Sjávarútvegsráðuneyti

970/2001

Reglugerð um sérstakar ráðstafanir vegna krókabáta. - Brottfallin

1. gr.

Á fiskveiðiárinu 2001/2002 skal Fiskistofa úthluta bátum með krókaaflamarksleyfi, sem slík leyfi fengu 1. september 2001, 1.800 lestum af ýsu, 1.500 lestum af steinbít og 300 lestum af ufsa, sem skal skipt milli þeirra á grundvelli veiðireynslu þeirra í þessum tegundum á fiskveiðiárinu 1999/2000 eða 2000/2001 að vali útgerðar. Þetta magn kemur til viðbótar við þá úthlutun í þessum tegundum, sem ákveðin var í reglugerð nr. 631, 16. ágúst 2001, um veiðar í atvinnuskyni fiskveiðiárið 2001/2002. Hlutdeild einstakra krókaaflamarksbáta skal hækka til samræmis við úthlutað viðbótarmagn og hlutdeild aflamarksskipa skerðast sem því nemur. Hlutur krókaaflamarksbáta skal eftir endurreikning hlutdeildar vera 14,4858770% í ýsu, 6,0736640% í ufsa og 38,3989351% í steinbít.


2. gr.

Á fiskveiðiárinu 2001/2002 skal Fiskistofa ennfremur úthluta bátum með krókaaflamarksleyfi, sem slík leyfi fengu 1. september 2001, 200 lestum af ýsu og 600 lestum af steinbít sem skiptist milli þeirra á grundvelli veiðireynslu þeirra í þessum tegundum á fiskveiðiárinu 1999/2000 eða 2000/2001 að vali útgerðar. Þetta aukna aflamark ýsu og steinbíts á fiskveiðiárinu 2001/2002 kemur til viðbótar því heildarmagni sem ákveðið er í 1. gr.


3. gr.

Fiskistofa skal á fiskveiðiárinu 2001/2002 úthluta bátum sem krókaaflamarksleyfi fengu 1. september 2001 aflahlutdeild í keilu, löngu og karfa á grundvelli veiðireynslu þeirra í þessum tegundum á tímabilinu 1. júní 1998 til 31. maí 2001. Að úthlutuninni lokinni skal aflahlutdeild og aflamark allra fiskiskipa í keilu, löngu og karfa endurreiknuð að teknu tilliti til þeirra breytinga sem leiða af þessari úthlutun.


4. gr.

Fiskistofa skal til bráðbirgða úthluta hverjum báti 80% af því krókaaflamarki sem Fiskistofa áætlar að í hans hlut kæmi samkvæmt úthlutunarreglum 1.-2. gr., miðað við að betra aflaárið verði lagt til grundvallar veiðireynslu.


5. gr.

Fiskistofa skal senda útgerðum báta upplýsingar um afla þeirra í þeim tegundum og á þeim tímabilum, sem tilgreind eru í 1.-3. gr. og skal útgerðum veittur frestur til 15. janúar 2002 til að gera athugasemdir við upplýsingar Fiskistofu og tilkynna val á viðmiðunarári samkvæmt 1. og 2. gr. Athugasemdir og tilkynningar um val, sem berast eftir þann tíma skulu ekki teknar til greina. Að fengnum athugasemdum skal Fiskistofa fyrir 1. mars 2002 úthluta endanlega aflaheimildum samkvæmt 1.-3. gr. og jafnframt fella niður heimild til veiða á löngu, keilu og karfa sem meðafla, samkvæmt reglugerð nr. 729/2001.


6. gr.

Við ákvörðun veiðireynslu samkvæmt 1.-3. gr. skal taka tillit til flutnings veiðileyfa milli krókabáta.


7. gr.

Útgerðum báta, sem á fiskveiðiárinu 2000/2001 stunduðu línu- eða handfæraveiðar í tiltekinn fjölda sóknardaga með föstu þorskaflahámarki, er heimilt að velja á milli veiðileyfis með krókaaflamarki og veiðileyfis til handfæraveiða með dagatakmörkunum, enda hafi ekki verið flutt af bátunum krókaaflahlutdeild eða krókaaflamark. Skulu útgerðir tilkynna Fiskistofu um val sitt fyrir 15. febrúar 2002. Tilkynni útgerðir ekki um val fyrir þau tímamörk skulu bátar þeirra stunda veiðar samkvæmt krókaaflamarksleyfi. Velji útgerð veiðileyfi með dagatakmörkunum fyrir bát reiknast róðradagar hans fyrir útgáfu veiðileyfisins til leyfilegra sóknardaga á fiskveiðiárinu 2001/2002.


8. gr.

Reglugerð þessi er gefin út samkvæmt ákvæðum laga nr. 38, 15. maí 1990, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum, til að öðlast þegar gildi.


Sjávarútvegsráðuneytinu, 24. desember 2001.

Árni M. Mathiesen.
Jón B. Jónasson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica