Fara beint í efnið
Fyrri útgáfa

Prentað þann 28. mars 2024

Reglugerð með breytingum síðast breytt 5. mars 2024

720/2019

Reglugerð um sameiginlegar kröfur fyrir veitendur þjónustu á sviði rekstrarstjórnunar flugumferðar/flugleiðsöguþjónustu og á sviði starfsemi neta fyrir rekstrarstjórnun flugumferðar og eftirlit með þeim.

1. gr. Markmið.

Í reglugerð þessari er mælt fyrir um sameiginlegar kröfur:

  1. Um veitingu þjónustu á sviði rekstrarstjórnunar flugumferðar og flugleiðsöguþjónustu og á sviði starfsemi neta fyrir rekstrarstjórnun flugumferðar fyrir almenna flugumferð, einkum fyrir þá lögaðila eða einstaklinga sem veita þessa þjónustu og starfsemi.
  2. Fyrir lögbær yfirvöld, og hæfa aðila sem koma fram fyrir þeirra hönd, sem inna af hendi verkefni sem tengjast vottun, eftirliti og framfylgd að því er varðar veitendur þeirrar þjónustu og starfsemi sem um getur í 1. mgr.

2. gr. Gildissvið.

Reglugerð þessi tekur til þeirrar þjónustu sem talin er upp í 1. gr. og veitt er hér á landi, í lofthelgi Íslands og því loftrými sem Íslandi hefur verið falin þjónusta í samkvæmt skuldbindingum og samningum á sviði þjóðaréttar.

3. gr. Lögbært yfirvald að því er varðar vottun, eftirlit og framfylgd.

Lögbært yfirvald samkvæmt reglugerð þessari er Samgöngustofa. Stofnunin annast tilkynningar til Flugöryggisstofnunar Evrópu og Eftirlitsstofnunar EFTA á grundvelli reglugerðarinnar.

4. gr. Aðlögun ákvæða reglugerðarinnar vegna landfræðilegrar legu Íslands, sbr. ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 196/2018.

Þar sem í reglugerð (ESB) 2017/373 og viðurkenndum aðferðum hennar til að uppfylla kröfur sem og leiðbeiningarefni er vísað til ákvæða Alþjóðaflugmálastofnunarinnar (ICAO) sem gilda um Evrópusvæði Alþjóðaflugmálastofnunarinnar (ICAO EUR) ber að skilja það svo að ákvæðin taki ekki til Íslands, þar sem Ísland tilheyrir Norður-Atlantshafssvæði Alþjóðaflugmálastofnunarinnar (ICAO NAT). Ákvæði sem gilda um Norður-Atlantshafssvæði Alþjóðaflugmálastofnunarinnar teljast vera viðurkenndar aðferðir til að uppfylla kröfur fyrir Ísland.

Þar sem í reglugerð (ESB) 2017/373 er vísað til Evrópureglna sem takmarkast að gildissviði við Evrópusvæði og Afríku- og Indlandshafssvæði Alþjóðaflugmálastofnunarinnar, og Ísland hefur ekki tekið ákvörðun um að beita, ber að skilja það svo að reglurnar taki ekki til Íslands, heldur skulu gilda viðeigandi reglur Alþjóðaflugmálastofnunarinnar og íslenskar reglur eins og við á.

5. gr. Yfirlýsing frá veitendum flugupplýsingaþjónustu.

Veitendum flugupplýsingaþjónustu er heimilt að gefa út yfirlýsingu um hæfni sína og getu til að rækja þær skyldur sem tengjast þjónustunni, sbr. 7. gr. reglugerðar (ESB) 2017/373.

6. gr. Innleiðing.

Með reglugerð þessari öðlast gildi hér á landi framkvæmdarreglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2017/373 frá 1. mars 2017 um sameiginlegar kröfur fyrir veitendur þjónustu á sviði rekstrarstjórnunar flugumferðar/flugleiðsöguþjónustu og á sviði starfsemi neta fyrir rekstrarstjórnun flugumferðar og eftirlit með þeim, um niðurfellingu á reglugerð (EB) nr. 482/2008, framkvæmdarreglugerðum (ESB) nr. 1034/2011, (ESB) nr. 1035/2011 og (ESB) 2016/1377 og um breytingu á reglugerð (ESB) nr. 677/2011, með þeim breytingum, viðbótum sem leiðir af XIII. viðauka EES-samningsins, bókun 1 um altæka aðlögun og öðrum ákvæðum hans, samanber ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 196/2018 frá 21. september 2018. Reglugerðin er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 64 frá 27. september 2018 bls. 104-229.

Framkvæmdarreglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2022/938 frá 26. júlí 2022 um breytingu á framkvæmdarreglugerð (ESB) 2017/373 að því er varðar kröfur um flugmálagagnaskrá og flugmálahandbók, samanber ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 138/2023 frá 28. apríl 2023. Reglugerðin er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 68 frá 21. september 2023 bls. 325-385.

7. gr. Viðurlög.

Brot gegn ákvæðum reglugerðar þessarar varða refsingu samkvæmt 141. gr. laga um loftferðir, nr. 60/1998, með síðari breytingum.

8. gr. Gildistaka.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í 6. mgr. 57. gr. a, sbr. 145. gr. laga um loftferðir, nr. 60/1998, með síðari breytingum, og öðlast þegar gildi. Ákvæði reglugerðarinnar koma til framkvæmda eins og kveðið er á um í reglugerðinni sjálfri. Þann 2. janúar 2020 falla úr gildi reglugerðir nr. 1128/2014, um öryggiseftirlit með rekstrarstjórnun flugumferðar og flugleiðsöguþjónustu, nr. 1129/2014, um starfsleyfi flugleiðsöguþjónustu og rekstrarstjórnun flugumferðar, og nr. 771/2010, um veitingu veðurþjónustu fyrir flugleiðsögu.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.