Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti

401/2012

Reglugerð um fiskeldi. - Brottfallin

Efni reglugerðarinnar.

 1. Gildissvið og skilgreiningar.
 2. Afmörkun eldissvæða.
 3. Rekstrarleyfi.
 4. Kröfur um búnað fiskeldisstöðva, merkingar og viðhald.
 5. Starfræksla fiskeldisstöðva.
 6. Flutningur.
 7. Gæðastjórnun og innra eftirlit fiskeldisstöðva.
 8. Opinbert eftirlit með fiskeldisstöðvum.
 9. Rannsóknir.
 10. Gjaldtaka.
 11. Innflutningur á notuðum eldisbúnaði.
 12. Viðurlög.
 13. Gildistaka.

  VIÐAUKI 1 - Slysasleppingar.
  VIÐAUKI 2 - Sjókvíaeldisstöð.
  VIÐAUKI 3 - Eftirlit með netpoka.
  VIÐAUKI 4 - Eftirlitsveiðar fyrir laxfiska.
  VIÐAUKI 5 - Verklagsreglur.
  VIÐAUKI 6 - Þjálfun starfsmanna í sjókvíaeldisstöðvum.
  VIÐAUKI 7 - Sannprófun.
  VIÐAUKI 8 - Leiðbeiningar um merkingar.

1. Gildissvið og skilgreiningar.

1. gr.

Gildissvið.

Reglugerð þessi nær til eldis vatnafiska og nytjastofna sjávar á íslensku forráðasvæði. Ákvæði reglugerðarinnar gilda fyrir rekstur allra fiskeldisstöðva með eldi og um ræktun lagarlífvera. Reglugerðin nær ekki yfir geymslu á villtum lagardýrum sem eru án fóðrunar, m.a. kræklingarækt.

2. gr.

Skilgreiningar.

Í reglugerðinni er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:

Aleldi: Skipulegt eldi allt frá klaki til slátrunar.

Áframeldi: Eldi á fönguðum villtum fiski til slátrunar.

Eldisafurðir: Eldisfiskur eins og honum er dreift til neyslu eða afurðir unnar úr honum.

Eldisdýr: Lifandi lagardýr frá eldisstöð, óháð þroskastigi, að meðtöldum dýrum sem lifa upprunalega villt en eru ætluð fyrir eldisstöð.

Eldiseining: Kví, eldisker og jarðtjörn eða þyrping samfastra eða mjög nálægra eininga. Nær einnig til sjóinntaks og frárennslis strandeldisstöðva.

Eldisfiskur: Öll lagardýr sem klakist hafa út eða verið alin við stýrðar aðstæður eða afurðir unnar úr þeim. Sjávar- eða ferskvatnsfiskar, skrápdýr, liðdýr, lindýr og aðrir hryggleysingjar, sem teknir eru úr náttúrulegu umhverfi sínu og aldir þangað til þeir hafa náð æskilegri sölustærð til manneldis, teljast einnig til eldisfiska. Fiskar, skrápdýr, liðdýr, lindýr og aðrir hryggleysingjar, sem náð hafa sölustærð, hafa verið teknir úr náttúrulegu umhverfi sínu og haldið lifandi til sölu síðar, teljast ekki til eldisfiska ef þeim er aðeins haldið lifandi án þess að reynt sé að auka við stærð þeirra eða þyngd.

Eldisker: Ker með rennandi sjó, ferskvatni eða ísöltu vatni þar sem í eru aldar lagar­lífverur.

Erfðabreyttar lífverur: Allar lífverur þar sem erfðaefninu hefur verið breytt á annan hátt en gerist í náttúrunni við pörun og/eða náttúrulega endurröðun.

Eldisstofn: Hópur fiska alinn í eldisstöð undan fiski sem alið hefur allan sinn aldur í fisk­eldis­stöð.

Eldissvæði: Svæði þar sem fiskeldi er leyft og sem er afmarkað með sérstökum hnitum.

Ferskvatnsfiskur: Fiskur sem lifir að hluta eða allan sinn lífsferil í fersku vatni.

Fiskeldi: Fiskeldi er geymsla, gæsla og fóðrun vatnafiska, annarra vatnadýra og nytja­stofna sjávar, klak- og seiðaeldi hvort sem er í söltu eða ósöltu vatni.

Fiskeldisstöð: Staður þar sem vatn, sjór, land eða mannvirki eru nýtt í þágu fiskeldis.

Föngun: Veiði fisks sem settur er í áframeldi.

Geymsla: Tímabundin geymsla á villtum lagardýrum án fóðrunar á landi eða í sjó.

Heilmöskvi: Innanmál möskva að viðbættum einum hnút (eða tveimur hálfum).

Heilsárseldi: Hefðbundið eldi í sjókvíum frá göngustærð upp í markaðsstærð.

Hjarðeldi: Reglubundin fóðrun villtra fiskihjarða á ákveðnum stöðum.

Hvíldartími: Tími þar sem ekkert eldi má fara fram í eldiseiningu.

Innra eftirlit: Eigið eftirlit rekstrarleyfishafa framkvæmt af starfsmönnum hans eða aðkeyptum þjónustuaðila, sem hefur til þess tilskilin réttindi, í þeim tilgangi að tryggja að kröfur í rekstrarleyfi og reglugerðum séu uppfylltar.

Jarðtjörn: Tjarnir sem eru grafnar niður og eru með gegnumstreymi út í ferskt vatn, sjó eða salt vatn.

Klakfiskur: Fiskur nýttur til undaneldis.

Krabbadýr: Hér er m.a. átt við humar og krabba.

Kví: Netpoki sem hangir í fljótandi grind eða er festur á grind sem komið er fyrir undir eða við yfirborð lagar.

Kvíaeldi: Fiskeldi í netkvíum (netbúrum) í fersku vatni eða söltu.

Kvíaþyrping: Þyrping samfastra eða nálægra kvía.

Kynbætur: Markvisst val með tilliti til ákveðinna arfgengra eiginleika. Slíkir eiginleikar geta verið mikill vaxtarhraði eða síðbúinn kynþroski. Til undaneldis eru valdir fiskar sem sýna ákjósanlega eiginleika umfram aðra fiska í stofninum. Slíku vali er viðhaldið og það aukið með vali úr hverri kynslóð.

Lagardýr: Öll dýr með kalt blóð sem lifa og geta afkvæmi í sjó eða fersku vatni, s.s. fiskar, lindýr, krabbadýr og skrápdýr.

Lagarlífverur: Allar lífverur í ferskvatni og sjó, s.s. lagardýr, gróður og örverur.

Landeldi: Eldi á fiski í eldiskerum eða jarðtjörnum á landi. Eldið fer fram í fersku vatni, ísöltu eða sjó.

Lindýr: Hér er m.a. átt við snigla, smokkfisk og samlokur, s.s. krækling og hörpudisk.

Matfiskeldi: Eldi á fiski frá seiðastigi til slátrunar.

Ræktun: Sérhver starfsemi sem hefur það markmið að auka eða viðhalda nýliðun, auka lífvænleika og vöxt einna eða fleiri lagarlífvera, auka heildarframleiðslu eða auka ákveðnar veiðar fram yfir það sem næst við sjálfbæra nýtingu í náttúrulegum vistkerfum. Það getur falið í sér sleppingu, búsvæðagerð, útrýmingu óæskilegra lífvera, áburðargjöf eða sambland af þessum aðgerðum.

Seiðaeldi: Klak og eldi á fyrstu stigum lífsferils.

Sérhæft nám í fiskeldisfræði: Nám sem hafið er eftir framhaldsskólapróf eða eftir að nemendur hafa aflað sér sambærilegrar þekkingar og reynslu úr atvinnulífinu. Þar sé kennd umhirða og eldi fiska allt frá hrognastigi og þar til eldisafurðinni er komið á markað. Hluti námsins felist í verknámi á eldisstöð.

Sjávarfiskur: Fiskur sem lifir allan sinn lífsferil í sjó.

Sjókvíaeldi: Eldi fisks sem fram fer í kvíum í sjó eða ísöltu vatni.

Sjókvíaeldisstöð: Starfsstöð rekin sem ein heild. Getur verið hefðbundin sjókví, sökkvan­leg kví eða fljótandi lokuð sjókví með sjódælingu.

Skiptieldi: Eldi á fiski í strandeldi upp í nokkur hundruð gramma stærð og framhaldseldi í sjókvíum upp í markaðsstærð.

Skrápdýr: Hér er m.a. átt við ígulker og sæbjúgu.

Strandeldi: Eldi fisks í eldiskerum eða jarðtjörnum á landi. Sjó eða ísöltu vatni er dælt í eldiseininguna.

Vinnslustöð: Hver sú aðstaða þar sem eldisafurðir eru verkaðar, unnar, kældar, frystar, pakkaðar eða geymdar.

2. Afmörkun eldissvæða.

3. gr.

Fjarlægðarmörk.

Lágmarksfjarlægð á milli sjókvíaeldisstöðva samkvæmt meginviðmiði skal vera 5 km miðað við útmörk hvers eldissvæðis sem rekstrarleyfishafa hefur verið úthlutað. Fiski­stofa getur að höfðu samráði við Matvælastofnun og Hafrannsóknastofnun að feng­inni umsögn sveitarstjórnar heimilað styttri eða lengri fjarlægðir milli eldisstöðva.

Þegar eldi og slátrun hverrar kynslóðar lýkur skulu eldissvæði hvíld í a.m.k. 90 daga.

Dýralæknir fisksjúkdóma getur gert kröfu um aukna og/eða samræmda hvíld stöðva eða svæða hjá samliggjandi eldisstöðvum og ákveðið að stærri svæði verði hvíld í lengri tíma ef ástæða þykir til. Einnig skal tekið tillit til vistfræðilegs álags, s.s. uppsöfnunar nær­ingar­efna á sjávarbotni. Dýralæknir fisksjúkdóma tekur ákvörðun um útsetningu seiða. Mánaðarlega skal senda upplýsingar um heildarlífmassa í fiskeldisstöð til Fiskistofu og dýra­læknis fisksjúkdóma hjá Matvælastofnun.

Framangreind ákvæði um fjarlægðarmörk gilda með fyrirvara um ákvæði reglugerðar nr. 460/2004 um friðunarsvæði þar sem eldi laxfiska í sjókvíum er óheimilt.

4. gr.

Eldistegundir.

Eldistegundir þeirra eldisstöðva, sem afrennsli hafa í veiðivötn, takmarkast við þær teg­undir sem fyrirfinnast á vatnasvæðinu og leita skal heimildar Fiskistofu um flutning annarra tegunda inn á svæðið.

3. Rekstrarleyfi.

5. gr.

Rekstrarleyfi.

Til að starfrækja fiskeldisstöð þarf rekstrarleyfi sem Fiskistofa veitir.

Áður en leyfi skv. 1. mgr. er veitt skal Fiskistofa afla umsagnar Landhelgisgæslu Íslands, Matvælastofnunar og Siglingastofnunar Íslands. Einnig skal stofnunin leita umsagnar Veiðimálastofnunar, Hafrannsóknastofnunar og viðkomandi sveitarstjórnar, eftir því sem við á, um hvort hætta sé á að náttúrulegar aðstæður á fyrirhuguðu starfssvæði fiskeldis­stöðvar eða fyrirhugaðar eldistegundir, eldisstofnar eða eldisaðferðir hafi neikvæð vistfræði- eða erfðafræðiáhrif sem leitt getur af leyfisskyldri starfsemi. Þá er Fiskistofu heimilt að óska umsagnar Umhverfisstofnunar ef ástæða er talin til. Liggja skal fyrir ákvörðun um matsskyldu eða álit Skipulagsstofnunar áður en umsókn um rekstrar­leyfi er lögð fram. Sé um endurnýjun á rekstrar­leyfi að ræða telst ekki nauðsyn­legt að afla slíkra umsagna, enda sé ekki um verulegar breytingar að ræða á eðli og umfangi reksturs skv. 7. gr. laga nr. 71/2008, þ.m.t. áform um aukna framleiðslu eða nýjar eldistegundir.

6. gr.

Umsókn um rekstrarleyfi.

Umsókn um rekstrarleyfi til fiskeldis skal vera skrifleg. Þar skulu m.a. koma fram eftir­farandi upplýsingar:

 1. Nafn og kennitala umsækjanda, heimilisfang, tölvupóstfang og símanúmer.
 2. Fram þarf að koma hvort um sé að ræða umsókn um nýtt rekstrarleyfi, endur­nýjun leyfis eða breytingu á gildandi leyfi.
 3. Upplýsingar um eignaraðild að fiskeldisstöð.
 4. Upplýsingar um fagþekkingu umsækjenda rekstrarleyfis á viðkomandi sviði.
 5. Heildarstærð stöðvar í rúmmetrum, staðsetning og afstöðumynd af væntanlegri starfsemi þar sem fram kemur lega og stærð einstakra eldiseininga. Einnig skulu liggja fyrir upplýsingar um hnitstaðsetningar á útlínum fiskeldisstöðvar. Hnit skulu vera lengd og breidd til útsetningar á sjókorti með nákvæmni upp á a.m.k. einn hundraðasta hluta úr mínútu. Viðmiðun skal vera WGS84.
 6. Eldistegundir þar sem fram kemur yfir hvaða hluta af eldisferlinu fyrirhuguð starf­semi nær.
 7. Áætlað árlegt framleiðslumagn af hverri eldistegund og áætlaður mánaðarlegur lífmassi eldisfisks.
 8. Eldisaðferðir, þ.e. hvort um sé að ræða eldi, ræktun eða aðrar aðferðir.
 9. Upplýsingar um það hvort fyrirhuguð framkvæmd sé matsskyld samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum.
 10. Starfsleyfi samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir.
 11. Umsókn skal fylgja skilríki um heimild til afnota lands, vatns og sjávar. Umsókn skal einnig fylgja leyfi til mannvirkjagerðar og leyfi til starfsemi samkvæmt ákvæðum annarra laga sem varða fyrirhugaðan atvinnurekstur.
 12. Umsókn skulu fylgja áætlun um fjármögnun mannvirkja og annars búnaðar og rekstraráætlun.
 13. Fylgja þarf með í umsókn hvernig standa á að merkingu fljótandi búnaðar í sjó (sjá viðauka).
 14. Umsókn skulu einnig fylgja upplýsingar um stofn kynbættrar og/eða erfða­breyttrar lagarlífveru, sbr. lög nr. 18/1996 um erfðabreyttar lífverur.
 15. Önnur gögn sem nauðsynleg eru til að Fiskistofa geti metið hvort skilyrði til útgáfu rekstrarleyfis séu fyrir hendi.

7. gr.

Málsmeðferð umsóknar.

Við meðferð umsóknar um rekstrarleyfi til fiskeldis skal Fiskistofa leggja mat á sjúkdóms­tengda og vistfræðilega þætti sem kunna að fylgja starfsemi fiskeldisstöðvar.

Veiti fyrirliggjandi gögn ekki nægilegar upplýsingar til þess að mat verði lagt á þá þætti sem um getur í 1. mgr. getur Fiskistofa lagt fyrir umsækjanda að láta í té frekari upp­lýs­ingar áður en rekstrarleyfi er veitt.

Rannsóknir umsækjanda skv. 2. mgr. geta m.a. falist í merkingum á fiski, samantekt á veðurfars- og haffræðilegum upplýsingum og uppsöfnun næringarefna á sjávarbotni.

Við meðferð umsóknar skal kannað hvort staðsetning fljótandi mannvirkja á sjó trufli siglingar eða valdi siglingahættu.

8. gr.

Efni og útgáfa rekstrarleyfis.

Telji Fiskistofa að umsókn um rekstrarleyfi fullnægi skilyrðum reglugerðar þessarar skal stofnunin gefa út rekstrarleyfi til tíu ára í senn. Ef vistfræðileg rök mæla með því, m.a. ef óvissa ríkir um áhrif eldis á umhverfið, er heimilt að gefa út rekstrarleyfi til skemmri tíma, með skilyrðum um nauðsynlegar rannsóknir.

Í rekstrarleyfi skulu vera ákvæði um stærð fiskeldisstöðvar og hvort um sé að ræða seiðaeldi, strandeldi, skiptieldi, heilsárseldi eða annað ræktunar- eða eldisform. Þá skal í rekstrarleyfi kveðið á um leyfilegar tegundir í eldi, leyfilega eldisstofna, leyfilegt framleiðslumagn og skyldu rekstrarleyfishafa til að annast vöktun og rannsóknir á nánasta umhverfi sínu. Jafnframt skulu í rekstrarleyfi vera ákvæði um varúðarráðstafanir til að koma í veg fyrir að fiskur sleppi vegna eldis eða flutnings og ákvæði um aðgerða­áætlun til að endurheimta fisk sem sleppur.

Við útgáfu rekstrarleyfis skal þess ávallt gætt að fullnægt sé ákvæðum laga um mat á umhverfisáhrifum og laga um hollustuhætti og mengunarvarnir.

Fiskistofa getur við útgáfu rekstrarleyfis krafist þess að rekstrarleyfishafi setji tryggingu fyrir kostnaði við hreinsun á búnaði af eldissvæði komi til þess að starfsemi verði hætt.

9. gr.

Forsendubrestur.

Ef fiskeldisstöð hefur ekki innan 24 mánaða frá útgáfu rekstrarleyfis hafið starfsemi í samræmi við rekstraráætlun, sem fylgdi umsókn sbr. ákvæði 8. gr., er Fiskistofu heimilt að fella rekstrarleyfi úr gildi. Sama gildir ef starfsemi fiskeldisstöðvar stöðvast í 24 mánuði.

Áður en gripið er til þess að afturkalla leyfi skal Fiskistofa ávallt veita rekstrarleyfishafa skriflega viðvörun og hæfilegan frest til úrbóta.

10. gr.

Afturköllun og skil á rekstrarleyfi.

Fiskistofa getur afturkallað rekstrarleyfi ef leyfishafi eða starfsmenn hans brjóta gegn ákvæðum reglugerðar þessarar. Einnig er heimilt að afturkalla leyfi ef leyfishafi eða starfsmenn hans brjóta gegn skilyrðum rekstrarleyfis eða skilyrðum þess er að öðru leyti ekki fullnægt. Þá er og heimilt að afturkalla rekstrarleyfi ef leyfishafi verður ófær um að stunda rekstur og þegar eldisfiskur sleppur ítrekað frá fiskeldisstöð.

Þegar rekstri er hætt og rekstrarleyfi skilað til Fiskistofu skal rekstrarleyfishafi hreinsa svæði fiskeldisstöðvarinnar og þar með allan búnað á og undir sjávaryfirborði. Hreinsun skal lokið innan 6 mánaða frá því að rekstri var hætt.

11. gr.

Framsal.

Framsal, leiga og veðsetning á rekstrarleyfi til fiskeldis án skriflegs samþykkis Fiskistofu er óheimil. Áður en Fiskistofa tekur ákvörðun samkvæmt 1. málsl. skal stofnunin óska eftir umsögn sveitarstjórnar. Slíku samþykki skal þinglýst í samræmi við ákvæði þinglýsingalaga.

4. Kröfur um búnað fiskeldisstöðva, merkingar og viðhald.

12. gr.

Búnaður sjókvíaeldisstöðva.

Allur búnaður svo og efni og fyrirkomulag í eldisstöðinni skal vera hannað, smíðað, sett saman, vaktað og haldið við á þann hátt að komið sé í veg fyrir slysasleppingar.

Bátar, sem notaðir eru við daglegan rekstur sjókvíaeldisstöðva, skulu vera útbúnir með hlíf eða leiðara fyrir skrúfu til að koma í veg fyrir að skrúfublöð rífi gat á netpoka.

13. gr.

Merkingar á fljótandi mannvirkjum í sjó.

Fljótandi mannvirki í sjó skal merkja á eftirfarandi hátt þannig að það sé vel sjáanlegt sjófarendum:

a)

Gult merki og gult endurskinsmerki við jaðar fiskeldisstöðvar.

b)

Gult ljós við jaðar fiskeldisstöðvar eða með lýsingu frá fiskeldisstöðinni.

c)

Radarspegill við jaðar fiskeldisstöðvar.

d)

Eldisstöðvar skulu skila til Siglingastofnunar Íslands og Landhelgisgæslu Íslands upp­lýsingum er varða hnitsetningar ankera og tóga fiskeldisstöðva.Flot, sem notuð eru til merkinga, skulu vera gul á litinn.

Óbein lýsing eða önnur lýsing við eða á fiskeldisstöð má ekki blinda sjófarendur.

Með jaðri fiskeldisstöðvar er átt við stað þar sem tóg frá ankerum eru fest eða sem á einhvern annan hátt markar jaðar stöðvarinnar.

Óviðkomandi er óheimilt að stunda veiðar eða sigla nær merktri fiskeldisstöð en 200 m.

Tæknilegar leiðbeiningar gefnar út af Siglingastofnun um merkingu fljótandi mannvirkja er að finna í viðauka 8.

Þegar nákvæm staðsetning á fljótandi mannvirki liggur fyrir skal rekstrarleyfishafi til­kynna hnit til Siglingastofnunar Íslands og Landhelgisgæslu Íslands. Jafnframt skal rekstrar­leyfis­hafi tilkynna þeim þegar fljótandi mannvirki er fært til innan eldissvæðis sem fyrirtækið hefur fengið úthlutað.

14. gr.

Sótthreinsun búnaðar.

Tæki, sem notuð eru til flutnings á lifandi eldisfiskum, skulu vera þannig gerð að auðvelt sé að þrífa þau og sótthreinsa. Ávallt skal þrífa þau að flutningi loknum. Sótthreinsa skal tækin ef hefja á flutning frá nýjum aðila.

5. Starfræksla fiskeldisstöðva.

15. gr.

Eldisfiskur.

Eingöngu er heimilt að hafa í fiskeldisstöð eldisfisk sem tilgreindur er í rekstrarleyfi.

Óheimilt er að vera með villtan fisk og eldisfisk í sömu fiskeldisstöð án heimildar fisk­sjúkdóma­nefndar.

Í sjókvíaeldisstöðvum og öðrum fljótandi eldiseiningum í sjó er þó heimilt að hafa villtan fisk sömu tegundar í afmarkaðri kvíaþyrpingu.

16. gr.

Bólusetning og lyfjagjöf.

Notkun bóluefna og sýklalyfja í fiskeldi er óheimil nema með samþykki Matvæla­stofn­unar. Óheimilt er að meðhöndla eldisdýr með sýklalyfjum nema að undan­geng­inni sjúkdómsgreiningu dýralæknis eða viðurkenndrar rannsóknastofu.

Varúðar skal gætt við notkun lyfja og annarra efna í fiskeldisstöð til að koma í veg fyrir að efnin berist út í umhverfið.

17. gr.

Umhirða fiska.

Huga skal að velferð eldisfiska á öllu eldistímabilinu.

Sjálfdauður og sýktur fiskur skal fjarlægður og honum eytt svo fljótt sem verða má samkvæmt nánari ákvörðun dýralæknis fisksjúkdóma hjá Matvælastofnun. Gripið skal til þeirra ráðstafana sem ástæða þykir til svo að koma megi í veg fyrir útbreiðslu sjúkdóma. Dýralækni fisksjúkdóma er þó heimilt að veita undanþágu frá þessu ákvæði hvað sýktan fisk varðar.

Þegar því verður við komið skal fjarlægja daglega dauð lagardýr úr eldiseiningu og skrá fjölda og þyngd fiska. Upplýsingar um afföll skulu vera aðgengilegar eftirlitsmönnum Fiskistofu í fiskeldisstöð.

18. gr.

Slysasleppingar.

Rekstrarleyfishafi, sem missir fisk úr fiskeldisstöð, skal án tafar tilkynna slíkan atburð til Fiskistofu á þar til gerðu eyðublaði sem er að finna á vef Fiskistofu.

Rekstrarleyfishafa er skylt að grípa til allra þeirra ráðstafana, sem nauðsynlegar eru og í hans valdi standa, til þess að varna því að slíkur atburður sem greinir í 1. málsl. valdi vistfræðilegu tjóni.

Leyfishafi skal sjá til þess að viðbragðsáætlun vegna slysasleppingar (viðauki 1) sé staðsett á eldissvæðinu og kynna starfsmönnum hana. Viðbragðsáætlun vegna slysa­sleppingar skal innihalda leiðbeiningar um:

 1. hvernig hindra skal áframhaldandi slysasleppingar,
 2. hvernig tilkynna skal um slysasleppingu,
 3. hvernig endurheimta skal fisk sem sleppur.

Fiskistofa getur veitt undanþágu frá banni á veiðum á villtum lagardýrum eða seiðum sem sleppa úr fiskeldisstöð.

19. gr.

Slátrun á eldisfiski.

Slátrun heyrir undir Matvælastofnun og um hana gilda reglur er fram koma í lögum nr. 55/1998 með síðari breytingum, um meðferð, vinnslu og dreifingu sjávarafurða. Eftirlit með heilbrigði og heilnæmi fiska, sem teknir eru til slátrunar, heyrir einnig undir Matvælastofnun í samræmi við lög og reglugerðir þar að lútandi.

6. Flutningur.

20. gr.

Eldisfiskur.

Óheimilt er að flytja eldisfisk eða seiði í fiskeldisstöð fyrr en rekstrarleyfi er fengið og að lokinni úttekt Fiskistofu þar sem kannað er hvort rekstrarleyfishafi sé fær um að uppfylla skilmála rekstrarleyfis.

21. gr.

Takmörkun á flutningi á milli fiskeldisstöðva.

Óheimilt er að flytja eldistegundir, sem ekki eru tilgreindar í rekstrarleyfi, milli fisk­eldis­stöðva, svo og flytja og sleppa lifandi fiski og ófrjóvguðum hrognum milli ótengdra vatnasvæða. Að fenginni umsögn Matvælastofnunar getur Fiskistofa veitt rekstrar­leyfis­hafa undanþágu til að flytja eldistegundir, sem ekki eru tilgreindar í rekstrar­leyfi, milli fiskeldisstöðva ef ástæður mæla ekki gegn slíku. Fiskistofa skal í þeim tilvikum einnig leita umsagnar Hafrannsóknastofnunar eða Veiðimálastofnunar um hvort náttúru­legar aðstæður á fyrirhuguðu starfssvæði fiskeldisstöðvar í sjó eða fersku vatni gefi tilefni til neikvæðra vistfræðilegra áhrifa.

Fiskistofa getur, í samráði við Matvælastofnun, bannað flutning á fiski á milli tiltekinna fiskeldisstöðva eða um tiltekin svæði nema að uppfylltum vissum skilyrðum sem lúta að því að draga úr hættu á að sjúkdómar dreifist.

22. gr.

Framkvæmd flutnings.

Flutning á lifandi eldisfiski á sjó eða landi skal tilkynna Fiskistofu. Fiskistofa hefur heimild til að hafa eftirlit með flutningnum og gætir þess að hann sé í samræmi við lög og stjórnvalds­reglur, m.a. að fyrir liggi heilbrigðisvottorð frá dýralækni fisksjúkdóma hjá Matvæla­stofnun. Fiskistofa setur nánari reglur um tilkynningaskyldu og flutning á lifandi eldisfiski.

Við flutning á laxfiskum skal flutningsaðili útbúa verklagsreglur, að höfðu samráði við dýralækni fisksjúkdóma, þar sem fram kemur lýsing á búnaði sem notaður er til flutnings og hver ber ábyrgð á einstökum verkþáttum og réttum viðbrögðum ef eitthvað fer úrskeiðis.

Óheimilt er að draga sjókvíar með eldisfiski út fyrir starfssvæði eldisstöðvar nema að fengnu leyfi frá Fiskistofu.

7. Gæðastjórnun og innra eftirlit fiskeldisstöðva.

23. gr.

Innra eftirlit með lagardýrum og búnaði.

Forsvarsmaður fiskeldisstöðvar, sem sér um daglegan rekstur, skal hafa eftirlit með umhverfi, þar með talið mannvirkjum og búnaði, og heilbrigði lagardýra. Í fiskeldis­stöðvum skal hafa eftirlit með eldisfiski daglega svo framarlega sem það er hægt vegna veðurs. Í eldisstöðvum með lindýr, skrápdýr og krabbadýr skal eftirlitið vera minnst einu sinni í viku.

24. gr.

Sérákvæði fyrir sjókvíar.

Þessi grein gildir aðeins um sjókvíaeldisstöðvar sem þurfa að uppfylla ákvæði í 3.-8. viðauka reglugerðarinnar.

Leyfishafi skal vakta, meta og viðhalda eldiseiningum ásamt öðrum búnaði, sem tilheyrir eldinu, til að hindra slysasleppingar og til að uppgötva og koma tímanlega í veg fyrir að fiskur sleppi.

Skrá skal allt fyrirbyggjandi viðhald og fyrir hvern netpoka skal vera til staðar feril­skráning samkvæmt viðauka 4. Að lágmarki á 20 mánaða fresti skal hreinsa og yfirfara netpoka. Við hreinsun netpokanna skal einungis notast við bestu fáanlega tækni og viður­kennd efni.

25. gr.

Gæðastjórnun fyrir sjókvíaeldisstöðvar.

Þessi grein gildir aðeins um sjókvíaeldisstöðvar sem þurfa að uppfylla ákvæði í viðaukum 3-8.

Innra eftirliti skal komið á í eldisstöðvum í því skyni að koma í veg fyrir slysasleppingar með því að:

 1. Koma á fyrirbyggjandi aðgerðum í formi verklagsreglna, viðhaldsáætlana og þjálf­unar starfsmanna.
 2. Koma á virku eftirliti þar sem fram kemur hvað á að vakta, hver á að annast vöktunina, hvenær og hvernig vöktunin fer fram.
 3. Skilgreina viðmiðanir fyrir þau eftirlitsatriði sem eru vöktuð.
 4. Skilgreina hver er ábyrgur fyrir framkvæmd úrbóta og lýsa aðferðum og aðgerðum sem nauðsynlegar teljast til að leiðrétta frávikið.
 5. Skrá allt eftirlit, úrbætur og viðhald sem tengist innra eftirliti eldisstöðvar og geyma í minnst fimm ár. Allar skráningar skulu dagsettar og undirritaðar af eftirlits­aðila.
 6. Sannprófa innra eftirlit eldisstöðvar til að tryggja að það komi að tilætluðum notum.

8. Opinbert eftirlit með fiskeldisstöðvum.

26. gr.

Almennt eftirlit.

Fiskistofa skal hafa eftirlit með fiskeldisstöðvum í samræmi við fyrirmæli reglugerðar þessarar. Eftirlitið skal ná til rekstrar- og fiskeldisþátta í starfsemi stöðvanna og þess að skilyrði í rekstrarleyfi séu haldin. Eftirlit með heilbrigði fiska og heilnæmi eldisafurða skal hins vegar Matvælastofnun sjá um í samræmi við lög þar að lútandi. Landhelgisgæsla Íslands hefur eftirlit með fljótandi mannvirkjum í sjó.

Fiskistofu er heimilt að fela aðilum, sem hlotið hafa faggildingu samkvæmt lögum um faggildingu o.fl., að annast eftirlitið samkvæmt sérstökum samningi. Þeir skulu bundnir þagnarskyldu um það sem þeir fá vitneskju um við eftirlitið og leynt á að fara.

Einnig skal Fiskistofa skrá upplýsingar um heildarframleiðslu í fiskeldi á Íslandi á hverjum tíma.

27. gr.

Skýrslugerð.

Til að Fiskistofa geti annast eftirlit samkvæmt 25. og 26. gr. skal rekstrarleyfishafi gefa Fiskistofu árlega skýrslu um starfsemi sína. Þar skulu m.a. koma fram upplýsingar um framleiðslumagn stöðvar, eldisrými, fóðurnotkun, birgðir af fiski, uppruna hans, sjúkdóma og önnur óhöpp í rekstri svo og önnur atriði sem stofnuninni eru nauðsynleg til virks eftirlits samkvæmt reglugerð þessari.

9. Rannsóknir.

28. gr.

Merkingar laxfiska.

Fiskistofa skal gera kröfur um auðkenningu laxfiska þannig að 10% af útsettum seiðum í sjókvíar verði uggaklippt. Fiskistofa getur krafist þess að hærra hlutfall af útsettum seiðum sé uggaklippt ef sérstakar ástæður eru fyrir hendi. Veiðimálastofnun skal veita Fiskistofu ráðgjöf um framkvæmd 1. málsl. þessarar greinar. Auk þess er framleiðendum laxahrogna skylt að varðveita í gagnagrunnum erfðaefni eldislax þannig að hægt sé á hverjum tíma að rekja uppruna laxfiska sem sleppa úr kvíum og veiðast síðar, m.a. ef óvissa ríkir um áhrif eldis á umhverfið. Gögn eða lífsýni af merkum eldisfiskum skulu send til Veiðimálastofnunar. Auk þess er framleiðendum hrogna skylt að varðveita í gagnagrunnum erfðaefni foreldrafiska og halda bókhald yfir það frá hvaða foreldrum er selt til hverrar stöðvar þannig að hægt sé á hverjum tíma að rekja uppruna fiska sem sleppa úr kvíum eða stöðvum og veiðast síðar.

10. Gjaldtaka.

29. gr.

Eftirlitsgjald.

Fiskeldisstöðvar skulu greiða árlegt eftirlitsgjald fyrir eftirlit Fiskistofu eða faggiltra eftirlitsaðila á hennar vegum sem miðast við raunkostnað við eftirlitið samkvæmt gjaldskrá sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra staðfestir. Eftirlitsgjald skal innheimt með einni greiðslu á ári eigi síðar en 1. nóvember ár hvert. Fiskistofa skal annast innheimtu eftirlitsgjaldsins. Ef eftirlitsgjald er ekki greitt á eindaga reiknast hæstu lögleyfðir dráttarvextir af fjárhæð þess frá gjalddaga til greiðsludags. Eftirlitsgjald má innheimta með fjárnámi skv. 14. gr. laga nr. 71/2008.

11. Innflutningur á notuðum eldisbúnaði.

30. gr.

Um innflutning á notuðum eldisbúnaði.

Innflutningur á notuðum eldisbúnaði er óheimill. Til slíks búnaðar teljast eldiskvíar, eldisker, nætur, fóðrarar og fiskidælur. Matvælastofnun getur þó heimilað að flutt séu inn notuð vísindatæki og tæknibúnaður, m.a. tæki til flutnings sem sannanlega er hægt að sótthreinsa að mati Matvælastofnunar. Einnig getur Matvælastofnun með sömu skilyrðum heimilað innflutning á öðrum eldisbúnaði, enda þyki sannað að ekki berist smitefni með honum sem valda dýrasjúkdómum. Sækja skal um leyfi fyrir innflutningi á notuðum vísindatækjum, tæknibúnaði og eldisbúnaði til Matvælastofnunar sem getur heimilað hann að fenginni jákvæðri umsögn fisksjúkdómanefndar.

12. Viðurlög.

31. gr.

Viðurlög.

Brot gegn ákvæðum reglugerðar þessarar varða viðurlögum samkvæmt ákvæðum VII. kafla laga nr. 71/2008 um fiskeldi.

13. Gildistaka o.fl.

32. gr.

Gildistaka.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt ákvæðum laga nr. 71/2008 um fiskeldi, með síðari breytingum og öðlast þegar gildi. Jafnframt falla úr gildi reglugerð nr. 1011/2003 um búnað og innra eftirlit í fiskeldisstöðvum og reglugerð nr. 238/2003 um eldi nytjastofna sjávar, með síðari breytingum.

Ákvæði til bráðabirgða.

Ákvæði í 13. gr. um búnað sjókvíaeldisstöðva tekur gildi á árinu 2015 fyrir allar sjókvía­eldisstöðvar með aleldi sjávarfiska. Fiskistofu er þó heimilt að gera þá kröfu til stærri sjókvíaeldisstöðva með aleldi sjávarfiska að uppfylla ákvæði þessarar reglugerðar fyrir árið 2015 og þá sérstaklega í nágrenni viðkvæmra svæða, s.s. hrygningarsvæða sjávar­fiska.

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu, 18. apríl 2012.

F. h. r.

Sigurgeir Þorgeirsson.

Ingimar Jóhannsson.

VIÐAUKAR
(sjá PDF-skjal)


Þetta vefsvæði byggir á Eplica