Samgönguráðuneyti

463/1998

Reglugerð um leyfi til farþegaflutninga með skipum.

1. gr.

Reglugerð þessi gildir innan íslenskrar lögsögu um öll íslensk skip sem flytja farþega í atvinnuskyni, á sjó, ám eða vötnum án tillits til stærðar. Undir farþegaflutninga í atvinnuskyni falla meðal annars skoðunar- og veiðiferðir með ferðamenn á skipum í atvinnuskyni.

Lög um eftirlit með skipum og reglugerð þessi gilda ennfremur um öll skip sem skráð eru á erlenda skipaskrá og flytja farþega í atvinnuskyni í íslenskum höfnum eða innan íslenskrar lögsögu, á ám eða á vötnum, að undanskildum skipum í farþegaflutningum milli landa.

Með hugtakinu farþegi er í reglugerð þessari átt við hvern mann, eins árs að aldri eða eldri, sem er á skipi og er ekki skipverji.

2. gr.

Siglingastofnun Íslands ákveður leyfilegan hámarksfjölda farþega á skipi.

Skip í farþegaflutningum skal búið sætum þannig að allir farþegar geti setið samtímis í lokuðum vistarverum skipsins. Í skipum sem aðeins eru í ferðum sem taka að jafnaði innan við 4 klst. er þó heimilt að hafa sæti fyrir farþega í opnu rými. Sæti skulu vera minnst 0,5 m breið með minnst 0,9 m hæð ofan við sæti og minnst 0,75 m rými fyrir fætur, mælt fram frá sætisbaki.

Handrið eða skjólborðsklæðning við þilfar sem ætlað er farþegum, skulu ekki vera lægri en 1,0 m og þannig að ekki sé auðvelt að klifra yfir þau.

Um borð í skipi sem flytur 14 farþega eða færri skal vera salerni. Um borð í skipi sem flytur 15 - 50 farþega skulu vera minnst tvö salerni. Um borð í skipi sem flytur fleiri en 50 farþega skal vera eitt salerni fyrir hverja 25 farþega. Siglingastofnun Íslands er þó heimilt að ákveða að um borð í skipum sem aðeins eru í ferðum sem taka að jafnaði skemmri tíma en 4 klst. verði færri salerni, enda sé hreinlætisaðstaða á hverjum viðkomustað skipsins. Salerni skulu vera í sérstökum klefa með læsanlegri hurð. Salernin skulu vera lýst og loftræst. Á hverju salerni skal vera handlaug með rennandi vatni og frárennsli.

Siglingastofnun getur vikið frá ákvæðum þessarar greinar þegar sérstaklega stendur á.

3. gr.

Farþegaflutningar í atvinnuskyni með skipum sem reglugerð þessi gildir um eru háðir leyfi Siglingastofnunar Íslands. Skal slíkt leyfi aldrei gefið út til lengri tíma en eins árs í senn.

Útgáfa leyfis til farþegaflutninga skv. 1. mgr. er háð eftirfarandi skilyrðum:

1. Að framkvæmd hafi verið skoðun á skipinu í samræmi við lög um eftirlit með skipum.

2. Að skoðun skv. 1. tl. hafi leitt í ljós að fullnægt er ákvæðum laga um eftirlit með skipum og reglum settum skv. þeim sem um skipið gilda. Siglingastofnun Íslands er óheimilt er veita undanþágu eða frest til úrbóta vegna öryggisatriða sem áfátt er.

3. Að Siglingastofnun Íslands hafi samþykkt neyðaráætlun fyrir skipið sem komið verði fyrir á einum eða fleiri áberandi stöðum um borð. Á neyðaráætluninni skulu koma fram verkefni og skyldur sérhvers skipverja þegar neyðartilvik kemur upp.

4. Að Siglingastofnun Íslands hafi samþykkt teikningu af fyrirkomulagi öryggisbúnaðar skipsins sem komið verði fyrir á einum eða fleiri áberandi stöðum um borð.

5. Að Siglingastofnun Íslands hafi gefið út skrifleg fyrirmæli um fjölda í áhöfn skipsins sem ákveðinn er með hliðsjón af gerð skipsins, fyrirkomulagi þess og búnaði, svo og farsviði þess og útivist, þannig að fjöldi í áhöfn og skipting starfa fullnægi skilyrðum um að unnt sé að sinna öllum þáttum sem tryggja öryggi farþega, skipverja og skips. Um íslensk farþega- og kaupskip í millilandasiglingum gilda ákvæði laga um áhafnir íslenskra kaupskipa nr. 59/1995.

6. Að eigandi skips eða skipstjóri hafi afhent Siglingastofnun Íslands skilríki um að keypt hafi verið vátrygging hjá tryggingafélagi með starfsleyfi hér á landi gegn tjóni á farþegum og farangri, sbr. V. kafla siglingalaga nr. 34/1985 með síðari breytingum. Vátryggingin skal einnig ná til barna sem eru yngri en eins árs og eru um borð með einhverjum farþega.

7. Að Siglingastofnun Íslands hafi samþykkt áætlun um öryggisfræðslu fyrir farþega.

Siglingastofnun Íslands er jafnframt heimilt að setja önnur sérstök skilyrði fyrir útgáfu leyfisins í því skyni að auka öryggi skipsins, skipverja og farþega. Slík skilyrði skulu kynnt eiganda skipsins með skriflegum og rökstuddum hætti.

4. gr.

Siglingastofnun Íslands gefur út leyfisskírteini til farþegaflutninga þegar sýnt hefur verið fram á að fullnægt er skilyrðum 3. gr. Heimilt er að hafa leyfisskírteinið á haffærisskírteini skipsins. Brot á skilyrðum leyfisins jafngilda broti á skilyrðum haffærisskírteinsins.

Eftirfarandi skal koma fram á leyfisskírteininu:

1. Gildistími leyfisins.

2. Leyfilegur hámarksfjöldi farþega.

3. Farsvið sem leyfið nær til.

4. Hámarkstímalengd hverrar ferðar.

5. Mönnun skipsins skv. fyrirmælum Siglingastofnunar Íslands.

6. Heiti tryggingafélags, sbr. 6. tl. 2. mgr. 3. gr.

Leyfisskírteininu eða staðfestu afriti af því skal komið fyrir á áberandi stað um borð í skipinu þannig að það sé sýnilegt farþegum.

5. gr.

Skilmálar vátryggingar skv. þessari reglugerð skulu kynntir samgönguráðuneyti, Siglingastofnun Íslands og Vátryggingaeftirliti áður en vátrygging er boðin farsölum eða flutningsaðilum.

Falli vátrygging skv. 6. tl. 2. mgr. 3. gr. úr gildi áður en gildistími leyfisskírteinisins rennur út skal hlutaðeigandi vátryggingafélag tilkynna það vátryggingataka og Siglingastofnun Íslands þegar í stað. Þótt vátryggingin sé þannig úr gildi fallin ber félagið ábyrgð gagnvart þriðja manni á tjóni sem verður þar til fjórar vikur eru liðnar frá því að vátryggingafélagið tilkynnti vátryggingataka og Siglingastofnun um að vátryggingin væri úr gildi fallin, nema önnur fullnægjandi vátrygging hafi verið tekin. Renni leyfisskírteinið út innan fjögurra vikna frestsins ber félagið þó einungis ábyrgð til þess tíma.

6. gr.

Brot gegn reglugerð þessari varða viðurlögum skv. 29. gr. laga um eftirlit með skipum nr. 35/1993, með síðari breytingum, nema þyngri refsing liggi við eftir öðrum lögum. Með mál út af brotum gegn reglugerð þessari skal fara að hætti opinberra mála.

7. gr.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt lögum um eftirlit með skipum nr. 35/1993, með síðari breytingum og siglingalögum nr. 34/1985 með síðari breytingum og öðlast gildi 1. ágúst 1998.

Samgönguráðuneytinu, 27. júlí 1998.

Halldór Blöndal.

Ragnhildur Hjaltadóttir.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica