Sjávarútvegsráðuneyti

368/2007

Reglugerð um breytingu á reglugerð nr. 644, 21. júlí 2006, um veiðar í atvinnuskyni fiskveiðiárið 2006/2007. - Brottfallin

1. gr.

Á eftir 5. mgr. 9. gr. koma eftirfarandi málsgreinar:

Heimilt er Fiskistofu að gera þjónustusamninga um rafrænar tilkynningar um flutning aflamarks milli fiskiskipa sem eru í eigu sama einstaklings eða lögaðila og skal greiða 12.000 kr. til Fiskistofu fyrir slíka samninga fyrir hvert fiskveiðiár. Sækja skal til Fiskistofu um gerð þjónustusamnings um rafrænar tilkynningar um flutning aflamarks á eyðublöðum sem Fiskistofa leggur til. Á umsóknareyðublöðunum skulu koma fram þær upplýsingar sem Fiskistofa telur nauðsynlegar og óskar þar eftir. Verði breytingar á atriðum sem útgerð hefur tilgreint í umsókn sinni skal hlutaðeigandi útgerð tilkynna Fiskistofu skriflega um breytingarnar án tafar.

Útgerð ber alfarið ábyrgð á öllum rafrænum tilkynningum um flutning aflamarks sem framkvæmdar eru samkvæmt þjónustusamningi hennar við Fiskistofu og skal útgerðin tryggja að óviðkomandi aðilar komist ekki yfir aðgang hennar til að tilkynna Fiskistofu rafrænt um flutning aflamarks. Þjónustusamningur um rafrænar tilkynningar um flutning aflamarks fellur úr gildi verði vanskil á greiðslu gjalds fyrir samninginn og ef hlutaðeigandi útgerð hefur brotið gegn reglum er gilda um flutning aflamarks eða skilyrðum sem sett hafa verið varðandi rafrænar tilkynningar um flutning aflamarks.

2. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er með stoð í lokamálslið 3. mgr. 15. gr. laga nr. 116, 10. ágúst 2006, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum, öðlast gildi 1. maí 2007 og birtist til eftirbreytni öllum þeim sem hlut eiga að máli.

Sjávarútvegsráðuneytinu, 18. apríl 2007.

F. h. r.

Árni Múli Jónasson.

Þórður Eyþórsson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica