Fara beint í efnið

Prentað þann 29. mars 2024

Stofnreglugerð

795/2018

Reglugerð um Þjóðskrá Íslands.

1. gr. Gildissvið.

Reglugerð þessi gildir um stofnunina Þjóðskrá Íslands, hlutverk hennar, starfshætti, rekstur starfs- og upplýsingakerfa og starfsemi fagráða.

2. gr. Fagráð.

Ráðherra skal skipa fagráð fimm einstaklinga í þeim tilgangi að vera vettvangur samráðs og upplýsingaskipta á fagsviðum stofnunarinnar.

Fagráðið skipa fulltrúi ráðherra, sem skal vera formaður, einn fulltrúi sem tilnefndur er af dómsmálaráðherra, einn fulltrúi tilnefndur af fjármála- og efnahagsráðherra, einn fulltrúi tilnefndur af Sambandi íslenskra sveitarfélaga og einn fulltrúi tilnefndur af Samtökum atvinnulífsins. Sérfræðingur ráðuneytisins situr fundi fagráðsins til ráðgjafar.

Fagráðið skal funda eins oft og þurfa þykir, a.m.k. tvisvar á ári. Þjóðskrá Íslands setur fagráðinu starfsreglur, í samráði við fagráðið, auk þess að útvega fundaraðstöðu og ritara.

Ekki er greitt fyrir setu í fagráðinu.

3. gr. Skráning einstaklinga og þjóðskrá.

Stofnunin sér um þjóðskrá og tengdar skrár, annast rekstur gagna- og upplýsingakerfa þjóðskrár og miðlun upplýsinga samkvæmt lögum um þjóðskrá og almannaskráningu nr. 54/1962, með síðari breytingum.

4. gr. Fasteignaskrá og fasteignamat.

Stofnunin sér um fasteignaskrá og tengdar skrár og annast rekstur gagna- og upplýsingakerfa fasteignaskrár, miðlun upplýsinga og ákvörðun fasteignamats samkvæmt lögum um skráningu og mat fasteigna nr. 6/2001, með síðari breytingum.

5. gr. Brunabótamat.

Stofnunin sér um ákvörðun brunabótamats samkvæmt lögum nr. 48/1994, með síðari breytingum.

6. gr. Útgáfa skilríkja.

Stofnunin heldur skilríkjaskrá, gefur út vegabréf til íslenskra ríkisborgara og sér um útgáfu annarra skilríkja á vegum hins opinbera samkvæmt lögum um vegabréf nr. 136/1998, með síðari breytingum og samkvæmt lögum um útgáfu og notkun nafnskírteina nr. 25/1965. Þá gefur stofnunin út rafrænt auðkenni.

7. gr. Undirbúningur kosninga.

Stofnunin gefur út kjörskrárstofn, rekur utankjörfundakerfi, meðmælendakerfi og kjördeildakerfi og sinnir verkefnum sem henni eru falin við framkvæmd kosninga samkvæmt lögum þar að lútandi.

8. gr. Gildistaka.

Reglugerð þessi er sett með heimild í 7. gr. laga um Þjóðskrá Íslands nr. 70/2018 og öðlast gildi þann 1. september 2018.

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu, 20. ágúst 2018.

Sigurður Ingi Jóhannsson.

Ragnhildur Hjaltadóttir.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.