Leita
Hreinsa Um leit

Sjávarútvegsráðuneyti

497/2000

Reglugerð um veiðar krókabáta fiskveiðiárið 2000/2001 - Brottfallin

Leyfilegur heildarafli.

1. gr.

Veiðiheimildir krókabáta á fiskveiðiárinu 1. september 2000 til 31. ágúst 2001 skulu við það miðast að þorskafli þeirra fari ekki yfir 30.355 lestir, miðað við óslægðan fisk auk afla sem leiðir af flutningi aflaheimilda frá fiskveiðiárinu 1999/2000.

 

Þorskaflahámark.

2. gr.

Úthlutað þorskaflahámark báts sem stundar veiðar með þorskaflahámarki skal nema sama hlutfalli af 30.355 lestum, sbr. 1. gr. og nam hlutdeild hans í 21.000 lestum, miðað við reiknað þorskaflahámark skv. 2. gr. laga nr. 83/1995, að teknu tilliti til framsals á þorskaflahámarki og ákvæða til bráðabirgða XVIII, XXIII og XXIV í lögum nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða með síðari breytingum.

 

3. gr.

Innan fiskveiðiársins er heimilt að flytja allt að 30% af úthlutuðu þorskaflahámarki krókabáts til annars krókabáts eða báta sem stunda veiðar með þorskaflahámarki. Umsóknir um flutning þorskaflahámarks skv. þessari málsgrein skulu hafa borist Fiskistofu eigi síðar en 31. ágúst 2000.

Heimilt er að veita báti, sem stundað hefur veiðar með tilteknum fjölda sóknardaga síðastliðin tvö fiskveiðiár, leyfi til að stunda veiðar með þorskaflahámarki þess í stað, en reiknað þorskaflahámark bátsins verður þó áfram hluti sameiginlegs hámarksafla báta, sem stunda veiðar skv. 8. gr.

 

Krókaaflamark.

4. gr.

Bátum, sem veiðileyfi hafa með krókaaflamarki, skal úthlutað krókaaflamarki í þorski, ýsu, ufsa og steinbíti á grundvelli krókaaflahlutdeildar þeirra í þessum tegundum.

Um krókaaflamark gilda sömu reglur og um aflamark samkvæmt lögum nr. 38/1990 og reglum settum samkvæmt þeim lögum nema annað sé sérstaklega tekið fram.

Veiði bátur aðrar tegundir en hann hefur krókaaflamark í, skal skerða krókaaflamark hans í þeim tegundum, sem báturinn hefur krókaaflamark í, samkvæmt 1. mgr. 10. gr. laga nr. 38/1990

 

Sóknardagar með hámarksafla, handfæraveiðar.

5. gr.

Á fiskveiðiárinu 2000/2001 skal fjöldi leyfilegra sóknardaga vera 40 hjá bátum, sem stunda veiðar með dagatakmörkunum og nota handfæri eingöngu, sbr. 8. mgr. ákvæðis til bráðabirgða XXIII í lögum nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða með síðari breytingum.

Þorskafli hvers báts, sem veiðar stundar samkvæmt 1. mgr. má ekki fara yfir 30 lestir, miðað við óslægðan fisk á fiskveiðiárinu.

 

Sóknardagar með hámarksafla, línu- og handfæraveiðar.

6. gr.

Á fiskveiðiárinu 2000/2001 skal fjöldi leyfilegra sóknardaga vera 32 hjá bátum sem stunda veiðar með dagatakmörkunum og nota línu og handfæri, sbr. 6. mgr. ákvæðis til bráðabirgða XXIII í lögum nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða með síðari breytingum.

Þorskafli hvers báts, sem veiðar stundar samkvæmt 1. mgr. má ekki fara yfir 30 lestir, miðað við óslægðan fisk á fiskveiðiárinu.

 

7. gr.

Þegar bátur stundar veiðar með línu skv. 6. gr. skal margfalda fjölda nýttra daga með tölunni 1,9 á tímabilinu 1. maí - 1. september, en með tölunni 1,35 á öðrum tímum. Sé einn maður í áhöfn krókabáts er óheimilt að róa með og eiga í sjó fleiri en 12 bala alls af línu fyrir hvern sóknardag en 20 bala séu tveir eða fleiri í áhöfn, miðað við allt að 500 króka á línu í hverjum bala.

Sé lína um borð í báti í róðri skal bátur tilkynntur við línuveiðar. Tilkynningar skal senda í gegnum símakrók, sbr. 9. gr.

 

Sóknardagar án hámarksafla, handfæraveiðar.

8. gr.

Á fiskveiðiárinu 2000/2001 skal leyfilegur fjöldi sóknardaga vera 23 hjá bátum sem stunda veiðar með handfærum eingöngu, sbr. 13. mgr. ákvæðis til bráðabirgða XXIII í lögum nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða með síðari breytingum. Á tímabilinu 1. nóvember - 31. mars er þessum bátum óheimilt að stunda veiðar, sbr. þó 2. mgr. 10. gr.

 

Nýting sóknardaga.

9. gr.

Sóknardagur telst vera allt að 24 klst. frá upphafi veiðiferðar. Sóknardegi er lokið þegar bátur landar afla.

Skipstjóri skal tilkynna Fiskistofu um upphaf veiðiferðar og hvort bátur er veiðar stundar skv. 6. gr. verður við línuveiðar, áður en lagt er úr höfn. Telst veiðiferð hafin þegar tilkynning berst. Skipstjóri skal einnig tilkynna Fiskistofu þegar afla er landað hverju sinni. Tilkynningar skal senda í gegnum símakrók, sjálfvirkan þjónustusíma Fiskistofu. Í tilkynningu skal ávallt koma fram úr hvaða höfn haldið er í veiðiferð og ennfremur í hvaða höfn afla er landað.

Heimilt er að afturkalla tilkynningu um sóknardag, enda sé það gert innan þriggja klukkustunda eftir að tilkynning um nýtingu sóknardags, sbr. 1. mgr., var send Fiskistofu, að öðrum kosti telst sóknardagur nýttur. Ekki er heimilt að afturkalla tilkynningu um sóknardag nema bátur sé í höfn þegar afturköllun er send Fiskistofu og aldrei er heimilt að afturkalla tilkynningu um sóknardag hafi veiðarfæri verið sett í sjó.

Valdi vélarbilun því að skipstjóri sem afturkalla vill tilkynningu um nýtingu sóknardags komist ekki til hafnar innan þriggja klukkustunda en öðrum skilyrðum 3. mgr. er fullnægt, getur Fiskistofa engu að síður fellt niður sóknardag sé þess skriflega farið á leit innan 7 daga, enda fylgi fullnægjandi upplýsingar um bilunina.

 

Aðrar veiðar krókabáta.

10. gr.

Utan sóknardaga er þeim bátum sem stunda veiðar skv. 5., 6. eða 8. gr. bannaðar allar veiðar á nytjastofnum. Þá eru krókabátum sem náð hafa þorskaflahámarki eða krókaaflamarki sínu óheimilar allar veiðar á nytjastofnum. Sama á við um báta sem ákvæði 5. eða 6. gr. eiga við um og hafa veitt 30 lestir af þorski miðað við óslægðan fisk á fiskveiðiárinu.

Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. getur ráðherra veitt undanþágu frá banni þessu með sérstökum leyfum til veiða á botndýrum með plógum og gildrum svo og til hrognkelsaveiða í net og til veiða á háffiskum með sérhæfðri línu.

Meðafli sem fæst við veiðar samkvæmt 2. mgr. reiknast til þorskaflahámarks, þorskafla og krókaaflamarks eftir því sem við á.

Fái bátur, sem stundar veiðar með tilteknum fjölda sóknardaga, leyfi samkvæmt 2. mgr. er honum óheimilt að nýta sóknardaga þann tíma sem leyfið gildir. Velji eigandi þann kost að nýta ekki allan gildistíma leyfisins, skal hann tilkynna til Fiskistofu hvenær hann hættir að nýta leyfið og er honum eftir það heimilt að nýta sóknardaga bátsins.

Landi krókabátur, sem háður er dagatakmörkunum en stundar hrognkelsaveiðar samkvæmt heimild í 2. mgr., aukaafla í botnfiski, getur Fiskistofa áætlað sóknardaga á bátinn vegna aukaaflans. Skal Fiskistofa þá miða við að ákveðinn fjöldi kg. leiði til sóknardags og taka mið af meðaldagsafla hjá krókabátum við handfæraveiðar á sama tíma.

Nýti bátur leyfi, samkvæmt 2. mgr., til þess að veiða aðrar tegundir en leyfið miðast við, varðar það leyfissviptingu og viðurlögum skv. 18. gr.

 

11. gr.

Óheimilt er bátum sem krókaleyfi hafa með sóknardögum að vera á sjó með veiðarfæri utan sóknardaga.

Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er heimilt að flytja báta milli hafna með veiðarfæri um borð, enda sé slíkur flutningur fyrirfram tilkynntur Fiskistofu. Í þeirri tilkynningu komi fram milli hvaða hafna bátur er fluttur. Fari bátur á sjó án veiðarfæra á því tímabili sem um ræðir í 1. mgr. skal eigandi hans tilkynna það fyrirfram til Fiskistofu. Tilkynningar skal senda í gegnum Símakrók, sjálfvirkan þjónustusíma Fiskistofu.

Heimilt er bátum er veiðar stunda skv. reglugerð þessari að stunda veiðar í tómstundum, enda séu engin veiðarfæri um borð, önnur en handfæri án sjálfvirknibúnaðar og veiðistangir. Afla, sem fæst við slíkar veiðar, er ekki heimilt að selja eða fénýta á annan hátt.

Skipstjórar báta, sem leyfi hafa til veiða í atvinnuskyni og fara til veiða skv. 3. mgr., skulu tilkynna Fiskistofu um það áður en veiðiferð hefst. Einnig skal tilkynna Fiskistofu hvenær slíkri veiðiferð lauk strax að henni lokinni. Í tilkynningu skal jafnframt koma fram áætlað aflamagn, sundurliðað eftir tegundum. Tilkynningar þessar skulu berast til Fiskistofu með skriflegum hætti (símbréfi).

 

Endurnýjun krókabáta.

12. gr.

Reglur 13.-17. gr. gilda um endurnýjun krókabáta annarra en krókaaflamarksbáta. Um veitingu leyfa til veiða með krókaaflamarki fer samkvæmt 5. gr. laga nr. 38/1990.

 

13. gr.

Heimilt er að flytja veiðileyfi krókabáts til annars báts, enda hafi rétti til endurnýjunar ekki verið afsalað. Skilyrði þess að veiðileyfi sé flutt til annars báts er að eigandi krókabáts, sem veiðileyfi lætur, hafi skriflega óskað eftir því að veiðileyfið sé flutt til fiskiskips, sem sé á skipaskrá Siglingastofnunar Íslands, hafi gilt haffærisskírteini og hafi ekki haft veiðileyfi í öðru veiðikerfi á fiskveiðiárinu.

Sé bátur sem veiðileyfi á að fá stærri, en krókabátur sá sem veiðileyfi lætur, er það því aðeins heimilt að flutt sé veiðileyfi frá öðrum krókabáti eða krókabátum, sem eru að minnsta kosti þrefalt stærri, en stærðarmuninum nemur. Sé bátur sem veiðileyfi á að fá minni, en krókabátur sá sem veiðileyfi lætur, er heimilt að flytja þriðjung þess sem umfram er til annars báts.

 

14. gr.

Við mat á stærð þiljaðra krókabáta skal leggja til grundvallar rúmtölu þeirra, sem er margfeldi eftirgreindra hönnunarmála:

1.Lóðlínulengdar, sem er lárétt fjarlægð milli aftari lóðlínu, sem er lóðrétt lína er gengur í gegnum stýrisás, og fremri lóðlínu, sem er lóðrétt lína er gengur í gegnum skurðpunkt stefnis og hönnunarvatnslínu.

2.Mótaðrar breiddar, sem er mesta breidd á miðbandi. Þversnið skipsgrindar, sem tekið er mitt á milli lóðlína, nefnist miðband.

3.Mótaðrar dýptar, að neðra þilfari, sem er lóðrétt fjarlægð frá neðri punkti miðbands við kjöl og efri brún þilfarsbita við byrðing.

Fyrir opna krókabáta ákvarðast rúmtala sem 4,3 ¥ brúttótonn, þar sem brúttótonnatala er fundin samkvæmt grein 6.2 reglugerðar nr. 527 18. ágúst 1997, um mælingu skipa með lengd allt að 24 metrum.

 

15. gr.

Við útreikning rúmtölu samkvæmt ákvæðum reglugerðar þessarar skal Fiskistofa byggja á upplýsingum frá Siglingastofnun Íslands, að svo miklu leyti sem unnt er.

Heimilt er að meta það sérstaklega ef lögun báts er ekki hefðbundin, t.d. ef mismunur mestu lengdar og lóðlínulengdar eða mótaðrar breiddar og mestu breiddar er óvenjulegur. Sama gildir þegar það er miklum vandkvæðum bundið að finna hönnunarmál.

 

16. gr.

Sé veiðileyfi flutt frá báti fellur niður umframrúmtala sem ekki nýtist við þann flutning.

 17. gr.

Séu veiðileyfi tveggja eða fleiri báta sem stundað hafa veiðar með þorskaflahámarki flutt til eins báts, fær sá bátur krókaleyfi með samanlögðu þorskaflahámarki bátanna.

Séu veiðileyfi tveggja eða fleiri báta sem stundað hafa veiðar með tilteknum fjölda sóknardaga flutt til eins báts, fær sá bátur samskonar krókaleyfi ásamt ónýttum sóknardögum og ónýttum leyfilegum þorskafla, sbr. 5. og 6. gr., sem sá bátur hafði, sem grunnur veiðileyfisins kom frá.

Séu krókaleyfi báts eða báta sem stundað hafa veiðar með þorskaflahámarki og báts eða báta sem stundað hafa veiðar með tilteknum fjölda sóknardaga flutt til eins báts, skal bátnum úthlutað krókaleyfi með samanlögðu þorskaflahámarki þess báts eða þeirra báta sem leyfi höfðu til veiða með þorskaflahámarki.

Aldrei er heimilt að flytja krókaleyfi til báts sem er stærri en 6 brúttótonn.

Óheimilt er að gera breytingar á báti sem stundar veiðar með þorskaflahámarki, þannig að rúmtala hans aukist, nema flutt sé veiðileyfi af öðrum krókabáti eða bátum sem eru þrefalt stærri að rúmtölu en sem stækkuninni nemur. Óheimilt er að gera breytingar á báti sem stundar veiðar með tilteknum fjölda sóknardaga, þannig að rúmtala hans aukist, nema flutt sé veiðileyfi frá öðrum báti eða bátum sem stundað hafa veiðar með tilteknum fjölda sóknardaga og eru þrefalt stærri að rúmtölu en sem stækkuninni nemur. Krókabáti má aldrei breyta þannig að hann verði stærri en 6 brúttótonn.

Tilkynna skal Fiskistofu um fyrirhugaðan flutning veiðileyfis og breytingar á bátum samkvæmt þessari grein.

 

Ýmis ákvæði.

18. gr.

Brot á reglugerð þessari varða viðurlögum samkvæmt ákvæðum IV. kafla laga nr. 38, 15. maí 1990, um stjórn fiskveiða með síðari breytingum, og lögum nr. 57, 3. júní 1996, um umgengni um nytjastofna sjávar. Með mál út af brotum skal farið að hætti opinberra mála. Um gjald vegna ólögmæts sjávarafla fer samkvæmt ákvæðum laga nr. 37, 27. maí 1992.

 

19. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt ákvæðum laga nr. 38, 15. maí 1990, um stjórn fiskveiða með síðari breytingum, öðlast þegar gildi, en kemur til framkvæmda 1. september  2000 og birtist til eftirbreytni öllum þeim, sem hlut eiga að máli.

 

Sjávarútvegsráðuneytinu, 7. júlí 2000.

 

Árni M. Mathiesen.

Jón B. Jónasson. 

 
Þetta vefsvæði byggir á Eplica