Sjávarútvegsráðuneyti

86/1999

Reglugerð um botnfiskveiðar færeyskra skipa í íslenskri fiskveiðilandhelgi. - Brottfallin

REGLUGERÐ

um botnfiskveiðar færeyskra skipa í íslenskri fiskveiðilandhelgi.

1. gr.

Reglugerð þessi lýtur að framkvæmd samnings milli Íslands og Færeyja frá 20. mars 1976 með síðari breytingum, um heimildir færeyskra skipa til línu- og handfæraveiða við Ísland.

2. gr.

Veiðar færeyskra skipa í fiskveiðilandhelgi Íslands skulu háðar leyfum Fiskistofu og er færeyskum skipum óheimilt að hefja veiðar innan fiskveiðilandhelginnar nema að fengnu leyfi Fiskistofu.

Færeysk stjórnvöld skulu sækja um leyfi til Fiskistofu. Í umsókn skal tilgreina nafn skips, skrásetningarnúmer, stærð, kallmerki og veiðarfæri.

Leyfi til línu- og handfæraveiða í íslenskri fiskveiðilandhelgi, samkvæmt þessari reglugerð skulu miðast við árlegar veiðiheimildir færeyskra skipa og falla úr gildi þegar sameiginlegur afli skipanna hefur náð þeim leyfilega heildarafla sem færeyskum stjórnvöldum er árlega tilkynnt um.

3. gr.

Færeyskum skipum sem leyfi hafa fengið til handfæraveiða eru heimilar veiðar utan fjögurra sjómílna frá grunnlínu og utan 6 sjómílna frá Grímsey. Þó skulu handfæraveiðar heimilar að grunnlínu skv. reglugerð nr. 299, 15. júlí 1975, um fiskveiðilandhelgi Íslands, á tveim svæðum sem afmarkast þannig:

a)             Að vestan af línu norður frá Horni (66°27'4 N - 22°24'3 V) og að austan af línu réttvísandi norður frá Rauðanúpi (66°30'7 N - 16°32'4 V).

b)            Að norðan af línu réttvísandi norðaustur frá Langanesi (66°22'7 N - 14°31'9 V) og að sunnan af línu réttvísandi austur frá Glettinganesi (65°30'5 N - 13°36'3 V).

Á tímabilinu 1. janúar - 15. maí skulu handfæraveiðar þó bannaðar innan 12 sjómílna á svæði sem afmarkast að austan af línu réttvísandi suður frá Surtsey (63°17'6 N - 20°36'3 V) og að vestan af línu réttvísandi í vestur frá Skálasnaga (64°51'3 N - 24°02'5 V).

4. gr.

Færeyskum skipum sem leyfi hafa fengið til línuveiða eru heimilar veiðar utan 12 sjómílna frá grunnlínu, sbr. reglugerð nr. 299/1975.

5. gr.

Færeysk skip sem leyfi fá til veiða innan fiskveiðilandhelginnar skv. reglugerð þessari, skulu tilkynna sig til Landhelgisgæslunnar með eftirfarandi hætti:

1.             Tilkynna skal siglingu inn í íslenska lögsögu með 6 klst. fyrirvara.

2.             Tilkynna skal staðsetningu skipsins og afla eftir tegundum síðasta sólarhrings milli kl. 10.00 og 12.00 hvern dag.

3.             Tilkynna skal siglingu út úr íslenskri lögsögu, staðsetningu og heildarafla um borð eftir tegundum með 6 klst. fyrirvara.

6. gr.

Færeysk skip sem stunda veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands samkvæmt reglugerð þessari skulu hlíta sömu reglum og íslensk skip við sams konar veiðar, m.a. um veiðibann, friðunarsvæði og aðra lokun svæða.

7. gr.

Færeyskum skipum sem stunda veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, ber að auðvelda eins og unnt er eftirlit Landhelgisgæslunnar og Fiskistofu með afla og veiðarfærum um borð í skipunum. Telji eftirlitsaðilar að fullnægjandi athugun geti ekki farið fram á sjó er hlutaðeigandi færeyskum skipum skylt að hlíta fyrirmælum um að halda til nálægrar hafnar þar sem athugun geti farið fram.

Færeyskum skipum er skylt að halda afladagbók og skal hún sýnd eftirlitsaðilum þegar óskað er. Jafnframt skulu Hafrannsóknastofnuninni send afrit úr afladagbókum, sé þess óskað.

8. gr.

Staðfestar aflatölur hvers mánaðar skulu sendar Fiskistofu eigi síðar en 14 dögum eftir mánaðamót, sundurliðaðar eftir bátum og tegundum.

9. gr.

Fiskistofa getur svipt skip leyfi til veiða í fiskveiðilandhelgi Íslands brjóti útgerð eða áhöfn skipsins eða aðrir þeir er í þágu útgerðar starfa gegn lögum sem um veiðarnar gilda, reglugerð þessari eða ákvæðum samnings ríkjanna.

10. gr.

Brot gegn ákvæðum reglugerðar þessarar varða viðurlögum samkvæmt ákvæðum laga nr. 22, 8. apríl 1998, um veiðar og vinnslu erlendra skipa í fiskveiðilandhelgi Íslands. Með mál út af brotum á reglugerð þessari skal farið að hætti opinberra mála.

11. gr.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt ákvæðum laga nr. 22, 8. apríl 1998, um veiðar og vinnslu erlendra skipa í fiskveiðilandhelgi Íslands til þess að öðlast þegar gildi og birtist til eftirbreytni öllum þeim sem hlut eiga að máli.

Sjávarútvegsráðuneytinu, 7. febrúar 1999.

Þorsteinn Pálsson.

_________________

Þorsteinn Geirsson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica