Fara beint í efnið

Prentað þann 29. mars 2024

Stofnreglugerð

244/2021

Reglugerð fyrir hafnir Hafnasjóðs Dalvíkurbyggðar.

1. gr. Stærð og takmörk hafnanna.

Hafnarsvæðin eru þrjú; á Dalvík, á Árskógssandi og á Hauganesi.

Takmörk á sjó eru:

Dalvíkurhöfn takmarkast á sjó af línu sem hugsast dregin frá Hálshöfða, 65°57,80 N - 18°27,50 V, að Sauðanestá á Upsaströnd, 66°01,70 N - 18°30,70 V.

Árskógssandshöfn takmarkast á sjó af eftirfarandi punktum 65°56,7731 N - 18°21,8463 V á landamerkjum Lækjarbakka og Dalvíkurbyggðar, þaðan 1 sjómílu í 341° í punkt 65°57,7284 N - 18°22,6565, þaðan í 0,85 sjómílur 90° í punkt 65°57,7284 N - 18°20,5691 V og þaðan 1 sjómílu 182° í punkt 65°56,7191 N - 18°20,6515 V á landamerkjum Dalvíkurbyggðar og Brimness.

Hauganeshöfn takmarkast á sjó af eftirfarandi punktum, 65°55,3298 N - 18°18,2620 V í fjöruborði í Sandvíkurfjöru, þaðan 0,5 sjómílur í 140° í punkt 65°54,9319 N - 18°17,5101, þaðan 0,6 sjómílur í 60° í punkt 65°55,2372 N - 18°16,2330 V, þaðan 1 sjómílu í 334° í punkt 65°56,1318 N - 18°17,3076 og þaðan 0,55 sjómílur í 246° í punkt 65°55,9134 N - 18°18,5779 í fjöruborði norðan grjótnámu.

Takmörk á landi:

Í höfnunum eru takmörk á landi samkvæmt gildandi aðalskipulagi fyrir Dalvíkurbyggð.

Landsvæði hafnanna skiptast í:

Hafnarbakka og bryggjur,
farmstöðvar og önnur afgreiðslusvæði,
götur,
lóðir,
iðnaðar- og baksvæði.

2. gr. Stjórn Hafnasjóðs Dalvíkurbyggðar.

Dalvíkurbyggð er eigandi Hafnasjóðs Dalvíkurbyggðar. Sveitarstjórn fer með yfirstjórn hafnamála, en framkvæmdastjórn er falin veitu- og hafnaráði og sviðsstjóra veitu- og hafnasviðs. Sveitarstjóri gegnir jafnframt embætti hafnastjóra.

Veitu- og hafnaráð er kjörið af sveitarstjórn skv. þeim reglum er gilda um kjör fastra nefnda sveitarstjórnar. Veitu- og hafnaráð skipa fimm fulltrúar og fimm til vara og er kjörtímabil þeirra hið sama og sveitarstjórnar.

Sveitarstjórn Dalvíkurbyggðar kýs formann úr hópi kjörinna ráðsmanna. Veitu- og hafnaráð skiptir að öðru leyti með sér verkum.

Auk hinna kjörnu fulltrúa skulu hafnastjóri og sviðsstjóri veitu- og hafnasviðs sitja fundi veitu- og hafnaráðs með málfrelsi og tillögurétt.

3. gr. Starfs- og valdsvið veitu- og hafnaráðs.

Veitu- og hafnaráð hefur umsjón með fjármálum, rekstri, viðhaldi og nýbyggingum hafnarinnar. Leita skal staðfestingar sveitarstjórnar á fjárhagsáætlun hafnasjóðs svo og lántökum hafnasjóðs lengur en yfirstandandi fjárhagsár. Veitu- og hafnaráð hefur ákvörðunarvald um rekstur hafnanna, svo sem ráðstöfun á aðstöðu, þ.m.t. leiga á húsnæði í eigu hafnarinnar og landi hennar.

Veitu- og hafnaráð veitir leyfi til starfsemi á hafnasvæðum og hefur vald til að banna eða takmarka afnot hafnarsvæðis fyrir starfsemi sem hún telur torvelda eðlilega hafnarstarfsemi.

Veitu- og hafnaráð gerir tillögur til sveitarstjórnar varðandi skipulagsmál á hafnasvæðinu, enda hafi tillögurnar fengið umfjöllun skipulagsnefndar. Byggingamál á hafnasvæðunum skulu hljóta umfjöllun veitu- og hafnaráðs áður en þau eru lögð fyrir sveitarstjórn.

4. gr. Starfs- og valdsvið hafnastjóra og sviðsstjóra veitu- og hafnasviðs.

Sviðsstjóri veitu- og hafnasviðs undirbýr mál sem leggja á fyrir veitu- og hafnaráð, veitir viðtöku erindum til hennar og sér um framkvæmd samþykkta veitu- og hafnaráðs. Hann veitir veitu- og hafnaráði og sveitarstjórn upplýsingar um málefni hafnanna. Hann sér um að fjárhagsáætlun sé fylgt og ber ábyrgð á fjárreiðum hafnasjóðs. Hann er yfirmaður allra starfsmanna hafnanna og sér um ráðningu þeirra og uppsögn.

Sviðsstjóri veitu- og hafnasviðs skal vinna störf sín í samræmi við ákvæði hafnalaga og hafnareglugerða, auk reglugerðar þessarar og fara að öðru leyti eftir samþykktum veitu- og hafnaráðs og sveitarstjórnar.

Hafnavörður/hafsögumaður II fer með daglega stjórn hafnanna í umboði sviðsstjóra veitu- og hafnasviðs. Hann sér um að gætt sé reglu á öllu hafnasvæðinu hvort sem er á sjó eða landi. Er öllum skylt að hlýða fyrirmælum hans, eða þeirra sem hann felur störf við eftirlit og aðgæslu.

5. gr. Um aðra starfsmenn hafnanna.

Hafnastarfsmenn sem hafa umsjón með eignum hafnanna, gæta reglu og sinna skipaþjónustu, skulu bera skilríki um starf sitt og/eða einkennisbúning samkvæmt ákvörðun hafnastjórnar.

Starfsmenn hafnanna skulu gæta allrar kurteisi í starfi en skipunum starfsmanna ber að hlýða þegar í stað. Telji einhver sig órétti beittan af hálfu starfsmanna hafnanna getur hann tilkynnt það til sviðsstjóra veitu- og hafnasviðs.

6. gr. Hafnsaga og önnur þjónusta við skip.

Skipum sem koma í hafnirnar er ekki skylt að taka hafnsögumann. Hafnsaga er þó í boði fyrir þá sem þess óska og skal skipstjóri láta starfsmann hafnar vita með minnst þriggja klukkustunda fyrirvara að hann óski eftir þeirri þjónustu. Er hafnsögumanni þá skylt að fara til móts við skipið allt að 3 sjómílum undan viðkomandi höfn, ef skipstjóri æskir þess.

Hafnsögumaður vísar skipinu leið til hafnar og má eigi yfirgefa það án samþykkis skipstjóra, fyrr en skipið er komið í viðlegu. Heimilt er hafnsögumanni meðan hann hefur ekki lokið starfi sínu að banna hverjum þeim sem ekki á lögmætt erindi að koma á skipsfjöl. Meðan hafnsögumaður dvelur um borð ber skipinu að sjá honum fyrir fæði.

7. gr. Löggæsla á hafnasvæði.

Lögreglustjórinn á Norðurlandi eystra hefur á hendi almenna löggæslu á hafnasvæðunum.

Þeim sem ekkert lögmætt erindi eiga á hafnasvæðin er bannað að dvelja þar ef þeir með því tálma lestun, losun eða önnur störf, sem þar eru unnin eða með einhverjum öðrum hætti valda óþarfa truflun eða hættu fyrir þá starfsemi sem þar fer fram. Banna má ónauðsynlegan akstur hvers konar ökutækja og ónauðsynlega umferð gangandi fólks um bryggjur, hafnarbakka, farmstöðvar og önnur afgreiðslusvæði á hafnasvæðunum á hvaða tíma sem er, samkvæmt nánari ákvörðunum hafnarstarfsmanna. Fólk sem fer um hafnasvæðin er þar ávallt á eigin áhættu og ábyrgð.

Bannað er að skjóta af byssum eða öðrum skotvopnum við hafnirnar eða á þeim án leyfis. Sömuleiðis er bannað að skjóta flugeldum á hafnasvæðunum án leyfis.

Í höfnum Dalvíkurbyggðar má ekki sigla skipum hraðar en 4 sjómílum á klst., en þó aldrei hraðar en aðstæður og góð sjómennska leyfa.

Sand- og malarnám og önnur slík starfsemi er bönnuð á hafnasvæðunum án leyfis sviðsstjóra veitu- og hafnasviðs. Fiskveiðar á hafnasvæðunum mega ekki trufla eðlilega umferð og afgreiðslu. Bannað er að leggja veiðarfæri á merktar siglingaleiðir og er heimilt að fjarlægja slík veiðarfæri á kostnað eiganda.

Sviðsstjóri veitu- og hafnasviðs skal þegar í stað tilkynnt um það sem bjargað er í höfninni en hann gefur lögreglunni skýrslu, telji hann þess þörf.

8. gr. Bryggjur, skipsflök og hlutir í hirðuleysi.

Ef skip lendir á grynningum eða sekkur þar sem það, að áliti sviðsstjóra veitu- og hafnasviðs, hafnarvarða og/eða annarra starfsmanna hafnanna, tálmar greiðri notkun hafnanna, skal það fært burtu svo fljótt sem auðið er af eiganda, umráðamanni eða öðrum sem málið varðar. Verði dráttur á því, má sviðsstjóri veitu- og hafnasviðs láta færa skipið burt á ábyrgð og kostnað eiganda og/eða umráðamanns og skal það flutt á öruggan stað, að vali og eftir mati sviðsstjóra veitu- og hafnasviðs.

Sviðsstjóra veitu- og hafnasviðs er heimilt að láta selja viðkomandi skip, til lúkningar á kostnaði, á hvern þann hátt sem hagkvæmastur þykir, að undangenginni áskorun til eiganda og/eða umráðamanns um að fjarlægja skipið tafarlaust. Sala fari fram á kostnað og ábyrgð eiganda og/eða umráðamanns skips.

Skipsflök má ekki draga á land á hafnasvæðunum án leyfis sviðsstjóra veitu- og hafnasviðs.

Ef skip, bátar, bryggjur, flutningstæki á landi eða annar búnaður, í eigu annarra en hafnanna, er í hirðuleysi á hafnasvæðunum og/eða veldur óþrifnaði eða hættu, þá skal sviðsstjóra veitu- og hafnasviðs fyrirskipa eiganda og/eða umráðamanni að gera nauðsynlegar úrbætur innan ákveðins frests. Sé slíkum fyrirmælum ekki sinnt, má fjarlægja viðkomandi hlut á ábyrgð og kostnað eiganda og/eða umráðamanns og koma fyrir í geymslu á öruggum stað, eftir vali og mati sviðsstjóra veitu- og hafnasviðs.

Sviðsstjóra veitu- og hafnasviðs er heimilt að láta selja viðkomandi hlut á hvern þann hátt sem hagkvæmastur þykir, til lúkningar á kostnaði, að undangenginni áskorun til eiganda og/eða umráðamanns um að fjarlægja hlutinn tafarlaust. Sala fari fram á ábyrgð og kostnað eiganda og/eða umráðamanns.

9. gr. Varnir gegn mengun og óþrifnaði.

Engum úrgangi eða rusli má kasta í hafnirnar eða ytri hafnir þeirra.

Bannaður er hvers konar hvalskurður í eða við höfnina nema með leyfi yfirhafnavarðar. Eigi má draga, reka eða flytja á annan hátt, inn í höfnina, hvali, skipsflök eða neitt það sem valdið getur óþrifnaði, umferðartruflun eða óþægindum í höfnunum nema leyfi sviðsstjóra veitu- og hafnasviðs komi til.

Öllum skipum, farartækjum svo og verksmiðjum og öðrum atvinnurekstri er stranglega bannað að dæla eða láta renna í höfnina olíu, lýsi, olíusora eða öðru sem valdið getur mengun.

Skip sem hyggjast taka fljótandi eldsneyti skulu áður hafa gert ráðstafanir til að eldsneyti renni ekki í sjóinn af þilfari ef óhapp verður við eldsneytistökuna. Afgreiðsluaðila er óheimilt að afgreiða olíu til skipa sem ekki hafa, að mati hafnastarfsmanna, gert forsvaranlegar ráðstafanir til varnar mengun.

Um varnir gegn mengun sjávar og viðurlög við mengunarbrotum fer samkvæmt gildandi lögum á hverjum tíma.

10. gr. Beiðni um og skilyrði fyrir þjónustu.

Allir þeir sem óska eftir afgreiðslu fyrir skip, láni á tækjum eða þjónustu á einn eða annan hátt hjá höfnunum, skulu snúa sér beint til starfsmanna hafnanna með beiðni þar að lútandi.

Heimilt er sviðsstjóra veitu- og hafnasviðs að neita þeim aðilum um aðstoð eða þjónustu, sem eru í vanskilum með gjöld til hafnanna og hafa ekki sinnt áskorunum hafnanna um greiðslu gjaldfallinna gjalda. Í slíkri áskorun skal geta um þær afleiðingar af vanskilum sem koma fram í 1. málslið greinarinnar.

11. gr. Hverjum gefa skal fyrirmæli.

Fyrirmæli samkvæmt reglugerð þessari skulu gefin skipstjóra en stýrimanni ef skipstjóri er ekki á skipi. Ef stýrimaður er einnig fjarverandi má gefa einhverjum öðrum af skipshöfninni skipanir og er það jafngilt sem skipstjóri hefði sjálfur tekið við skipunum.

12. gr. Um skaðabótaskyldu.

Um skaðabótaskyldu þeirra sem leið eiga um höfn og hafnasvæði, vegna skemmda á höfninni, mannvirkjum hennar eða áhöldum fer eftir almennum skaðabótareglum.

13. gr. Kæruheimild.

Notendum hafna Hafnasjóðs Dalvíkurbyggðar er heimilt að skjóta ákvörðunum veitu- og hafnaráðs samkvæmt reglugerð þessari, öðrum en gjaldskrárákvörðunum, til Samgöngustofu, sbr. 27. gr. hafnalaga nr. 61/2003. Ákvörðunum Samgöngustofu má skjóta til ráðherra samgöngu- og sveitarstjórnarmála. Um málsmeðferð fer samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga.

14. gr. Brot.

Brot gegn reglugerð þessari varða sektum nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum. Um mál út af brotum á reglugerð þessari skal fara að hætti opinberra mála.

15. gr. Gildistaka.

Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt 4. gr. hafnalaga nr. 61/2003 og 17. gr. laga nr. 41/2003 um vaktstöð siglinga, staðfestist hér með til að öðlast þegar gildi og birtist til eftirbreytni öllum þeim sem hlut eiga að máli.

Jafnframt fellur úr gildi hafnarreglugerð fyrir Dalvíkurhafnir nr. 244/2008 með síðari breytingum.

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu, 18. febrúar 2021.

Sigurður Ingi Jóhannsson.

Ragnhildur Hjaltadóttir.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.