Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti

346/2018

Reglugerð um breytingu á reglugerð nr. 822/2004 um gerð og búnað ökutækja, með síðari breytingum.

1. gr.

Eftirfarandi breytingar verða á ákvæði 03.00(1) í reglugerðinni:

  a) Í stað hugtaksins "Fulltrúi" kemur ný skilgreining sem nefnist Fulltrúi framleiðanda og orðast svo:
    Fulltrúi framleiðanda: Einstaklingur eða lögaðili með staðfestu í aðildarríki á Evrópska efnahagssvæðinu sem framleiðandi tilnefnir sem fulltrúa sinn gagnvart Samgöngustofu og kemur fram fyrir hans hönd í málum sem þessi reglugerð tekur til. Þar sem vísað er til hugtaksins "framleiðandi" ber að skilja það sem framleiðandi eða fulltrúi hans. Fulltrúi ber ábyrgð á heildargerðar­viðurkenn­ingu, gerðarviðurkenningu og skráningu ökutækja fyrir hönd innflytjanda eða framleiðanda ökutækis. Samgöngustofa kveður nánar á um skyldur fulltrúa í verklagsreglum sínum.

2. gr.

Við ákvæði 03.00 í reglugerðinni bætast nýir liðir (2)-(5) sem orðast svo:

(2) Afturköllun gerðarviðurkenningar ökutækis.
  Samgöngustofa getur afturkallað gerðarviðurkenningu ökutækis, sem stofnunin hefur veitt, hafi við skráningu og/eða athugun komið í ljós að ný ökutæki, kerfi, íhlutir eða aðskildar tæknieiningar sem hafa samræmisvottorð eða sem á er viðurkenningarmerki, samrýmist ekki þeirri gerð sem viður­kennd var.
  Samgöngustofa getur krafist þess að öll ökutæki sem tilheyra tiltekinni gerðarviðurkenningu skuli innan tiltekins tíma færð til skoðunar hjá skoðunarstofu eða óháðum rannsóknaraðila, ef í ljós kemur að eitt þeirra er ekki í samræmi við gerðarviðurkenninguna, í því skyni að tryggja að framleidd ökutæki, kerfi, íhlutir eða aðskildar tæknieiningar verði í samræmi við viður­kennda gerð.
  Ef ástæða er til að ætla að mörg ökutæki sömu gerðarviðurkenningar séu gölluð eða í ófull­nægjandi ástandi getur Samgöngustofa krafið framleiðanda/innflytjanda um að endurbæta öll skráð ökutæki þessarar gerðarviðurkenningar þannig að þau verði í lögmæltu ástandi.
  Samgöngustofa skal tilkynna viðurkenningaryfirvöldum í öðrum aðildarríkjum um ráðstafanir sem gripið hefur verið til.
(3) Notkun og sala hluta eða búnaðar, sem getur skapað verulega hættu fyrir rétta virkni kerfa sem eru nauðsynleg fyrir öryggi ökutækis eða vistvænleika hluta þess.
  Heimilt er að hlutir eða búnaður, sem getur skapað verulega hættu fyrir rétta virkni kerfa sem eru nauðsynleg fyrir öryggi ökutækis eða vistvænleika þess, sé seldur, boðinn til sölu eða tekinn í notkun, en þó því aðeins að Samgöngustofa hafi leyft þessa hluti eða þennan búnað í samræmi við 5. til 10. mgr. 31. gr. tilskipunar 2007/46/EB.
(4) Upplýsingar ætlaðar notendum.
  Framleiðanda er ekki heimilt að veita tæknilegar upplýsingar sem tengjast efnisatriðunum sem kveðið er á um í tilskipun 2007/46/EB eða í stjórnvaldsfyrirmælum sem talin eru upp í IV. við­auka hennar og víkja frá efnisatriðunum sem viðurkenningaryfirvald hefur samþykkt.
  Ef sértækt ákvæði er um heimild til að veita tæknilegar upplýsingar í stjórnvaldsfyrirmælum skal framleiðandi gera allar viðkomandi upplýsingar og nauðsynlegar leiðbeiningar aðgengi­legar notendum þar sem lýst er sérstökum skilyrðum eða takmörkunum sem tengjast notkun ökutækis, íhlutar eða aðskilinnar tæknieiningar.
(5) Upplýsingar ætlaðar framleiðendum íhluta eða aðskilinna tæknieininga.
  Framleiðandi íhluta eða aðskilinna tæknieininga skal, sem handhafi gerðar­viðurkenningar­vottorðs sem felur í sér, í samræmi við 4. mgr. 10. gr. tilskipunar 2007/46/EB, takmarkanir á notkun eða sérstök skilyrði fyrir áfestingu þeirra, eða hvort tveggja, veita framleiðanda ökutækisins ítarlegar upplýsingar þar að lútandi.
  Ef ákvæði er um slíkt í stjórnvaldsfyrirmælum skal framleiðandi íhluta eða aðskilinna tækni­eininga láta fylgja leiðbeiningar um takmarkanir á notkun eða sérstök skilyrði fyrir áfestingu, eða hvort tveggja, með framleiddum íhlutum eða aðskildum tæknieiningum.
  Þessar upplýsingar skulu veittar, í samráði við viðurkenningaryfirvald, í viðeigandi fylgiskjali, t.d. notendahandbókinni eða viðhaldshandbókinni.

3. gr.

Liður (9) í ákvæði 03.02 í reglugerðinni fellur niður.

4. gr.

Gildistaka.

Reglugerð þessi er sett með heimild í 60. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 og öðlast þegar gildi.

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu, 21. mars 2018.

F. h. r.

Sigurbergur Björnsson.

Valgerður B. Eggertsdóttir.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica