Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti

863/2008

Reglugerð um stjórn makrílveiða íslenskra skipa utan lögsögu árið 2008. - Brottfallin

1. gr.

Reglugerð þessi gildir um veiðar íslenskra skipa á makríl á samningssvæði Norðaustur-Atlantshafsfiskveiðinefndarinnar NEAFC, utan lögsögu ríkja.

2. gr.

Íslenskum fiskiskipum er óheimilt að stunda veiðar, sbr. 1. gr., án sérstaks leyfis Fiskistofu. Við veitingu leyfa koma aðeins til greina þau fiskiskip sem uppfylla skilyrði til útgáfu leyfis til veiða í atvinnuskyni, sbr. lög nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða með síðari breytingum.

3. gr.

Á árinu 2008 er íslenskum skipum heimilt að veiða, á alþjóðlegu hafsvæði sbr. 1. gr., samtals 20.000 lestir af makríl. Þegar þeim afla er náð falla leyfi til makrílveiða úr gildi og skal Fiskistofa tilkynna um stöðvun veiðanna.

4. gr.

Um makrílveiðar á alþjóðlegu hafsvæði gilda ákvæði reglugerðar nr. 321/2008, um veiðieftirlit á samningssvæði Norðaustur-Atlantshafsfiskveiðinefndarinnar (NEAFC) með síðari breytingum.

Fiskistofa tilkynnir þegar 15.000 lestir hafa verið veiddar. Eftir þá tilkynningu skulu veiðiskip senda dagleg aflaskeyti.

5. gr.

Makrílafla skal landað og hann veginn í íslenskri höfn. Heimilt er þó með leyfi Fiskistofu að landa makrílafla og makrílafurðum í höfnum erlendis enda sé tryggt að eftirlit með vigtun aflans sé fullnægjandi að mati Fiskistofu. Jafnframt er heimilt að fengnu leyfi Fiskistofu að landa óvigtuðum makríl um borð í vinnsluskip og flutningaskip, enda sé tryggt að skráning og vigtun afla sé fullnægjandi að mati Fiskistofu. Sækja skal um leyfi til löndunar makríls utan íslenskra hafna til Fiskistofu og skal skipstjóri í umsókn tilgreina nákvæmlega hvar hann hyggst landa aflanum og áætlað magn makríls. Þegar að löndun lokinni skal skipstjóri veiðiskips senda Fiskistofu endanlegar tölur um landaðan afla og aflaverðmæti, staðfestar af móttakanda makrílsins eða staðfest afrit af vigtarnótu, liggi það fyrir.

Um vigtun á makríl gilda ákvæði reglugerðar nr. 224/2006 um vigtun og skráningu sjávarafla, með síðari breytingum og ákvæði reglugerðar nr. 246/2008 um vigtun og skráningu meðafla á uppsjávarfiski.

Landi skip frystum afurðum utan Íslands skal tilkynna um það í samræmi við ákvæði 5. kafla reglna Norðaustur-Atlantshafsfiskveiðinefndarinnar (NEAFC) um fiskveiðieftirlit og framkvæmd þess.

Þegar makríll er reiknaður til þorskígilda skal miðað við verðmætastuðulinn 0,06.

6. gr.

Skipstjóri skal, svo fljótt sem verða má eftir að veiðum lýkur og eigi síðar en 4 klukkustundum eftir að komið er til hafnar, senda Fiskistofu skýrslu um áætlaðan makrílafla í viðkomandi veiðiferð á því formi sem Fiskistofa ákveður. Í skýrslunni skal koma fram makrílafli skipsins miðað við afla upp úr sjó sundurliðaður eftir afla innan fiskveiðilandhelgi Íslands og afla á alþjóðlegu hafsvæði.

7. gr.

Brot á reglugerð þessari og ákvæðum leyfisbréfa gefnum út með stoð í henni varða viðurlögum samkvæmt ákvæðum laga nr. 151, 27. desember 1996, um veiðar utan lögsögu Íslands, með síðari breytingum og laga nr. 57, 3. júní 1996, um umgengni um nytjastofna sjávar, með síðari breytingum. Með mál út af brotum á reglugerð þessari skal farið að hætti opinberra mála.

Vegna afla umfram leyfilegt hámark skal beita ákvæðum laga nr. 37, 27. maí 1992, um sérstakt gjald vegna ólögmæts sjávarafla. Jafnframt er Fiskistofu heimilt að svipta skip leyfi til makrílveiða vegna brota á reglugerð þessari.

8. gr.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt ákvæðum laga nr. 151, 27. desember 1996, um fiskveiðar utan lögsögu Íslands, með síðari breytingum og laga nr. 57, 3. júní 1996, um umgengni um nytjastofna sjávar, með síðari breytingum til þess að öðlast þegar gildi og birtist til eftirbreytni öllum þeim sem hlut eiga að máli.

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu, 10. september 2008.

Einar Kristinn Guðfinnson.

Steinar Ingi Matthíasson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica