Sjávarútvegsráðuneyti

306/1999

Reglugerð um úthlutun þorskaflahlutdeildar í Barentshafi.

1. gr.

Fiskistofa skal úthluta aflahlutdeild í þorski í Barentshafi til íslenskra skipa, á grundvelli veiðireynslu þeirra í þorski miðað við þrjú bestu ár þeirra á undangengnum sex árum frá og með árinu 1993 að telja. Hafi skip með veiðireynslu á sex síðustu árum verið tekið af skipaskrá hjá Siglingastofnun Íslands, fyrir gildistöku reglugerðar þessarar, skal þeirri útgerð sem skráð var eigandi skipsins þegar það var tekið af skipaskrá, gefinn frestur til og með 15. júní 1999 til að óska eftir því við Fiskistofu, að aflahlutdeildinni verði úthlutað til annars sambærilegs skips í eigu sama einstaklings eða lögaðila.

2. gr.

Við útreikning á veiðireynslu einstakra skipa í þorski, skv. 1. gr., skal leggja til grundvallar eftirfarandi nýtingarstuðla:

1.

a.

slægður með haus

1.18

 

b.

slægður og hausaður

1.50

 

c.

slægður og hausaður án klumbubeins

1.80

 

 

 

 

2.

a.

flök með roði án beina

2.95

 

b.

flök með roði og beinum

2.60

 

c.

flök án roðs með beinum

2.90

 

d.

flök án roðs og beina

3.25

 

 

 

 

3.

a.

flattur saltfiskur

2.55

 

b.

söltuð flök

3.50

3. gr.

Fiskistofa skal eigi síðar en 31. maí 1999 senda útgerðum skipa, sem veiðireynslu hafa skv. 1. gr., tilkynningu þar sem fram kemur hver afli skipsins hefur verið á viðmiðunarárunum. Útgerðum skipa gefst kostur til og með 15. júní 1999 til að koma á framfæri við Fiskistofu athugasemdum við skráðan afla. Fiskistofa skal taka afstöðu til athugasemda áður en til endanlegrar úthlutunar aflahlutdeildar kemur.

Til endanlegrar úthlutunar aflahlutdeildar samkvæmt reglugerð þessari kemur ekki fyrr en samningur íslenskra stjórnvalda við stjórnvöld í Noregi og Rússlandi frá 13. apríl 1999 hefur verið staðfestur í öllum ríkjunum.

4. gr.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt ákvæðum laga nr. 151, 27. desember 1996, um veiðar utan lögsögu Íslands með síðari breytingum, til þess að öðlast þegar gildi.

Sjávarútvegsráðuneytinu, 10. maí 1999.

Þorsteinn Pálsson.

Þorsteinn Geirsson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica