Fara beint í efnið

Prentað þann 29. mars 2024

Stofnreglugerð

1245/2018

Reglugerð um gerð stefnumótandi áætlunar ríkisins um málefni sveitarfélaga.

1. gr.

Ráðherra leggur að minnsta kosti á þriggja ára fresti fyrir Alþingi tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi áætlun ríkisins um málefni sveitarfélaga til fimmtán ára í senn. Í áætluninni skal jafnframt mörkuð aðgerðaáætlun til næstu fimm ára á þessu sviði.

Markmið stefnumótandi áætlunar er m.a. að draga saman meginþætti langtímastefnumörkunar ríkisins í þeim málaflokkum sem snúa að verkefnum sveitarfélaga og stuðla að samræmingu í stefnumótun ríkis og sveitarfélaga á þeim sviðum með heildarhagsmuni sveitarstjórnarstigsins að leiðarljósi. Jafnframt að setja fram leiðarljós um hvert stefna skuli í málefnum sveitarstjórnarstigsins með eflingu þess og sjálfbærni að markmiði.

Áætlunin skal byggja á markmiðum sveitarstjórnarlaga og stefnu stjórnvalda um sjálfbæra þróun. Hún skal taka mið af fyrirliggjandi stefnumótandi áætlunum opinberra aðila sem varða stöðu og þróun sveitarstjórnarmála. Sérstaklega skal horft til þeirrar stefnumörkunar sem fram kemur í lögbundinni byggðaáætlun og sóknaráætlunum. Þá skal horft til samgönguáætlunar, fjarskiptaáætlunar og landskipulagsstefnu. Við mótun áætlunarinnar skal ávallt gætt að sjálfstjórnarrétti sveitarfélaga.

2. gr.

Ráðherra skipar fjögurra manna starfshóp sem gerir tillögur til ráðherra að stefnumótandi áætlun ríkisins um málefni sveitarfélaga til fimmtán ára í senn og aðgerðaáætlun til fimm ára. Skipunartími starfshópsins takmarkast við embættistíma þess ráðherra sem skipar.

Í starfshópnum sitja tveir fulltrúar ráðherra, þar af er annar formaður, og tveir fulltrúar Sambands íslenskra sveitarfélaga. Ráðuneytið leggur starfshópnum til starfsmann en auk þess getur starfshópurinn kallað til sín sérfræðinga í málefnum sveitarstjórnarstigsins.

Ráðherra setur starfshópnum erindisbréf þar sem tilgreindar eru þær áherslur hans og markmið sem starfshópurinn skal hafa að leiðarljósi í störfum sínum.

3. gr.

Við gerð tillagna að stefnumótandi áætlun og aðgerðaáætlun skal starfshópur ráðherra eiga samráð við ráðuneyti og stofnanir ríkisins, þ.m.t. stýrihóp Stjórnarráðsins um byggðamál. Þá skulu tillögurnar unnar í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga og sveitarfélög. Einnig skal haft samráð við hagsmunaaðila eftir þörfum. Loks skal almenningi gefinn kostur á að koma að sjónarmiðum sínum og athugasemdum í opnu samráðsferli.

4. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er á grundvelli 6. mgr. 2. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011, sbr. 10. gr. laga nr. 53/2018, tekur þegar gildi.

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu, 17. desember 2018.

Sigurður Ingi Jóhannsson.

Ragnhildur Hjaltadóttir.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.