabirgðaupplýsingar skv. a- og b-lið. Endanlegar upplýsingar skv. a- og b-lið skulu afhentar Landbúnaðarháskóla Íslands fyrir 1. október ár hvert. Rannsóknastöð Skógræktar á Mógilsá skal fyrir 15. júlí ár hvert skila bráðabirgðaupplýsingum skv. a-, b-, c- og d-lið í skilagátt rammasamnings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar, vegna undangengins almanaksárs. Endanlegar upplýsingar skv. a-, b-, c- og d-lið skulu berast í skilagátt rammasamnings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar fyrir 1. desember ár hvert:

  1. Flatarmál og landfræðileg staðsetning svæða sem tengjast skógrækt, sundurliðað eftir tegund landnotkunar, samkvæmt kröfum rammasamnings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar, fyrir hvert ár á tímabilinu frá 1990 til undangengins almanaksárs.
  2. Flatarmál og landfræðileg staðsetning skóga og skógræktaraðgerða sem heyra undir 3. mgr. 3. gr. og 4. mgr. 3. gr. Kýótó-bókunarinnar fyrir hvert ár á tímabilinu frá 2008 fyrir skóga og skógræktaraðgerðir sem heyra undir 4. mgr. 3. gr. til undangengins almanaksárs.
  3. Mat á losun gróðurhúsalofttegunda og bindingu kolefnis úr andrúmslofti vegna landnotkunarflokka sem tengjast skógrækt. Matið skal samræmast kröfum rammasamnings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar og Kýótó-bókunarinnar.
  4. Tilheyrandi kafli landsskýrslu um losun gróðurhúsalofttegunda sem snúa að skógrækt.

Gagnasöfnun samkvæmt ákvæði þessu skal að lágmarki uppfylla skilyrði sem fram koma í leiðbeiningum milliríkjanefndar um loftslagsbreytingar um losunarbókhald. Hið sama gildir um gæði viðkomandi gagna. Óvissumat gagna skal vera í samræmi við leiðbeiningar milliríkjanefndar um loftslagsbreytingar um losunarbókhald. Eftir því sem við á, skal einnig stuðst við leiðbeiningarnar að því er varðar landnotkun, breytta landnotkun og skógrækt.

10. gr. Upplýsingar frá Landgræðslu ríkisins.

Landgræðsla ríkisins skal í síðasta lagi 1. júlí ár hvert afhenda Landbúnaðarháskóla Íslands bráðabirgðaupplýsingar skv. a- og b-lið. Endanlegar upplýsingar skv. a- og b-lið skulu afhentar Landbúnaðarháskóla Íslands fyrir 1. október ár hvert. Landgræðsla ríkisins skal fyrir 15. júlí ár hvert skila bráðabirgðaupplýsingum skv. a-, b-, c- og d-lið í skilagátt rammasamnings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar, vegna undangengins almanaksárs. Endanlegar upplýsingar skv. a‑, b-, c- og d-lið skulu berast í skilagátt rammasamnings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar fyrir 1. desember ár hvert:

  1. Flatarmál og landfræðileg staðsetning svæða sem tengjast landgræðslu, sundurliðað eftir landnotkunarflokkum samkvæmt kröfum rammasamnings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar, fyrir hvert ár á tímabilinu frá 1990 til undangengins almanaksárs.
  2. Flatarmál og landfræðileg staðsetning landgræðsluaðgerða sem heyra undir 4. mgr. 3. gr. Kýótó-bókunarinnar fyrir annars vegar 1990 og hins vegar fyrir hvert ár á tímabilinu frá 2008 til undangengins almanaksárs.
  3. Mat á losun gróðurhúsalofttegunda og bindingu kolefnis úr andrúmslofti vegna landnotkunarflokka sem tengjast landgræðslu. Matið skal samræmast kröfum rammasamnings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar og Kýótó-bókunarinnar.
  4. Tilheyrandi kafli landsskýrslu um losun gróðurhúsalofttegunda sem snúa að landgræðslu.

Gagnasöfnun samkvæmt ákvæði þessu skal að lágmarki uppfylla þau skilyrði sem fram koma í leiðbeiningum milliríkjanefndar um loftslagsbreytingar um losunarbókhald. Hið sama gildir um gæði viðkomandi gagna. Óvissumat gagna skal vera í samræmi við leiðbeiningar milliríkjanefndar um loftslagsbreytingar um losunarbókhald. Eftir því sem við á, skal einnig stuðst við leiðbeiningarnar að því er varðar landnotkun, breytta landnotkun og skógrækt.

11. gr. Réttindi Landbúnaðarháskóla Íslands, Skógræktarinnar og Landgræðslu ríkisins.

Stofnanir og starfsmenn þeirra sem hafa umsjón með vinnslu gagna sem fjallað er um í kafla þessum og rita viðkomandi hluta landsskýrslu um losun gróðurhúsalofttegunda skulu nefndir höfundar viðkomandi efnis í skýrslunni og tengdum skýrslum.

IV. KAFLI Upplýsingar um landbúnað.

12. gr. Upplýsingar frá Matvælastofnun.

Matvælastofnun skal í síðasta lagi 15. maí ár hvert afhenda Umhverfisstofnun upplýsingar vegna undangengins almanaksárs um:

  1. Fjölda eftirfarandi búfjár:

    1. Mjólkurkúa, holdakúa, kvíga, geldneyta, kálfkvíga og kálfnauta.
    2. Áa, hrúta, gemlinga og lamba.
    3. Hryssa, hesta, tryppa og folalda.
    4. Gylta og galta.
    5. Huðna, hafra og kiðlinga.
    6. Varphænsna, holdahænsna, lífunga, anda, gæsa og kalkúna.
    7. Minka, refa og kanína.
  2. Magn köfnunarefnis í innfluttum tilbúnum áburði auk kölkunarefnis í innfluttum áburði.

Tölulegum gögnum skal skilað á stöðluðu formi sem Umhverfisstofnun lætur Matvælastofnun í té.

Umhverfisstofnun er heimilt að óska eftir öðrum þeim upplýsingum frá Matvælastofnun sem nauðsynlegar eru vegna bókhalds Íslands yfir losun gróðurhúsalofttegunda og bindingu kolefnis úr andrúmslofti.

13. gr. Upplýsingar frá Landbúnaðarháskóla Íslands.

Landbúnaðarháskóli Íslands skal í síðasta lagi 1. nóvember ár hvert afhenda Umhverfisstofnun upplýsingar vegna undangengins almanaksárs, um flatarmál framræstra túna sem innihalda lífrænan jarðveg og losun díköfnunarefnisoxíðs (N2O) frá þeim.

Landbúnaðarháskóli Íslands skal aðstoða Umhverfisstofnun við mat á eftirfarandi:

  1. Meltanleika fóðurs fyrir nautgripi og sauðfé. Nautgripir skulu flokkaðir í mjólkurkýr, holdakýr, kvígur, geldneyti, kálfkvígur og kálfnaut. Sauðfé skal flokkað í ær, hrúta, gemlinga og lömb.
  2. Magni köfnunarefnis í búfjáráburði nautgripa og sauðfjár. Nautgripir skulu flokkaðir í mjólkurkýr, holdakýr, kvígur, geldneyti, kálfkvígur og kálfnaut. Sauðfé skal flokkað í ær, hrúta, gemlinga og lömb.
  3. Skiptingu búfjáráburðar fyrir hverja búfjártegund eftir aðferðum til meðhöndlunar áburðarins.

Umhverfisstofnun er heimilt að óska eftir öðrum þeim upplýsingum frá Landbúnaðarháskóla Íslands sem nauðsynlegar eru vegna bókhalds Íslands yfir losun gróðurhúsalofttegunda og bindingu kolefnis úr andrúmslofti.

V. KAFLI Aðrar upplýsingar.

14. gr. Upplýsingar frá Hagstofu Íslands.

Hagstofa Íslands skal í síðasta lagi 15. maí ár hvert afhenda Umhverfisstofnun upplýsingar vegna undangengins almanaksárs um eftirfarandi:

  1. Verga þjóðarframleiðslu.
  2. Framleiðslu á malbiki.
  3. Framleiðslu á matvælum og drykkjum.
  4. Uppskeru grænmetis og korns.
  5. Innflutning á leysiefnum og vörum sem innihalda leysiefni.
  6. Fjölda innfluttra ísskápa sundurliðað eftir löndum.
  7. Innflutning og útflutning á eldsneyti.
  8. Innflutning og útflutning á viðarafurðum.

Tölulegum gögnum skal skilað á stöðluðu formi sem Umhverfisstofnun lætur Hagstofu Íslands í té.

Umhverfisstofnun er heimilt að óska eftir öðrum þeim upplýsingum frá Hagstofu Íslands sem nauðsynlegar eru vegna bókhalds Íslands yfir losun gróðurhúsalofttegunda og bindingu kolefnis úr andrúmslofti.

15. gr. Upplýsingar frá Samgöngustofu.

Samgöngustofa skal í síðasta lagi 15. maí ár hvert afhenda Umhverfisstofnun upplýsingar vegna undangengins almanaksárs um skráningu, akstur, eldsneytiseyðslu og mengunarvarnabúnað ökutækja. Upplýsingarnar skulu flokkaðar og þeim skilað á því formi er Umhverfisstofnun óskar eftir.

Umhverfisstofnun er heimilt að óska eftir öðrum þeim upplýsingum frá Samgöngustofu sem nauðsynlegar eru vegna bókhalds Íslands yfir losun gróðurhúsalofttegunda og bindingu kolefnis úr andrúmslofti.

16. gr. Upplýsingar frá Úrvinnslusjóði.

Úrvinnslusjóður skal í síðasta lagi 15. maí ár hvert afhenda Umhverfisstofnun upplýsingar um framleiðslu og innflutning á málningu og prentlitum vegna undangengins almanaksárs.

Umhverfisstofnun er heimilt að óska eftir öðrum þeim upplýsingum frá Úrvinnslusjóði sem nauðsynlegar eru vegna bókhalds Íslands yfir losun gróðurhúsalofttegunda og bindingu kolefnis úr andrúmslofti.

17. gr. Upplýsingar frá tollstjóra.

Umhverfisstofnun er heimilt að krefja tollstjóra um upplýsingar sem hann býr yfir um innflutning og útflutning á vörum, auk upplýsinga um innflutningsaðila sem nauðsynlegar eru vegna bókhalds Íslands yfir losun gróðurhúsalofttegunda og bindingu kolefnis úr andrúmslofti.

18. gr. Upplýsingagjöf Umhverfisstofnunar til annarra stofnana.

Umhverfisstofnun skal í síðasta lagi 30. maí ár hvert afhenda Orkustofnun eftirfarandi upplýsingar vegna undangengins almanaksárs:

  1. Upplýsingar um eldsneytisnotkun í iðnaði.
  2. Upplýsingar um magn og orkuinnihald úrgangs sem brenndur er í sorpbrennslustöðvum með varmanýtingu.

VI. KAFLI Sameiginleg ákvæði varðandi upplýsingagjöf og notkun upplýsinga.

19. gr. Meðferð gagna og upplýsinga.

Óheimilt er að nota gögn og upplýsingar sem afhentar eru samkvæmt ákvæðum reglugerðar þessarar í öðrum tilgangi en sem viðvíkur bókhaldi Íslands yfir losun gróðurhúsalofttegunda nema í fullu samráði við þann aðila sem afhenti gögnin og upplýsingarnar.

Ef gögn og upplýsingar sem afhentar eru samkvæmt ákvæðum reglugerðar þessarar flokkast sem trúnaðargögn og -upplýsingar skal tryggja að Umhverfisstofnun verði gert viðvart þegar viðkomandi gögn og upplýsingar eru sendar stofnuninni. Umhverfisstofnun skal ekki birta slík gögn og upplýsingar þannig að hægt verði að rekja uppruna þeirra.

20. gr. Samkomulag um ítarlegri reglur eða frávik.

Stofnunum sem bera skyldur samkvæmt reglugerð þessari er heimilt að gera samkomulag sín á milli til að kveða nánar á um skyldur sínar eða samvinnu. Með slíku samkomulagi má einnig víkja frá ákvæðum II.-V. kafla reglugerðarinnar ef tryggt er að frávikið komi ekki í veg fyrir að bókhald Íslands yfir losun gróðurhúsalofttegunda uppfylli alþjóðlegar kröfur.

21. gr. Beiðni um frekari gögn.

Umhverfisstofnun er heimilt að krefja stjórnvöld, stofnanir, fyrirtæki og einstaklinga í atvinnurekstri um gögn og upplýsingar sem þau búa yfir og Umhverfisstofnun þarfnast vegna bókhalds Íslands yfir losun gróðurhúsalofttegunda. Umhverfisstofnun skal haga gagnasöfnun sinni á þann hátt að fyrirhöfn upplýsingagjafa við að láta í té gögn sé hófleg. Stofnunin skal leitast við að afla gagna úr stjórnsýsluskrám og öðrum opinberum skrám og gagnasöfnum þegar því verður við komið. Skylt er að veita Umhverfisstofnun upplýsingarnar á því formi sem hún óskar eftir, innan einnar viku, ef kostur er og án þess að gjald komi fyrir. Umhverfisstofnun skal upplýsa í hvaða tilgangi gagna er aflað.

VII. KAFLI Innleiðing.

22. gr.

Eftirfarandi gerð skal öðlast gildi hér á landi:

Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 525/2013, frá 21. maí 2013 um stjórntæki til vöktunar og skýrslugjafar um losun gróðurhúsalofttegunda og einnig skýrslugjafar um annars konar upplýsingar innlands eða á sviði sambandsins sem snerta loftslagsbreytingar sem fellir úr gildi ákvörðun nr. 280/2004/EB.

Reglugerðin sem birt er í viðauka við reglugerð þessa, gildir í heild sinni að undanskildum ákvæðum 4. gr., f-lið 7. gr., 15.-20. gr. og 22. gr.

VIII. KAFLI Lokaákvæði.

23. gr. Kostnaður.

Hver stofnun ber kostnað af þeim verkefnum sem hún innir af hendi skv. reglugerð þessari, þ. á m. kostnað vegna þátttöku í samráðsfundum.

24. gr. Kæruheimild.

Rísi ágreiningur um framkvæmd reglugerðar þessarar er heimilt að vísa honum til ráðherra til úrskurðar. Ráðherra skal kveða upp úrskurð svo fljótt sem auðið er og eigi síðar en átta vikum eftir að honum berst mál í hendur.

25. gr. Lagastoð og gildistaka.

Reglugerð þessi er sett með stoð í 3. mgr. 6. gr. laga nr. 70/2012 um loftslagsmál.

Reglugerðin öðlast þegar gildi.

Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, 17. maí 2017.

Björt Ólafsdóttir.

Hugi Ólafsson.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.