Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti

96/2009

Reglugerð um breytingu á reglugerð nr. 224, 14. mars 2006, um vigtun og skráningu sjávarafla, með síðari breytingum. - Brottfallin

1. gr.

IX. kafli reglugerðarinnar orðist svo:

43. gr.

Óunninn afli samkvæmt þessum kafla er afli sem ekki hefur verið flakaður eða flattur.

44. gr.

Fiskistofa viðurkennir með leyfisveitingu, að fengnu samþykki sjávarútvegs- og land­búnaðar­ráðuneytis, erlenda uppboðsmarkaði sem vigtunarstaði á grundvelli athugana á vigtunaraðferðum, frágangi á vigtarnótum, uppboðsaðferðum og verðmyndun svo og á stærð markaðarins. Ef óunninn afli er seldur á erlendum uppboðsmarkaði sem hefur leyfi Fiskistofu, er heimilt að endurvigta hann þar, enda hafi aflinn verið ísaður og frágenginn til útflutnings um borð í veiðiskipi.

Fiskistofa skal innheimta af fiskmarkaði erlendis kostnað sem til fellur við upphaflega úttekt á fiskmarkaði í kjölfar umsóknar um leyfi, vegna launa eftirlitsmanna erlendis og við sérstakar eftirlitsúttektir af hálfu Fiskistofu. Með kostnaði er átt við laun eftirlitsmanna sem og dagpeninga og ferðakostnað þegar um úttektir er að ræða. Sé um að ræða úttekt í kjölfar umsóknar skal þessi kostnaður greiddur fyrirfram eða lögð fram fullnægjandi bankatrygging fyrir greiðslu hans. Í öðrum tilvikum skal eftirlitskostnaður innheimtur 15. hvers mánaðar fyrir undangenginn mánuð. Fiskistofa skal afturkalla leyfi erlends uppboðsmarkaðar standi markaður ekki í skilum með greiðslu kostnaðar.

45. gr.

Ef löndun, vigtun, uppboð eða skýrslugjöf vegna sölu afla á erlendum markaði er að einhverju leyti í verkahring annarra aðila en viðkomandi markaðar, er viðkomandi aðila óheimilt að annast vigtun eða skýrslugjöf til íslenskra stjórnvalda nema að fengnu leyfi Fiskistofu. Fiskistofa getur bundið slíkt leyfi skilyrðum er varða t.d. aðgreiningu afla, merkingar íláta er innihalda afla til sölu á markaði og flutning afla af markaði.

Þeir aðilar sem fengið hafa ofangreint leyfi Fiskistofu til skýrslugjafar, s.s. umboðsmaður eða uppboðsmarkaður erlendis, skulu samdægurs senda til Fiskistofu skýrslur á því formi sem Fiskistofa ákveður, um sölu á afla viðkomandi skips erlendis, þar sem tilgreint er endanlegt magn hverrar fisktegundar, söluverð eftir tegundum og stærðum og skipa­skrár­númer veiðiskips.

46. gr.

Óheimilt er flytja afla sem ekki hefur endanlega verið vigtaður og skráður í afla­skráningar­kerfi Fiskistofu á erlendan markað með flugfrakt.

Aðeins er heimilt að flytja afla sem keyptur er á innlendum uppboðsmarkaði með sjófrakt á erlendan markað að aflinn hafi verið endanlega vigtaður og skráður í afla­skráningar­kerfi Fiskistofu.

47. gr.

Sé fyrirhugað að flytja út til sölu á markaði erlendis, óunninn afla sem ekki hefur verið endanlega vigtaður og skráður í aflaskráningarkerfi Fiskistofu, skal skipstjóri viðkomandi veiðiskips tryggja að útflutningur afla sé tilkynntur Fiskistofu a.m.k. 24 klukkustundum áður en aflinn fer um borð í farmskip eða 24 klukkustundum áður en skip fer af miðum, sigli veiðiskip með eigin afla.

Tilkynning skal fara fram með þeim hætti að skrá skal á vefsíðu Fiskistofu upplýsingar um veiðiskip, veiðarfæri, aflamagn sundurliðað eftir tegundum og ílátum eins nákvæm­lega og unnt er, umboðsmann, sölustað, áætlaðan söludag og eftir atvikum löndunartíma, löndunarstað og brottfarartíma farmskips. Einnig skal skrá nafn, kennitölu og símanúmer útflytjanda. Dreifist afli veiðiskips sem siglir með afla sinn til fleiri söluaðila erlendis skal þess getið sérstaklega.

Fiskistofa skal tryggja að þessar upplýsingar flytjist á opinn uppboðsvef uppboðs­markaðar fyrir sjávarafla, sem hlotið hefur viðurkenningu ráðherra, þar sem hann skal boðinn upp. Þegar útgerðarmaður hefur valið þann uppboðsmarkað þar sem fiskurinn skal boðinn upp, skal hann sjá til þess að þangað berist nánari uppboðslýsingar og skilyrði sem útgerð kann að setja fyrir sölu aflans á uppboðinu, þ.m.t. um lágmarksverð. Upplýsingar um lágmarksverð skal þó ekki gefið upp fyrir uppboð.

Strax að loknu uppboði afla skal uppboðshaldari koma öllum nauðsynlegum upplýsingum um þær sölur sem orðið hafa til Fiskistofu með rafrænum hætti. Fiskistofa skal birta niðurstöðurnar á vefsíðu sinni og ábyrgjast varðveislu þeirra.

Um framkvæmd uppboðs að öðru leyti, gilda lög um uppboðsmarkaði sjávarafla nr. 79/2005 með síðari breytingum og reglugerð nr. 646/2007 um uppboðsmarkaði sjávarafla með síðari breytingum.

Vefsíða Fiskistofu skal vera aðgengileg almenningi. Fiskistofa skal daglega birta upplýsingar á vefsíðu sinni um meðalverð afla íslenskra skipa sem seldur hefur verið á erlendum mörkuðum fyrir hvern söludag, flokkað eftir tegundum, magni og stærðar­flokkum. Þar skal einnig tilgreina fyrir sömu flokkun, heildarverðmæti, hæsta verð og lægsta verð.

48. gr.

Við útflutning óunnins afla sem ekki hefur verið endanlega vigtaður og skráður í aflaskráningarkerfi Fiskistofu skal hvert ílát vera merkt með nafni veiðiskips og skipa­skrár­númeri. Þó er ekki gerð krafa um slíka merkingu íláta ef flutningseining (gámur) er einungis afli eins og sama veiðiskips. Í hverju íláti skal einungis vera ein fisktegund. Þó er heimilt að fylla ílát með öðrum tegundum sé magn einstakra tegunda það lítið að ekki fylli ílát. Í slíkum tilfellum skal hver tegund vera aðskilin og ílátið merkt sérstaklega með upplýsingum um þær tegundir sem í því eru. Aldrei er þó heimilt að flytja út þorsk með öðrum tegundum í sama íláti.

Óheimilt er að flytja út í sama gáminum afla sem endanlega hefur verið vigtaður og skráður í aflaskráningarkerfi Fiskistofu og afla sem fluttur er til endurvigtunar á viðurkenndan uppboðsmarkað erlendis.

49. gr.

Sé fyrirhugað að flytja út óunninn afla til sölu erlendis sem þegar hefur verið endanlega vigtaður og skráður í aflaskráningarkerfi Fiskistofu, skal útflytjandi (umráðamaður viðkomandi afla) tryggja að áður en afli er settur um borð í flutningsfarið sé tilkynnt til Fiskistofu um þau veiðiskip sem veitt hafa umræddan afla og um útflutt aflamagn sundurliðað eftir tegundum eins nákvæmlega og unnt er.

Tilkynning skal fara fram með þeim hætti að skrá skal á vefsíðu Fiskistofu upplýsingar um veiðiskip, veiðarfæri, eiganda afla, aflamagn sundurliðað eftir tegundum og ílátum eins nákvæmlega og unnt er, umboðsmann, sölustað, áætlaðan söludag og eftir atvikum löndunartíma, löndunarstað og brottfarartíma farmskips. Sé afli fluttur út í fleiri en einum gámi skal skrá á vefsíðu tilkynningu um hvern gám.

Útflytjandi (umráðamaður viðkomandi afla) skal tryggja að Fiskistofu séu sendar samdægurs sölunótur vegna sölu erlendis, þar sem tilgreint er endanlegt magn hverrar fisktegundar, söluverð eftir tegundum og stærðum og skipaskrárnúmer veiðiskips.

50. gr.

Allur óunninn afli sem fluttur er út í gámum skal brúttóvigtaður í löndunarhöfn og skráður í aflaskráningarkerfi Fiskistofu. Ef afli sem sendur er til endurvigtunar á viðurkenndan uppboðsmarkað erlendis, fer þegar eftir löndun í flutningsfar má brúttóvigta aflann með því að vigta gáminn. Löggiltur vigtarmaður sem jafnframt er starfsmaður hafnar skal gefa út vigtarnótu sbr. 9. gr., sem fylgja skal farmi uns hann er kominn um borð í flutningsfar sem flytur hann á markað erlendis. Á þeirri nótu komi fram sundurliðaðar upplýsingar um afla.

Allur afli sem fluttur er út í gámum skal brúttóvigtaður með því að vigta viðkomandi gám í löndunarhöfn. Afli sem fluttur er í gám utan löndunarhafnar skal brúttóvigtaður með því að vigta viðkomandi gám í útflutningshöfn. Skipstjóri skal ávallt senda viðkomandi hafnarvog upplýsingar um innihald gámsins undirritaðar af skipstjórnarmanni viðkomandi veiðiskips á þar til gerðu eyðublaði sem Fiskistofa lætur í té (eyðublað um innihald gáms).

Ef ekki er unnt að vega gám á hafnarvog þar sem afla er landað skal brúttóvigta aflann eftir tegundum á hafnarvog áður en aflinn er settur í gáminn.

Verði gámur fylltur smám saman af afla sem senda á til endurvigtunar á viðurkenndan uppboðsmarkað erlendis, þannig að afla er hlaðið oft í gáminn, er óheimilt að setja afla í gáminn eða taka afla úr honum nema að viðstöddum hafnarstarfsmanni. Hafnar­starfs­maður skal læsa gámnum eftir að afli hefur verið settur í hann. Allan afla, sem settur er í gám með þessum hætti, skal áður brúttóvigta eftir tegundum á hafnarvog og skal aflinn strax að vigtun lokinni settur í gáminn og skal hvert ílát vera merkt með löndunar­dagsetningu.

Afrit af flutningsnótu, ásamt upplýsingum um gámanúmer og eyðublað um innihald gáms, skal hafnarstarfsmaður senda Fiskistofu án ástæðulauss dráttar. Gögnin skulu varðveitt hjá hafnaryfirvöldum.

51. gr.

Flutningafyrirtækjum sem annast flutning á afla á erlendan markað er skylt að senda Fiskistofu farmskýrslur á því formi sem Fiskistofa óskar og eigi síðar en 24 klst. eftir að flutningsfar lætur úr höfn.

51. gr. a

Afli sem ekki hefur verið endanlega veginn hér á landi og seldur er á erlendum uppboðs­markaði skal heilvigtaður þar sbr. 1. mgr. 14. gr. Til heilvigtunar afla skal nota sjálfvirka vog sem vigtar allan afla með samfelldum hætti.

Óheimilt er að rjúfa innsigli gáma nema eftirlitsmaður Fiskistofu sé viðstaddur eða fulltrúi Fiskistofu hafi veitt leyfi til rofs innsiglis. Gámur skal einungis opnaður á fiskmarkaði þar sem fiskur sem í honum er verður boðinn upp.

Afli íslenskra skipa skal boðinn upp á sérstökum stað á gólfi markaðar og óheimilt er að flytja hann þaðan fyrr en uppboði er lokið og eftirlitsmenn Fiskistofu hafa gengið úr skugga um fisktegundir og magn úr einstökum gámum. Þó er heimilt með skriflegu leyfi eftirlitsmanns að flytja afla frá markaði áður en uppboði er lokið.

Ílát með fiski úr einstökum gámum skulu merkt greinilega með viðeigandi gámanúmeri og nafni eða skipaskrárnúmeri viðkomandi veiðiskips þannig að ekki fari milli mála úr hvaða gámi fiskurinn var tekinn og hver sé eigandi hans. Einnig skal hvert ílát merkt með nettó raunvigt. Að auki er heimilt er að merkja ílát með söluvigt.

Umboðsmenn skulu þegar að uppboði loknu senda Fiskistofu á rafrænu formi skýrslu um sölu íslensks fisks á markaði. Í söluskýrslu skal tilgreina eftirfarandi atriði:

  1. Nafn viðkomandi veiðiskips og umdæmisnúmer ásamt skipaskrárnúmeri.
  2. Dagsetningu löndunar.
  3. Söludag og sölustað afla.
  4. Vegið aflamagn, sundurliðað eftir tegundum.
  5. Söluverð afla, sundurliðað eftir tegundum.

Fiskistofa getur kveðið nánar á um vigtunaraðferðir, búnað til vigtunar, vigtarnótur, skýrslugjöf og uppboðsaðferðir í leyfisbréfi sem heimilar erlendum uppboðsmörkuðum eða öðrum aðilum vigtun og skýrslugjöf vegna sölu á óvigtuðum afla íslenskra skipa erlendis.

2. gr.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt ákvæðum laga nr. 57, 3. júní 1996, um umgengni um nytjastofna sjávar, laga nr. 151, 27. desember 1996, um fiskveiðar utan lögsögu Íslands og laga nr. 116, 10. ágúst 2006, um stjórn fiskveiða, til þess að öðlast þegar gildi.

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu, 30. janúar 2008.

F. h. r.
Steinar Ingi Matthíasson.

Kristján Freyr Helgason.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica