Sjávarútvegsráðuneyti

511/2005

Reglugerð um skilyrði á sviði heilbrigðis dýra sem hafa áhrif á markaðssetningu sjávareldisdýra og afurða þeirra. - Brottfallin

I. KAFLI
Almenn ákvæði.
1. gr.

Reglugerð þessi gildir um markaðssetningu innan Evrópska efnahagssvæðisins (EES) og innflutning frá löndum utan EES á sjávareldisdýrum og afurðum þeirra. Með reglugerðinni er kveðið nánar á um þær heilbrigðiskröfur sem gerðar eru við markaðssetningu á sjávareldisdýrum og afurðum þeirra.

Tilgangur þessarar reglugerðar er að hindra útbreiðslu smitsjúkdóma í sjávareldisdýrum við markaðssetningu þeirra og afurða þeirra.


2. gr.

Í þessari reglugerð er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:

1. Eldisdýr: Lifandi fiskur, krabbadýr eða lindýr frá eldisstöð, að meðtöldum þeim sem lifa upprunalega villt en eru ætluð fyrir eldisstöð.
2. Eldisafurðir: Afurðir af eldisdýrum, hvort sem þær eru ætlaðar til ræktunar, eins og hrogn og svil, eða til manneldis.
3. Fiskur, krabbadýr eða lindýr: Hvaða fiskur, krabbadýr eða lindýr sem er, óháð þroskastigi.
4. Eldisstöð: Starfsstöð eða almennt landfræðilega skilgreint mannvirki þar sem eldisdýr eru ræktuð eða alin með markaðssetningu í huga.
5. Viðurkennd eldisstöð: Eldisstöð sem uppfyllir, eftir því sem við á, kröfurnar í I., II. eða III. hluta viðauka C og er viðurkennd sem slík samkvæmt 6. gr.
6. Viðurkennt svæði: Svæði sem uppfyllir, eftir því sem við á, ákvæði I., II. eða III. hluta viðauka B og er viðurkennt sem slíkt samkvæmt 5. gr.
7. Viðurkennd rannsóknarstofa: Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum, fisksjúkdómadeild hér á landi, en erlendis önnur sambærileg stofnun sem tilnefnd er af þar til bæru yfirvaldi aðildarríkis innan EES eða þriðja lands.
8. Opinber þjónustustofnun: Fiskistofa, en erlendis önnur sambærileg stofnun sem er tilnefnd af þar til bæru yfirvaldi EES-ríkis eða þriðja ríkis og ber ábyrgð á eftirlitinu sem kveðið er á um í þessari reglugerð.
9. Heilbrigðisskoðun: Vitjun á vegum opinberrar þjónustustofnunar eða stofnana í eldisstöð eða á svæði til heilbrigðiseftirlits með eldisstöð eða svæði.
10. Markaðssetning: Afurðir sem eru geymdar eða sýndar með sölu í huga, boðnar til sölu, seldar, afhentar, framseldar eða með einhverjum öðrum hætti settar á markað innan EES, að smásölu undanskilinni.
11. Sjávareldisdýr: Eldisdýr sem lifa allan sinn lífsferil í sjó.
12. EES-ríki: Ríki á Evrópska efnahagssvæðinu.
13. ESA: Eftirlitsstofnun EFTA.


II. KAFLI
Markaðssetning sjávareldisdýra og -afurða
innan Evrópska efnahagssvæðisins.
3. gr.

1. Markaðssetning sjávareldisdýra og afurða þeirra skal háð eftirfarandi almennum skilyrðum:

a) Þau mega ekki sýna nein klínísk sjúkdómseinkenni á fermingardegi;
b) þau mega ekki vera ætluð til förgunar eða slátrunar samkvæmt þeirri áætlun um útrýmingu sjúkdóms sem tilgreind er í viðauka A;
c) þau mega ekki koma frá eldisstöð sem er í banni af dýraheilbrigðissjónarmiðum og mega ekki hafa komist í snertingu við dýr frá slíkri eldisstöð, einkum dýr frá eldisstöð sem eftirlitsráðstafanir gilda um í tengslum við reglugerð nr. 510/2005 um lágmarksráðstafanir innan EES vegna eftirlits með tilteknum fisksjúkdómum.

2. Eldisafurðir sem eru settar á markað til ræktunar (hrogn og svil) verða að vera af dýrum sem fullnægja skilyrðum 1. mgr.

3. Eldisafurðir sem eru settar á markað til manneldis verða að vera af dýrum sem fullnægja skilyrðum a-liðar 1. mgr.

4. Þessi grein gildir með fyrirvara um ákvæði reglugerðar nr. 510/2005 um lágmarksráðstafanir innan EES að því er varðar eftirlit með tilteknum fisksjúkdómum, einkum sjúkdómum í skrá I.


4. gr.

Flytja verður eldisdýr eins fljótt og unnt er til viðtökustaðar með flutningatæki sem hefur verið hreinsað og ef með þarf, sótthreinsað fyrirfram með sótthreinsiefni sem er opinberlega viðurkennt í EES-sendingarríkinu.

Ef vatn er notað í landflutningum skulu flutningatækin þannig úr garði gerð að vatn geti ekki lekið út meðan á flutningunum stendur. Flutningar skulu fara þannig fram að heilbrigði dýranna sé tryggt, einkum með því að skipta um vatn. Skipta verður um vatn á þeim stöðum sem uppfylla kröfur viðauka D. Senda verður Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) skrá yfir slíka staði og tilkynna um breytingar síðar og skal hún koma upplýsingunum á framfæri við hin EES-ríkin.


5. gr.

1. Til að fá svæði viðurkennt vegna eins eða fleiri sjúkdóma sem um getur í 1. dálki í skrá II í viðauka A skal Fiskistofa í samráði við yfirdýralækni leggja fyrir ESA:

öll sönnunargögn varðandi þau skilyrði sem sett eru, eftir því sem við á, í þætti B í I., II. eða III. hluta viðauka B,
innlendar reglur sem tryggja að þeim skilyrðum sem sett eru, eftir því sem við á, í þætti C í I., II. eða III. hluta viðauka B sé fullnægt.


6. gr.

1. Til að fá eldisstöð viðurkennda á svæði sem hefur ekki hlotið viðurkenningu, vegna eins eða fleiri sjúkdóma sem um getur í 1. dálki í skrá II í viðauka A, skal Fiskistofa í samráði við yfirdýralækni leggja fyrir ESA:

öll sönnunargögn varðandi þau skilyrði sem sett eru, eftir því sem við á, í þætti A í I., II. eða III. hluta viðauka C,
innlendar reglur sem tryggja að þeim skilyrðum sem sett eru, eftir því sem við á, í þætti B í I., II. eða III. hluta viðauka C sé fullnægt.

2. Þegar ESA hefur móttekið gögn varðandi beiðni um viðurkenningu eða endurnýjun á viðurkenningu eldisstöðvar á svæði sem hefur ekki hlotið viðurkenningu hefur hún einn mánuð til að rannsaka gögnin. Rannsóknin skal fara fram á grundvelli upplýsinganna sem um ræðir í 1. mgr. og, eftir því sem við á, niðurstaðna eftirlits á staðnum sem fram fer í samræmi við ákvæði 17. gr. Ef niðurstöður rannsóknarinnar eru jákvæðar skal ESA koma þeim á framfæri við Fiskistofu. Fiskistofa hefur tveggja vikna frest til að gera athugasemdir.
Hafi engar athugasemdir verið gerðar þegar fresturinn er útrunninn, eða stangist athugasemdirnar ekki á við niðurstöður ESA, skal ESA viðurkenna eða endurnýja viðurkenningu á eldisstöð. Ef verulegt misræmi er á milli niðurstaðna ESA og athugasemda Fiskistofu og yfirdýralæknis, eða komist ESA að þeirri niðurstöðu eftir að hafa skoðað gögnin að ekki beri að veita viðurkenninguna eða endurnýja hana, hefur ESA tveggja mánaða frest til að vísa málinu til fastanefndar Evrópusambandsins um dýraheilbrigði og leita eftir áliti hennar. Ef svo ber undir skal veita viðurkenninguna eða endurnýja hana. Ef Fiskistofa í samráði við yfirdýralækni dregur viðurkenningu á eldisstöð til baka í samræmi við þátt C í I., II. eða III. hluta viðauka C skal ESA afturkalla ákvörðun sína um viðurkenningu.


7. gr.

1. Markaðssetning lifandi fisks af þeim tegundum sem eru smitnæmar og um getur í 2. dálki í skrá II í viðauka A, hrogna þeirra eða svilja, skal háð því að eftirfarandi viðbótarkröfum sé fullnægt:

a) Eigi að flytja hann á viðurkennt svæði verður að fylgja honum, samkvæmt 11. gr., flutningsskýrsla sem er í samræmi við fyrirmyndina í 1. eða 2. kafla viðauka E til staðfestingar á að hann komi frá viðurkenndu svæði eða viðurkenndri eldisstöð. Viðbótarábyrgðir skulu ákveðnar vegna aðflutnings fisks sem kemur frá viðurkenndri eldisstöð á svæði sem hefur ekki hlotið viðurkenningu, á viðurkennt svæði. Uns sú ákvörðun liggur fyrir skulu innlendar reglur gilda áfram að því tilskildu að þær séu í samræmi við almenn ákvæði sáttmálans;
b) eigi að flytja hann til eldisstöðvar sem uppfyllir skilyrði í I. hluta viðauka C, enda þótt hún sé ekki á viðurkenndu svæði, skal fylgja honum, samkvæmt 11. gr., flutningsskýrsla sem er í samræmi við fyrirmynd í 1. eða 2. kafla viðauka E til staðfestingar á að hann komi frá viðurkenndu svæði eða eldisstöð sem hefur sömu heilbrigðisviðurkenningu og viðtökueldisstöðin.


8. gr.

1. Markaðssetning lifandi lindýra sem um getur í 2. dálki í skrá II í viðauka A skal háð því að eftirfarandi viðbótarkröfum sé fullnægt:

a) Eigi að sleppa þeim á viðurkennt strandsvæði verður að fylgja þeim, samkvæmt 11. gr., flutningsskýrsla sem er í samræmi við fyrirmyndina í 3. eða 4. kafla viðauka E til staðfestingar á að þau komi frá viðurkenndu strandsvæði eða viðurkenndri eldisstöð á strandsvæði sem hefur ekki hlotið viðurkenningu, eftir því sem við á;
b) eigi að sleppa þeim í viðurkenndri eldisstöð sem uppfyllir þau skilyrði sem sett eru í III. hluta viðauka C, enda þótt hún sé ekki á viðurkenndu strandsvæði, verður að fylgja þeim, samkvæmt 11. gr., flutningsskýrsla sem er í samræmi við fyrirmynd í 3. eða 4. kafla viðauka E til staðfestingar á að þau komi frá viðurkenndu strandsvæði eða eldisstöð sem hefur sömu heilbrigðisviðurkenningu og viðtökueldisstöðin.


9. gr.

Markaðssetning á viðurkenndu svæði á eldisdýrum og -afurðum til manneldis frá svæðum sem hafa ekki hlotið viðurkenningu skal háð því að eftirfarandi kröfum sé fullnægt:

1. Fiskur sem er smitnæmur fyrir þeim sjúkdómum sem um getur í 1. dálki í skrá II í viðauka A skal aflífaður og slægður fyrir afgreiðslu. Ekki skal þess krafist að fiskur sé slægður ef hann kemur frá viðurkenndri eldisstöð á svæði sem hefur ekki hlotið viðurkenningu. Veita má undanþágur frá þessari meginreglu. Uns ákvörðun liggur fyrir skulu innlendar reglur gilda áfram að því tilskildu að þær séu í samræmi við almenn ákvæði sáttmálans.
2. Lifandi lindýr sem eru smitnæm fyrir þeim sjúkdómum sem um getur í 1. dálki í skrá II í viðauka A skal afhenda annaðhvort beint til manneldis eða til lagmetisiðnaðarins og þeim ekki sleppt nema:
þau komi frá viðurkenndri eldisstöð á strandsvæði sem hefur ekki hlotið viðurkenningu, eða
þeim hafi verið sökkt um stundarsakir í geymsluker eða hreinsunarstöðvar sem eru sérstaklega búnar og viðurkenndar í því skyni af Fiskistofu og í þeim sé meðal annars kerfi til meðhöndlunar og sótthreinsunar á frárennslisvatni.


10. gr.

1. Ef Fiskistofa í samráði við yfirdýralækni leggur fram eða gerir áætlun sem gerir henni síðar kleift að innleiða þær aðferðir sem kveðið er á um 1. mgr. 5. gr. og 1. mgr. 6. gr. skal hún leggja þessar áætlanir fyrir ESA og tilgreina einkum:

viðkomandi landsvæði og eldisstöð eða -stöðvar,
ráðstafanir sem hinar opinberu þjónustustofnanir gera til að tryggja að áætluninni sé fylgt réttilega,
aðferðir sem viðurkenndar rannsóknarstofur nota, fjölda þeirra og staðsetningu,
tíðni þess sjúkdóms eða sjúkdóma sem tilgreindir eru í 1. dálki skráa I og II í viðauka A,
ráðstafanir sem eru gerðar til að berjast gegn þessum sjúkdómum þar sem þeir koma fram.


11. gr.

1. Flutningsskýrslurnar sem um getur í 7. og 8. gr. verða að vera gefnar út af opinberri þjónustustofnun á upprunastaðnum innan 48 klukkustunda fyrir fermingu, á opinberu tungumáli eða tungumálum viðtökustaðarins. Þær skulu vera ein pappírsörk og einungis gefnar út vegna eins viðtakanda. Þær skulu gilda í 10 daga.

2. Hver vörusending af eldisdýrum og -afurðum skal greinilega auðkennd svo að unnt sé að rekja hana til baka til upprunaeldisstöðvarinnar og sannreyna, eftir því sem við á, tengsl dýranna eða afurðanna við upplýsingarnar sem fram koma í meðfylgjandi flutningsskýrslu. Þessar upplýsingar má skrá beint á ílátið eða á merkimiða sem er festur við það eða í flutningsskýrsluna.


12. gr.

1. Ef Fiskistofa í samráði við yfirdýralækni leggur fram eða hefur gert ólögboðna eða lögboðna eftirlitsáætlun vegna eins þeirra sjúkdóma sem tilgreindir eru í 1. dálki skrár III í viðauka A skal það leggja þessa áætlun fyrir ESA og tilgreina einkum:

útbreiðslu sjúkdómsins,
rök fyrir áætluninni þar sem tekið er tillit til umfangs sjúkdómsins og áætlaðan ávinning af henni í samanburði við kostnað,
landsvæði þar sem áætlunin kemur til framkvæmda,
hvernig eigi að flokka eldisstöðvar, og hvaða staðla eldisstöðvar í hverjum flokki verði að uppfylla, að prófunaraðferðum meðtöldum,
reglur sem gilda um komu dýra með lægri heilbrigðisviðurkenningu í eldisstöð,
hvaða aðgerða skuli gripið til ef eldisstöð missir þá viðurkenningu sem hún hefur, af hvaða ástæðu sem það kann að vera,
hvers konar eftirlit er haft með áætluninni.

2. ESA skal grandskoða slíkar áætlanir. Viðbótarábyrgðir, almennar eða sértækar, sem krefjast má vegna aðflutnings fiskeldisdýra og -afurða til svæða eða eldisstöðva sem eru undir opinberu eftirliti skulu skilgreindar.

3. Breyta má eða bæta við slíkar áætlanir. Það sama gildir um áætlun sem um getur í 2. mgr.


13. gr.

1. Telji Fiskistofa í samráði við yfirdýralækni að Ísland eða hluti þess sé ósýkt af einhverjum þeirra sjúkdóma sem eru tilgreindir í 1. dálki skráar III í viðauka A skal hún leggja fyrir ESA viðeigandi sönnunargögn, þar sem einkum komi fram:

heiti sjúkdómsins og fyrri tilvik,
niðurstöður eftirlitsprófa sem eru byggð á sermifræðilegum, veirufræðilegum, örverufræðilegum eða meinafræðilegum niðurstöðum eða greiningu sníkjudýrs, eftir því sem við á, og þeirri staðreynd að skylt er að tilkynna sjúkdóminn til Fiskistofu og yfirdýralæknis,
lengd eftirlitstímabils,
eftirlitsráðstafanir til að ganga úr skugga um að viðkomandi svæði sé áfram ósýkt af sjúkdóminum.

2. ESA skal kanna sönnunargögnin og tilgreina þau svæði sem teljast skulu ósýkt og þær tegundir sem smitnæmar eru gagnvart viðkomandi sjúkdómi auk viðbótarábyrgða, almennra eða sértækra, sem nauðsynlegar kunna að vera til að unnt sé að flytja eldisdýr og -afurðir til þessara svæða. Lifandi fiski, skelfiski eða krabbadýrum og, ef við á, hrognum þeirra og sviljum sem flutt eru á slík svæði skal fylgja flutningsskýrsla sem staðfestir að þau uppfylla kröfur slíkra viðbótarábyrgða.

3. Tilkynna skal ESA um breytingar á gögnunum sem um getur í 1. mgr. og tengjast sjúkdóminum. Breyta má eða fella niður viðbótarábyrgðir skv. 2. mgr., á grundvelli veittra upplýsinga.


14. gr.

1. Með fyrirvara um kröfur vegna sjúkdóma sem um getur í 1. dálki skráar III í viðauka A, settar samkvæmt málsmeðferðinni í 12. og 13. gr., skal markaðssetning á lifandi eldisfiski (lindýrum eða krabbadýrum), sem er ekki af smitnæmum tegundum samkvæmt 2. dálki í skrá II í viðauka A, og hrogn þeirra og svil vera háð því að eftirfarandi viðbótarkröfum sé fullnægt:

a) Þegar flytja á hann inn á viðurkennt svæði, verður að fylgja honum flutningsskýrsla skv. 11. gr. sem samsvarar fyrirmyndinni til staðfestingar á að hann komi frá svæði með sömu heilbrigðisviðurkenningu, frá viðurkenndri eldisstöð á svæði sem hefur ekki hlotið viðurkenningu eða frá eldisstöð sem getur verið á svæði sem hefur ekki hlotið viðurkenningu, að því tilskildu að í þeirri eldisstöð sé ekki að finna fisk af smitnæmum tegundum sem um getur í 2. dálki í skrá II í viðauka A og að hún tengist ekki vatnsfalli, hafströnd eða ármynni.
Hægt er að fara fram á undanþágu frá undanfarandi undirgrein, einkum með það í huga að banna aðflutning á viðurkennt svæði á þeim fiski sem um getur í þessari málsgrein og kemur frá viðurkenndri eldisstöð á svæði sem hefur ekki hlotið viðurkenningu, að því tilskildu að í þeirri eldisstöð sé ekki að finna fisk af smitnæmum tegundum sem um getur í 2. dálki í skrá II í viðauka A og að hún tengist ekki vatnsfalli, hafströnd eða ármynni. Samkvæmt sömu málsmeðferð skal ákveða viðeigandi skilyrði og ráðstafanir til að tryggja að ákvæðinu verði fylgt á einsleitan hátt. Uns ákvarðanir liggja fyrir skulu innlendar reglur gilda;
b) þegar flytja á hann í eldisstöð sem fullnægir skilyrðum viðauka C, enda þótt hún sé á svæði sem hefur ekki hlotið viðurkenningu, verður að fylgja þeim flutningsskýrsla samkvæmt 11. gr. sem samsvarar fyrirmyndinni, til staðfestingar á að hann komi frá viðurkenndu svæði, frá eldisstöð með sömu heilbrigðisviðurkenningu eða frá eldisstöð sem getur verið á svæði sem hefur ekki hlotið viðurkenningu, að því tilskildu að í þeirri eldisstöð sé ekki að finna fisk af smitnæmum tegundum sem um getur í 2. dálki í skrá II í viðauka A og að hún tengist ekki vatnsfalli, hafströnd eða ármynni.

2. Kröfurnar sem mælt er fyrir um í 1. mgr. gilda um markaðssetningu á lindýrum frá eldisstöð sem eru ekki af þeim smitnæmu tegundum sem um getur í 2. dálki í skrá II í viðauka A.

3. Með fyrirvara um kröfur vegna sjúkdóma sem um getur í 1. dálki í skrá III í viðauka A, settar samkvæmt málsmeðferðinni í 12. og 13. gr., skal markaðssetning á villtum fiski, lindýrum eða krabbadýrum, hrognum þeirra og sviljum, vera háð því að eftirfarandi viðbótarkröfum sé fullnægt:

a) Þegar flytja á þau inn á viðurkennt svæði verður að fylgja þeim flutningsskýrsla skv. 11. gr. sem samsvarar fyrirmyndinni til staðfestingar á að þau komi frá svæði með sömu heilbrigðisviðurkenningu;
b) þegar flytja á þau í eldisstöð sem fullnægir skilmálum viðauka C, enda þótt hún sé á svæði sem hefur ekki hlotið viðurkenningu, verður að fylgja þeim flutningsskýrsla samkvæmt 11. gr. sem samsvarar fyrirmyndinni til staðfestingar á að þau komi frá viðurkenndu svæði;
c) ef slík dýr eru veidd úti á opnu hafi og eru notuð til ræktunar á viðurkenndum svæðum og eldisstöðvum verður að setja þau í sóttkví sem er undir eftirliti Fiskistofu í samráði við yfirdýralækni á hentugum starfssvæðum og samkvæmt viðeigandi skilyrðum.

4. Kröfur þær sem mælt er fyrir um í 1., 2. og 3. mgr. gilda ekki ef reynslan hefur sýnt og/eða vísindalegar staðreyndir að ekkert aðfengið smit berst þegar fiskeldisdýr, sem eru ekki af smitnæmu tegundunum er um getur í 2. dálki í skrá II í viðauka A, eru flutt frá svæði sem ekki er viðurkennt til viðurkennds svæðis. ESA skal gera skrá yfir þau fiskeldisdýr sem undanþágan sem um getur í fyrstu undirgrein gildir fyrir og, ef nauðsyn krefur, breyta þeirri skrá í ljósi framfara á sviði vísinda og tækni. Setja skal sérstök skilyrði fyrir markaðssetningu slíkra dýra, þar með talið um tilskilið fylgiskjal, og þeim breytt samkvæmt sömu málsmeðferð.

5. Þessi grein gildir ekki um hitabeltisskrautfiska sem eingöngu eru hafðir í fiskabúrum.


15. gr.

Ákveða skal sýnatökuáætlanir og greiningaraðferðir sem á að nota til að greina og staðfesta þá sjúkdóma sem um getur í 1. dálki viðauka A. Þessar sýnatökuáætlanir verða að taka mið af tilvist villts fisks, krabbadýra og lindýra í vatnsumhverfinu.


16. gr.

Reglur þær sem settar eru í reglugerð nr. 849/1999 um eftirlit með innflutningi sjávarafurða, og reglugerð nr. 512/2005 um eftirlit með heilbrigði sjávareldisdýra og afurðum þeirra í viðskiptum innan EES, að því er varðar markaðssett eldisdýr og -afurðir, skulu gilda, einkum um skipulag og aðgerðir sem grípa skal til að lokinni skoðun sem EES-ríki á viðtökustað á að annast og verndarráðstafanirnar sem eiga að koma til framkvæmda.


17. gr.

Dýraheilbrigðissérfræðingar ESA geta framkvæmt skoðanir á staðnum í samvinnu við Fiskistofu og yfirdýralækni. Veita skal sérfræðingunum alla þá aðstoð sem nauðsynleg er til að þeir geti unnið verk sitt. ESA skal tilkynna um niðurstöður slíkra skoðana.


III. KAFLI
Reglur um innflutning frá þriðju ríkjum.
18. gr.

Eldisdýr og -afurðir sem flutt eru inn til EES skulu fullnægja þeim skilyrðum sem sett eru í 19., 20. og 21. gr.


19. gr.

1. Eldisdýr og -afurðir verða að koma frá þriðju ríkjum eða hlutum þeirra sem eru taldir upp í skrá sem ESA tekur saman og uppfærir.

2. Þegar ákveðið er hvort þriðja ríki eða hluti þess skuli tilgreint í skránni sem um getur í 1. mgr. skal einkum tekið mið af:

a) heilbrigðisástandi eldisdýranna, einkum skal gefa gaum að framandi sjúkdómum og ástandi heilbrigðismála í þriðja ríki sem gæti stofnað heilbrigði stofnsins í hættu í viðtökuríkinu;
b) hversu reglulega og hve oft þriðja ríkið lætur í té upplýsingar um tilvist smitsjúkdóma í fiskeldisdýrum á yfirráðasvæði sínu, einkum um þá sjúkdóma sem eru tilgreindir í skrá B frá Alþjóðastofnun um smitsjúkdóma dýra;
c) reglum þriðja ríkisins um forvarnaraðgerðir og eftirlit með sjúkdómum í eldisdýrum;
d) uppbyggingu opinberra þjónustustofnana í þriðja ríkinu og valdsviði þeirra;
e) skipulagi og framkvæmd ráðstafana til að koma í veg fyrir og hafa eftirlit með smitsjúkdómum í eldisdýrum;
f) þeim tryggingum sem þriðja ríkið veitir vegna reglna sem eru settar í þessari reglugerð.

3. Skrána sem um getur í 1. mgr. og allar breytingar á henni skal birta.


20. gr.

1. Fyrir hvert þriðja ríki skulu eldisdýr og –afurðir fullnægja þeim heilbrigðisskilyrðum sem eru samþykkt.

2. Eftir því hvert ástand dýraheilbrigðismála er í viðkomandi þriðja ríki geta skilyrðin sem um getur í 1. mgr. einkum tekið til:

takmarkana á innflutningi frá hluta þriðja ríkisins,
takmarkana vegna tiltekinna tegunda, óháð þroskastigi,
forskrifta um meðferð sem afurðirnar eiga að hljóta, eins og sótthreinsun hrogna,
forskrifta um notkun þessara dýra eða afurða,
ráðstafana sem gera skal vegna innflutnings, eins og sóttkvíun eða sótthreinsun hrogna.

3. Uns innflutningsskilyrðin sem kveðið er á um hafa verið sett skal tryggja að innflutningur á eldisdýrum og –afurðum frá þriðju ríkjum sé háður skilyrðum sem eru að minnsta kosti sambærileg þeim skilyrðum sem gilda um framleiðslu og markaðssetningu á EES-vörum.


21. gr.

1. Eldisdýrum og -afurðum skal fylgja vottorð sem er gefið út af opinberri þjónustustofnun í þriðja ríkinu sem flytur út. Vottorðið skal:

a) gefið út þann dag sem vörusendingin er afhent til afgreiðslu til viðtöku EES-ríkisins;
b) fylgja vörusendingunni í frumriti;
c) staðfesta að eldisdýrin og tilteknar afurðir uppfylli kröfur þessarar reglugerðar og þær sem eru settar í tengslum við hana vegna innflutnings frá þriðja ríkinu;
d) gilda í 10 daga;
e) vera ein pappírsörk;
f) gert fyrir einn viðtakanda.

2. Vottorðið sem um getur í 1. mgr. skal vera samkvæmt fyrirmynd í viðauka E.


22. gr.

Dýraheilbrigðissérfræðingar EES-ríkjanna og ESA skulu kanna með skoðun á staðnum hvort ákvæðum þessarar reglugerðar, einkum 19. og 20. gr., er fylgt í reynd. ESA skal tilnefna sérfræðinga þeirra EES-ríkja sem skulu annast þessar skoðanir, að fenginni tillögu EES-ríkjanna. Skoðanirnar skulu gerðar á ábyrgð og kostnað ESA.


IV. KAFLI
Lokaákvæði.
23. gr.

Brot gegn reglugerð þessari varða sektum eða fangelsi. Með mál út af brotum á reglum samkvæmt reglugerð þessari skal farið að hætti opinberra mála.


24. gr.

Reglugerð þessi er sett með heimild í lögum nr. 55/1998 um meðferð, vinnslu og dreifingu sjávarafurða og lögum nr. 33/2002 um eldi nytjastofna sjávar og til innleiðingar á tilskipunum ráðsins nr. 91/67/EBE, 93/54/EBE, 95/22/EB, 97/79/EB, 98/45/EB, 806/2003/EB og ákvörðun ráðsins nr. 95/1/EB. Reglugerð þessi tekur þegar gildi.


Sjávarútvegsráðuneytinu, 26. maí 2005.

F. h. r.
Vilhjálmur Egilsson.
Ásta Einarsdóttir.



VIÐAUKI A
Skrá yfir sjúkdóma/sjúkdómsvalda í fiskum, lindýrum og krabbadýrum.

Dálkur 1
Dálkur 2
Sjúkdómur
Smitnæmar tegundir
Skrá I
Fiskur:
Blóðþorri (ISA)


Lax (Salmo salar L.)
Skrá II
Fiskur:
Veirublæðing (VHS)





Iðradrep (IHN)

Lindýr:
Ostruveiki (Bonomia ostreae)
Marteilíuveiki (Marteilia refringens)


Laxfiskar (Salmo sp., Salvelinus sp., Oncorhyncus sp.)
Harri (Thymallus thymallus)
Tjarnasíld (Coregonus spp.)
Gedda (Esox lucius)
Sandhverfa (Scophthalmus maximus)

Laxfiskar (Salmo sp., Salvelinus sp., Oncorhyncus sp.)
Gedduseiði (Esox lucius)

Ostra (Ostrea edulis)
Ostra (Ostrea edulis)
Skrá III
Fiskur:
Brisdrep (IPN)






Vorveira í vatnakarpa (SVC)

Nýrnaveiki (BKD)
(Renibacterium salmoninarum)Kýlaveiki (Aeromonas salm. ssp. salmonicida)Rauðmunnaveiki (Yersinia ruckeri)



Roðflyðrusýki (Gyrodactylus salaris)Krabbadýr:
Krabbapest (Aphanomycosis astaci)


Verða tilgreindir í áætluninni sem um getur í 12. og 13. gr.




VIÐAUKI B
Viðurkennd svæði.


I. Meginlandssvæði fyrir fisk

(2. dálkur í skrám I og II í viðauka A).
A. Skilgreining á meginlandssvæðum.
Með meginlandssvæði er átt við:

hluta yfirráðasvæðis sem nær yfir heilt vatnasvið frá upptökum vatnsfallanna að árósum þar sem sjávarfalla gætir, eða eins eða fleiri vatnasviða, þar sem fiskur er ræktaður, veiddur eða alinn, eða
hluta vatnasviðs frá upptökum vatnsfallanna að náttúrulegri eða tilbúinni stíflu sem kemur í veg fyrir að fiskurinn fari niður fyrir þá stíflu.

Stærð og landfræðileg lega meginlandssvæðis verður að vera þannig að líkur á endursmitun, t.d. vegna farfisks, séu í lágmarki. Þetta getur þýtt að ákveða verði stíflusvæði þar sem eftirlit fer fram án þess að svæðið verði flokkað sem viðurkennt svæði.


B. Viðurkenning.
Til að hljóta viðurkenningu verður meginlandssvæði að fullnægja eftirfarandi kröfum:

1. Allur fiskur verður að vera laus við klínísk einkenni eða önnur merki um einn eða fleiri af sjúkdómunum sem um getur í 1. dálki í skrá II í viðauka A í að minnsta kosti fjögur ár;
2. Allar eldisstöðvar á meginlandssvæðinu verða að vera undir eftirliti embættis yfirdýralæknis. Heilbrigðisskoðun tvisvar á ári verður að hafa farið fram í tvö ár.
Heilbrigðisskoðun verður að fara fram á þeim árstíma sem vatnshitastigið skapar skilyrði fyrir þróun þessara sjúkdóma. Heilbrigðisskoðun verður að fela í sér að minnsta kosti:
skoðun á fiski þar sem einhver frávik koma fram,
töku sýna í samræmi við áætlun sem er ákveðin samkvæmt málsmeðferð í 15. gr. sem senda skal eins fljótt og kostur er til viðurkenndrar rannsóknarstofu þar sem fram fer greining á viðkomandi smitefnum.
Hins vegar geta svæði, þar sem reynslan sýnir að þeir sjúkdómar sem um getur í 1. dálki í skrá II í viðauka A fyrirfinnast ekki, öðlast stöðu viðurkennds svæðis ef:
a) landfræðileg lega er þannig að sjúkdómar eigi ekki greiða leið að svæðinu;
b) opinbert heilbrigðiseftirlitskerfi hefur verið í lengri tíma, minnst tíu ár, þar sem:
reglulegt eftirlit hefur verið haft með öllum eldisstöðvum,
notað hefur verið sjúkdómatilkynningakerfi,
ekkert sjúkdómstilvik hefur verið tilkynnt,
samkvæmt gildandi reglum var aðeins unnt að flytja inn á viðkomandi svæði hrogn fiska eða svil frá ósmituðum svæðum eða eldisstöðvum sem opinbert eftirlit er haft með og framvísa sambærilegum heilbrigðisábyrgðum.
Heimilt er að stytta tíu ára tímabilið sem um getur í fyrsta undirlið í fimm ár á grundvelli niðurstaðna rannsókna sem fara fram á vegum opinberrar þjónustustofnunar í því EES-ríki sem sækir um slíkt, að því tilskildu að auk þeirra krafna sem um getur í fyrsta undirlið hafi heilbrigðisskoðun farið fram að minnsta kosti tvisvar á ári í reglubundnu eftirliti með öllum eldisstöðvum, sem um getur hér að framan, sem að minnsta kosti felst í:
skoðun á fiski þar sem einhver frábrigði koma fram,
töku sýna úr að minnsta kosti 30 fiskum í hverri heimsókn.
3. Ef engin eldisstöð er á meginlandssvæði sem á að viðurkenna verður yfirdýralæknir að hafa gert það að skilyrði að heilbrigðisskoðun fari fram á fiski á lægri hluta vatnasviðsins tvisvar á ári í fjögur ár, í samræmi við 2. lið.
4. Rannsóknarstofurannsóknir á fiski sem er tekinn við heilbrigðisskoðun hafi sýnt neikvæðar niðurstöður að því er viðkomandi smitefni varðar.

C. Viðurkenningu haldið við.
Fullnægja þarf eftirfarandi kröfum til að halda viðurkenningu:

1. Fiskur sem er fluttur á svæðið verður að koma frá öðru viðurkenndu svæði eða frá viðurkenndri eldisstöð.
2. Heilbrigðisskoðun verður að fara fram tvisvar á ári á hverri eldisstöð í samræmi við 2. lið í B-hluta nema á eldisstöðvum án seiðastofns, þar verður heilbrigðisskoðun að fara fram einu sinni á ári. Þó verða sýni tekin á víxl í 50% af fiskeldisstöðvunum á meginlandssvæðinu á hverju ári.
3. Niðurstöður rannsóknarstofurannsókna á fiski sem hefur verið tekinn við heilbrigðisskoðun verða að hafa verið neikvæðar að því er varðar sjúkdómana sem um getur í 1. dálki skráar II í viðauka A.
4. Þeir sem reka eldisstöðvar eða þeir sem bera ábyrgð á aðflutningi fisks verða að halda skrá þar sem fram koma allar nauðsynlegar upplýsingar svo að unnt sé að hafa óslitið eftirlit með heilbrigði fisksins.


D. Tímabundin niðurfelling, endurnýjun og afturköllun viðurkenningar.
1. Tilkynna skal eins fljótt og kostur er til yfirdýralæknis óvænt dauðsföll eða önnur einkenni þar sem grunur gæti leikið á að fisksjúkdómur sem um getur í 1. dálki í skrá II í viðauka A hafi komið upp.
Hann skal þegar í stað fella niður tímabundið viðurkenningu svæðisins eða hluta þess, að því tilskildu að sá hluti svæðisins sem enn hefur stöðu viðurkennds svæðis sé áfram í samræmi við skilgreininguna í A-lið.

2. Úrtak með að minnsta kosti 10 sýktum fiskum skal sent til viðurkenndu rannsóknarstofunnar til greiningar á viðkomandi smitefnum. Yfirdýralækni skal umsvifalaust tilkynnt um niðurstöður prófsins.

3. Ef niðurstöður smitefnagreiningarinnar eru neikvæðar, enda þótt aðrar niðurstöður kunni að vera jákvæðar, skal yfirdýralæknir endurnýja viðurkenninguna.

4. Ef ekki er unnt að gera sjúkdómsgreiningu verður frekari heilbrigðisskoðun að fara fram innan 15 daga frá því að fyrsta úrtak var tekið og taka verður nógu marga sýkta fiska og senda þá til viðurkenndu rannsóknarstofunnar til smitefnagreiningar. Fáist aftur neikvæðar niðurstöður eða séu ekki fleiri fiskar sýktir endurnýjar embætti yfirdýralæknis viðurkenninguna.

5. Ef niðurstöðurnar eru jákvæðar skal embætti yfirdýralæknis afturkalla viðurkenningu svæðisins eða hluta svæðisins sem um getur í 1. lið.

6. Endurnýjun á viðurkenningu svæðis eða hluta svæðis sem um getur í 1. lið er háð eftirfarandi skilyrðum:

a) komi upp sjúkdómur:
verður allur fiskur í sýktu eldisstöðinni að hafa verið aflífaður og farga verður fiski sem er smitaður,
skal sótthreinsa öll tæki og búnað í samræmi við þær reglur sem yfirdýralæknir setur;
b) þegar sjúkdóminum hefur verið útrýmt verður aftur að fullnægja kröfum þáttar B.

7. Yfirdýralæknir skal tilkynna ESA og hinum EES-ríkjunum um tímabundna niðurfellingu, endurútgáfu eða afturköllun á viðurkenningu svæðis eða hluta svæðis eins og um getur í 1. lið.


II. Strandsvæði fyrir fisk (2. dálkur skráa I og II í viðauka A).
A. Strandsvæði er landfræðilega vel afmarkaður hluti strandar, hafsvæðis eða ármynnis og myndar einsleitt vatnakerfi eða röð slíkra kerfa. Ef nauðsyn krefur má líta svo á að strandsvæði sé myndað af hluta strandar eða hafsvæðis eða ármynnis sem er milli mynnis tveggja vatnsfalla eða af hluta strandar eða hafsvæðis eða ármynnis þar sem er ein eldisstöð eða fleiri, að því tilskildu að gert sé ráð fyrir stíflusvæði báðum megin við eldisstöðina eða -stöðvarnar sem ESA ákveður hve langt skuli ná í hverju tilviki fyrir sig í samræmi við málsmeðferð í 26. gr.


B. Viðurkenning.
Til að hljóta viðurkenningu verður strandsvæði fyrir fisk að fullnægja þeim kröfum sem settar eru vegna meginlandssvæða og um getur í þætti B í I. hluta.


C. Viðurkenningu haldið við.
Fullnægja verður þeim kröfum sem settar eru í þætti C í I. hluta til að halda viðurkenningu.


D. Tímabundin niðurfelling, endurnýjun og afturköllun viðurkenningar.
Sömu reglur gilda og fram koma í þætti D í I. hluta. Ef svæðið er myndað af röð vatnasvæða getur tímabundin niðurfelling, endurnýjun og afturköllun viðurkenningar samt sem áður átt við hluta af þessari vatnasvæðaröð ef sá hluti er landfræðilega skýrt afmarkaður og er einsleitt vatnasvæði, að því tilskildu að sá hluti sem enn er viðurkenndur sé áfram í samræmi við skilgreininguna í þætti A.


III. Strandsvæði fyrir lindýr (2. dálkur skráar II í viðauka A).
A. Strandsvæði verður að uppfylla skilgreininguna sem kemur fram í þætti A í II. hluta.


B. Viðurkenning.
Til að hljóta viðurkenningu verður strandsvæði að fullnægja eftirfarandi kröfum:

1. Öll lindýr verða að vera laus við klínísk einkenni eða önnur merki um einn eða fleiri af sjúkdómunum sem um getur í 1. dálki skráar II í viðauka A í að minnsta kosti tvö ár.
2. Allar eldisstöðvar á strandsvæðinu verða að vera undir eftirliti embættis yfirdýralæknis. Það fer eftir þróun viðkomandi smitefna hversu oft heilbrigðisskoðun fer fram.
Við heilbrigðisskoðun eru sýni tekin og send eins fljótt og kostur er til viðurkenndrar rannsóknarstofu, þar sem fram fer greining á viðkomandi smitefnum.
3. Embætti yfirdýralæknis skal gera að skilyrði að heilbrigðisskoðun fari fram á lindýrum í samræmi við 2. lið, svo oft sem hæfir þróun viðkomandi smitefna ef engin eldisstöð er á strandsvæði. Sýni hins vegar nákvæm skoðun á dýralífinu að engin lindýr fyrirfinnist á svæðinu af tegundum sem eru smitnæmar eða arfberar getur embætti yfirdýralæknis viðurkennt svæðið áður en lindýr eru flutt þangað.
4. Rannsóknarstofurannsóknir á lindýrum sem eru tekin við heilbrigðisskoðun hafi sýnt neikvæðar niðurstöður að því er viðkomandi smitefni varðar. Við viðurkenningu má taka tillit til þess að reynslan hafi sýnt að sjúkdómarnir sem um getur í 1. dálki skráar II í viðauka A finnist ekki.


C. Viðurkenningu haldið við.
Fullnægja þarf eftirfarandi kröfum til að halda viðurkenningu:

1. Lindýr sem flutt eru á strandsvæði komi frá öðru viðurkenndu strandsvæði eða frá viðurkenndri eldisstöð á strandsvæði sem hefur ekki hlotið viðurkenningu.
2. Heilbrigðisskoðun fari fram í hverri eldisstöð í samræmi við 2. lið í þætti B, svo oft sem hæfir þróun viðkomandi smitefna.
3. Niðurstöður rannsóknarstofurannsókna á lindýrum sem hafa verið tekin við heilbrigðisskoðun hafi verið neikvæðar að því er varðar sjúkdómana sem um getur í 1. dálki í skrá II í viðauka A.
4. Þeir sem reka eldisstöðvar eða þeir sem bera ábyrgð á aðflutningi lindýra verða að halda skrá þar sem fram koma allar nauðsynlegar upplýsingar svo að unnt sé að hafa óslitið eftirlit með heilbrigði lindýranna.


D. Tímabundin niðurfelling, endurnýjun og afturköllun viðurkenningar.
1. Tilkynna skal eins fljótt og kostur er til yfirdýralæknis óvænt dauðsföll eða önnur einkenni þar sem grunur gæti leikið á að lindýrasjúkdómur sem um getur í 1. dálki í skrá II í viðauka A hafi komið upp. Hann skal þegar í stað fella niður tímabundið viðurkenningu svæðisins eða, ef svæðið er myndað af röð vatnasvæða, hluta slíkrar raðar ef hann er landfræðilega skýrt afmarkaður og er einsleitt vatnasvæði, að því tilskildu að sá hluti sem enn hefur stöðu viðurkennds svæðis sé áfram í samræmi við skilgreininguna í A-lið.

2. Úrtak með sýktum lindýrum skal sent til viðurkenndu rannsóknarstofunnar til greiningar á viðkomandi smitefnum. Yfirdýralækni skal umsvifalaust tilkynnt um niðurstöður prófsins.

3. Ef niðurstöður smitefnagreiningarinnar eru neikvæðar, enda þótt aðrar niðurstöður kunni að vera jákvæðar, skal viðurkenningin endurnýjuð.

4. Ef ekki er unnt að gera sjúkdómsgreiningu verður frekari heilbrigðisskoðun að fara fram innan 15 daga frá því að fyrsta úrtak var tekið og taka verður nógu mörg sýkt lindýr og senda þau til viðurkenndu rannsóknarstofunnar til smitefnagreiningar. Fáist aftur neikvæðar niðurstöður eða séu ekki fleiri lindýr sýkt endurnýjar embætti yfirdýralæknis viðurkenninguna.

5. Ef niðurstöðurnar eru jákvæðar skal yfirdýralæknir afturkalla viðurkenningu svæðisins eða hluta svæðisins eins og um getur í 1. lið.

6. Endurnýjun á viðurkenningu svæðis eða hluta svæðis, eins og um getur í 1. lið., er háð eftirfarandi skilyrðum:

a) Komi upp sjúkdómur:
skal farga öllum lindýrum sem eru smituð eða sýkt,
skal sótthreinsa öll tæki og búnað í samræmi við þær reglur sem embætti yfirdýralæknis setur;
b) þegar sjúkdóminum hefur verið útrýmt verður aftur að fullnægja kröfum þáttar B.

7. Yfirdýralæknir skal tilkynna ESA og hinum EES-ríkjunum um tímabundna niðurfellingu, endurútgáfu og afturköllun á viðurkenningu svæðis eða hluta svæðis, eins og um getur í 1. lið.



VIÐAUKI C
Viðurkenndar eldisstöðvar á svæði sem hefur ekki hlotið viðurkenningu.


I. Meginlandseldisstöðvar fyrir fisk

(2. dálkur í skrá I og II í viðauka A).
A. Viðurkenning.
Til að öðlast viðurkenningu verður eldisstöð að fullnægja eftirfarandi kröfum:

1. Vatn komi úr brunni, borholu eða uppsprettu. Þegar slíkir vatnsöflunarstaðir eru í ákveðinni fjarlægð frá eldisstöðinni skal vatnið leitt beint til hennar um rör eða, með samþykki embættis yfirdýralæknis, eftir opnum skurði eða náttúrlegri rás, að því tilskildu að slíkt sé ekki uppspretta smits fyrir viðkomandi eldisstöð og villtur fiskur komist ekki inn í hana. Vatnsrásin skal vera undir eftirliti eldisstöðvarinnar eða, ef því verður ekki komið við, heilbrigðiseftirliti.
2. Náttúrulegar eða tilbúnar hindranir séu forstreymis til að koma í veg fyrir að fiskur gangi upp í viðkomandi eldisstöð.
3. Ef nauðsyn krefur skal eldisstöð varin gegn flóðum og því að vatn geti þrengt sér inn.
4. Eldisstöð skal að breyttu breytanda fullnægja þeim kröfum sem um getur í þætti B í I. hluta viðauka B. Þegar sótt er um viðurkenningu á grundvelli skráðra upplýsinga og opinbert eftirlitskerfi hefur verið starfrækt í tíu ár skal hún fullnægja eftirfarandi viðbótarkröfum:
Klínísk rannsókn skal hafa farið fram í eldisstöðinni að minnsta kosti árlega og sýni tekin og kannað á viðurkenndri rannsóknarstofu hvort um viðkomandi smitefni er að ræða.
5. Yfirdýralæknir kann að grípa til viðbótarráðstafana gagnvart eldisstöðinni sé slíkt talið nauðsynlegt til að koma í veg fyrir að sjúkdómar komi upp. Slíkar ráðstafanir geta falist í því að koma upp stíflusvæði umhverfis stöðina þar sem eftirlitsáætlun er fylgt og koma á vörnum gegn innkomu hugsanlegra sjúkdómsvalda eða smitbera.
6. Samt sem áður:
a) er heimilt að viðurkenna nýja eldisstöð, sem fullnægir þeim kröfum sem um getur í 1., 2., 3. og 5. lið og hefur starfsemi sína með fiski, hrognum eða sviljum frá viðurkenndu svæði eða viðurkenndri eldisstöð sem er á svæði sem er ekki viðurkennt, án þess að fram fari sú sýnataka sem er krafist vegna viðurkenningar eldisstöðvar;
b) er heimilt að viðurkenna eldisstöð, sem fullnægir þeim kröfum sem um getur í 1., 2., 3. og 5. lið og hefur starfsemi að nýju eftir hlé með fiski, hrognum eða sviljum frá viðurkenndu svæði eða viðurkenndri eldisstöð sem er á svæði sem er ekki viðurkennt, án þess að fram fari sú sýnataka sem er krafist vegna viðurkenningar eldisstöðvar, að því tilskildu að:
yfirdýralæknir þekki heilbrigðissögu eldisstöðvarinnar fjögur undanfarin ár. Hafi viðkomandi stöð hins vegar verið starfrækt skemur en fjögur ár skal miða við þann rauntíma sem hún hefur verið í rekstri,
ekki hafi verið gerðar ráðstafanir í eldisstöðinni á sviði dýraheilbrigðis vegna þeirra sjúkdóma sem taldir eru upp í skrá II í viðauka A og ekki sé vitað um slík sjúkdómstilfelli áður í stöðinni,
eldisstöðin sé þrifin og sótthreinsuð og látin standa auð í að minnsta kosti 15 daga undir opinberu eftirliti áður en fiskur, hrogn eða svil eru flutt inn í hana.


B. Viðurkenningu haldið við.
Fullnægja verður þeim kröfum sem eru settar í þætti C í I. hluta viðauka B til að halda viðurkenningu. Þó skal taka sýni einu sinni á ári.


C. Tímabundin niðurfelling, endurnýjun og afturköllun viðurkenningar.
Sömu reglur gilda og fram koma í þætti D í I. hluta viðauka B.


II. Strandeldisstöðvar fyrir fisk (2. dálkur skráar II í viðauka A).
A. Viðurkenning.
Til að hljóta viðurkenningu verður eldisstöð að fullnægja eftirfarandi kröfum:

1. Hún skal fá vatn í gegnum kerfi sem er með búnaði til að eyða smitefnum þeirra sjúkdóma sem um getur í skrá II í 1. dálki í viðauka A. Ákveða ber nauðsynlegar viðmiðanir til að unnt sé að beita þessum ákvæðum alls staðar með sama hætti, einkum þeim er lúta að því að kerfið starfi eðlilega.
2. Hún skal, að breyttu breytanda, fullnægja þeim kröfum sem eru settar í þætti B í II. hluta viðauka B.
3. Samt sem áður:
a) er heimilt að viðurkenna nýja eldisstöð, sem fullnægir þeim kröfum sem um getur í 1. og 2. lið og hefur starfsemi sína með fiski, hrognum eða sviljum frá viðurkenndu svæði eða viðurkenndri eldisstöð sem er á svæði sem er ekki viðurkennt, án þess að fram fari sú sýnataka sem er krafist vegna viðurkenningar eldisstöðvar;
b) er heimilt að viðurkenna eldisstöð, sem fullnægir þeim kröfum sem um getur í 1. og 2. lið og hefur starfsemi að nýju eftir hlé með fiski, hrognum eða sviljum frá viðurkenndu svæði eða viðurkenndri eldisstöð sem er á svæði sem er ekki viðurkennt, án þess að fram fari sú sýnataka sem er krafist vegna viðurkenningar eldisstöðvar, að því tilskildu að:
yfirdýralæknir þekki heilbrigðissögu eldisstöðvarinnar fjögur undanfarin ár. Hafi viðkomandi stöð hins vegar verið starfrækt skemur en fjögur ár skal miða við þann rauntíma sem hún hefur verið í rekstri,
ekki hafi verið gerðar ráðstafanir í eldisstöðinni á sviði dýraheilbrigðis vegna þeirra sjúkdóma sem taldir eru upp í skrá II í viðauka A og ekki sé vitað um slík sjúkdómstilfelli áður í stöðinni,
eldisstöðin sé þrifin og sótthreinsuð og látin standa auð í að minnsta kosti 15 daga undir opinberu eftirliti áður en fiskur, hrogn eða svil eru flutt inn í hana.


B. Viðurkenningu haldið við.
Fullnægja verður, að breyttu breytanda, þeim kröfum sem settar eru í þætti C í II. hluta viðauka B til að halda viðurkenningu.


C. Tímabundin niðurfelling, endurnýjun og afturköllun viðurkenningar.
Sömu reglur gilda, að breyttu breytanda, og fram koma í þætti D í II. hluta viðauka B.


III. Strandeldisstöðvar fyrir lindýr (2. dálkur skráar II í viðauka A).
A. Viðurkenning.
Til að hljóta viðurkenningu verður eldisstöð að fullnægja eftirfarandi kröfum:

1. Hún skal fá vatn í gegnum kerfi sem er með búnaði til að eyða smitefnum þeirra sjúkdóma sem um getur í skrá II í 1. dálki í viðauka A. Ákveða ber nauðsynlegar viðmiðanir til að unnt sé að beita þessum ákvæðum alls staðar með sama hætti, einkum þeim er lúta að því að kerfið starfi eðlilega, í samræmi við þá málsmeðferð sem kveðið er á um í 26. gr.
2. Hún skal, að breyttu breytanda, fullnægja þeim kröfum sem settar eru í 1., 2. og 4. lið í þætti B í III. hluta viðauka B.
3. Samt sem áður:
a) er heimilt að viðurkenna nýja eldisstöð, sem fullnægir þeim kröfum sem um getur í 1. og 2. lið og hefur starfsemi sína með lindýrum frá viðurkenndu svæði eða viðurkenndri eldisstöð sem er á svæði sem er ekki viðurkennt, án þess að fram fari sú sýnataka sem er krafist vegna viðurkenningar eldisstöðvar;
b) er heimilt að viðurkenna eldisstöð, sem fullnægir þeim kröfum sem um getur í 1. og 2. lið og hefur starfsemi að nýju eftir hlé með lindýrum frá viðurkenndu svæði eða viðurkenndri eldisstöð sem er á svæði sem er ekki viðurkennt, án þess að fram fari sú sýnataka sem er krafist vegna viðurkenningar eldisstöðvar, að því tilskildu að:
yfirdýralæknir þekki heilbrigðissögu eldisstöðvarinnar tvö undanfarin ár,
ekki hafi verið gerðar ráðstafanir í eldisstöðinni á sviði dýraheilbrigðis vegna þeirra sjúkdóma sem taldir eru upp í skrá II í viðauka A og ekki sé vitað um slík sjúkdómstilfelli áður í stöðinni,
eldisstöðin sé þrifin og sótthreinsuð og látin standa auð í að minnsta kosti 15 daga undir opinberu eftirliti áður en lindýr eru flutt inn í hana.

B. Viðurkenningu haldið við.
Fullnægja verður, að breyttu breytanda, þeim kröfum sem settar eru í liðum 1-4 í þætti C í III. hluta viðauka B til að halda viðurkenningu.


C. Tímabundin niðurfelling, endurnýjun og afturköllun viðurkenningar.
Sömu reglur gilda, að breyttu breytanda, og fram koma í þætti D í III. hluta viðauka B.



VIÐAUKI D
Endurnýjun vatns.


Endurnýjun vatns við flutninga á fiskeldisdýrum skal fara fram með búnaði sem er viðurkenndur af EES-ríkjunum og uppfyllir eftirfarandi kröfur:

1. Hreinleikastig vatns sem er notað til skipta sé þannig að það hafi ekki áhrif á heilbrigðisástand tegundanna sem verið er að flytja að því er varðar smitefni þeirra sjúkdóma sem um getur í 1. dálki skráa I og II í viðauka A.
2. Búnaður sé þannig gerður að hann komi í veg fyrir smitun í því umhverfi sem vatni er veitt í:
annaðhvort með því að auðvelda sótthreinsun vatnsins, eða
með því að tryggja að vatnið geti ekki undir neinum kringumstæðum flætt út í sjó eða rennandi vatnsföll.

VIÐAUKI E
Fyrirmyndir að flutningsskýrslum.











Þetta vefsvæði byggir á Eplica