Sjávarútvegsráðuneyti

387/1995

Reglugerð um breytingu á reglugerð nr. 644, 21. desember 1994, um Þróunarsjóð sjávarútvegsins. - Brottfallin

Reglugerð um breytingu á reglugerð nr. 644, 21. desember 1994, um Þróunarsjóð sjávarútvegsins.

1. gr.

2. málsliður 1. mgr. 8. gr. reglugerðar nr. 644/1994 um Þróunarsjóð sjávarútvegsins fellur niður.

2. gr.

Í stað 11. gr. reglugerðar nr. 644/1994 kemur ný grein er orðist svo:

Sjóðurinn veitir eingöngu styrki vegna úreldingar þeirra skipa sem gjaldskyld eru samkvæmt l. nr. 92/1994 um Þróunarsjóð sjávarútvegsins með síðari breytingum.

Úreldingarstyrkur skal vera það hlutfall er tiltekið er hér á eftir af húftryggingarverðmæti fiskiskips eins og það var við upphaf þess árs er umsókn barst. Falli skip ekki undir samræmdar reglur um húftryggingarmat (s.s. Fjárhæðanefnd fiskiskipa eða Samábyrgð Íslands á fiskiskipum) eða liggi slíkt mat ekki fyrir, skal stjórn sjóðsins áætla húftryggingarverðmæti skipsins og er í þeim efnum ekki bundin af umsaminni húftryggingarfjárhæð skipsins. Um mat af þessu tagi skal stjórnin setja sérstakar starfsreglur og getur hún m.a. leitað um slíkt mat til sérfróðra eða reyndra aðila. Á árinu 1995 skal úreldingarstyrkur þó aldrei nema hærri fjárhæð en 93.087.000 kr. fyrir hvert skip. Á árinu 1995 skulu úreldingarstyrkir vera:
1. Vegna umsókna er bárust fyrir árslok 1994 gilda ákvæði 9. gr. reglugerðar nr. 416/1994.
2. Vegna umsókna er bárust á árinu 1995 og sjóðstjórn hafði samþykkt fyrir gildistöku reglugerðar þessarar skulu styrkir nema 40% af verðmæti skips eins og það er skilgreint í 2. mgr.
3. Vegna annarra umsókna er sjóðnum berast á árinu 1995:
a) Vegna báta er stundað hafa veiðar með línu og handfærum samkvæmt lögum um stjórn fiskveiða (krókabátar) skulu styrkir nema 45% af verðmæti báts eins og það er skilgreint í 2. mgr.
b) Vegna annarra skipa skal styrkur nema 20% af verðmæti skips eins og það er skilgreint í 2. mgr.

Skilyrði fyrir að stjórn sjóðsins sé heimilt að veita loforð um styrk vegna úreldingar fiskiskips er að skipið hafi fengið leyfi til veiða í atvinnuskyni samkvæmt lögum nr. 38/1990 um stjórn fiskveiða með síðari breytingum. Það eru ennfremur skilyrði að réttur eigandi eða eigendur skips lýsi því yfir að skipið verði eða hafi verið tekið varanlega af skipaskrá eða verði ekki haldið til veiða í efnahagslögsögu Íslands né gert út sem fiskiskip frá Íslandi, að réttur til endurnýjunar þess verði ekki nýttur og að allar aflaheimildir skipsins verði varanlega sameinaðar aflaheimildum annarra fiskiskipa. Greiði sjóðurinn styrk vegna úreldingar skips, sem orðið hefur fyrir tjóni sem bætt er af vátryggingarfélagi, skal samtala tjónabóta og úreldingarstyrks aldrei nema hærri fjárhæð en húftryggingarmati skipsins.

Stjórn sjóðsins er óheimilt að greiða úreldingarstyrk fyrr en annað hvort liggur fyrir vottorð Siglingamálastofnunar um afskráningu skipsins af skipaskrá svo og að skipi hafi verið eytt ellegar það selt úr landi eða að þinglýst hefur verið kvöð á skipið þess efnis að það hafi verið tekið varanlega úr fiskiskipastól Íslendinga og að því verði ekki haldið til veiða frá Íslandi og skal þá ennfremur liggja fyrir staðfesting Siglingamálastofnunar um það að skipið sé ekki lengur skráð sem fiskiskip. Form og efni þinglýstu kvaðarinnar skal vera samþykkt af stjórn Þróunarsjóðs. Sé skip afskráð skal liggja fyrir yfirlýsing eiganda skips og handhafa viðkomandi réttinda um það að skipið verði ekki að þeirra tilstuðlan skráð aftur á íslenska skipaskrá. Ennfremur liggi fyrir yfirlýsing frá Fiskistofu um að allar aflaheimildir skipsins hafi varanlega verið sameinaðar aflaheimildum annarra skipa og að fallið hafi verið frá rétti til endurnýjunar skipsins. Áður en úreldingarstyrkur kemur til útborgunar skal stjórn Þróunarsjóðs krefjast þess að annað hvort liggi fyrir þinglýsingarvottorð sem sýnir að skip sé kvaða- og veðbandalaust að frátalinni þeirri kvöð sem málsgrein þessi segir til um eða samþykki veðhafa á úreldingu þess. Þegar skip er afskráð skal alltaf krefjast þess að fyrir liggi þinglýsingarvottorð sem sýnir að skip sé kvaða- og veðbandalaust. Þá er óheimilt að veita skipi leyfi til veiða í atvinnuskyni ef Þróunarsjóður hefur greitt styrk vegna úreldingar þess. Ennfremur er óheimilt að nýta fiskiskip, er hlotið hefur úreldingarstyrk, til fiskveiða í efnahagslögsögu Íslands eða gera það út sem fiskiskip frá Íslandi.

Komi í ljós að fjárhagur Þróunarsjóðs leyfi ekki greiðslu úreldingarstyrkja samkvæmt ákvæðum greinarinnar skal sjóðstjórn gera tillögu til ráðherra um lækkun á því hlutfalli af húftryggingarverðmæti sem styrkur miðast við. Jafnframt er sjóðstjórn heimilt að ákveða frestun á greiðslu styrkja ef hún telur að um tímabundinn skort á ráðstöfunarfé sé að ræða.

3. gr.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í l. nr. 92/1994 um Þróunarsjóð sjávarútvegsins með síðari breytingum og öðlast þegar gildi.

Sjávarútvegsráðuneytið, 18. júlí 1995.
Þorsteinn Pálsson.
Árni Kolbeinsson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica