Sjávarútvegsráðuneyti

697/2005

Reglugerð um gerð og útbúnað meðaflaskilju við veiðar á uppsjávarfiski. - Brottfallin

1. gr.

Meðaflaskilja er útbúnaður, sem komið er fyrir í flotvörpu við veiðar á uppsjávarfiski í þeim tilgangi að flokka meðafla frá þannig að hann skiljist lifandi úr vörpunni. Meðaflaskilja skal ekki hafa áhrif á uppsetningu og eiginleika vörpunnar að öðru leyti.


2. gr.

Bil milli rimla í meðaflaskiljunni skal mest vera 55 mm. Í viðaukum við reglugerð þessa skal birta hvaða gerðir meðaflaskilja eru viðurkenndar og hvernig þeim skuli komið fyrir í vörpunni.


3. gr.

Ef flotvörpuveiðar á ákveðnum svæðum eru í skyndilokunum eða reglugerðum, sem gefnar eru út með stoð í lögum nr. 79, 26. maí 1997, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, bundnar því skilyrði, að varpan sé útbúin meðaflaskilju, er eingöngu heimilt að nota þær gerðir skilja, sem ráðuneytið hefur viðurkennt og lýst er í viðauka með reglugerð þessari og með því rimlabili sem áskilið er.


4. gr.

Brot á reglugerð þessari varða viðurlögum samkvæmt ákvæðum 17. gr. laga nr. 79, 26. maí 1997, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands. Með mál út af brotum skal farið að hætti opinberra mála. Ólögleg veiðarfæri skulu gerð upptæk samkvæmt ákvæðum 20. gr. laga nr. 79/1997.


5. gr.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt ákvæðum 14. gr. laga nr. 79, 26. maí 1997, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands til að öðlast gildi 26. maí 2005.


Ákvæði til bráðabirgða.

Þrátt fyrir ákvæði 2. gr. og viðaukans er heimilt til 1. september 2005 að nota meðaflaskilju með 60 mm rimlabili.


Sjávarútvegsráðuneytinu, 25. júlí 2005.


F. h. r.

Jón B. Jónasson.
Þórður Eyþórsson.


VIÐAUKI 1

Meðaflaskilja.


Lýsing:

Meðaflaskiljan er nethólkur úr fjórum byrðum sem í er grind eða grindur sem skilja stóran fisk frá smáum og sleppir stærri fiskinum út um sleppigat á undirbyrði nethólksins. Meðaflaskiljan er fest aftan við belg flotvörpunnar með reimingu og er pokinn festur á sama hátt fyrir aftan meðaflaskiljuna.


meðaflaskilja


Frágangur skilju:

Grindur geta verið ein eða fleiri í skiljunni. Rimlabil skal vera 55 mm að innanmáli á milli rimla (meðaltal tíu mælinga). Grind(ur) skal vera fest við yfirbyrði og hliðarbyrði og fremst á undirbyrði (sjá mynd). Festingar úr grindum í byrði og milli grinda skulu vera þannig gerðar að ekki myndist bil. Halli á grind(um) skal vera sem næst 45°. Sleppigat er aftast á undirbyrði (sbr. mynd) í skiljuhólknum.

Net í skiljuhólknum skal vera úr riðli með minni möskvum en 80 mm lengd til að koma í veg fyrir ánetjun veiðitegundar í skiljunni. Nota skal fínriðið leiðinet fyrir framan grind(ur) til að beina fiski sem efst á grind (ur). Nota skal kúlur eða teygjur til að halda uppi leiðineti. Net sem notað er í undirbyrði I (sbr mynd) við sleppigat ætti að vera þannig að það falli að undirbyrði II (sbr. mynd) í drætti. Hafa skal stíft hlífðarnet undir þessu neti til að koma í veg fyrir að það þenjist út ef mikill straumur liggur á því. Grindur skulu þannig úr garði gerðar að auðvelt sé að taka þær inn á flotvörpuvindur. Óheimilt er að nota of efnismikla grind(ur) sem torveldað gæti streymi í gegn. Nota skal hallamæli við notkun skiljunnar.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica