Sjávarútvegsráðuneyti

120/2003

Reglugerð um veiðar á Austur-Atlantshafs bláuggatúnfiski 2003. - Brottfallin

120/2003

REGLUGERÐ
um veiðar á Austur-Atlantshafs bláuggatúnfiski 2003.

1. gr.

Ákvæði reglugerðar þessarar taka til veiða á bláuggatúnfiski á samningssvæði Atlantshafs túnfiskveiðiráðsins (ICCAT), þar með talið hafsvæði utan lögsögu ríkja og enn fremur innan lögsagna þar sem íslensk skip hafa rétt til að veiða samkvæmt samningum eða veiðileyfum þess efnis. Um er að ræða veiðiheimildir úr stofni Austur-Atlantshafs bláuggatúnfisks en útbreiðslusvæði hans eru talin ná frá Grænhöfðaeyjum til Noregs. Vestari mörk stofnsins markast við línu sem liggur frá norðri eftir 45°V til suðurs að 10°N. Þaðan liggur markalínan til austurs að 35°V, til suðurs að 0°N, til austurs að 25°V og þaðan suður eftir Atlantshafi.


2. gr.

Íslenskum fiskiskipum er óheimilt að veiða bláuggatúnfisk á samningssvæði ICCAT nema þau hafi fengið til þess leyfi sem Fiskistofa gefur út. Leyfisveitingin er bundin við þau skip sem sóttu um veiðiheimildir á bláuggatúnfiski til sjávarútvegsráðuneytisins innan frests sem auglýstur var 24. janúar 2003.


3. gr.

Á árinu 2003 er íslenskum skipum heimilt að veiða 30 tonn af bláuggatúnfiski miðað við afla upp úr sjó. Fiskistofa skal stöðva veiðar skipanna þegar þeim afla er náð með því að senda þeim tilkynningu þess efnis.


4. gr.

Skipstjórar skulu skrá í aflaskýrslur sem Fiskistofa og Hafrannsóknarstofnunin leggja til, nákvæmar upplýsingar um veiðarnar í því formi sem skýrslunar gera ráð fyrir og skila inn til Fiskistofu þegar skip kemur næst til hafnar eftir að hafa stundað veiðar samkvæmt reglugerð þessari.


5. gr.

Þau íslensku fiskiskip sem heimild hafa fengið til að stunda veiðar á samningssvæðinu skulu vera búin fjarskiptabúnaði sem sendir upplýsingar með sjálfvirkum hætti til sameiginlegrar eftirlitsstöðvar Landhelgisgæslu Íslands og Fiskistofu, hér eftir nefnd Eftirlitsstöðin, um staðsetningu viðkomandi skips á klukkustundar fresti. Óheimilt er að halda úr höfn til veiða fyrr en starfsmenn Eftirlitsstöðvarinnar hafa staðfest til skipstjóra að ofangreindur búnaður starfi eðlilega.


6. gr.

Skip sem stundar veiðar samkvæmt reglugerð þessari skal á hverjum degi á tímabilinu frá kl. 06.00 til 08.00 að íslenskum tíma, senda Eftirlitsstöðinni tilkynningu þar sem eftirfarandi kemur fram í þessari röð:

Orðið "aflatilkynning" (catch report).
Nafn skips.
Kallmerki.
Dagsetning, tími þegar tilkynning er send.
Heildarafli um borð í kílógrömmum miðað við afla upp úr sjó.
Afli síðasta sólarhrings, miðað við afla upp úr sjó, eða frá því skipið kom inn í fiskveiðilandhelgi Íslands, sé um skemmri tíma að ræða.

Fiskistofu er heimilt að breyta tíðni aflatilkynninga samkvæmt þessari grein ef ástæða þykir til.


7. gr.

Brot á reglugerð þessari varða viðurlögum samkvæmt ákvæðum III. kafla laga nr. 151, 27. desember 1996, um fiskveiðar utan lögsögu Íslands og ákvæðum laga nr. 38, 15. maí 1990, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum.


8. gr.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt ákvæðum laga nr. 151, 27. desember 1996, um fiskveiðar utan lögsögu Íslands og ákvæðum laga nr. 38, 15. maí 1990, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum, til að öðlast þegar gildi og birtist til eftirbreytni öllum þeim sem hlut eiga að máli.


Sjávarútvegsráðuneytinu, 21. febrúar 2003.

Árni M. Mathiesen.
Þórir Skarphéðinsson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica