Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti

1192/2020

Reglugerð um breytingu á reglugerð nr. 666/2001 um öryggi farþegaskipa í innanlandssiglingum, með síðari breytingum.

1. gr.

2. gr. reglugerðarinnar orðast svo:

Skilgreiningar.

Í reglugerð þessari og viðaukum við hana er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:

 1. Alþjóðasamþykktir:eru eftirtaldir samningar, ásamt tilheyrandi bókunum og breytingum í uppfærðri útgáfu:
  1. alþjóðasamningur um öryggi mannslífa á hafinu frá 1974 (SOLAS-samþykktin 1943) og
  2. alþjóðasamningur um hleðslumerki skipa frá 1966;
 2. Kóði um stöðugleika í óleku ástandi: (IS-kóðinn) er kóðinn um stöðugleika í óleku ástandi fyrir allar tegundir skipa er heyra undir gerninga Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar, sem er í ályktun þings Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar A.749(18) frá 4. nóvember 1993 eða alþjóða­kóðinn um stöðugleika í óleku ástandi frá 2008 sem er í ályktun Alþjóða­siglinga­mála­stofnunarinnar MSC.267(85) frá 3. desember 2008, í uppfærðum útgáfum;
 3. Kóði um háhraðaför: er alþjóðakóði um öryggi háhraðafara, sem er í ályktun Alþjóða­siglinga­málastofnunarinnar MSC.36(63) frá 20. maí 1994, eða alþjóðakóða um öryggi háhraða­fara frá 2000 (HSC-kóðinn frá 2000) sem er í ályktun Alþjóðasiglingamála­stofn­unarinnar MSC.97(73) frá desember 2000, í uppfærðum útgáfum;
 4. GMDSS: er alþjóðlegt neyðar- og öryggiskerfi fjarskipta á sjó sem mælt er fyrir um í IV. kafla SOLAS-samþykktarinnar frá 1974 með áorðnum breytingum;
 5. Farþegaskip: er skip sem má flytja fleiri en 12 farþega;
 6. Ekjufarþegaskip: er skip sem flytur fleiri en 12 farþega, með ekjufarmrými eða sérstök rými eins og skilgreint er í reglu II-2/A/2 í I. viðauka;
 7. Háhraðafarþegafar:er háhraðafar, eins og það er skilgreint í 1. reglu í X. kafla SOLAS-samþykktarinnar frá 1974 með áorðnum breytingum, sem flytja má fleiri en 12 farþega að frátöldum farþegaskipum í innanlandssiglingum á hafsvæðum í flokki B, C eða D sem teljast ekki vera háhraðafarþegaför ef:
  1. særými þeirra miðað við hönnunarvatnslínu er innan við 500 m³ og;
  2. hámarkshraði þeirra, eins og hann er skilgreindur í reglu 1.4.30 í kóðanum um háhraða­för frá 1994 og reglu 1.4.38 í kóðanum um háhraðaför frá 2000, er minni en 20 hnútar;
 8. Nýtt skip:er skip þar sem kjölurinn hefur verið lagður eða er á svipuðu smíðastigi 1. janúar 2001 eða síðar. Með svipuðu smíðastigi er átt við að:
  1. smíði tiltekins skips sé greinilega hafin, og;
  2. samsetning sé hafin á skipinu og það orðið a.m.k. 50 tonn að þyngd eða 1% af áætluðum massa alls smíðaefnis, hvort heldur er minna;
 9. Gamalt skip: er skip sem er ekki nýtt;
 10. Aldur: er aldur skipsins, gefinn til kynna í fjölda ára frá þeim degi er smíði þess lauk og það var afhent;
 11. Farþegi:er einstaklingur annar en:
  1. skipstjóri og skipverjar eða þeir aðrir sem eru ráðnir til tiltekinna starfa um borð í skipi í þágu þess, og;
  2. barn undir eins árs aldri;
 12. Lengd skips: er nema annað sé tekið fram sérstaklega, 96% af mestu lengd í vatnslínu við 85% af minnstu mótuðu dýpt, mældri frá kjöllínu (spónfarslínu), eða lengdin frá fremri brún á stefni í miðju stýrisáss, í sömu vatnslínu, ef sú lengd er meiri. Í skipum hönnuðum með kjalarhalla skal vatnslínan, sem lengd er mæld á, vera samsíða hönnunarvatnslínunni;
 13. Bóghæð: er sú bóghæð sem skilgreind er í 39. reglu í alþjóðasamningnum um hleðslumerki skipa frá 1966;
 14. Skip með heilu þilfari: er skip sem hefur heilt þilfar, sem veður og sjór mæðir á, með föstum lokunarbúnaði fyrir öll op áveðurs og föstum lokunarbúnaði þar fyrir neðan fyrir öll op á hlið skipsins sem gerir þau að minnsta kosti veðurþétt.
  Heila þilfarið getur verið vatnsþétt eða jafngild smíði sem er óvatnsþétt þilfar, sem er alger­lega þakið með veðurþéttri smíði af nægjanlegum styrkleika til að viðhalda veðurþéttleika, og með veðurþéttum lokunarbúnaði;
 15. Millilandasiglingar: eru siglingar frá höfn í aðildarríki EES til hafnar utan þess aðildarríkis eða öfugt;
 16. Innanlandssiglingar: eru siglingar frá höfn í aðildarríki EES til sömu eða annarrar hafnar í því aðildarríki;
 17. Hafsvæði: er sérhvert hafsvæði eða siglingaleið sem ákveðin er skv. 4. gr. Þó skulu skil­greiningar á hafsvæðum í 2. reglu í IV. kafla SOLAS-samþykktarinnar frá 1974 gilda að því er varðar beitingu ákvæða um þráðlaus fjarskipti;
 18. Hafnarsvæði: er svæði, eins og það er skilgreint af því aðildarríki EES sem hefur lögsögu yfir svæðinu, sem er ekki tilnefnt sem hafsvæði samkvæmt 4. gr., og sem nær til ystu marka varanlegra hafnarmannvirkja sem eru óaðskiljanlegur hluti hafnarinnar, eða til þeirra marka sem helgast af náttúrulegum landfræðilegum þáttum er skýla vogum og víkum eða svip­uðum skýldum svæðum;
 19. Stjórnvald fánaríkis: eru lögbær yfirvöld ríkis sem heimilar skipinu eða farinu að sigla undir sínum fána. Samgöngustofa er stjórnvald fánaríkis í málum er varða íslensk skip.
 20. Hafnarríki: er aðildarríki þar sem skip eða far, er siglir undir fána annars ríkis en aðildar­ríkisins, kemur til hafnar eða hafna og lætur úr höfn eða höfnum í innanlands­siglingum;
 21. Viðurkennd stofnun: er stofnun sem er viðurkennd í samræmi við 4. gr. tilskipunar ráðsins 94/57/EB frá 22. nóvember 1994 um sameiginlegar reglur og staðla fyrir stofnanir sem sjá um skipaeftirlit og -skoðun og fyrir tilheyrandi starfsemi siglingamálayfirvalda, með áorðnum breytingum;
 22. Míla: er 1852 metrar;
 23. Kennialda: er meðalhæð þriðjungs hæstu mældrar öldu á tilteknu tímabili;
 24. Hreyfihamlaðir einstaklingar: eru allir þeir sem eiga í sérstökum erfiðleikum með að nota almenningssamgöngur, þ.m.t. aldraðir, fatlaðir, fólk með skerta skynjun og fólk sem notar hjólastól, þungaðar konur og fólk með lítil börn;
 25. Seglskip: er skip sem knúið er áfram með seglum, jafnvel þótt það sé útbúið vélrænu knún­ingsafli til nota sem aukaafl og í neyðartilvikum;
 26. Jafngilt efni: er álblendi eða hvert það eldtrausta efni sem sjálft, eða vegna einangrunar þess, hefur sömu burðarþolseiginleika og þéttleika og stál, við lok viðeigandi staðlaðrar brunaprófunar;
 27. Stöðluð brunaprófun: er prófun þar sem sýnishorn úr viðkomandi þiljum eða þilförum eru hituð upp í prufuofni við hita sem er nokkurn vegin í samræmi við staðlaða tímahitaferilinn í samræmi við prófunaraðferðina sem tilgreind er í alþjóðakóðanum um brunaprófunar­aðferðir frá 2010 í ályktun Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar MSC.307(88) frá 3. des­ember 2010, í uppfærðri útgáfu;
 28. Skip af hefðbundinni gerð: allar tegundir sögulegra farþegaskipa sem hönnuð eru fyrir 1965 og eru að mestu leyti smíðuð úr upprunalegum efnivið, og eftirlíkingar þeirra, þ.m.t. skip hönnuð til að hvetja til þess að hefðbundið verklag og sjómennska fari ekki for­görðum, standi sem lifandi menningarverðmæti og sé innt af hendi samkvæmt hefð­bundnum grund­vallar­reglum sjómennsku og tækni;
 29. Skemmtisnekkja eða skemmtibátur: er skip sem ekki er nýtt í atvinnuskyni, óháð knún­ings­máta;
 30. Skipsbátur: er bátur sem fluttur er á skipi og notaður til að flytja fleiri en tólf farþega frá kyrrstæðu farþegaskipi að landi og til baka;
 31. Þjónustuskip á hafi úti: er skip sem notað er til að flytja og hýsa iðnverkafólk sem sinnir ekki vinnu um borð sem telst nauðsynlegt fyrir rekstur skipsins;
 32. Þjónustufar á hafi úti: er far sem notað er til að flytja og hýsa iðnverkafólk sem sinnir ekki vinnu um borð sem telst nauðsynlegt fyrir rekstur farsins;
 33. Meiri háttar viðgerðir, breytingar og endurbætur:eru eitthvert eftirfarandi:
  1. Breytingar sem breyta málum skipsins í veigamiklum atriðum, t.d. lenging þar sem nýjum miðhluta er bætt við;
  2. Breytingar sem fela í sér að hægt er að flytja umtalsvert fleiri farþega með skipi, t.d. ökutækjaþilfari breytt í vistarverur fyrir farþega;
  3. Breytingar sem auka endingu skipsins til muna, t.d. endurnýjun á vistarverum fyrir far­þega á einu heilu þilfari;
  4. Hvers kyns endurbygging á skipi, óháð tegund, í farþegaskip;
 34. Tilskipunin: er tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/45/EB um öryggiskröfur og staðla fyrir farþegaskip, með áorðnum breytingum.

 

2. gr.

3. gr. reglugerðarinnar orðast svo:

Þessi reglugerð tekur til efirfarandi farþegaskipa og farþegafara, án tillits til þess undir hvaða fána þau sigla þegar þau eru í innanlandssiglingum við Ísland eða íslensk skip þegar þau eru í innanlandssiglingum erlendis:

a)   Ný og gömul farþegaskip sem eru 24 metrar að lengd og lengri;
b)   Háhraðafarþegaför.

Þegar Ísland er hafnarríki í skilningi þessarar reglugerðar skal Samgöngustofa ganga úr skugga um að farþegaskip og háhraðafarþegaför, sem sigla undir fána annars ríkis en aðildarríkis, fullnægi kröfum þessarar reglugerðar að öllu leyti áður en þau hefja innanlandssiglingar við Ísland.

Þessi reglugerð gildir ekki um:

a)     Farþegaskip sem eru:

 1. Herskip og liðsflutningsskip;
 2. Seglskip;
 3. Skip sem eru ekki knúin áfram með vélrænum hætti;
 4. Skip sem eru smíðuð úr öðru efni en stáli eða jafngildu efni, sem falla ekki undir staðla varðandi háhraðaför (ályktun siglingaöryggisnefndar (MSC)36(63) eða MSC.97(73)) eða hreyfiborin för (ályktun A.373(X));
 5. Tréskip með frumstæðu byggingarlagi;
 6. Skip af hefðbundinni gerð;
 7. Skemmtisnekkjur;
 8. Skip einungis í siglingum innan hafna;
 9. Þjónustuskip á hafi úti, eða;
 10. Skipsbáta;

b)     Háhraðafarþegaför sem eru:

 1. Herskip eða liðsflutningaskip;
 2. Skemmtibátar;
 3. För einungis í siglingum innan hafna;
 4. Þjónustuskip á hafi úti.

 

3. gr.

4. gr. reglugerðarinnar orðast svo: Flokkun hafsvæða og flokkar farþegaskipa.

Hafsvæðum er skipt upp í eftirfarandi flokka:

Svæði A Hafsvæði utan svæða B, C og D.
Svæði B Hafsvæði, þar sem landhnitin eru hvergi meira en 20 sjómílur frá strand­línunni, miðað við meðalflóðhæð, en er utan svæða C og D.
Svæði C Hafsvæði, þar sem landhnitin eru hvergi meira en 5 sjómílur frá strandlínunni, miðað við meðalflóðhæð, en er utan hafsvæðis D. Auk þess skulu líkurnar á að hæð kenniöldu fari yfir 2,5 m vera undir 10% á ári miðað við rekstur allt árið eða þann hluta ársins sem reksturinn er bundinn við, t.d. rekstur yfir sumartímann.
Svæði D Hafsvæði, þar sem landhnitin eru aldrei meira en 3 sjómílur frá strandlínunni, miðað við meðalflóðhæð.
Auk þess skulu líkurnar á að hæð kenniöldu fari yfir 1,5 m vera undir 10% á ári miðað við rekstur allt árið eða þann hluta ársins sem reksturinn er bundinn við, t.d. rekstur yfir sumartíma.

Í II. viðauka við þessa reglugerð eru skrár og kort yfir hafsvæði við Ísland þar sem viðmiðanir varðandi flokka, sem er að finna í 1. mgr., eru lagðar til grundvallar.

Farþegaskipum er skipt í eftirfarandi flokka eftir því á hvaða hafsvæðum þau mega sigla:

Flokkur A Farþegaskip í innanlandssiglingum á svæðum A, B, C og D
Flokkur B Farþegaskip í innanlandssiglingum á svæðum B, C og D
Flokkur C Farþegaskip í innanlandssiglingum á svæðum C og D
Flokkur D Farþegaskip í innanlandssiglingum á svæði D.

Fyrir háhraðafarþegaför gilda þeir flokkar sem skilgreindir eru í reglu 1.4.10 og 1.4.11 í 1. kafla í kóðanum um háhraðaför frá 1994 eða í reglu 1.4.12 og 1.4.13 í 1. kafla í kóðanum um háhraðaför frá 2000.

 

4. gr.

Eftirfarandi breytingar verða á 5. gr. reglugerðarinnar:

2. mgr. orðist svo: Þegar Ísland er hafnarríki í skilningi þessarar reglugerðar skal Samgöngu­stofa viðurkenna öryggisskírteini og starfsleyfi háhraðafars sem annað aðildarríki EES gefur út fyrir háhraðafarþegafar í innanlandssiglingum og öryggisskírteini farþegaskips, sem um getur í 9. gr. reglugerðarinnar sem annað aðildarríki EES hefur gefið út fyrir farþegaskip í innanlandssiglingum.

3. mgr. fellur brott.

4. mgr. verði 3. mgr. og orðast svo: Búnaður um borð í skipum sem uppfyllir kröfurnar sem mælt er fyrir um samkvæmt tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014/90/ESB skal teljast vera í samræmi við kröfur þessarar reglugerðar.

 

5. gr.

Eftirfarandi breytingar verða á 6. gr. reglugerðarinnar:

a-liður 1. mgr. orðist svo: Smíði og viðhald bols, aðal- og hjálparvéla, rafbúnaðar og sjálfvirks búnaðar skal vera í samræmi við staðla sem eru tilgreindir til flokkunar í reglum viðurkenndrar stofnunar eða jafgildum reglum sem stjórnvald starfar eftir í samræmi við 2. mgr. 14. gr. tilskipunar 94/57/EB.

c-liður 1. mgr. fellur brott.

ii-liður b-liðar 2. mgr. fellur brott.

iii-liður b-liðar 2. mgr. orðist svo: þrátt fyrir i-lið eru ný farþegaskip í flokki D undanþegin kröfum um lágmarksbóghæð sem mælt er fyrir um í alþjóðasamþykktinni um hleðslumerki skipa frá 1966.

c-liður 3. mgr. orðist svo: gömul skip í flokki C og D skulu uppfylla skilyrði viðeigandi sér­krafna í þessari reglugerð og skulu vera, að því er varðar málefni sem falla ekki undir þær kröfur, í samræmi við reglur stjórnvalds fánaríkisins; í þeim reglum skal kveðið á um jafngilt öryggisstig og í köflum II-1 og II-2 í I. viðauka að teknu tilliti til sérstakra staðbundinna starfsskilyrða á hafsvæðum þar sem skip í þessum flokkum hafa heimild til að starfa og áður en gömul farþegaskip í flokki C og D geta hafið reglubundnar innanlandssiglingar í hafnarríki skal leita eftir samþykki Samgöngustofu á reglunum.

d-liður 3. mgr. orðist svo: álíti aðildarríki EES að reglurnar, sem Samgöngustofa gerir kröfu um samkvæmt c-lið, séu ósanngjarnar skal það tilkynna Eftirlitsstofnun EFTA um það þegar í stað. Eftirlitsstofnun EFTA skal samþykkja framkvæmdagerðir sem innihalda ákvörðun um réttmæti þessara reglna. Samþykkja skal þessar framkvæmdagerðir í samræmi við málsmeðferðina sem um getur í 2. mgr. 11. gr.

e- og f-liðir 3. mgr. falla brott.

Þriðji undirliður a-liðar 4. mgr. orðist svo: þau fullnægi að öllu leyti kröfum í öryggiskóðanum fyrir hreyfiborin för (DSC-kóðanum) í ályktun Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar A.373(10), í upp­færðri útgáfu.

c-liður 4. mgr. orðist svo: smíði og viðhald háhraðafarþegafara og búnaður þeirra skulu vera í samræmi við reglur viðurkenndrar stofnunar um flokkun háhraðafara eða jafngildar reglur sem stjórnvald notar í samræmi við 2. mgr. 14. gr. tilskipunar 94/57/EB.

Við bætast tvær nýjar málsgreinar sem fá númer í réttri röð, svohljóðandi:

5.    Að því er varðar ný og gömul skip skulu meiri háttar viðgerðir, breytingar og endurbætur, sem og búnaður til þeirra verka, vera í samræmi við kröfurnar fyrir ný skip, sem mælt er fyrir um í a-lið 2. mgr.; endurbætur á skipum, sem eiga einungis að bæta eiginleika þeirra til að þola áraun við notkun, teljast ekki til meiri háttar breytinga.

6.    Skip, sem smíðuð eru úr jafngildu efni fyrir 20. desember 2017, skulu fullnægja kröfum þessarar reglugerðar fyrir 22. desember 2025.

 

6. gr.

Eftirfarandi breytingar verða á 6. gr. a reglugerðarinnar:

1. mgr. orðist svo: Ekjufarþegaskip í flokki C, þar sem kjölurinn hafði verið lagður eða sem voru á svipuðu smíðastigi 1. október 2004 eða síðar, og öll ekjufarþegaskip í flokki A og B, skulu vera í samræmi við ákvæði 6., 8. og 9. gr. tilskipunar 2003/25/EB.

2. mgr. fellur brott.

 

7. gr.

Eftirfarandi breytingar verða á 6. gr. b reglugerðarinnar:

2. málsl. 3. mgr. fellur brott.

4. mgr. fellur brott.

 

8. gr.

Eftirfarandi breytingar verða á 7. gr. reglugerðarinnar:

2. mgr. orðist svo: Ráðherra er heimilt að, að fengnum tillögum Samgöngustofu og með fyrir­vara um málsmeðferðina sem mælt er fyrir um í 4. mgr. 9. gr. tilskipunarinnar, að samþykkja ráð­stafanir sem jafngilda tilteknum sérkröfum þessarar reglugerðar, að því tilskildu að þessar jafngildu kröfur séu í það minnsta eins skilvirkar og nái sömu markmiðum og kröfur reglugerðar­innar.

4. mgr. orðist svo: Þegar ákvæðum 1.-3. mgr. þessarar greinar er beitt skal fylgja málsmeðferð þeirri sem mælt er fyrir um í 4. mgr. 9. gr. tilskipunarinnar. Beita skal slíkum ákvæðum gagnvart öllum farþegaskipum í sama flokki eða gagnvart förum sem starfa við sömu tilgreindu skilyrði, án mismununar að því er varðar hvaða fána þau sigla undir eða á grundvelli þjóðernis eða þess hvar rekstraraðili hefur starfsstöð sína. Ákvæðin sem um getur í 3. mgr. gilda eingöngu á meðan skip er rekið við tilgreind skilyrði. Þegar ákvæðum þessarar greinar er beitt skal það gert með sérstakri reglugerð þess efnis eða í viðauka við reglugerð þessa.

 

9. gr.

Eftirfarandi breytingar verða á 8. gr. reglugerðarinnar:

1. mgr. orðist svo: Stjórnvald fánaríkis lætur fara fram skoðun á hverju farþegaskipi samkvæmt a-, b- og c-lið:

a)   upphafsskoðun á skipinu áður en það er tekið í notkun,
b)   reglubundna aðalskoðun á 12 mánaða fresti og
c)   viðbótarskoðanir eftir því sem ástæða er til.

2. mgr. fellur brott.

 

10. gr.

Eftirfarandi breytingar verða á 9. gr. reglugerðarinnar:

1. mgr. orðist svo: Öll ný og gömul farþegaskip, sem uppfylla kröfur þessarar reglugerðar, skulu fá öryggisskírteini farþegaskips í samræmi við reglugerð. Skírteinið skal vera með því sniði sem mælt er fyrir um í II. viðauka tilskipunarinnar. Samgöngustofa skal gefa skírteinið út eftir að upphafs­skoðun hefur farið fram eins og lýst er í a-lið 1. mgr. 8. gr. Stjórnvald fánaríkis annast þetta fyrir erlent farþegaskip í innanlandssiglingum við Ísland.

Í stað orðsins "gistiríki" kemur hvar sem það kemur fyrir í réttu beygingarfalli í 3. ml. 3. mgr.: hafnarríki

4. mgr. orðist svo: Viðbótaröryggisráðstafanir, jafngildar öryggisráðstafanir og undanþágur, sem veittar eru skipi eða fari í samræmi við ákvæði 1., 2. og 3. mgr. 9. gr. tilskipunarinnar og 1., 2. og 3. mgr. 7. gr. reglugerðarinnar skulu tilgreindar á skírteini skipsins eða farsins.

 

11. gr.

Innleiðing.

Reglugerð þessi er til innleiðingar á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2017/2108 frá 15. nóvember 2017 um breytingu á tilskipun ráðsins 2009/45/EB um öryggisreglur og staðla fyrir farþegaskip, sem felld var inn í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 107/2020 frá 14. júlí 2020, með þeim breytingum og viðbótum sem leiðir af XIII. viðauka samn­ingsins um Evrópska efnahagssvæðið, bókun 1 um altæka aðlögun og öðrum ákvæðum hans. Til­skipunin er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 54 frá 13. ágúst 2020, bls. 187-198.

 

12. gr.

Gildistaka.

Reglugerð þessi, sem sett er með heimild í 4. mgr. 3. gr. laga nr. 47/2003, um eftirlit með skipum, með síðari breytingum, öðlast þegar gildi.

 

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu, 26. nóvember 2020.

 

F. h. r.

Sigurbergur Björnsson.

Eggert Ólafsson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica