Reglugerð þessi tekur til loðnuveiða íslenskra skipa á tímabilinu frá og með 20. júní 2003 til og með 30. apríl 2004.
Aðeins skipum sem hafa aflamark í loðnu er heimilt að stunda loðnuveiðar. Veiðar umfram aflamark í loðnu varða gjaldtöku samkvæmt ákvæðum laga nr. 37/1992, um sérstakt gjald vegna ólöglegs sjávarafla.
Leyfilegur hámarksafli íslenskra loðnuveiðiskipa á loðnuvertíðinni 2003/2004 er 362.345 lestir.
Veiðar eru heimilar í fiskveiðilandhelgi Íslands með þeirri takmörkun að allar loðnuveiðar eru bannaðar á tímabilinu 16. ágúst - 15. september 2003.
Skipstjóri veiðiskips skal í skeyti tilkynna áætlaðan loðnuafla til veiðieftirlits Fiskistofu, strax þegar skip heldur til lands til löndunar afla. Skal tilgreina í tilkynningu reit þar sem afli er fenginn.
Óheimilt er að dæla afla úr nót veiðiskips um borð í flutningaskip. Þá er óheimilt að flytja óvigtaðan afla milli skipa nema með sérstöku leyfi Fiskistofu. Fái loðnuskip það stórt kast, að skipið beri ekki allan þann afla sem er í nótinni er þó heimilt að dæla eftirstöðvum aflans úr nótinni um borð í annað veiðiskip, enda hafi bæði skipin aflamark í loðnu.
Einungis er heimilt að stunda loðnuveiðar með nót. Ráðuneytið getur, að fengnum tillögum Hafrannsóknastofnunarinnar, leyft loðnuveiðar með vörpu í tilraunaskyni.
Ráðuneytið getur takmarkað eða bannað loðnuveiðar á ákveðnum svæðum í tiltekinn tíma þyki ástæða til þess, m.a. vegna verndunarsjónarmiða og til þess að stuðla að sem bestri hagnýtingu loðnustofnsins. Jafnframt getur ráðherra ákveðið að aðeins stundi loðnuveiðar í tilraunaskyni ákveðinn fjöldi skipa í því skyni að kanna ástand loðnustofnsins undir eftirliti Hafrannsóknastofnunarinnar.
Hafrannsóknastofnuninni er heimilt að grípa til skyndilokunar veiðisvæða, sbr. 10. og 11. gr. laga nr. 79/1997 um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, fari hlutfall loðnu, smærri en 14 cm, yfir 20%, miðað við fjölda. Stærð loðnu er mæld frá trjónuoddi að sporðsenda.
Með mál sem rísa út af brotum á reglugerð þessari skal farið að hætti opinberra mála og varða brot viðurlögum samkvæmt ákvæðum laga nr. 38, 15. maí 1990, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum, laga nr. 79, 26. maí 1997, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands og laga nr. 151, 27. desember 1996, um fiskveiðar utan lögsögu Íslands.
Reglugerð þessi er sett samkvæmt ákvæðum laga nr. 38, 15. maí 1990, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum, laga nr. 79, 26. maí 1997, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands og laga nr. 151, 27. desember 1996, um fiskveiðar utan lögsögu Íslands, til þess að öðlast þegar gildi og birtist til eftirbreytni öllum þeim sem hlut eiga að máli.