Fara beint í efnið
Fyrri útgáfa

Prentað þann 29. mars 2024

Reglugerð með breytingum síðast breytt 12. nóv. 2014

24/1998

Reglugerð um möskvamæla og framkvæmd möskvamælinga.

1. gr.

Reglugerð þessi tekur til mælinga starfsmanna Landhelgisgæslu Íslands og veiðieftirlitsmanna Fiskistofu á möskvum veiðarfæra íslenskra og erlendra skipa, sem leyfi íslenskra stjórnvalda hafa til veiða innan íslenskrar fiskveiðilandhelgi. Ennfremur tekur reglugerðin til mælinga á veiðarfærum íslenskra skipa, sem veiðar stunda utan íslenskrar fiskveiðilandhelgi, hafi íslensk stjórnvöld kveðið á um það.

2. gr.

Við mælingu möskva í veiðarfæri skal nota möskvamæla, sem þannig eru gerðir:

A. Hlutar möskvamælis eru: Mælistika, aflmælir fyrir 0-6 kg átak og lóð með tveggja og fimm kg massa.

B. Mælistikan skal vera 2 mm þykk úr traustu efni og þannig gerð, að hún aflagist ekki. Stikan skal mjókka fram á við í hlutfallinu 1 á móti 8 hvorum megin. Breidd stikunnar skal merkt á 1 mm bili. Á efri enda stikunnar skal vera gat nægilega stórt til að notast sem handfang og á neðri enda skal vera gat til að hengja í lóð. Á efri enda skal ennfremur vera gat til að festa aflmæli við stikuna.

3. gr.

Við mælingu möskva skal mælistiku þannig beitt:

  1. Netið skal strekkt svo að möskvar teygist eftir lengdarlínu þess.
  2. Mjórri enda á stiku skal stungið í möskvann hornrétt á netið.
  3. Stikunni skal stungið inn í möskvann, annaðhvort með handafli eða með því að nota lóð eða aflmæli, þar til mælirinn stöðvast á skásettu hliðunum vegna viðnáms frá möskvanum.
  4. Leggmöskvi skal teygður milli upptökuhnúta þegar stikunni er stungið í hann.
  5. Möskvar T90 nets skulu mældir á milli upptökuhnúta, skáhallt (á legg) eftir lengdarási netsins.
  6. Þegar mældir eru möskvar í þorskfisknetum og hrognkelsanetum skulu þrír möskvar lagðir saman og teygðir horna á milli eftir lengd netsins.

4. gr.

Við val á möskvum til mælingar skal eftirfarandi gætt:

A. Þeir möskvar sem mæla á skulu mynda röð af 20 samliggjandi möskvum, sem velja skal eftir lengdarási netsins. Við mælingu á netum samkvæmt E-lið 3. gr. teljast þrír samanlagðir möskvar sem einn. Eigi skal mæla möskva sé hann viðgerður, slitinn eða eitthvað fest í hann. Reynist vandkvæði á því að mæla 20 samliggjandi möskva er heimilt að mæla tvær raðir 10 samliggjandi möskva.

B. Möskva skal ekki mæla nær leisum, burðarlínum, kolllínu eða teinum en fjórum möskvum.

C. Eingöngu skal mæla net þegar þau eru blaut og ófrosin.

5. gr.

Stærð hvers möskva skal vera breidd mælistikunnar þar sem hún stöðvast þegar henni er beitt sbr. 3. gr.

6. gr.

Möskvastærð netsins, sem mælt er skal vera meðaltal mælinga einstakra möskva, gefið upp með 0,1 mm nákvæmni.

7. gr.

Mæld skal ein röð af 20 möskvum, sem valdir eru skv. 4. gr. og skal stinga mælinum inn í möskvann með handafli án þess að nota lóð eða aflmæli. Síðan skal möskvastærðin reiknuð út samkvæmt 5.-6. gr.

Sýni útreikningur á möskvastærðinni að möskvar séu undir leyfilegri lágmarksmöskvastærð, skal velja tvær raðir af 20 möskvum til viðbótar skv. 4. gr. og þær mældar. Þá skal reikna möskvastærð aftur skv. 5.-6. gr. og taka með í útreikninginn þá 60 möskva sem þegar hafa verið mældir og skal þessi útreikningur skera úr um möskvastærð netsins.

Mótmæli skipstjóri niðurstöðu mælingar, sem fengin er skv. 2. mgr., skal netið mælt að nýju. Við þá endurmælingu skal nota lóð eða aflmæli festan við stikuna og ræður eftirlitsmaður hvort notað er. Lóðið skal festa við gatið á mjórri enda stikunnar með króki. Aflmælinn skal festa við efri enda stikunnar.

Mæla skal þannig eina röð með 20 möskvum á ofangreindan hátt og skal meðaltalið gilda sem endanleg meðalmöskvastærð viðkomandi nets.

Við mælingu á vörpum, sem hafa möskvastærðina 45 mm eða minna skv. 3. og 13. gr. skal nota 19,61 newtona afl (sem svarar til 2ja kg þyngdar), en á aðrar vörpur skal nota 49.03 newtona afl (sem svarar til 5 kg þyngdar).

8. gr.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt ákvæðum laga nr. 79, 26. maí 1997, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands og laga nr. 151, 27. maí 1996, um veiðar utan lögsögu Íslands til þess að öðlast gildi 1. mars 1998 og birtist til eftirbreytni öllum þeim, sem hlut eiga að máli.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.