Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti

850/2017

Reglugerð um breytingu á reglugerð nr. 175/2008, um skipstjórnar- og vélstjórnarréttindi á fiskiskipum, varðskipum og öðrum skipum, með síðari breytingum. - Brottfallin

1. gr.

Fyrir aftan orðið "varðskip" og fyrir framan orðin "og önnur skip" í 1. mgr. 1. gr. reglugerðarinnar kemur: vinnuskip sjókvíaeldisstöðva.

2. gr.

Við 3. gr. reglugerðarinnar bætast tveir nýir stafliðir, sem orðast svo:

  1. Vinnuskip sjókvíaeldisstöðva eru skip sem eru 15 metrar og styttri að skráningarlengd eða undir 30 brúttórúmlestum að stærð, með vélarafl allt að 750 kW, sem eingöngu eru notuð til þess að þjónusta sjókvíaeldisstöðvar staðsettar innan fjarða og flóa.
  2. Sigling innan fjarða og flóa er athafnasvæði skips sem takmarkast af línu sem dregin er milli annnesja fjarða og flóa. Ef lengd slíkrar línu er meiri en 4 sjómílur skal línan færast inn fjörðinn samsíða línunni sem þverar fjörðinn þar til mesta fjarlægð á milli stranda er innan við 4 sjómílur.

3. gr.

Fyrir aftan orðið "varðskipum" og fyrir framan orðin "og öðrum skipum" í 2. mgr. 5. gr. reglugerðarinnar kemur: vinnuskipum sjókvíaeldisstöðva.

4. gr.

Við 6. gr. reglugerðarinnar bætist nýr stafliður svohljóðandi:

  1. Skipstjóri/stýrimaður á vinnuskipum sjókvíaeldisstöðva í siglingum innan fjarða og flóa eftir 12 mánaða siglingatíma og eftir að hafa lokið:
    1. eftirfarandi áföngum í námi til 24 metra skipstjórnarréttinda: SAML3SA, SRSK2SA, STÖL2SA, UMHV2SA eða
    2. viðbótarnámi til að gegna stöðu skipstjóra eða stýrimanns á vinnuskipi sjókvíaeldisstöðva sem tekur mið af því námsefni sem tilgreint er undir 1. tölul. og lýtur að rekstrarumhverfi vinnuskipa sjókvíaeldisstöðva.

Sá sem lýkur framangreindum áföngum eða viðurkenndu viðbótarnámi, sbr. b-lið, getur sótt um að fá atvinnuréttindin færð inn í atvinnuskírteinið.

5. gr.

Í stað 1. mgr. 12. gr. reglugerðarinnar koma tvær málsgreinar, sem orðast svo:

Sá sem lokið hefur vélgæslunámi samkvæmt reglugerð settri af menntamálaráðuneyti eða sveinsprófi í vélvirkjun, hefur öðlast rétt til að vera:

  1. vélavörður á skipum sem eru 12 metrar og styttri að skráningarlengd með vélarafl 750 kW eða minna (Skírteini: Smáskipavélavörður (SSV)),
  2. yfirvélstjóri á vinnuskipum sjókvíaeldisstöðva í siglingum innan fjarða og flóa eftir 4 mánaða siglingatíma og eftir að hafa lokið:
    eftirfarandi áföngum í námi til skírteinis Vvy1: RAFV1, VA04AV, RAFV2, VA04BV, VÉLS2VA04BV eða
    viðurkenndu viðbótarnámi til að gegna stöðu yfirvélstjóra á vinnuskipi sjókvíaeldisstöðva, skipulögðu af skóla sem uppfyllir kröfur laga um áhafnir íslenskra fiskiskipa, varðskipa, skemmtibáta og annarra skipa.

Sá sem lýkur framangreindum áföngum eða viðurkenndu viðbótarnámi, sbr. b-lið, getur sótt um að fá atvinnuréttindin færð inn í atvinnuskírteinið.

6. gr.

Lagastoð og gildistaka.

Reglugerð þessi er sett með heimild í 3. mgr. 19. gr. laga nr. 30/2007, um áhafnir íslenskra fiskiskipa, varðskipa, skemmtibáta og annarra skipa, með síðari breytingum, og öðlast þegar gildi.

Ákvæði til bráðabirgða.

Þrátt fyrir ákvæði 4. gr. hér að framan hafa þeir, sem við gildistöku þessarar reglugerðar eru handhafar smáskipaskírteinis og sem hafa að baki 3 mánaða siglingatíma í stöðu skipstjóra eða stýrimanns, rétt til starfa sem skipstjóri/stýrimaður á vinnuskipum sjókvíaeldisstöðva í siglingum innan fjarða og flóa fram að 1. september 2018. Eftir þann tíma skal viðkomandi uppfylla ákvæði reglugerðar þessarar til að starfa áfram sem skipstjóri/stýrimaður á vinnuskipi sjókvíaeldisstöðva.

Þrátt fyrir ákvæði 5. gr. hér að framan hafa þeir, sem við gildistöku þessarar reglugerðar eru handhafar skírteinis SSV með 12 mánaða siglingatíma í stöðu smáskipavélavarðar, rétt til starfa sem vélstjóri á vinnuskipum sjókvíaeldisstöðva í siglingum innan fjarða og flóa fram að 1. september 2018. Eftir þann tíma skal viðkomandi uppfylla ákvæði reglugerðar þessarar til að starfa áfram sem vélstjóri á vinnuskipi sjókvíaeldisstöðva.

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu, 20. september 2017.

Jón Gunnarsson.

Ragnhildur Hjaltadóttir.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica