Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti

966/2018

Reglugerð um undirbúning, framkvæmd og fyrirkomulag rafrænna íbúakosninga og gerð rafrænnar kjörskrár.

1. gr.

Tilgangur og gildissvið.

Tilgangur reglugerðar þessarar er að tryggja að íbúar í sveitarfélögum geti við íbúakosningar, skv. 107. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, að uppfylltum skilyrðum, kosið í rafrænni atkvæða­greiðslu á netinu.

Tilgangurinn er einnig að nýta rafræna kjörskrá og nýja tækni við íbúakosningar þar sem eðlilegar kröfur um leynd við kosningar, réttindi kjósenda og örugga framkvæmd kosninga eru uppfylltar.

Reglugerðin gildir um framkvæmd íbúakosninga í þeim sveitarfélögum þar sem ráðherra hefur heimilað að fram fari íbúakosning með rafrænum hætti og að kjörskrá vegna kosningarinnar verði rafræn, sbr. bráðabirgðaákvæði V í sveitarstjórnarlögum nr. 138/2011, sbr. lög nr. 28/2013 og nr. 73/2018.

2. gr.

Orðskýringar.

Í reglugerð þessari gilda eftirfarandi orðskýringar:

Afkóðun: Aðferð við að gera dulkóðaðar upplýsingar læsilegar með því að nota til þess gerðan afkóðunarlykil.

Auðkenning: Aðferð sem beitt er til að staðfesta auðkenni kjósenda.

Dulkóðun: Aðferð sem gerir upplýsingar aðeins læsilegar þeim sem hefur aðgang að afkóðunarlykli.

Kosningakerfi: Hugbúnaður sem er notaður til að stjórna og framkvæma rafræna íbúakosningu og íbúakannanir.

Íslykill: Veflykill, notaður á netinu til auðkenningar, gefinn út af Þjóðskrá Íslands.

Rafræn íbúakosning: Kosning þar sem einungis er kosið með rafrænni atkvæðagreiðslu á netinu.

Rafræn kjörskrá: Kjörskrá sem gerð er á rafrænan hátt samkvæmt lögum um kosningar til sveitar­stjórna.

Rafræn skilríki: Skilríki sem notuð eru á netinu til auðkenningar, undirritunar og dulritunar.

Rafrænn kjörseðill: Kjörseðill sem kjósendur sjá í rafrænu viðmóti kosningakerfis og ber með sér það málefni sem kosið er um.

3. gr.

Undirbúningur íbúakosninga.

Þegar sveitarstjórn hefur ákveðið að halda íbúakosningu skv. 1. mgr. 107. gr. sveitarstjórnarlaga er henni heimilt að óska eftir því við ráðherra að kosningin fari eingöngu fram með rafrænum hætti og að kjörskrá vegna kosningarinnar verði rafræn.

Í beiðni sveitarstjórnar skv. 1. mgr. skulu koma fram upplýsingar um það efni sem kjósa skal um en sveitarstjórn setur fram þá endanlegu tillögu sem bera á undir atkvæði. Í beiðni sveitarfélags skulu einnig koma fram upplýsingar um hvort atkvæðagreiðsla eigi að vera bindandi og hvort óskað sé eftir því að miða kosningarrétt við 16 ára aldur, sbr. 5. mgr. bráðabirgðaákvæðis V í sveitar­stjórnar­lögum.

Ráðherra skal svara beiðni sveitarfélags skv. 1. mgr. innan tveggja vikna frá því hún er lögð fram. Verði ráðherra við beiðni sveitarfélags skal fylgja ákvæðum sveitarstjórnarlaga um íbúakosningar eftir því sem við getur átt við auglýsingu og undirbúning hinnar rafrænu íbúakosningar. Hafni ráðherra beiðni sveitarfélags er sú ákvörðun hans endanleg. Höfnun ráðherra skal rökstudd.

4. gr.

Hlutverk Þjóðskrár Íslands.

Þjóðskrá Íslands skal gera rafræna kjörskrá í samræmi við ákvæði þessarar reglugerðar.

Þjóðskrá Íslands skal hafa yfirumsjón með framkvæmd rafrænna íbúakosninga, meðal annars varð­andi val á kosningakerfi, auðkenningu kjósenda, staðfestingu á kosningarrétti einstaklinga, taln­ingu atkvæða og samantekt á niðurstöðum kosningar.

Þjóðskrá Íslands skal tryggja að kosningakefið uppfylli þær kröfur sem gerðar eru til þess sam­kvæmt reglugerð þessari.

5. gr.

Hlutverk ráðgjafarnefndar um framkvæmd rafrænna íbúakosninga.

Ráðgjafarnefnd um framkvæmd rafrænna íbúakosninga skal fylgjast með framkvæmd íbúa­kosn­inga. Hún staðfestir val Þjóðskrár Íslands á kosningakerfi.

Markmið með störfum nefndarinnar er meðal annars að draga lærdóm af þeim tilraunaverkefnum sem um ræðir og gera tillögur um atriði sem betur megi fara. Tilgangurinn er að upplýsa almenning og stjórnsýsluna um hagræði og öryggi rafrænna kosninga og búa í haginn fyrir rafræna fram­kvæmd almennra kosninga.

6. gr.

Hlutverk kjörstjórna sveitarfélags.

Yfirkjörstjórn sveitarfélags, sem kosin er skv. 14. gr. laga um kosningar til sveitarstjórna, nr. 5/1998, hefur eftirlit með framkvæmd rafrænnar íbúakosningar og kemur að undirbúningi hennar eins og mælt er fyrir um í reglugerð þessari.

Sveitarstjórn kýs aðrar kjörstjórnir eftir meginreglum 14. gr. laga um kosningar til sveitarstjórna til að annast framkvæmd kosningarinnar eftir því sem þörf er á.

Um hlutverk kjörstjórna sveitarfélagsins fer að öðru leyti eftir meginreglum laga um kosningar til sveitarstjórna, eftir því sem við á.

7. gr.

Fyrirkomulag atkvæðagreiðslu.

Rafræn íbúakosning skal standa eigi skemur en fjóra sólarhringa en eigi lengur en tíu sólarhringa samkvæmt nánari ákvörðun sveitarstjórnar. Í auglýsingu sveitarfélags um kosninguna skal koma fram hvenær sólarhrings hún hefjist og hvenær henni ljúki.

8. gr.

Kosningakerfið.

Kosningakerfið skal uppfylla viðeigandi öryggisstaðla skv. mati Þjóðskrár Íslands. Halda skal atburða­dagbók um vinnslu og notkun kosningakerfisins.

Í kosningarhluta kosningakerfisins er viðmót fyrir kjósanda þar sem hann getur greitt atkvæði um þá tillögu sem kosið er um eftir að gengið hefur verið úr skugga um að hann sé á kjörskrá. Í stjórnborðshluta er viðmót fyrir úrvinnslu atkvæðagreiðslu, þ.e. talningu og tölfræðiúttekt.

Hvorki þeir sem hafa aðgang að kosningakerfinu né óviðkomandi aðilar eiga að geta aflað sér vitneskju um hvernig kjósandi greiddi atkvæði eða breytt atkvæði hans án þess að það sjáist í kerfinu eða vart verði við það með öðrum hætti.

Birta skal opinberlega upplýsingar um það hvernig kosningakerfið virkar og hvernig eyðing gagna að loknum kosningum fer fram.

9. gr.

Rafræn kjörskrá.

Þjóðskrá Íslands gefur út rafræna kjörskrá til afnota við rafrænar íbúakosningar samkvæmt heimild sveitarstjórnar eða fulltrúa hennar. Við ákvörðun á því hvort íbúi verði tekinn á kjörskrá skal miða við skráningu lögheimilis hans í sveitarfélaginu samkvæmt íbúaskrá þjóðskrár.

Viðmiðunartími kjörskrár skal vera kl. 17, átta dögum fyrir upphafsdag kosningar miðað við auglýsingu sveitarfélags skv. 7. gr. Óheimilt er að breyta kjörskrá vegna nýs lögheimilis nema flutningur í eða úr sveitarfélaginu hafi átt sér stað í síðasta lagi fyrir viðmiðunartímann og tilkynning um nýtt lögheimili hafi borist Þjóðskrá Íslands til skráningar fyrir þann tíma.

Á kjörskrá skal taka þá íbúa sveitarfélagsins sem uppfylla skilyrði 2. gr. laga um kosningar til sveitarstjórna. Hafi ráðherra heimilað að miða kosningaaldur við 16 ár samkvæmt 5. mgr. bráða­birgða­ákvæðis V í sveitarstjórnarlögum, skal enn fremur taka þá íbúa á kjörskrá sem náð hafa 16 ára aldri þann dag sem kosningu lýkur, sbr. 7. gr. Í rafrænni kjörskrá skulu koma fram upp­lýs­ingar um nafn kjósanda, kyn, kennitölu og lögheimili.

Sveitarfélagi skal veittur aðgangur að rafrænni kjörskrá fimm dögum áður en heimilt er að hefja atkvæðagreiðslu og frá sama tíma skal kjósandi geta kannað hvort hann sé á kjörskrá fyrir viðkomandi kosningu á vefsetrinu: Ísland.is.

Þjóðskrá Íslands skal gera leiðréttingar á kjörskrá ef nauðsyn krefur, svo sem ef tilkynning berst um andlát. Slíkar leiðréttingar, sem gera þarf eftir að kjörskrá hefur verið lögð fram skv. 4. mgr., skal gera í einu lagi þegar sólarhringur er til loka kosningarinnar. Leiðréttingar á kjörskrá skulu tilkynntar viðkomandi sveitarstjórn og kjósanda ef við á.

10. gr.

Auðkenning kjósanda.

Áður en kjósandi getur greitt atkvæði í íbúakosningu skal hann auðkenna sig í kosningakerfinu. Kosningarréttur er staðfestur með uppflettingu í rafrænni kjörskrá. Þjóðskrá Íslands skal tryggja að sú aðferð sem notuð er við auðkenningu kjósanda uppfylli viðeigandi öryggisstaðla.

11. gr.

Hvernig kosning fer fram.

Eftir að auðkenning kjósanda hefur farið fram getur hann greitt rafrænt atkvæði í kosningakerfinu. Kjósandi skal greiða atkvæði í einrúmi eða þannig að aðrir sjái ekki til.

Á meðan kosning stendur yfir getur kjósandi, sem áður hefur greitt atkvæði, gert það að nýju. Hafi kjósandi greitt atkvæði oftar en einu sinni gildir síðast greidda atkvæðið.

12. gr.

Kosning á opinberum stað.

Sveitarstjórn ákveður hvar kjósendur geta greitt atkvæði á opinberum stöðum í sveitarfélaginu og stýrir kjörstjórn þar framkvæmd kosningarinnar eftir meginreglum laga um kosningar til sveitar­stjórna, eftir því sem við á. Þar skal vera til staðar nauðsynlegur tækjabúnaður og skal kjós­endum standa til boða nauðsynleg tækniaðstoð. Þá skal kjósendum tryggt nægilegt næði til þess að greiða atkvæði sitt.

Kjörstjórn skal enn fremur tryggja að kjósandi geti nýtt sér heimild 63. gr. laga um kosningar til sveitarstjórna um aðstoð við atkvæðagreiðsluna. Við sjálfa kosningarathöfnina er einungis kjör­stjórnar­manni heimilt að veita aðstoð eftir ákvæðum 63. gr. laga um kosningar til sveitar­stjórna, séu skilyrði greinarinnar á annað borð uppfyllt.

13. gr.

Rafrænir kjörseðlar.

Á rafrænum kjörseðli skal koma fram með skýrum hætti hver sú tillaga er sem borin er undir atkvæði. Rafrænir kjörseðlar skulu þannig úr garði gerðir að kjósandi geti skilað atkvæði sínu auðu.

Yfirkjörstjórn skal staðfesta áður en atkvæðagreiðsla hefst að kjörseðillinn sé rétt birtur í kerfinu.

14. gr.

Leynd við kosningu og öryggiskröfur.

Kosningakerfið skal þannig úr garði gert að tryggð sé leynd við kosningu þannig að atkvæði kjós­anda verði ekki rakið til hans. Skal auðkenning kjósanda aðgreind frá kosn­ingar­hluta kosninga­kerfisins.

Atkvæði kjósanda skal dulkóðað með öruggum hætti áður en því er skilað til kosningakerfisins. Áður en afkóðun atkvæða fer fram eru tengsl dulkóðaðra atkvæða og kennitalna rofin.

Þjóðskrá Íslands skal í samráði við ráðgjafarnefnd um framkvæmd rafrænna íbúakosninga fá sér­fróða aðila til að gera öryggisúttekt og tryggja öryggi meðan á framkvæmd stendur.

15. gr.

Afkóðun og talning atkvæða.

Að lokinni kosningu skulu atkvæði talin í kosningakerfinu. Áður en talning atkvæða getur hafist skulu þau afkóðuð.

Fulltrúar í yfirkjörstjórn og ráðgjafarnefnd um framkvæmd rafrænna íbúakosninga skulu varðveita lykla sem notaðir eru við afkóðun atkvæða. Lyklum skal úthlutað gegn framvísun persónuskilríkja.

Að lágmarki þarf tvo lykla til þess að afkóða atkvæði og skal annar koma frá fulltrúa kjörstjórnar en hinn frá fulltrúa ráðgjafarnefndar um framkvæmd rafrænna íbúakosninga.

16. gr.

Niðurstöður og meðferð gagna eftir kosningu.

Yfirkjörstjórn skal tilkynna niðurstöður íbúakosningarinnar og sjá til þess að þær verði aðgengilegar almenningi.

Þjóðskrá Íslands skal taka saman tölfræðiupplýsingar um kjörsókn eftir ákvörðun yfirkjörstjórnar. Enn fremur skal yfirkjörstjórn senda Hagstofu Íslands skýrslu um kosninguna, sbr. 88. gr. laga um kosningar til sveitarstjórna.

Þjóðskrá Íslands skal sjá til þess að atkvæðum og rafrænni kjörskrá verði eytt úr kosningakerfinu innan átta vikna frá lokum kosningar að teknu tilliti til framkominna kæra. Þjóðskrá Íslands skal staðfesta við yfirkjörstjórn að umræddum gögnum hafi verið eytt.

17. gr.

Kærur.

Um kærur vegna framkvæmdar rafrænna íbúakosninga fer eftir ákvæðum XIV. kafla laga um kosn­ingar til sveitarstjórna, nr. 5/1998, sbr. 6. mgr. 107. gr. sveitarstjórnarlaga.

18. gr.

Gagnsæi og eftirlit.

Upplýsingar um framkvæmd íbúakosninganna skulu vera aðgengilegar á vefsetrinu: Ísland.is. Á vefsetrinu skal m.a. lýsa hlutverki og ábyrgðarsviði þeirra sem hafa umsjón með framkvæmd kosningarinnar.

19. gr.

Frávik.

Ráðherra getur að tillögu ráðgjafarnefndar um framkvæmd rafrænna íbúakosninga heimilað frávik frá tæknilegri útfærslu, sem lýst er í þessari reglugerð, á grundvelli sambærilegra tæknilegra lausna sem kunna að verða til á gildistíma reglugerðarinnar.

20. gr.

Lagastoð.

Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt bráðabirgðaákvæði V í sveitarstjórnarlögum, nr. 138/2011, sbr. 1. gr. laga nr. 28/2013 og 1. gr. laga nr. 73/2018, öðlast þegar gildi. Kemur hún í stað reglugerðar um undirbúning, framkvæmd og fyrirkomulag rafrænna íbúakosninga og gerð raf­rænnar kjörskrár nr. 1002/2015, sem féll úr gildi 31. maí 2018.

Reglugerðin fellur úr gildi 31. maí 2023.

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu, 19. október 2018.

Sigurður Ingi Jóhannsson.

Ragnhildur Hjaltadóttir.

 


Þetta vefsvæði byggir á Eplica