Fara beint í efnið
Fyrri útgáfa

Prentað þann 20. apríl 2024

Reglugerð með breytingum síðast breytt 13. okt. 2021

55/2003

Reglugerð um leyfi til vinnslu afla um borð í skipum.

1. gr.

Óheimil er frekari vinnsla á afla um borð í skipum en blóðgun, slæging og flokkun án sérstaks leyfis Fiskistofu.

2. gr.

Leyfishafa er óheimilt að vinna afla frekar um borð en að fletja, flaka, roðfletta og snyrta.

Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er heimilt með samþykki Fiskistofu að frekari vinnsla fari fram um borð í skipi enda sé aflaskráning áreiðanleg og útfærð í samráði við Fiskistofu. Þá skal veiðieftirlitsmaður Fiskistofu vera um borð í skipinu er vinnslan fer fram í samræmi við 7. gr.

Fiskistofa getur jafnframt veitt skipum sem vinna afla um borð leyfi til bitavinnslu, þ.e. að hluta í sundur flak með sjálfvirkum vélbúnaði. Slíkt leyfi skal bundið þeim skilyrðum að öllum hlutum flaksins, sem falla til eftir að bitavinnsla hefst, s.s. flakahlutar, afskurður og roð, verði haldið aðgreindum frá öðrum afurðum vinnsluskipsins og skal því öllu landað. Við löndun skal vigta og skrá alla flakahlutana, afskurð og roð sérstaklega.

Niðurstaða aflaskráningar samkvæmt 2. og 3. mgr. gildir varðandi nýtingu aflamarks.

3. gr.

Áður en Fiskistofa veitir leyfi til vinnslu um borð í skipi, sbr. 1. gr., skal Fiskistofa staðfesta að eftirgreindum skilyrðum sé fullnægt:

1. Að móttaka og aðgerðarrými séu einangruð frá vélarrúmi.
2. Að aðstaða sé til að þvo fisk eftir slægingu.
3. Að mögulegt sé að kæla afla sem bíður vinnslu með ís eða með öðrum viðurkenndum aðferðum þannig að unnt sé að halda hitastigi hans undir 4°C.
4. Að fjöldi og fyrirkomulag geymslukara sé með þeim hætti að auðvelt sé að tegundaflokka og halda mismunandi tegundum aðskildum fyrir vinnslu. Einnig að stærð og fyrirkomulag á hverju kari sé með þeim hætti að afli sem bíður vinnslu verði ekki fyrir þrýstiskemmdum eða öðru hnjaski.
5. Að fiskvinnsluvélar gefi möguleika til hámarksnýtingar hráefnis í aðalafurðir og aukaafurðir miðað við þá tækni sem fyrir hendi er þegar leyfi er veitt.
6. Að hægt sé að stjórna hitastigi í lest skipa. Skal síritandi hitamælir skrá hitastig þar sem afurðir eru geymdar.
7. Að útgerð hafi tilnefnt vinnslustjóra, sbr. 6. gr.

4. gr.

Áður en leyfi til vinnslu afla um borð í skipi er veitt skal útgerð skips leggja fyrir Fiskistofu nákvæma greinargerð um hvernig staðið verði að vinnslu, innra eftirliti og nýtingu afla um borð þannig að ákvæðum 3. gr. sé fullnægt. Skulu þar m.a. koma fram upplýsingar um eftirfarandi atriði:

1. Vinnsluaðferðir, vinnslunýtingu, nýtingu aukaafurða og fyrirkomulag vinnslu um borð.
2. Fjölda og stærð íláta undir afla sem bíður vinnslu.
3. Frystigetu fyrir aðalafurðir og aukaafurðir.
4. Stærð lestarrýmis ásamt upplýsingum um búnað og geymslurými vegna nýtingar á fiskúrgangi.
5. Mannaflaþörf og lengd veiðiferða.

5. gr.

Það er skilyrði fyrir veitingu leyfis til vinnslu afla um borð í skipi að fjöldi í áhöfn sé nægilegur til að vinna afla á fullnægjandi hátt að teknu tilliti til áskilins hvíldartíma. Við mat á þessu atriði skal tekið tillit til veiðigetu skipsins, gerðar þess og fyrirkomulags vinnslunnar um borð.
Það er enn fremur skilyrði fyrir veitingu leyfis til vinnslu afla um borð í skipi að fyrir hendi sé sérstök hvíla fyrir hvern mann í áhöfn skips og eftirlitsmann.

6. gr.

Á hverri vakt sem afli er unninn skal vera maður með sérþekkingu á vinnslu um borð í skipum, vinnslustjóri, sem umsjón hefur með allri vinnslu og innra eftirliti. Hann skal og sjá um að öll skráning um vinnslu og mælingar á nýtingu séu samkvæmt gildandi reglum.

7. gr.

Eftirlitsmaður skal vera um borð í skipi sem leyfi hefur til vinnslu afla, fyrst eftir að leyfi er veitt, svo lengi sem Fiskistofa metur nauðsynlegt með hliðsjón af framkvæmd vinnslunnar. Sama gildir verði það mikil breyting í áhöfn, útgerðarháttum eða búnaði að ástæða sé til að ætla að það hafi veruleg áhrif á vinnslu um borð í skipinu og þegar afli er unninn um borð skv. 2. mgr. 2. gr. Eftir þann tíma skal eftirlitsmaður vera um borð eftir því sem ástæða er talin til hverju sinni af Fiskistofu.

Skal útgerð sjá eftirlitsmönnum fyrir fæði og aðstöðu meðan þeir eru við eftirlitsstörf um borð. Þá skal útgerð skips greiða Fiskistofu upphæð, sbr. lög nr. 33/2000 um veiðieftirlitsgjald, með síðari breytingum, vegna eftirlits fyrir hvern dag eða hluta dags sem eftirlitsmaður er um borð.

8. gr.

Brot gegn ákvæðum reglugerðar þessarar eða leyfisbréfa gefinna út samkvæmt henni varða viðurlögum samkvæmt 7. gr. laga nr. 54/1992, um vinnslu afla um borð í skipum, með síðari breytingum.

Fiskistofu er heimilt að svipta skip leyfi til vinnslu á afla um borð fyrir brot gegn ákvæðum regugerðar þessarar.

9. gr.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt ákvæðum laga nr. 54, 16. maí 1992, um vinnslu afla um borð í skipum, með síðari breytingum, til að öðlast gildi 15. febrúar 2003 og birtist til eftirbreytni öllum þeim sem hlut eiga að máli. Frá sama tíma er felld úr gildi reglugerð nr. 510, 24. ágúst 1998, um leyfi til fullvinnslu botnfiskafla um borð í veiðiskipum, með síðari breytingum.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.