Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti

595/2017

Reglugerð­ um breytingu á reglugerð um alþjónustu og framkvæmd póstþjónustu nr. 364/2003. - Brottfallin

1. gr.

10. gr. reglugerðarinnar skal orðast svo:

Útburður.

Rekstrarleyfishafi, sem fengið hefur leyfi til að starfrækja póstþjónustu sem fellur undir alþjónustu og á hafa verið lagðar kvaðir samkvæmt rekstrarleyfi um að veita alþjónustu, skal bera út póst til allra einstaklinga sem hafa fasta búsetu, sbr. lög um lögheimili nr. 21/1990, með síðari breytingum. Á sama hátt skal bera út póst til fyrirtækja sem hafa fasta atvinnustarfsemi í viðkomandi húsnæði.

Rekstrarleyfishafi skal tryggja að útburður sem fellur undir alþjónustu standi til boða alla virka daga.

Heimilt er að fækka dreifingardögum niður í allt að tvo virka daga í viku ef kringumstæður eða landfræðilegar aðstæður hindra hagkvæma dreifingu. Með kringumstæðum er m.a. átt við:

  1. eftirspurn almennings og fyrirtækja á þjónustu innan einkaréttar hafi minnkað verulega og er ekki í samræmi við framboð þjónustunnar,
  2. hætta er á, við óbreytt þjónustustig, að þjónustan verði almenningi ekki viðráðanleg, í skilningi 4. mgr. 16. gr. laga um póstþjónustu.

Við mat á kringumstæðum eða landfræðilegum aðstæðum, skal auk þeirra atriða sem getið er hér að ofan, annars vegar taka tillit til mikilvægi póstþjónustu fyrir þá aðila sem í hlut eiga, og hins vegar erfiðleika við útburð, svo sem vegna fjarlægðar, vetrarþjónustu Vegagerðarinnar á við­komandi svæði, lélegs vegasambands, eða kostnaðar sem telst óhófleg byrði á fyrirtækinu.

Rekstrarleyfishafi skal tilkynna Póst- og fjarskiptastofnun um fækkun dreifingardaga ásamt rökstuðningi ef hann ákveður að fækka almennum dreifingardögum innan alþjónustu, eigi síðar en tveimur mánuðum fyrir fyrirhugaðar breytingar á þjónustunni. Telji Póst- og fjarskiptastofnun fækkun dreifingardaga ekki samræmast lögum og reglum um póstþjónustu, skal stofnunin leitast við að upplýsa rekstrarleyfishafa um það áður en breytingin kemur til framkvæmda. Póst- og fjarskiptastofnun er heimilt að endurmeta mat á fækkun dreifingardaga ef stofnunin telur ástæðu til.

Póst- og fjarskiptastofnun skal tilkynna Eftirlitsstofnun EFTA um breytingar á tíðni dreifingardaga samkvæmt þessari grein.

Bjóði rekstrarleyfishafi eftir sem áður upp á hraðari bréfasendingar á markaðslegum forsendum falla þær utan alþjónustu.

Ekki er skylda til að bera út póst í sumarhús (frístundahús) eða til fyrirtækja sem skráð eru með heimilisfesti í sumarhúsum án eiginlegrar starfsemi á viðkomandi stað, og ekki heldur á svæðum sem teljast til hálendis. Sama á við ef búseta eða regluleg starfsemi er skemmri en þrír mánuðir á almanaksári.

Póstrekanda er heimilt að synja um útburð pósts á heimilisfang ef vart verður við eftirlitslausan eða lausan hund á viðkomandi lóð sem torveldað getur aðgengi bréfbera að bréfakassa/bréfalúgu.

2. gr.

13. gr. reglugerðarinnar skal orðast svo:

Gæði bréfa innan alþjónustu.

Gæði bréfasendinga innan alþjónustu tekur mið af fjölda dreifingardaga rekstrarleyfishafa, sbr. 10. gr.

Ef um daglegan útburð er að ræða skal að lágmarki 85 af hundraði innanlandspósts innan alþjónustu í hraðasta flokki (A-póstur) borinn út daginn eftir að hann hefur verið lagður í póst (D+1), og 97 af hundraði pósts skal borinn út innan þriggja daga (D+3) frá póstlagningu. Krafan miðast við þriggja mánaða tímabil.

Að lágmarki skal 85 af hundraði pósts í hægari flokki (B-póstur) borinn út innan þriggja daga (D+3) frá póstlagningu. Krafan miðast við þriggja mánaða tímabil.

Hafi rekstrarleyfishafi fækkað dreifingardögum, sbr. 10. gr., skal þó að lágmarki 85 af hundraði pósts samkvæmt 2. mgr. borinn út a.m.k. innan fjögurra daga frá póstlagningu (D+4), og 97 af hundraði innan sex daga (D+6). Tilgreint hlutfall samkvæmt 3. mgr. skal a.m.k. miðast við sex daga (D+6).

Bréf milli landa innan Evrópska efnahagssvæðisins skulu borin út hér á landi til samræmis við gæðakröfur sem gilda um hraðasta flokk bréfa innan alþjónustu, sbr. 2. og 4. mgr. hér að ofan.

3. gr.

Gildistaka og heimild.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í 6. og 35. gr. laga um póstþjónustu nr. 19/2002 og öðlast þegar gildi.

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu, 29. júní 2017.

Jón Gunnarsson.

Ragnhildur Hjaltadóttir.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica