Umhverfisráðuneyti

54/2000

Reglugerð um breytingu á reglugerð nr. 588/1993 um merkingu, auglýsingu og kynningu matvæla sbr. breytingar nr. 142/1995 og nr. 726/1997. - Brottfallin

1. gr.

2. mgr. 12. gr. orðast svo:

Ef merking matvæla gefur til kynna magn eða undirstrikar mikilvægi eins eða fleiri innihaldsefna, eða ef ákveðin innihaldsefni eru venjulega tengd heiti matvæla, þá á magn þeirra að koma fram í tengslum við heiti vörunnar eða í innihaldslýsingu. Magn innihaldsefna skal gefið upp í prósentum eins og það er notað við framleiðslu vörunnar, nema annað sé ákveðið, sbr. 25. grein.

2. gr.

Við 3. mgr. 12. gr. bætist 6. og 7. liður sem orðast svo:

6. Innihaldsefni eru sætuefni og merkingin "Með sætuefni" eða "Með sykri og sætuefni" kemur fram í tengslum við heiti vörunnar sbr. 2. mgr. 13. greinar.

7. Um er að ræða íblöndun bætiefna og upplýsingar um næringargildi koma fram á umbúðum sbr. 9. gr. reglugerðar nr. 488/1993 um merkingu næringargildis matvæla.

3. gr.

25. gr. orðast svo:

Þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. 12. gr. og 1. mgr. 24. gr. skal skrá vatn og rokgjörn efnasambönd, sem notuð eru við framleiðslu, í innihaldslýsingu miðað við þyngd í lokaafurð. Það sama á við þegar krafa er gerð um magnmerkingu þessara efna. Vatnsinnihald skal þá reiknað með því að draga þyngd annarra innihaldsefna frá heildarþyngd lokaafurðar. Ef vatn reynist undir 5% af nettóþyngd vörunnar er ekki skylt að tilgreina það í innihaldslýsingu.

Ekki þarf að tilgreina vatnsinnihald í innihaldslýsingu þegar vatnið er notað í framleiðsluferlinu einungis til þynningar eða uppleysingar á innihaldi sem notað er í þykktu eða þurrkuðu formi, né heldur ef vatnið er hluti af legi sem ekki er ætlaður til neyslu að öllu jöfnu (sykurlausn, saltvatn o.þ.h.).

Þegar krafa er gerð um magnmerkingu innihaldsefna og þau tapa vatni við framleiðslu, skal gefa upp magn sem notað er við framleiðslu sem hlutfall af þyngd lokaafurðar. Magnið skal gefa upp í prósentum. Ef uppgefið magn innihaldsefna fer yfir 100% miðað við lokaafurð, skal í stað prósentutölu gefa upp það magn innihaldsefna sem þarf til að framleiða 100 g af vörunni.

Þegar notuð eru þurrkuð eða þykkt innihaldsefni sem við framleiðslu eða meðhöndlun fá sína upphaflegu mynd, má gefa upp magn efnanna á því formi.

4. gr.

Reglugerð þessi er sett með stoð í 2. mgr. 15. gr. laga nr. 93/1995 um matvæli. Einnig var höfð hliðsjón af ákvæðum samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, sem vísað er til í XII. kafla, II. viðauka, tilskipun 97/4/EB og tilskipun 1999/10/EB.

Reglugerðin öðlast þegar gildi.

Ákvæði til bráðabirgða.

Breytingu á umbúðamerkingum vegna ákvæða þessarar reglugerðar skal lokið fyrir 14. febrúar 2000. Þrátt fyrir framangreinda dagsetningu er heimilt að selja birgðir af vöru sem framleidd hefur verið og merkt fyrir þann tíma samkvæmt áður gildandi reglum.

Umhverfisráðuneytinu, 25. janúar 2000.

Siv Friðleifsdóttir.

Ingimar Sigurðsson.

 


Þetta vefsvæði byggir á Eplica