Sjávarútvegsráðuneyti

206/2006

Reglugerð um vigtun og skráningu meðafla við kolmunnaveiðar. - Brottfallin

1. gr.

Reglugerð þessi tekur til íslenskra og færeyskra skipa sem stunda kolmunnaveiðar innan íslenskrar lögsögu og landa afla sínum á Íslandi.

2. gr.

Vigtunarleyfishafi sem tekur á móti kolmunna skal taka sýni úr afla svo sem mælt er fyrir um í 2. mgr. Niðurstaða sýnatöku skal lögð til grundvallar við ákvörðun magns og skráningu einstakra tegunda meðafla.

Fyrir löndun skal skipstjóri tilkynna til vigtunarleyfishafa um áætlað aflamagn. Fjöldi sýna úr hverjum farmi skal ákveðinn þannig:

  1. Úr 1000 lesta farmi og minni skal tekið eitt sýni fyrir hverjar hundrað lestir en þó aldrei færri en þrjú sýni.
  2. Sé farmur stærri en 1000 lestir skal, auk sýna samkvæmt 1. tl., tekið eitt sýni úr hverjum 200 lestum umfram 1000 lestir en þó skal aldrei taka fleiri en 15 sýni alls úr hverjum farmi.

Hvert sýni skal vega um það bil 500 kg. Skulu sýni valin þannig að dregnar skulu út slembitölur fyrir hverja heila lest á talnabilinu frá einum til áætlaðs heildarafla og ræðst fjöldi þeirra af tölu sýna sbr. 2. mgr. Þegar löndunarvog sýnir útdregna slembitölu skulu sýni tekin.

Sýnin skulu sett í kar og merkt með númeri og þau vegin til að ákvarða heildarþunga hvers sýnis. Starfsmenn vigtunarleyfishafa skulu tegundaflokka meðafla, telja fiska af hverri tegund og vigta magn hverrar tegundar í hverju sýni (kari). Magn meðafla í hverri tegund skal síðan uppreiknað með tilliti til heildarafla hverrar löndunar og skal sá meðafli skráður til afla viðkomandi fiskskips í aflaskráningakerfi Fiskistofu. Allar niðurstöður mælinga skulu skráðar á sérstök eyðublöð sem skulu varðveitt í a.m.k. tvö ár.

3. gr.

Um vigtun kolmunna og meðafla og skráningu hans gilda að öðru leyti ákvæði reglugerðar nr. 522, 18 ágúst 1998, um vigtun sjávarafla.

4. gr.

Brot á reglugerð þessari varða viðurlögum samkvæmt 23. gr. laga nr. 57, 3. júní 1996, um umgengni um nytjastofna sjávar, með síðari breytingum. Þá er Fiskistofu heimilt að afturkalla leyfi til vigtunar ef vigtunarleyfishafi eða starfsmenn hans brjóta gegn ákvæðum þessarar reglugerðar.

5. gr.

Reglugerð þessi er gefin út samkvæmt 2. mgr. 9. gr. laga nr. 57, 3. júní 1996, um umgengni um nytjastofna sjávar, með síðari breytingum til að öðlast þegar gildi. Frá sama tíma er felld úr gildi reglugerð nr. 559, 7. júní 2005, um vigtun og skráningu meðafla við kolmunnaveiðar.

Sjávarútvegsráðuneytinu, 16. mars 2006.

F. h. r.

Jón B. Jónasson.

Þórður Eyþórsson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica