Sjávarútvegsráðuneyti

29/2003

Reglugerð um breyting á reglugerð nr. 129, 12. febrúar 2002, um hrognkelsaveiðar. - Brottfallin

029/2003

REGLUGERÐ
um breyting á reglugerð nr. 129, 12. febrúar 2002, um hrognkelsaveiðar.

1. gr.

6. gr. orðist svo:
Hvert veiðileyfi skal bundið við ákveðið veiðisvæði og veiðitíma. Er leyfilegur veiðitími á hverju veiðisvæði sem hér segir:

A: Fyrir Vesturlandi, frá línu réttvísandi vestur frá Garðskagavita að línu réttvísandi vestur frá Dritvíkurflögum, er veiðitímabilið 1. apríl - 29. júní.

B: Í Breiðafirði, frá línu réttvísandi vestur frá Dritvíkurflögum að línu réttvísandi vestur frá Bjargtöngum, er veiðitímabilið 20. apríl - 18. júlí.
Innan línu, sem dregin er úr Krossnesvita, vestan Grundarfjarðar, í Lambanes, vestan Vatnsfjarðar, er veiðitímabilið þó 10. maí - 7. ágúst.

Séu grásleppuveiðar hafnar fyrir 10. maí samkvæmt þessum lið skal veiðum viðkomandi báts hætt eigi síðar en 18. júlí.

C: Fyrir Vestfjörðum, frá línu réttvísandi vestur frá Bjargtöngum að línu réttvísandi norður frá Horni, er veiðitímabilið 10. apríl - 8. júlí.
Norðan línu, sem dregin er réttvísandi í vestur frá Sauðanesvita og utan línu, sem dregin er frá Óshólavita í Bjarnarnúp er þó eigi heimilt að hefja grásleppuveiðar fyrr en 20. apríl.

Séu veiðar hafnar fyrir 20. apríl samkvæmt þessum lið skal veiðum viðkomandi báts hætt eigi síðar en 8. júlí.

D: Í Húnaflóa, frá línu réttvísandi norður frá Horni að línu réttvísandi norður frá Skagatá, er veiðitímabilið 1. apríl - 29. júní.

E: Fyrir Norðurlandi, frá línu réttvísandi norður frá Skagatá að línu réttvísandi austur frá Fonti á Langanesi, er veiðitímabilið 20. mars - 17. júní.

F: Fyrir Austurlandi, frá línu réttvísandi austur frá Fonti á Langanesi að línu réttvísandi austur frá Svartanesi (sunnan Vopnafjarðar) hefst veiðitímabilið 30. mars en sunnan Svartaness að línu réttvísandi austur frá Hvítingum hefst veiðitímabilið 20. mars. Veiðitímabilinu á öllu svæðinu lýkur 17. júní.

G: Fyrir Suðurlandi, frá línu réttvísandi austur frá Hvítingum að línu réttvísandi vestur frá Garðskagavita, skulu veiðileyfishafar velja milli þess að stunda veiðar innan veiðitímabilsins 20. mars - 17. júní eða veiðitímabilsins 20. apríl - 18. júlí.

Veiðileyfishöfum er óheimilt að leggja grásleppunet fyrir kl. 8.00 fyrsta dag veiðitímabils. Skylt er að draga öll grásleppunet, sbr. 8. gr., úr sjó fyrir lok veiðitímabils, sbr. 1. mgr. þessarar greinar. Óheimilt er að stunda veiðar með rauðmaganetum, sbr. 8. gr., frá 15. júní til 31. desember ár hvert.


2. gr.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt ákvæðum 7. gr. laga nr. 79, 26. maí 1997, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands til að öðlast þegar gildi.


Sjávarútvegsráðuneytinu, 13. janúar 2003.

Árni M. Mathiesen.
Jón B. Jónasson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica