Sjávarútvegsráðuneyti

668/2004

Reglugerð um veiðar dagabáta fiskveiðiárið 2004/2005. - Brottfallin

1. gr.

Reglugerð þessi tekur til veiða þeirra báta, sem aðeins mega stunda handfæraveiðar í tiltekinn fjölda sóknardaga, sbr. lokamálsgrein 2. gr. laga nr. 74, 7. júní 2004, um breytingar á lögum nr. 38, 15. maí 1990, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum.

Í upphafi fiskveiðiársins 2004/2005 skal Fiskistofa úthluta hverjum báti sóknardögum miðað við 10% skerðingu frá varanlegum sóknarheimildum eins og þær voru miðað við 10. maí 2004, sem heimilt er að nýta til veiða samkvæmt reglugerð þessari, en þó er óheimilt að stunda veiðar á tímabilinu 1. nóvember 2004 - 31. mars 2005, sbr. þó 2. mgr. 4. gr.


2. gr.

Við útreikning á nýtingu sóknardaga skal miða við þann tíma sem bátur er á sjó og telst hver sóknardagur 24 klukkustundir. Sókn hvers báts skal reiknuð frá þeim tíma er bátur lætur úr höfn til þess er bátur kemur til hafnar til löndunar afla. Hver veiðiferð reiknast í heilum klukkustundum og telst hafin klukkustund heil klukkustund í því sambandi.

Skipstjóri skal tilkynna Fiskistofu um upphaf veiðiferðar áður en lagt er úr höfn. Telst veiðiferð hafin þegar tilkynning er send. Skipstjóri skal einnig tilkynna Fiskistofu þegar afla er landað hverju sinni. Tilkynningar skal senda í gegnum Símakrók, sjálfvirkan þjónustusíma Fiskistofu. Í tilkynningu skal ávallt koma fram úr hvaða höfn haldið er í veiðiferð og ennfremur í hvaða höfn afla er landað.

Við eftirlit með sókn dagabáta hefur Fiskistofa aðgang að sjálfvirku tilkynningarkerfi íslenskra skipa. Komi upp misræmi milli tilkynninga samkvæmt 2. mgr. og skráningar samkvæmt sjálfvirka tilkynningarkerfinu getur Fiskistofa ákveðið að hin sjálfvirka skráning verði lögð til grundvallar við útreikning sóknar. Óheimilt er að fara í róður nema sjálfvirka tilkynningatæki bátsins sé virkt.

Fiskistofu er þó heimilt að veita tímabundna undanþágu frá skilyrði 3. mgr. enda hafi bátur gilt haffærisskírteini og fyrir liggi staðfesting umboðsaðila þess efnis að tæki til sjálfvirkrar tilkynningar hafi verið pantað í viðkomandi bát eða sé í viðgerð. Undanþágu er heimilt að veita í allt að mánuð í senn en þó ekki lengur en tvo mánuði samtals.


3. gr.

Utan sóknardaga eru dagabátum bannaðar allar veiðar á nytjastofnum. Fiskistofa getur þó veitt leyfi til sérstakra veiða á botndýrum með plógum og gildrum svo og til hrognkelsaveiða í net, samkvæmt reglugerðum þar að lútandi.

Fái dagabátur sérstakt leyfi, samkvæmt 1. mgr., er honum óheimilt að nýta sóknardaga þann tíma sem leyfið gildir. Velji eigandi þann kost að nýta ekki allan gildistíma leyfisins, skal hann tilkynna til Fiskistofu hvenær hann hættir að nýta leyfið og er honum eftir það heimilt að nýta sóknardaga bátsins.

Landi dagabátur sem stundar hrognkelsaveiðar aukaafla í botnfiski, getur Fiskistofa áætlað sóknartíma á bátinn vegna aukaaflans. Skal Fiskistofa þá miða við að ákveðið magn leiði til einnar sóknarklukkustundar og taka mið af meðalafla hjá krókabátum við handfæraveiðar á sama tíma.

Nýti dagabátur leyfi, samkvæmt 1. mgr., til þess að veiða aðrar tegundir en leyfið miðast við, varðar það leyfissviptingu og viðurlögum skv. 6. gr.


4. gr.

Óheimilt er dagabáti að vera á sjó með veiðarfæri utan sóknardaga.

Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er heimilt að flytja dagabáta milli hafna með veiðarfæri um borð, enda sé slíkur flutningur fyrirfram tilkynntur Fiskistofu. Í þeirri tilkynningu komi fram milli hvaða hafna bátur er fluttur. Fari bátur á sjó án veiðarfæra á því tímabili sem um ræðir í 1. mgr. skal eigandi hans tilkynna það fyrirfram til Fiskistofu. Tilkynningar skal senda í gegnum Símakrók, sjálfvirkan þjónustusíma Fiskistofu. Tæki til sjálfvirkrar tilkynningar skal einnig virkt, nema undanþága hafi verið veitt samkvæmt 4. mgr. 3. gr.

Heimilt er dagabátum að stunda veiðar í tómstundum, enda séu engin veiðarfæri um borð, önnur en handfæri án sjálfvirknibúnaðar og veiðistangir. Afla sem fæst við slíkar veiðar er ekki heimilt að selja eða fénýta á annan hátt. Skipstjórar báta sem fara til tómstundaveiða skulu tilkynna Fiskistofu um það áður en veiðiferð hefst.

Ef ekki er tilkynnt með fullnægjandi hætti sbr. 2. og 3. mgr. reiknast fjarvera báts úr höfn sem sókn.


5. gr.

Heimilt er að flytja heila sóknardaga innan fiskveiðiársins milli dagabáta. Sé sá bátur sem sóknardagarnir eru fluttir til, stærri í brúttótonnum talið en sá bátur sem dagarnir eru fluttir frá skal skerða flutta sóknardaga í hlutfalli við stærðarmun bátanna. Á sama hátt skal skerða sóknardaga báts sem er stækkaður en óheimilt er að stækka sóknarbát þannig að hann verði 6 brúttótonn eða stærri. Flutningur sóknardaga til minni báts eða breytingar á báti, sem leiða til minnkunar hans hafa ekki áhrif á fjölda sóknardaga.

Óheimilt er að flytja hlutfallslega fleiri sóknardaga frá báti, umfram þá daga sem fluttir hafa verið til báts, en sem nemur hlutfallslegri nýtingu bátsins á úthlutuðum sóknardögum á fiskveiðiárunum 1996/1997 og 1997/1998. Í því sambandi skal miðað við meðaltal af sóknardaganýtingu áranna.

Séu sóknardagar fluttir frá báti skulu þeir sóknardagar sem báturinn hefur eftir flutninginn vera mismunur þess fjölda sóknardaga sem heimilt er að flytja frá bátnum og þeirra sóknardaga sem fluttir hafa verið, að teknu tilliti til sóknardaga, sem fluttir hafa verið til bátsins. Séu sóknardagar fluttir til báts, sem hefur sóknardaga fyrir, breytist ekki sóknardaganýting, sbr. 2. mgr. á þeim dögum sem fyrir voru.

Við útreikning daga samkvæmt þessari grein skal broti sleppt.

Tilkynna skal til Fiskistofu um flutning sóknardaga milli báta og öðlast flutningurinn ekki gildi fyrr en Fiskistofa hefur staðfest hann. Umsóknir um flutning sóknardaga milli báta innan fiskveiðiársins 2004/2005 skulu hafa borist Fiskistofu eigi síðar en 15. september 2004.


6. gr.

Brot á reglugerð þessari varða viðurlögum samkvæmt ákvæðum VI. kafla laga nr. 38, 15. maí 1990, um stjórn fiskveiða með síðari breytingum, og lögum nr. 57, 3. júní 1996, um umgengni um nytjastofna sjávar. Með mál út af brotum skal farið að hætti opinberra mála.

Um gjald vegna ólögmæts sjávarafla fer samkvæmt ákvæðum laga nr. 37, 27. maí 1992, um sérstakt gjald vegna ólögmæts sjávarafla.


9. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt ákvæðum laga nr. 38, 15. maí 1990, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum, sbr. 2. mgr. 2. gr. laga nr. 74, 7. júní 2004, öðlast þegar gildi og kemur til framkvæmda 1. september 2004 og birtist til eftirbreytni öllum þeim, sem hlut eiga að máli.


Sjávarútvegsráðuneytinu, 12. ágúst 2004.

Árni M. Mathiesen.
Jón B. Jónasson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica