Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti

670/2008

Reglugerð um greiðslumark mjólkur á lögbýlum og greiðslur til bænda verðlagsárið 2008-2009. - Brottfallin

1. gr.

Heildargreiðslumark og greiðslumark lögbýla.

Heildargreiðslumark til framleiðslu mjólkur verðlagsárið 2008-2009 skal vera 119 milljónir lítra og skiptist í greiðslumark lögbýla. Greiðslumark lögbýla reiknast í lítrum mjólkur og skiptist hlutfallslega milli lögbýla á sama hátt og greiðslumark til framleiðslu mjólkur á verðlagsárinu 2007-2008.

2. gr.

Aðilaskipti að greiðslumarki.

Heimil eru aðilaskipti að greiðslumarki á milli lögbýla. Sé ábúandi lögbýlis annar en eigandi/eigendur þess þarf samþykki beggja/allra fyrir ráðstöfun greiðslumarks frá lögbýli. Leiguliða er heimilt að kaupa greiðslumark á lögbýli og skal það sérstaklega skráð á nafn hans. Leiguliða er heimilt að selja sérskráð greiðslumark án samþykkis jarðareiganda. Þó skal jarðareigandi eiga forkaupsrétt við ábúðarlok leiguliða á því markaðsverði sem síðast liggur fyrir samkvæmt könnun sem Matvælastofnun annast. Tilkynna skal um aðilaskipti að greiðslumarki til Matvælastofnunar á þar til gerðum eyðublöðum sem Matvælastofnun lætur í té. Tilkynningu um aðilaskipti skal fylgja undirritaður samningur þar um, þar sem m.a. skulu koma fram nöfn samningsaðila, kennitala, heimili og lögbýlisnúmer, dagsetning samnings og gildistaka, kaupverð, verð á lítra mjólkur og heildarmagn, undirskrift kaupenda og seljenda ásamt staðfestingu vitundarvotta. Einnig skal fylgja staðfesting um eignarhald að lögbýlinu. Þá skal seljandi leggja fram þinglýsingarvottorð fyrir það lögbýli sem greiðslumark er selt frá og skriflegt samþykki allra veðhafa fyrir sölunni.

Tilkynningar um aðilaskipti að greiðslumarki, fyrir verðlagsárið 2008-2009, ásamt fylgigögnum skulu hafa borist Matvælastofnun í síðasta lagi fyrir 20. júní 2009 til að þau taki gildi á verðlagsárinu. Aðilaskiptin taka fyrst gildi þegar staðfesting Matvælastofnunar liggur fyrir.

Matvælastofnun er heimilt að birta yfirlit yfir viðskipti með greiðslumark og verð á því. Upplýsingar sem þannig eru birtar skal ekki vera hægt að rekja til einstakra aðila.

3. gr.

Nýting greiðslumarks.

Afurðastöð skal greiða framleiðanda lágmarksverð fyrir mjólk sem miðast við 1. flokks mjólk með skilgreindu efnainnihaldi. Fyrir aðra mjólk sem ekki stenst kröfur sem 1. flokks mjólk greiðir afurðastöð verð allt niður að leyfilegum afföllum frá verði 1. flokks mjólkur.

Greiðslutilhögun afurðastöðvar vegna framleiðslu umfram greiðslumark skal vera með þeim hætti að greiðslur vegna ónotaðs greiðslumarks skulu ganga hlutfallslega til annarra greiðslumarkshafa. Skal fyrst greitt fyrir fyrsta prósentustig sem greiðslumarkshafi framleiðir umfram eigið greiðslumark og síðan annað prósentustig og svo áfram eftir því sem ónotað greiðslumark gefur tilefni til.

Framleiðsla, umfram greiðslumark skal fara á erlendan markað á ábyrgð hvers framleiðanda og viðkomandi afurðastöðvar. Framkvæmdanefnd búvörusamninga getur þó gefið skriflega heimild til sölu þessara vara innanlands ef heildarframleiðsla verður minni en sala og birgðastaða gefa tilefni til.

Öll mjólk sem seld er í afurðastöð frá viðkomandi lögbýli skal reiknast með í uppgjöri greiðslumarks fyrir lögbýlið.

Mjólk sem unnið er úr til sölu á sama lögbýli og framleiðsla fer fram telst til framleiðslu innan greiðslumarks.

Bændasamtök Íslands safna skýrslum um framleiðsluna.

4. gr.

Brottfall og geymsla greiðslumarks.

Greiðslumark lögbýla sem ekki hefur verið nýtt til framleiðslu að neinu leyti í full tvö verðlagsár fellur niður, enda hafi Matvælastofnun tilkynnt eiganda lögbýlis um rétt til sölu eða geymslu greiðslumarksins. Heimilt er framleiðanda að leggja greiðslumark lögbýlisins inn til geymslu hjá Matvælastofnun, lengst til 1. september 2012 og sætir það þá sömu breytingum og annað greiðslumark.

5. gr.

Beingreiðslur.

Beingreiðsla er framlag úr ríkissjóði til framleiðenda mjólkur og greiðist mánaðarlega úr ríkissjóði til handhafa beingreiðslna, sbr. 55. gr. laga nr. 99/1993. Beingreiðslur fyrir verðlagsárið 2008-2009 skulu vera kr. 3.299.000.000, að viðbættri verðtryggingu samkvæmt vísitölu neysluverðs, og miðast við grunnvísitölu 230,0 stig þann 1. janúar 2004. Verðbætur skulu reiknaðar mánaðarlega á grundvelli vísitölu sem gildir til verðtryggingar í greiðslumánuði. Dreifing beingreiðslna og fráviksmörk skulu vera með eftirfarandi hætti:

a) 47,67% beingreiðslna skal greiða greiðslumarkshöfum óháð framleiðslu, að því tilskildu að framleiðsla lögbýlisins sé a.m.k. 90% greiðslumarks á tímabilinu. Greiða skal 1. hvers mánaðar, 1/12 hluta, í fyrsta sinn 1. september 2008.
b) 35,45% beingreiðslna skal greiða greiðslumarkshöfum eftir framleiðslu allt að greiðslumarki hvers framleiðanda. Greiða skal 1. hvers mánaðar fyrir innlegg næstsíðasta mánaðar, í fyrsta sinn 1. nóvember 2008.
c) 16,88% beingreiðslna skal ráðstafa til greiðslumarkshafa, vegna framleiðslu innan greiðslumarks með eftirfarandi hætti: Greiða skal 16/30 hluta fjárhæðarinnar á innvegið magn mjólkur í mánuðunum nóvember til og með febrúar. Finna skal meðalgreiðslu fyrir hvern dag í þessum mánuðum að teknu tilliti til breytinga á lágmarksverði mjólkur og þeirri fjárhæð sem þannig er fundin skal deilt á innvegið magn mjólkur í hverjum mánuði fyrir sig. Greiða skal 1. hvers mánaðar fyrir innlegg næstsíðasta mánaðar. Á sama hátt skal greiða 4/30 hluta fyrir innvegna mjólk í september, 2/30 hluta fyrir innvegna mjólk í október, 3/30 hluta fyrir innvegna mjólk í júlí og 5/30 hluta fyrir innvegna mjólk í ágúst.


Að því marki sem beingreiðslur ganga ekki út eftir uppgjör innan greiðslumarks skal greitt samkvæmt stafliðum a og b að ofan hlutfallslega út á heildarframleiðslu umfram greiðslumark hvers lögbýlis í samræmi við 3. gr.

Verði mjólkurframleiðsla minni en sem nemur heildargreiðslumarki þannig að beingreiðslur ganga ekki út samkvæmt þessari reglu, skal ónotuðum beingreiðslum jafnað út á allt innvegið mjólkurinnlegg greiðslumarkshafa.

Framleiðendur geta einungis öðlast rétt til beingreiðslna fyrir mjólk sem framleidd er á því lögbýli sem greiðslumark fylgir innan verðlagsárs.

Öll mjólk sem seld er í afurðastöð frá viðkomandi lögbýli og heimaunnin mjólk samkvæmt ákvæðum 3. gr. skal reiknast með í uppgjöri greiðslumarks fyrir lögbýlið.

6. gr.

Handhafar beingreiðslna.

Beingreiðslur greiðast ábúanda á lögbýli. Á hverju lögbýli skal aðeins einn framleiðandi vera skráður handhafi. Þó er heimilt, þegar um fleiri sjálfstæða rekstraraðila er að ræða sem standa að búinu, að skrá þá sérstaklega. Sjálfstæður rekstraraðili telst sá einn sem hefur sjálfstætt virðisaukaskattsuppgjör. Tilkynna skal Matvælastofnun allar breytingar á því hver eigi að vera handhafi beingreiðslna. Séu handhafar tveir eða fleiri, skal gefa upp hlutfallslega skiptingu beingreiðslna. Jafnframt skulu handhafar beingreiðslna tilgreina sérstakan reikning í bönkum eða öðrum viðskiptastofnunum, sem greiðslur skulu lagðar inn á.

7. gr.

Uppgjör beingreiðslna.

Sjái handhafi beingreiðslna fram á að nýting greiðslumarks gefi ekki rétt til 90% af beingreiðslum verðlagsársins, ber honum að tilkynna það Matvælastofnun, sem þá skal haga beingreiðslum í samræmi við áætlaða nýtingu. Komi samt fram við lok verðlagsárs, að ofgreitt hafi verið, ber handhafa beingreiðslna að endurgreiða mismuninn samkvæmt reikningi.

Afurðastöð skal senda Matvælastofnun tilkynningu um stöðvun mjólkurinnleggs, ef mjólkurinnlegg framleiðanda fellur niður í heilan mánuð eða lengri tíma.

8. gr.

Útreikningur á greiðslumarki lögbýla.

Matvælastofnun reiknar út greiðslumark til framleiðslu mjólkur og heldur skrá yfir greiðslumark lögbýla og handhafa réttar til beingreiðslna og lætur afurðastöðvum og búnaðarsamböndum í té eintak af henni fyrir starfssvæði þeirra. Matvælastofnun aflar upplýsinga og annast útreikninga vegna framkvæmdar þessarar reglugerðar og hefur eftirlit með uppgjöri afurðastöðva við framleiðendur. Afurðastöðvum og framleiðendum er skylt að láta Matvælastofnun í té allar þær upplýsingar sem að gagni geta komið við störf Matvælastofnunar og þær geta veitt.

9. gr.

Tilkynningar um greiðslumark lögbýla.

Matvælastofnun skal tilkynna framleiðendum um greiðslumark lögbýla. Framleiðendur eiga þess kost að gera athugasemdir við það og skulu þær berast Matvælastofnun innan 20 daga frá dagsetningu tilkynningar um greiðslumark, ella gildir það fyrir verðlagsárið. Matvælastofnun endurskoðar útreikninga, sem athugasemdir eru gerðar við og tilkynnir framleiðanda niðurstöðu sína. Berist Matvælastofnun ekki athugasemdir við þá niðurstöðu innan 25 daga frá dagsetningu úrskurðarins, gildir hann fyrir hlutaðeigandi verðlagsár. Uni viðkomandi framleiðandi ekki þeirri niðurstöðu, hefur hann rétt til að skjóta ágreiningnum með rökstuddri kæru til úrskurðarnefndar, sbr. 10. gr.

10. gr.

Kæruheimild.

Ágreiningi um ákvörðun á greiðslumarki lögbýlis, skráningu á greiðslumarki og rétt til beinna greiðslna, er heimilt að kæra til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

11. gr.

Ráðstöfun óframleiðslutengds og/eða minna markaðstruflandi stuðnings.

Óframleiðslutengdum og/eða minna markaðstruflandi stuðningi að fjárhæð 97 milljónum króna, að viðbættri verðtryggingu samkvæmt vísitölu neysluverðs, er miðast við grunnvísitölu 230,0 stig þann 1. janúar 2004, á verðlagsárinu 2008/2009, skal ráðstafað sem hér segir:

a) Eingreiðsla á greiðslumark. 34 milljónir skal greiða út á greiðslumark til mjólkurframleiðenda til sam­ræmis við greiðslumark mjólkur þann 1. september 2008.
b) Kynbótaverkefni. 25 milljónum skal varið til kynbótaverkefna.
c)  Ræktunarverkefni. 30 milljónum skal varið til gras- og grænfóðurræktar skv. reglum sem Bændasamtök Íslands setja.
d) Þróunarfé. 8 milljónum skal varið til rannsókna- og/eða þróunarverkefna í nautgriparækt.


Fjármunir skv. b-d lið 1. mgr. skulu greiddir til Bændasamtaka Íslands við upphaf verðlagsárs. Bændasamtök Íslands annast úthlutun fjármunanna.

12. gr.

Viðurlög.

Brot á reglugerð þessari varða viðurlögum skv. 82. gr. laga nr. 99/1993 um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum. Með mál út af brotum skal farið að hætti sakamála.

13. gr.

Gildistaka.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í lögum nr. 99/1993 um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, með síðari breytingum. Reglugerðin öðlast gildi frá og með 1. september 2008 og gildir fyrir verðlagsárið 2008-2009.

Við gildistöku þessarar reglugerðar fellur úr gildi reglugerð nr. 631/2007 um greiðslumark mjólkur á lögbýlum og beingreiðslur til bænda verðlagsárið 2007-2008.

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu, 3. júlí 2008.

F. h. r.

Ólafur Friðriksson.

Arnór Snæbjörnsson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica