Fara beint í efnið
Fyrri útgáfa

Prentað þann 28. mars 2024

Reglugerð með breytingum síðast breytt 31. des. 2019

325/2016

Reglugerð um meðferð elds og varnir gegn gróðureldum.

I. KAFLI Markmið og skilgreiningar.

1. gr. Markmið.

Markmið reglugerðar þessarar er að vernda umhverfið og heilsu fólks með því að koma í veg fyrir mengun af sinubrennu, öðrum gróðureldum og meðferð elds á víðavangi. Þá er það einnig markmið reglugerðarinnar að tryggja öryggi og vernd lífs og eigna.

2. gr. Skilgreiningar.

  1. Bálköstur: Brennanlegt efni sem hlaðið hefur verið upp til brennslu.
  2. Lítil brenna: Þegar bálköstur er brenndur til skemmtunar og áætlaður brennutími með góðum loga er að hámarki ein klukkustund.
  3. Opinn eldur: Allur eldur sem kveiktur er utandyra, þ.m.t. þegar kveikt er í bálkesti eða sinu, sbr. III. og IV. kafla.
  4. Stór brenna: Þegar bálköstur er brenndur til skemmtunar og áætlaður brennutími með góðum loga er ein til fjórar klukkustundir.

II. KAFLI Almennt um meðferð elds og eldvarnir.

3. gr. Meðferð opins elds.

Óheimilt er að kveikja eld á víðavangi, á lóðum eða annars staðar utandyra þar sem almannahætta getur stafað af eða hætt er umhverfi, gróðri, dýralífi eða mannvirkjum.

Gæta skal ítrustu varkárni við alla meðferð opins elds og ekki skilja við hann óvaktaðan. Fara skal þannig með opinn eld að ekki sé hætta á að hann breiðist út, þ.e. að hann geti ekki borist í mannvirki eða gróður. Tryggja skal möguleika á að slökkva eldinn ef þörf krefur. Brennslu skal stjórnað og hún skal vera undir viðeigandi eftirliti, þar til eldur og glæður eru slökkt á þann hátt að ekki sé hætta á að eldur kvikni að nýju.

Taka skal tillit til vindstyrks, vindáttar, umhverfis og landfræðilegra aðstæðna þegar kveiktur er opinn eldur. Reykur af völdum opins elds má ekki valda verulegum óþægindum í nánasta umhverfi. Hafa skal í huga að við brennslu geta myndast óæskileg efni sem ekki ættu að fara út í umhverfi og andrúmsloft.

4. gr. Bann við opinni brennslu úrgangs.

Opin brennsla úrgangs er óheimil, sbr. ákvæði laga um meðhöndlun úrgangs.

5. gr. Almennt um búnað.

Tryggja skal að þannig sé gengið frá öllum búnaði sem notaður er utandyra að hann valdi ekki íkveikju.

Gæta skal ýtrustu varkárni við notkun búnaðar sem valdið getur íkveikju utandyra. Með slíkum búnaði er m.a. átt við grill, ljós, útiarna, kerti og hitagjafa.

Búnað skv. 2. mgr. skal staðsetja í hæfilegri fjarlægð frá brennanlegum flötum, hlutum og varningi, og stöðum þar sem geymd, notuð eða framleidd eru eldnærandi, sprengifim eða eldfim efni. Taka skal tillit til veðuraðstæðna við notkun búnaðar. Þá skal gæta þess að taka þarf tillit til eldhættu bæði við og eftir notkun búnaðar. Óheimilt er að senda á loft logandi kertaluktir.

Fylgja skal leiðbeiningum framleiðanda um notkun búnaðar.

6. gr. Útiofnar og grill.

Staðsetja skal útiofna þannig að eldur geti ekki borist í gróður, sinu, byggingar eða önnur mannvirki. Eldunartæki sem brenna föstu, fljótandi eða loftkenndu eldsneyti má einungis nota á stöðum þar sem ekki stafar eldhætta af notkuninni. Huga skal að því að reykur berist ekki inn í hús eða valdi ónæði hjá nágrönnum.

7. gr. Ýmis starfsemi og búnaður.

Áfylling á eldsneyti skal fara fram í öruggri fjarlægð frá stöðum þar sem geymd eru, notuð eða framleidd eldnærandi, sprengifim eða eldfim efni.

Notkun á suðu- eða skurðartækum, gasbrennurum o.fl. skal fara fram á viðeigandi stöðum. Undirlag og umhverfi skal vera óbrennanlegt. Þegar nota á suðu- eða skurðartæki, gasbrennara o.fl. til tímabundinna starfa skal gæta sérstakrar varúðar.

Gæta skal sérstakrar varkárni við notkun á pottum til að hita eða bræða malbik, tjöru, vax og þess háttar.

8. gr. Veðurfarslegar aðstæður.

Ekki skal kveikja í bálkesti eða sinu ef meðalvindur er meiri en 10 m/sek eða ef vindátt er óhagstæð á brennustað, t.d. ef vindur stendur á byggð eða hætta er á að vindátt breytist á meðan á brennu stendur. Ef vindátt eða vindstyrkur breytist eftir að eldur er kveiktur sem veldur aukinni hættu á útbreiðslu eldsins eða verulegum óþægindum, s.s. vegna reyks, glóðar eða ösku, skal gera ráðstafanir til að slökkva eldinn þegar í stað. Slökkviliði er heimilt að slökkva í bálkesti eða sinu við slíkar aðstæður án fyrirvara.

III. KAFLI Sinubrenna.

9. gr. Almennt um sinubrennu.

Sinubrenna er óheimil. Þó er ábúendum eða eigendum jarða á lögbýlum þar sem stundaður er landbúnaður heimilt að brenna sinu samkvæmt skriflegu leyfi sýslumanns, skv. 12. gr.

Aldrei má brenna sinu þar sem almannahætta stafar af eða tjón getur hlotist af á náttúruminjum, fuglalífi, mosa, lyng- eða trjágróðri, skógi eða mannvirkjum.

Tryggja skal að eldur berist ekki út fyrir það svæði sem ætlunin er að brenna, t.d. með því að bleyta gróður eða á annan hátt að varna því að eldurinn geti breiðst út.

10. gr. Staðsetning og tímasetning.

Ekki má leyfa sinubrennu í þéttbýli eða þar sem eldur, reykur, neistaflug eða aska getur ógnað nálægri byggð eða starfsemi.

Einungis má leyfa sinubrennu á ræktuðu landi, landi sem verið er að brjóta til ræktunar eða landi ætluðu til beitar fyrir búfé, enda eru augljósir hagsmunir vegna jarðræktar.

Innan 200 m fjarlægðar frá mörkum svæðisins skulu ekki vera mannvirki, náttúruminjar, mosi, lyng, trjágróður eða ræktun sem eldur getur spillt eða grandað. Varp fugla skal ekki vera hafið á svæðinu eða umhverfis það í minna en 200 m fjarlægð.

Ekki má brenna sinu nær sjúkrastofnunum, matvælaframleiðslu og öðrum viðkvæmum rekstri en 400 m.

Óheimilt er að kveikja eld í sinu að nóttu til frá kl. 23.00 til kl. 06.00. Þannig skal staðið að brennslu á sinu að henni sé lokið fyrir kl. 23.00. Jafnframt er óheimilt að kveikja eld í sinu um helgar og á almennum frídögum. Þó getur sýslumaður í undantekningartilvikum, þegar sérstaklega stendur á og ríkar ástæður mæla með, heimilað að eldur sé kveiktur í sinu um helgar og á almennum frídögum.

11. gr. Umsókn um leyfi til að brenna sinu.

Sækja skal skriflega um leyfi til sýslumanns til að brenna sinu, sbr. 12. gr. Einungis er unnt að sækja um leyfi til sinubrennu eftir 1. mars vegna fyrirhugaðrar brennu það vor. Umsókn skal afgreiða eins fljótt og verða má og eigi síðar en tíu virkum dögum eftir að umsókn berst.

Með umsókn skal fylgja, eftir því sem við á:

  1. Afmörkun þess svæðis þar sem óskað er eftir að brenna sinu (uppdráttur og lýsing).
  2. Áhættumat og upplýsingar um tilgang sinubrennu, rökstuðningur fyrir nauðsyn hennar og upplýsingar um ástand gróðurs á svæðinu.
  3. Hvernig útbreiðsla elds verður takmörkuð og útmörk svæðis sinubrennu varin, t.d. með skurðum, vegum, árfarvegi eða gróðurlausu svæði.
  4. Nafn, kennitala og símanúmer ábyrgðarmanns.
  5. Upplýsingar um áætlaða tímasetningu.
  6. Upplýsingar um aðgang að slökkvivatni og um áformaðan viðbúnað leyfishafa og viðbragðsáætlun.
  7. Upplýsingar um hvernig áformað er að tilkynna nágrönnum um áætlaða sinubrennu.
  8. Afrit af umsögnum og samþykki hlutaðeigandi búnaðarsambands, heilbrigðisnefndar og slökkviliðs. Í umsögn búnaðarsambands skal koma fram ástand viðkomandi lands og lífríki og mat á hagsmunum vegna jarðræktar eða búfjárræktar, sbr. 3. mgr. 12. gr. Í umsögn heilbrigðisnefndar skal koma fram mat á umhverfislegum þáttum og hugsanlegum áhrifum á nágranna. Í umsögn slökkviliðs skal koma fram mat á útbreiðsluhættu og hvort afmörkun svæðis vegna sinubrennu sé fullnægjandi, hvort viðbragðsráðstafanir umsækjanda séu nægjanlegar og hvort þörf sé á öryggisvakt, sbr. 16. gr.
  9. Tilgangur sinubrennu skal vera rökstuddur og augljósir hagsmunir vegna jarðræktar eða búfjárræktar.

12. gr. Útgáfa leyfis til að brenna sinu.

Sýslumaður veitir skriflegt leyfi fyrir sinubrennu að höfðu samráði við lögreglustjóra og fengnu samþykki frá hlutaðeigandi búnaðarsambandi, heilbrigðisnefnd og slökkviliði og að uppfylltum skilyrðum þessarar reglugerðar. Leyfi skal einungis veitt fyrir yfirstandandi ár og að uppfylltum skilyrðum 10. gr.

Einungis ábúendur eða eigendur jarða á lögbýlum þar sem stundaður er landbúnaður geta fengið leyfi til að brenna sinu á jörðum á tímabilinu 1. apríl til 1. maí ár hvert. Utan þess tímabils er hvarvetna óheimilt að brenna sinu. Þó getur sýslumaður, að höfðu samráði við umhverfis- og auðlindaráðuneytið, ákveðið aðra dagsetningu ef sérstakar veðurfarslegar ástæður gefa tilefni til en þó eigi fyrr en 15. mars og eigi lengur en til 15. maí ár hvert.

13. gr. Skilyrði í leyfi.

Í leyfi sýslumanns skv. 12. gr. skal eftirfarandi tilgreint eftir því sem við á:

  1. tímamörk,
  2. afmörkun svæðis sinubrennu og hvernig útmörk svæðisins verði varin,
  3. tilkynningarskylda leyfishafa, sbr. 14. gr.,
  4. nafn og kennitala ábyrgðarmanns og hlutverk, sbr. 15. gr.,
  5. aðgangur að slökkvivatni og lágmarksviðbúnaður leyfishafa í samræmi við kröfur slökkviliðs, sbr. 16. gr.,
  6. viðbragðsstaða slökkviliðs í samræmi við kröfur slökkviliðs, sbr. 16. gr.,
  7. eftirlit leyfishafa með brennu, sbr. 17. gr. og annað sem nauðsynlegt þykir til að uppfyllt séu markmið reglugerðar þessarar.

14. gr. Tilkynningar leyfishafa.

Handhafi leyfis til að brenna sinu skal tilkynna slökkviliðsstjóra og lögreglu með a.m.k. sólarhrings fyrirvara í hvert sinn sem hann hyggst kveikja í. Tilkynning skal send með tölvupósti eða á annan þann hátt sem viðkomandi slökkviliðsstjóri og lögreglustjóri krefst.

Handhafi leyfis til sinubrennu skal tímanlega tilkynna nágrönnum um útgefið leyfi og áætlaða tímasetningu brennu. Tilkynning skal send bréfleiðis (t.d. í dreifibréfi), í tölvupósti eða með auglýsingu sem hefur almenna útbreiðslu á svæðinu t.d. í staðarblaði. Sérstaklega skal haft í huga að viðkvæm starfsemi, svo sem sjúkrastofnanir og matvælaframleiðsla fái upplýsingar um fyrirhugaða sinubrennu.

Innan eins mánaðar frá sinubrennu skal handhafi leyfis tilkynna Umhverfisstofnun skriflega um flatarmál brunnins svæðis, sbr. reglur stofnunarinnar.

15. gr. Hlutverk ábyrgðarmanns.

Ábyrgðarmaður skal sjá til þess að ákvæðum reglugerðar þessarar og skilyrðum í leyfi sé fylgt við framkvæmd brennu. Hann skal vera á vettvangi á meðan sina er brennd.

16. gr. Viðbúnaður leyfishafa.

Slökkviliðsstjóri skal í umsögn sinni um leyfisumsókn tilgreina hvaða lágmarksviðbúnað leyfishafi skal hafa í samræmi við aðstæður á hverjum stað, hvert lágmarksmagn slökkvivatns skal vera tiltækt og hvernig aðgengi að því skuli vera.

Slökkviliðsstjóri getur fyrirskipað í umsögn sinni um leyfisumsókn að staðin skuli öryggisvakt við sinubrennu, samkvæmt ákvæðum laga um brunavarnir, ef aðstæður á brunastað þykja varhugaverðar.

17. gr. Eftirlit leyfishafa með sinubrennu.

Leyfishafi skal sjá til þess að eftirlit sé haft með sinubrennu frá því kveikt er í og þar til öll glóð er sannanlega kulnuð.

IV. KAFLI Bálkestir.

18. gr. Almennt um bálkesti og brennu.

Óheimilt er að brenna bálköst nema samkvæmt skriflegu leyfi sýslumanns, skv. 21. gr. Ekki þarf þó leyfi sýslumanns til að brenna bálköst þar sem brennt er minna en 1 m³ af efni.

Ef ætla má að brenna standi yfir í meira en tvo klukkutíma skal afla starfsleyfis frá heilbrigðisnefnd samkvæmt ákvæði reglugerðar nr. 550/2018 um losun frá atvinnurekstri og mengunarvarnaeftirliti.

Stærð og umfang á bálkesti skal takmarka við brennutíma, þ.e. að góður logi standi ekki lengur en skemmtan við brennu, eða um fjórar klukkustundir að hámarki. Séð skal til þess að ekki logi lengur í brennu en í 14 klukkustundir.

Óheimilt er að safna efni á brennustæði á öðrum tíma en tilgreindur er í leyfi. Fyrir áramótabrennur skal söfnun á brennustæði að jafnaði ekki hefjast fyrr en 27. desember.

Gæta skal ýtrustu varkárni þegar bálkestir eru hlaðnir og við brennur og varðelda, m.a. um staðsetningu og efni sem notað er. Þess skal gætt að valda ekki óþarfa ónæði eða óþægindum. Bálköstur skal hlaðinn þannig að ekki sé hætta á hruni þannig að hætta skapist af. Gengið skal þannig frá bálkesti að ekki sé hætta á að efni fjúki úr honum. Gæta skal varúðar, sbr. 3. gr., m.a. skal slökkt í þegar brenna er yfirgefin.

Við meðferð skotelda við bálkesti skal gæta þess að þeir valdi ekki hættu fyrir fólk og kveiki ekki í sinu og valdi gróðureldum. Öll meðferð skotelda skal vera í samræmi við ákvæði vopnalaga.

19. gr. Staðsetning og tímasetning.

Lítil brenna skal að jafnaði ekki vera nær íbúðarbyggð en 100 m og stór brenna ekki nær en 300 m. Bálköst skal ekki staðsetja þar sem hætta er á að eldur geti breiðst út eða neistaflug kveikt í gróðri t.d. sinu. Bálköst skal staðsetja þar sem góður aðgangur er að nægjanlegu slökkvivatni. Brennustæði skal vera þannig að engin hætta sé á mengun frá olíu, ösku eða öðrum mengandi efnum sem geta lekið frá bálkestinum út í umhverfið.

Innan 200 m fjarlægðar frá mörkum svæðisins skulu ekki vera mannvirki, náttúruminjar, mosi, lyng, trjágróður eða ræktun sem eldur getur spillt eða grandað. Varp fugla skal ekki vera hafið á svæðinu eða umhverfis það í minna en 200 m fjarlægð.

Ekki má brenna bálköst nær sjúkrastofnunum, matvælaframleiðslu og öðrum viðkvæmum rekstri en 400 m.

Óheimilt er að kveikja eld í bálkesti að nóttu til frá kl. 23.00 til kl. 06.00. Sýslumanni er heimilt í leyfi að víkja frá ákvæðum þessarar málsgreinar.

20. gr. Umsókn um leyfi til að brenna bálköst.

Sækja skal skriflega um leyfi til sýslumanns til að brenna bálköst, sbr. 21. gr. Umsókn skal afgreiða eins fljótt og verða má og eigi síðar en tíu virkum dögum eftir að umsókn berst.

Með umsókn skal fylgja, eftir því sem við á:

  1. Upplýsingar um fyrirhugaða stærð á bálkesti, staðsetningu og efni sem ætlunin er að brenna og hvernig útbreiðsla elds verður takmörkuð.
  2. Nafn og kennitala ábyrgðarmanns.
  3. Upplýsingar um áætlaða tímasetningu.
  4. Upplýsingar um aðgang að slökkvivatni og um áformaðan viðbúnað leyfishafa og viðbragðsáætlun.
  5. Afrit af leyfi/umsögn heilbrigðisnefndar og umsögn slökkviliðs. Í umsögn heilbrigðisnefndar skal koma fram mat á umhverfislegum þáttum og hugsanlegum áhrifum á nágranna. Í umsögn slökkviliðs skal koma fram mat á útbreiðsluhættu og hvort viðbragðsráðstafanir umsækjanda séu nægjanlegar og hvort þörf sé á öryggisvakt, sbr. 24. gr.

21. gr. Útgáfa leyfis til að brenna bálköst.

Sýslumaður gefur út leyfi til að brenna bálköst að uppfylltum skilyrðum þessarar reglugerðar og að fengnu samþykki slökkviliðsstjóra og starfsleyfi heilbrigðisnefndar.

Gæta skal þess við útgáfu leyfis að staðsetning brennu sé heppileg, sbr. 18. og 19. gr.

Heimilt er að krefjast ábyrgðartryggingar hjá vátryggingafélagi vegna brennunnar áður en leyfi skv. 1. mgr. er veitt.

22. gr. Skilyrði í leyfi.

Í leyfi sýslumanns skv. 21. gr. skal eftirfarandi tilgreint eftir því sem við á:

  1. tímamörk brennu, þ.m.t. hvenær sólarhrings óheimilt er að framkvæma brennu og um tímamörk söfnunar efnis í bálköst,
  2. tilkynningarskylda leyfishafa, þ.m.t að tilkynna slökkviliðsstjóra og lögreglu með a.m.k. sólarhrings fyrirvara þegar hann hyggst kveikja í brennu. Tilkynning skal send með tölvupósti eða á annan þann hátt sem viðkomandi slökkviliðsstjóri og lögreglustjóri krefst,
  3. nafn og kennitala ábyrgðarmanns og hlutverk, sbr. 23. gr.,
  4. aðgangur að slökkvivatni og lágmarksviðbúnaður leyfishafa í samræmi við kröfur slökkviliðs, sbr. 24. gr.,
  5. viðbragðsstaða slökkviliðs í samræmi við kröfur slökkviliðs, sbr. 24. gr.,
  6. eftirlit leyfishafa með brennu, sbr. 25. gr. og annað sem nauðsynlegt þykir til að uppfyllt séu markmið reglugerðar þessarar.

23. gr. Hlutverk ábyrgðarmanns.

Ábyrgðarmaður skal sjá til þess að ákvæðum reglugerðar þessarar og skilyrðum í leyfi sé fylgt við framkvæmd brennu. Hann skal vera á vettvangi á meðan bálköstur er brenndur.

Ábyrgðarmanni eða fulltrúa hans ber að vera á brennustað meðan móttaka efnis fyrir bálköst stendur yfir og vakta bálköstinn m.a. til að koma í veg fyrir að hann verði notaður sem sorpförgunarleið fyrir efni sem ekki má brenna.

Ábyrgðarmaður skal sjá til þess að olíuföt og önnur ílát verði fjarlægð áður en kveikt er í bálkesti, ábyrgjast vörslu á brennusvæði á meðan logar og þar til brenna er kulnuð.

Ábyrgðarmanni ber að sjá um hreinsun á brennusvæði strax fyrsta virka dag eftir að brenna er kulnuð og eigi síðar en á öðrum degi frá því að kveikt er í bálkesti. Um hreinsun skal haft samráð við fulltrúa sveitarfélags.

24. gr. Viðbúnaður leyfishafa.

Slökkviliðsstjóri skal í umsögn sinni um leyfisumsókn tilgreina hvaða lágmarksviðbúnað leyfishafi skal hafa í samræmi við aðstæður á hverjum stað, hvert lágmarksmagn slökkvivatns skal vera tiltækt og hvernig aðgengi að því skuli vera.

Slökkviliðsstjóri getur fyrirskipað í umsögn sinni um leyfisumsókn að staðin skuli öryggisvakt við brennu, samkvæmt ákvæðum laga um brunavarnir, ef aðstæður á brunastað þykja varhugaverðar.

25. gr. Eftirlit leyfishafa með brennu.

Leyfishafi skal sjá til þess að eftirlit sé haft með bálkesti allt frá því að söfnun efnis hefst og þar til brenna er kulnuð, þ.m.t. áður en kveikt er í og á meðan brenna stendur yfir.

V. KAFLI Ýmis ákvæði.

26. gr. Afturköllun leyfis.

Sýslumanni er heimilt að afturkalla leyfi sem veitt eru skv. reglugerð þessari ef skilyrðum í leyfi er ekki fylgt eða ef upp koma þær aðstæður að hætta er talin geta stafað af leyfðri brennu.

Slökkviliðsstjóri getur stöðvað leyfða sinubrennu, eða að kveikt sé í bálkesti, og bannað meðferð opins elds sé það talið viðsjárvert vegna veðurs eða af öðrum öryggisástæðum.

27. gr. Gjaldtaka.

Um gjald fyrir leyfi sýslumanns skv. reglugerð þessari fer skv. 18. tölul. 12. gr. laga um aukatekjur ríkissjóðs.

28. gr. Viðurlög.

Brot gegn ákvæðum laga um meðferð elds og varnir gegn gróðureldum og eftirtöldum ákvæðum reglugerðar þessarar varða sektum eða fangelsi allt að tveimur árum nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum:

  1. 1. mgr. 3. gr. um meðferð elds á víðavangi, á lóðum eða annars staðar utandyra.
  2. 1. mgr. 4. gr. um opna brennslu úrgangs.
  3. 1. og 2. mgr. 9. gr. um sinubrennu.
  4. 2. mgr. 12. gr. um sinubrennu án leyfis.
  5. 1. mgr. 18. gr. um bálkesti.

29. gr. Eftirlit með framkvæmd reglugerðarinnar.

Mannvirkjastofnun hefur eftirlit með framkvæmd reglugerðar þessarar. Mannvirkjastofnun gefur út leiðbeiningar um nánari framkvæmd og útfærslu reglugerðarinnar, svo sem um veitingu og umsókn um leyfi, hvaða efni má setja á bálkesti og um meðferð elds.

Eldvarnaeftirlit slökkviliðs, hvert í sínu umdæmi, annast eftirlit með því að við meðferð elds sé farið að ákvæðum reglugerðar þessarar, þ.m.t. að sótt sé um leyfi og að fylgt sé skilyrðum leyfis við framkvæmd brennu.

Sýslumaður skal halda skrá um útgefin leyfi samkvæmt reglugerð þessari og tilkynna hlutaðeigandi slökkviliði og heilbrigðisnefnd um leyfin um leið og þau hafa verið gefin út.

30. gr. Gildistaka.

Reglugerð þessi sem sett er samkvæmt heimild í lögum nr. 40/2015 um meðferð elds og varnir gegn gróðureldum öðlast þegar gildi. Frá sama tíma fellur úr gildi reglugerð nr. 157/1993 um sinubrennur og meðferð elds á víðavangi.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.