Fara beint í efnið
Fyrri útgáfa

Prentað þann 28. mars 2024

Reglugerð með breytingum síðast breytt 21. júní 2023

163/1973

Reglugerð um hvalveiðar

1. gr.

Rétt til þess að stunda hvalveiðar í íslenskri fiskveiðilandhelgi og til að landa hvalafla, þótt utan landhelgi sé veitt, svo og til að verka slíkan afla, hafa þeir einir, er fengið hafa til þess leyfi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins. Áður en leyfi er veitt, skal ráðherra leita umsagnar Hafrannsóknarstofnunarinnar.

Leyfi til veiða á hrefnu árin 2019, 2020, 2021, 2022 og 2023 skal veita þeim íslensku skipum, sem eru í eigu eða leigu einstaklinga eða lögaðila, sem hafa stundað hrefnuveiðar í atvinnuskyni á árunum 2006-2008 eða félaga sem þeir hafa stofnað um slíka útgerð. Einnig skal veita leyfi þeim íslensku skipum sem eru í eigu eða leigu einstaklinga sem að mati ráðherra uppfylla neðangreind skilyrði til að fá leyfi til hrefnuveiða. Eingöngu þeim skipum sem sérútbúin eru til veiða á stórhvölum er heimilt að taka þátt í veiðum á langreyði árin 2019, 2020, 2021, 2022 og 2023.

Við mat á því hvort skip fullnægi skilyrðum til þess að fá leyfi til hrefnuveiða skal Fiskistofa ganga úr skugga um að eftirfarandi skilyrðum sé fullnægt:

  1. Að minnsta kosti einn úr áhöfn hafi reynslu af hrefnuveiðum. Við mat á því hvort aðili hafi reynslu af hrefnuveiðum er sú krafa gerð að aðili hafi a.m.k. verið samfellt í þrjá mánuði skytta á hrefnuveiðibát. Heimilt er Fiskistofu að meta jafngilda annarskonar reynslu eða þekkingu svo að hún fullnægi áskilnaði skv. þessari grein.
  2. Skyttur sem annast veiðar og aflífun dýra skulu hafa sótt viðurkennt námskeið í meðferð skutulbyssa og sprengiskutla og í aflífunaraðferðum við hvalveiðar. Auk þessa skal skytta hafa fullnægjandi skotvopnaleyfi.

Við veiðarnar skal nota búnað sem tryggir að hrefnur aflífist samstundis eða aflífun taki sem skemmstan tíma og valdi þeim sem minnstum þjáningum. Til að tryggja ofangreint skal Fiskistofa ganga úr skugga um að skip sem ætlað er til hrefnuveiða sé búið eftirfarandi veiðibúnaði:

  1. Riffli a.m.k. 11,6 (.458 cal.) að stærð sem skal nota ef þörf er á seinna skoti. Riffillinn skal ásamt skotfærum, vera staðsettur í nánd við skutulbyssu. Aflífist hrefna ekki samstundis við skutulskot skal svo fljótt sem auðið er aflífa hana með riffilskoti í höfuðið. Einungis skal nota alklæddar kúlur með rúnuðum oddi (e. round nosed full metal jacket).
  2. Vélknúinni vindu til að draga hrefnuna að skipinu og um borð í það. Vindan skal þola a.m.k. 5.000 kg álag og hafa a.m.k. 2.500 kg togkraft. Skotlínu skal tengja inn á vinduna og er óheimilt að sleppa línuenda lausum frá skipi eftir að hrefna hefur verið skutluð.
  3. Línu sem þolir a.m.k. 5.000 kg álag.
  4. Fjöðrunarbúnaði sem þolir a.m.k. 5.000 kg álag og hefur fjöðrun upp á a.m.k. 1,5 m eða línu sem hefur a.m.k. 20% teygjanleika.

Óheimilt er að nota skutul án skutulsprengju (kaldskutul). Einungis skal nota skutulsprengjur af gerðinni hvalgranat-99. Óheimilt er að hleypa af skoti án þess að skutulsprengja sé fest á skutulinn og lína fest í skutul í annan endann og í skipið í hinn endann.

2. gr.

Bannað er að veiða:

a) Hvalkálfa, hvali á spena og kvenhvali, sem kálfar eða hvalir á spena fylgja.

b) Grænlands-sléttbak, Íslands-sléttbak, hnúfubak, steypireyð og búrhval.

c) Langreyðar innan við 55 fet eða 16,8 metra að lengd og sandreyðar innan við 40 fet eða 12,2 metra að lengd.

Þó má veiða langreyðar yfir 50 fet (15,2 m) og sandreyðar yfir 35 fet (10,7 m) fyrir íslenzkar landstöðvar, enda sé hvalkjötið þá notað til manneldis eða skepnufóðurs á Íslandi.

3. gr.

Hvalir skulu mældir á láréttum fleti svo nákvæmlega sem hægt er, með stálmælibandi, sem þannig er úr garði gert að á núll-endanum sé oddhvasst skaft, sem stinga má föstu niður beint á móts við annan enda hvalsins. Mælibandið skal þanið í beinni línu samsíða hvalnum og lesið af því beint á móts við hinn endann.

Endar hvals við mælingu skulu taldir vera fremsti oddur efri kjálka og sporðrauf. Lengd hvals skal miða við heilt fet, þ. e. hvalur, sem mælist milli 76 1/2 fet og 77 1/2 fet skal talinn 77 fet. Ef mæling stendur á hálfu feti, skal lengd miðuð við næsta heila fet á eftir, t. d. 76 1/2 fet skal tákna 77 fet.

4. gr.

Afhenda skal Hafrannsóknastofnuninni tvö vefjasýni úr hverjum veiddum hval til greiningar á erfðaefni.

5. gr.

Íslenzkum landstöðvum skal aðeins heimilt að taka á móti og verka hvalafla íslenzkra skipa, er veiðileyfi hafa skv. 1. gr. og þeim skipum er aðeins heimilt að landa afla sínum til íslenzkra landstöðva.

6. gr.

Allir veiddir hvalir skulu merktir veiðiskipi og tölusettir í þeirri röð, sem þeir hafa veiðzt í.

7. gr.

Landstöðvar skulu halda dagbók yfir veiðarnar. Skulu innfærslur allar vera greinilegar og má eigi strika út eða gera ólæsilegt það, sem innfært hefur verið. Dagbók skal hafa tölusettar blaðsíður, vera gegnumdregin og löggilt af sjávarútvegsráðuneytinu.

8. gr.

Í dagbók skal greina eftirfarandi:

a) Tölu og tegund veiddra hvala og misstra og þeirra, sem unnið er úr.

b) Veiðistað.

c) Kynferði og stærð veiddra hvala (sjá 3. gr.).

d) Ef um kvenhval er að ræða skal tekið fram hvort hún sé mjólkurfull eða með á spena. Einnig skal tilgreind lengd fósturs, sé það fyrir hendi.

e) Heildarmagn lýsis, mjöls og annarra afurða.

f) Upplýsingar varðandi hvalgöngur eða aðrar upplýsingar, sem gætu orðið til glöggvunar á hegðun og ástandi hvalstofna hér við land.

9. gr.

Afhenda skal sjávarútvegsráðuneytinu dagbókina við lok hvers veiðitímabils.

10. gr.

Eftirlit með veiðum er í höndum Fiskistofu. Eftirlitsmenn Fiskistofu fylgjast með að veiðarnar séu í samræmi við lög nr. 26/1949 um hvalveiðar og reglugerðir settar samkvæmt þeim og að veiðarnar séu í samræmi við þær reglur sem fram koma í fylgiskjali við alþjóðasamning um stjórnun hvalveiða frá 1946 (e. Schedule attatched to the International Convention for the Regulation of Whaling).

Fiskistofa hefur einnig eftirlit með því að skilyrði sem fram koma í veiðileyfi varðandi veiðibúnað og veiðar séu uppfyllt.

11. gr.

Hver landstöð skal greiða kr. 30 000,00 árgjald í ríkissjóð og auk þess kr. 7 000,00 á ári fyrir hvert hvalveiðiskip.

12. gr.

Hvalskyttur og skipshafnir veiðiskipa skulu ráðnar þannig, að laun þeirr a séu að verulegu leyti miðuð við tegund, stærð og afurðir veiddra hvala, en ekki aðeins við tölu veiddra hvala. Engin aflaverðlaun eða aðrar aukaþóknanir má greiða skyttum eða áhöfnum veiðiskipa vegna veiði hvala með mjólk eða kálf á spena. Afhenda skal sjávarútvegsráðuneytinu yfirlit yfir allar launagreiðslur og grundvöll þeirra, þegar þess er óskað.

13. gr.

Skipstjórar hvalveiðiskipa ásamt útgerðarmönnum skulu bera ábyrgð á því að ekki sé brotið gegn ákvæðum reglugerðar þessarar og skulu ábyrgir fyrir því að öll skilyrði veiðileyfa verði haldin.

15. gr.

Sjávarútvegsráðuneytið getur sett leyfishöfum skilyrði með ákvæðum í leyfisbréfum m. a., um:

a) Ákveðin veiðisvæði,

b) lengd veiðiferða,

c) útbúnað veiðiskips,

d) meðferð og verkun afla,

e) skyldu til skýrslugerðar,

f) innköllun eða skiptingu leyfa.

16. gr.

Eintak af lögum nr. 26/1949, um hvalveiðar og reglugerð þessari skulu höfð til sýnis á áberandi stað þar sem hvalveiðar og vinnsla er stunduð.

17. gr.

Brot gegn reglugerð þessari varða sektum og öðrum viðurlögum skv. lögum nr. 26/1949 um hvalveiðar. Mál út af brotum skulu sæta meðferð opinberra mála.

18. gr.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt lögum nr. 26/1949, til að öðlast þegar gildi, og birtist til eftirbreytni öllum þeim, sem hlut eiga að máli. Jafnframt er felld úr gildi reglugerð nr. 113 16, ágúst 1949 um hvalveiðar.

Ákvæði til bráðabirgða.

Á árinu 2023 skulu veiðar á langreyðum ekki hefjast fyrr en 1. september.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.