Fara beint í efnið

Prentað þann 29. mars 2024

Stofnreglugerð

260/2018

Reglugerð um vegi í náttúru Íslands samkvæmt lögum um náttúruvernd.

Birta efnisyfirlit

1. gr.

Reglugerð þessi gildir um gerð og birtingu skrár um vegi, aðra en þjóðvegi, í náttúru Íslands þar sem umferð vélknúinna ökutækja er heimil, sbr. 32. gr. náttúruverndarlaga nr. 60/2013.

2. gr.

Við gerð aðalskipulags gera sveitarfélög tillögu að skrá skv. 1. gr. innan marka sinna. Skráin hlýtur samþykkt samhliða afgreiðslu aðalskipulags eða breytinga á aðalskipulagi, sbr. 32. og 36. gr. skipulagslaga, nr. 123/2010. Sveitarfélögum er heimilt að gera tillögu skv. 1. málsl. við gerð svæðisskipulags eða breytingar á svæðisskipulagi, sbr. 21. og 27. gr. skipulagslaga.

Skráin er háð samþykki Umhverfisstofnunar, eða annarra stjórnvalda þjóðgarða þegar við á, á landsvæðum sem liggja innan friðlýstra svæða og þjóðgarða. Við gerð skrárinnar skulu sveitarfélög hafa samráð við Umhverfisstofnun eða önnur stjórnvöld þjóðgarða ef við á, Vegagerðina, Landgræðslu ríkisins, Landmælingar Íslands, samtök útivistarfélaga, náttúru- og umhverfisverndarsamtök, Bændasamtök Íslands og Samtök ferðaþjónustunnar.

3. gr.

Við gerð tillögu að skrá skv. 1. málsl. 1. mgr. 2. gr. skal sérstaklega líta til þess hvort akstur á umræddum vegum sé líklegur til að raska viðkvæmum gróðri, valda jarðvegsrofi, hafa neikvæð áhrif á landslag, víðerni og ásýnd lands eða hafa að öðru leyti í för með sér náttúruspjöll. Einnig má líta til þess hvort um greinilegan og varanlegan veg sé að ræða, hvort löng hefð sé fyrir akstri á honum og hvort umferð á tilteknum vegi skuli takmarka við ákveðnar gerðir ökutækja, viss tímabil, náttúrufarslegar aðstæður eða við akstur vegna ákveðinna starfa.

4. gr.

Sveitarfélög skulu í tillögu að skrá skv. 2. gr. flokka vegina í samræmi við neðangreinda flokkun í F0, F1, F2 og F3:

F0 Greiðfær vegur, fær allri almennri umferð að sumarlagi. Oft lokaðir á veturna vegna snjóa og vegna aurbleytu á þáatíð.
F1 Seinfær vegur, fær allri almennri umferð að sumarlagi. Oftar en ekki lægri en landið til beggja hliða. Breidd um 4 m. Stórir lækir og ár brúaðar. Vegir þessir eru oft lokaðir á veturna vegna snjóa og vegna aurbleytu á þáatíð.
F2 Lakfær vegur, fær fjórhjóladrifnum bílum, mjög öflugum fólksbílum, jepplingum og vélhjólum. Oftar en ekki lægri en landið til beggja hliða. Breidd um 4 m. Lækir og smáár óbrúaðar. Oft lokað á veturna vegna snjóa og aurbleytu á þáatíð.
F3 Torfær vegur, einungis fær stórum og vel búnum fjórhjóladrifnum bílum, ofurjeppum og vélhjólum. Vegur, oftar en ekki lægri en landið til beggja hliða, getur verið ójafn, grýttur og með bleytuíhlaupum. Breidd um 4 m. Oft lokað á veturna vegna snjóa og aurbleytu á þáatíð.

Vegina skal einnig flokka eftir heimild til notkunar í opna vegi og vegi með takmarkaða notkun. Sé um að ræða veg með tímabundna og/eða takmarkaða notkun skal tilgreint sérstaklega það tímabil sem heimilt er að nota veg og í hvaða tilgangi sé heimilt að nota veginn, s.s. við smalamennsku, veiði, eftirlit og viðhald orku- og veitumannvirkja eða rannsóknir.

Tillaga að skrá skv. 2. gr. skal vera stafræn og taka mið af ÍST 120 staðli og fitjuskrám. Miðlína vegar skal vera hnituð og miða skal við að nákvæmnin sé að lágmarki +/- 5 m.

5. gr.

Vegagerðin heldur skrá í stafrænum kortagrunni um vegi skv. 1. gr. þar sem umferð vélknúinna ökutækja er heimil, sbr. 2. mgr. 7. gr. vegalaga, nr. 80/2007. Vegagerðin veitir almenningi aðgang að skránni í gegnum vefþjónustu bæði til skoðunar og til niðurhals. Skipulagsstofnun ber að sjá til þess að Vegagerðinni berist upplýsingar um skrána í hlutaðeigandi sveitarfélagi til skráningar og birtingar í vegaskrá. Í skránni skulu vegir skv. 1. gr. auðkenndir sérstaklega. Vegagerðin skal birta uppfærða skrá svo fljótt sem unnt er.

Skrá skv. 1. gr. og breytingar á henni skulu auglýstar í B-deild Stjórnartíðinda, sbr. 25. og 32. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

6. gr.

Upplýsingar um heimila vegi í vegaskrá skv. 1. gr. fela ekki í sér að þeir séu færir öllum vélknúnum ökutækjum og leiða ekki til ábyrgðar ríkis eða sveitarfélaga á viðhaldi þeirra.

7. gr.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt 5. mgr. 32. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd og tekur þegar gildi.

Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, 5. febrúar 2018.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson.

Sigríður Auður Arnardóttir.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.