Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti

52/2008

Reglugerð um breytingu á reglugerð nr. 151, 20. febrúar 2001, um botnfiskveiðar færeyskra skipa í íslenskri fiskveiðilandhelgi. - Brottfallin

1. gr.

14. gr. reglugerðarinnar orðist svo:

Fiskistofu er heimilt að setja veiðieftirlitsmenn um borð í færeysk fiskiskip sem leyfi hafa til veiða innan íslenskrar lögsögu. Skal útgerð skipsins sjá eftirlitsmönnum fyrir fæði og aðstöðu meðan þeir eru um borð og ennfremur greiða allan kostnað af veru þeirra um borð í skipinu.

Afla skal haldið aðgreindum eftir tegundum um borð í viðkomandi fiskiskipi.

Fiskiskipum sem leyfi hafa fengið til veiða í fiskveiðilandhelgi Íslands, er skylt að halda afladagbækur um veiðarnar sem uppfylla ákvæði um afladagbækur samkvæmt kafla III og viðauka IV í reglum Norðaustur-Atlantshafsfiskveiðinefndarinnar (NEAFC). Staðfestar upplýsingar um landaðan afla einstakra skipa hvers mánaðar, sundurliðaðar eftir fisk­tegundum og löndunardögum, ásamt afritum úr afladagbókum, skal senda Fiskistofu eigi síðar en 14 dögum eftir hver mánaðamót.

2. gr.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt ákvæðum laga nr. 22, 8. apríl 1998, um veiðar og vinnslu erlendra skipa í fiskveiðilandhelgi Íslands, með síðari breytingum til þess að öðlast þegar gildi og birtist til eftirbreytni öllum þeim sem hlut eiga að máli.

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu, 23. janúar 2008.

F. h. r.

Steinar Ingi Matthíasson.

Þórður Eyþórsson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica