Sjávarútvegsráðuneyti

260/1999

Reglugerð um veiðar, meðferð, vinnslu og dreifingu lifandi samloka. - Brottfallin

I. KAFLI

Almenn ákvæði.

A. Gildissvið.

1. gr.

Reglugerð þessi tekur til veiða, meðferðar, vinnslu og dreifingar á lifandi samlokum, sem ætlaðar eru til beinnar neyslu eða frekari vinnslu til manneldis.

Reglugerð þessi gildir einnig um skrápdýr, möttuldýr og sæsnigla að undanskildum ákvæðum um hreinsun.

B. Almennar takmarkanir.

2. gr.

Reglugerð þessi tekur ekki til eftirlits með vatnsbólum og vatnsveitum sem er á hendi heilbrigðisnefnda undir yfirumsjón Hollustuverndar ríkisins.

C. Skilgreiningar.

3. gr.

Í reglugerð þessari er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:

1. Samlokur: Tvískelja lindýr sem taka til sín fæðu með því að sía hana.

2.Afgreiðslustöð: Viðurkennd starfsstöð, fljótandi eða á landi, til að taka á móti, ganga frá,

þvo, hreinsa, flokka og pakka inn lifandi samlokum sem eru neysluhæfar.

3.Veiðisvæði: Afmarkað svæði í sjó, ármynni eða lóni þar sem hægt er að rækta eða veiða

samlokur í náttúrulegu umhverfi sínu.

4.Viðurkennt veiðisvæði: Svæði sem Fiskistofa hefur lýst hæft til að ala samlokur eða veiða

til dreifingar beint á markað.

5.Veiðar: Tekja samloka, hvernig sem þeirra er aflað, af svæðum þar sem þær vaxa í

náttúrulegu umhverfi sínu eða eru ræktaðar.

6. Opinber eftirlitsstofnun: Fiskistofa eða önnur opinber stofnun sem lögum samkvæmt annast

flokkun og eftirlit með eldis- og veiðisvæðum samloka, eftirlit með tekju samloka og veitir

framleiðendum vinnsluleyfi.

7.Vinnslustöð: Bygging, hluti byggingar eða aðstaða, þ.m.t. athafnasvæði, sem er viðurkennt

af Fiskistofu til móttöku, meðferðar, þvottar, hreinsunar, flokkunar og pökkunar á lifandi samlokum til neyslu. Til vinnslustöðva teljast einnig vinnsluskip, pökkunarstöðvar og geymslur.

8.Merkispjald: Spjald eða merkimiði sem á eru skráðar upplýsingar um veiðisvæði o.fl. og

festur er við ílát eða umbúðir um lifandi samlokur.

9.Frágangur: Geymsla á lifandi samlokum, sem gæðanna vegna þarf ekki að umleggja eða

meðhöndla í hreinsistöð, í tönkum eða öðrum starfsstöðvum með hreinum sjó eða á náttúrlegum stöðum til að losa þær við sand, eðju eða slím.

10.Hreinsistöð: Viðurkennd starfsstöð með einum eða fleiri tönkum, þangað sem leitt er

hreint saltvatn eða sjór og þar sem lifandi samlokum er haldið í nægilega langan tíma til þess að þær hreinsi sig af örverum og verði neysluhæfar.

11.Umlagning: Flutningur lifandi samloka undir eftirliti opinbers aðila af menguðu svæði á

viðurkennt, ómengað svæði þar sem þær eru látnar vera nægilega lengi til þess að þær hreinsi

sig af örverum og mengunarefnum. Til umlagningar telst ekki flutningur á samlokum í því

skyni að þær nái frekari vexti.

12. Umlagningarsvæði: Sjór, ármynni eða lón sem samþykkt eru af Fiskistofu og greinilega

afmarkað með baujum, staurum eða öðrum föstum merkjum og eingöngu notuð til að hreinsa

lifandi samlokur á náttúrulegan hátt.

13. Þörungaeitur: Lífræn eiturefni sem samlokur safna í sig þegar þær nærast á þörungum

sem innihalda slík efni.

14. Hreinn sjór: Sjór eða sjóblandað vatn sem ekki er mengað örverugróðri, hættulegum

efnum eða eitruðu sjávarsvifi að því marki að það geti spillt heilnæmi samloka eða bragði og

sem notaður er við þau skilyrði sem kveðið er á um í reglugerð þessari.

15. Pökkun: Sú aðgerð að vernda samlokur með umbúðum eða á annan viðeigandi hátt.

16. Lota: Tilgreint magn lifandi samloka sem framleiddar eru við nokkurn veginn sömu

aðstæður.

17. Vörusending: Það magn lifandi samloka sem er meðhöndlað í afgreiðslustöð eða

hreinsunarstöð og ætlað er einum eða fleiri viðskiptamönnum.

18. Flutningatæki: Þeir hlutar vélknúinna ökutækja, járnbrautarvagna og loftfara sem ætlaðir

eru fyrir vörur, lestir skipa svo og gámar til vöruflutninga á landi, á sjó eða í lofti.

19. Markaðssetning: Lifandi samlokur sem eru geymdar eða sýndar til sölu, boðnar til sölu,

seldar, afhentar eða með einhverjum öðrum hætti settar á markað á Evrópska

efnahagssvæðinu, að undanskilinni smásölu eða dreifingu veiðimanns á smávægilegu magni

til verslana eða neytenda á staðbundnum mörkuðum, en slíkt skal háð heilbrigðiseftirliti sem

kveðið er á um í reglugerð nr. 522/1994.

20. Innflutningur: Flutningur lifandi samloka inn á íslenskt yfirráðasvæði.

21. Saurkólígerill: Staflaga baktería, kjörfrjáls, Gram-neikvæð, myndar ekki dvalargró,

oxídasa-neikvæð sem getur gerjað mjólkursykur með gasmyndun í viðurvist gallsalta eða

annarra yfirborðsvirkra efna með sambærilegum vaxtarhindrandi eiginleikum við 44°C ±

0,2°C innan 24 klukkustunda.

22. E. coli: Saurkólígerill sem einnig myndar indól úr trýptófani við 44°C ± 0,2°C innan 24

klukkustunda.

II. KAFLI

Skilyrði fyrir framleiðslu og dreifingu lifandi samloka.

A. Almennar kröfur.

4. gr.

Vinnslustöðvar sem taka við lifandi samlokum til vinnslu eða annarrar meðferðar svo sem þvottar, hreinsunar, flokkunar, pökkunar eða dreifingar skulu hafa gild vinnsluleyfi sem Fiskistofa gefur út.

5. gr.

Leyfi til vinnslu lifandi samloka skal háð því að uppfyllt séu almenn skilyrði laga ásamt eftirfarandi skilyrðum:

1. Vinnsluleyfishafi skal aðeins taka á móti lifandi samlokum til vinnslu af veiðisvæðum sem

um getur í 9. og 10. gr.

2. Samlokur skulu hafa verið veiddar og fluttar til vinnslu í samræmi við ákvæði 12. og 13. gr.

3. Ef með þarf skulu samlokur umlagðar á samþykktu svæði og fluttar til vinnslustöðvar í

samræmi við ákvæði 11. gr.

4. Ef með þarf skulu samlokur hreinsaðar í viðurkenndri aðstöðu í samræmi við ákvæði 15.

gr.

5. Þær upplýsingar sem krafist er að settar séu á ílát, umbúðir eða vigtarnótur með innlögðum

afla skulu vera í samræmi við ákvæði 13. gr.

6. Samlokur skulu standast kröfur þær sem um getur í viðauka 1.

7. Pökkun samloka og merkingar skulu vera í samræmi við ákvæði 16. og 19. gr.

8. Geymsla samloka og flutningur skal vera í samræmi við ákvæði 17. og 18. gr.

9. Lifandi samlokur sem ætlaðar eru til frekari vinnslu skulu uppfylla þær kröfur, sem fram

koma í 1. mgr. þessarar greinar og vera unnar eftir því sem við getur átt í samræmi við ákvæði

reglugerðar um hollustuhætti við meðferð, vinnslu og dreifingu sjávarafla og fiskafurða.

B. Sérkröfur.

6. gr.

Vinnslustöðvar skulu eingöngu taka á móti lifandi samlokum ef merkispjöld fylgja þeim sem sýna að þær komi frá viðurkenndu veiðisvæði, umlagningarsvæði eða vinnslustöð.

Vinnslustöðvar skulu færa dagbók þar sem fram koma skráningar vegna innra eftirlits, svo sem niðurstöður örverufræðilegra prófana á lifandi samlokum frá viðurkenndu veiði- eða umlagningarsvæði, innvegið magn samloka ásamt upplýsingum um veiðidag, veiðisvæði, veiðiskip, flutningsaðila frá veiðiskipi, meðferð og ráðstöfun aflans. Vinnslustöðvar skulu halda til haga merkispjöldum veiðiskipa, sbr. 13. gr.

Vinnslustöðvum er skylt að hlýta fyrirmælum Fiskistofu um að halda aðgreindum samlokum sem koma frá veiðisvæðum sem eru undir sérstöku eftirliti, sbr. 10. gr. og ráðstafa þeim ekki fyrr en Fiskistofa samþykkir á grundvelli niðurstöðu prófana á sjó eða sýnum af samlokum.

Þessar upplýsingar skal skrá í tímaröð og geyma í a.m.k. tvö ár.

7. gr.

Vinnslustöðvar skulu hafa yfir að ráða eigin rannsóknastofu eða tryggja sér aðstoð rannsóknastofu sem Fiskistofa samþykkir til þess m.a. að ganga úr skugga um að samlokurnar uppfylli örverufræðilegar viðmiðanir í viðauka 1. Þessar kröfur gilda þó ekki um vinnslustöðvar sem hafa fengið lifandi samlokur eingöngu og beint frá annarri vinnslustöð þar sem þær hafa verið rannsakaðar eftir hreinsun.

8. gr.

Vinnslustöðvar skulu samkvæmt leiðbeiningum frá Fiskistofu taka sýni af dagsframleiðslunni og varðveita í 12 mánuði. Sýni af samlokum sem seldar eru lifandi skal geyma frosin í einn mánuð. Sýni af samlokum til prófunar vegna þörungaeiturs skulu tekin og send prófunarstofu sem Fiskistofa samþykkir. Niðurstöður þeirra greininga skulu skráðar í dagbók vinnslustöðvarinnar, sbr. 3. og 4. tl. 20. gr.

III. KAFLI

Veiðisvæði og veiðar.

9. gr.

Umsókn um leyfi til veiða á samlokum á svæði sem ekki hefur verið kannað með tilliti til heilnæmis skal senda sjávarútvegsráðuneytinu. Ráðuneytið tekur ákvörðun um það hvort heilnæmiskönnun skuli fara fram til að meta hvort svæði skuli opnað til veiða.

Veiðisvæði skulu ekki viðurkennd til veiða á samlokum nema að undangenginni heilnæmiskönnun sem staðfestir að þau uppfylli kröfur í 26. gr. og viðauka 1 og að fram fari reglubundið eftirlit. Þó má veita leyfi til veiða á veiðisvæðum sem ekki hafa verið sérstaklega könnuð af Fiskistofu, enda réttlæti fyrirliggjandi upplýsingar það og þau séu utan þriggja sjómílna frá fjöruborði meginlands eða byggðra eyja.

10. gr.

Fiskistofa metur ástand veiðisvæðis og tilkynnir umsækjendum um veiðileyfi og vinnsluleyfishöfum hvort svæði séu opin eða lokuð fyrir veiðum samloka. Leiði niðurstöður könnunar til þess að ekki skuli leyfa veiðar samloka á ákveðnum stöðum á tilteknu veiðisvæði, skulu þeir staðir tilgreindir í veiðileyfum.

Sýni prófanir á sjósýnum vaxandi innihald eitraðra þörunga á veiðisvæði skal Fiskistofa ákveða daglegar sýnatökur og prófanir á sýnum af samlokum og sjó og skulu lifandi samlokur ekki nýttar fyrr en þær eru lausar við þörungaeitur.

IV. KAFLI

Umlagning.

11. gr.

Verði mengunar vart á veiðsvæði eða í samlokum er heimilt að flytja þær á annað svæði, sem Fiskistofa tilgreinir, til þess að losa þær við mengunina.

Umlagning lifandi samloka skal fara fram í samræmi við ákvæði viðauka 2.

V. KAFLI

Vinnslustöðvar.

A. Löndun og meðferð afla.

12. gr.

Aðferðir sem notaðar eru við veiðar eða flutning í land og á landi mega hvorki valda verulegum skaða á skeljunum eða fiskinum í þeim né umtalsverðri gæðarýrnun eða breytingum sem torvelda hreinsun, vinnslu eða umlagningu.

Lifandi samlokur má aðeins geyma í hreinum sjó um borð í veiðiskipi.

Ílát eða búnaður til flutnings á lifandi samlokum skal veita vörn gegn því að skelin spillist eða brotni, vera með viðeigandi afrennsli og þannig gerð að þrif séu auðveld.

13. gr.

Að beiðni veiðimanns gefur Fiskistofa út merkispjald til að bera megi kennsl á framleiðslulotur af lifandi samlokum meðan á flutningi stendur frá veiðisvæði til afgreiðslu- eða hreinsunarstöðva, umlagningarsvæða eða vinnslustöðva. Fyrir hverja framleiðslulotu er veiðimanni skylt að fylla út og undirrita á læsilegan og óafmáanlegan hátt viðeigandi hluta merkispjaldsins þar sem eftirfarandi upplýsingar skulu koma fram:

1. Veiðidagur.

2. Nafn og númer veiðisvæðis.

3. Magn og tegund samloka.

4. Löndunardagur.

5. Leyfisnúmer veiðiskips.

6. Vinnsluleyfisnúmer og ákvörðunarstaður þar sem innpökkun, umlagning, hreinsun eða vinnsla fer fram.

Ef veiði- eða umlagningarsvæði er lokað tímabundið skal Fiskistofa ekki gefa út merkispjöld fyrir það svæði og fella þegar í stað úr gildi öll útgefin merkispjöld.

Merkispjöld skulu auðkenna einstakar framleiðslulotur. Sé afla landað lausum skal skrá upplýsingar á vigtarnótu. Fiskistofa skal halda skrá til að tryggja rekjanleika á framleiðslulotum af lifandi samlokum. Merkispjald fyrir hverja lotu af lifandi samlokum skal vera með dagstimpli við afhendingu til afgreiðslu- eða hreinsunarstöðvar, umlagningarsvæðis eða vinnslustöðvar og skulu stjórnendur slíkra stöðva, svæða eða starfsstöðva halda því til haga í að minnsta kosti 60 daga.

Ef veiðar fara fram á vegum starfsfólks afgreiðslu- eða hreinsunarstöðvar, umlagningarsvæðis eða vinnslustöðvar sem tekur á móti aflanum er þó heimilt að láta varanlegt flutningsleyfi sem Fiskistofa veitir koma í stað merkispjalda.

B. Hreinlætis- og hollustuhættir.

14. gr.

Fyllstu kröfur um hreinlæti og þrifnað eru gerðar til starfsfólks og varðandi athafnasvæði, búnað og starfsaðstöðu.

Lifandi samlokur skal þvo eða hreinsa undir þrýstingi með hreinum sjó eða neysluvatni.

Búnaður skal vera til staðar sem sér fyrir, og eftir því sem við á, geymir drykkjarhæft vatn eins og það er skilgreint í reglugerð nr. 319/1995 um gæði neysluvatns, eða búnaður sem sér fyrir hreinum sjó.

Heimila má búnað með ódrykkjarhæfu vatni. Vatnið sem um ræðir má ekki komast í beina snertingu við lifandi samlokur eða vera notað til að þrífa eða sótthreinsa ílát, innréttingar eða búnað sem kann að komast í snertingu við lifandi samlokur. Lagnir og frárennslisrör fyrir ódrykkjarhæft vatn skulu vel aðgreindar frá lögnum fyrir drykkjarhæft vatn eða hreinan sjó.

Forsvarsmaður vinnslustöðvar skal gera fullnægjandi ráðstafanir til að koma í veg fyrir að fólk sem haldið er smitandi sjúkdómi meðhöndli lifandi samlokur.

Nagdýrum, skordýrum og öðrum meindýrum skal eytt og komið skal í veg fyrir frekari ásókn meindýra. Heimilisdýr mega ekki koma inn í byggingarnar.

Úrgang skal geyma á hreinlegan hátt á aðskildu svæði, og eftir því sem við á, í lokuðum ílátum sem henta í því skyni. Úrgangur skal fjarlægður reglulega frá stöðvunum.

Breiða skal yfir fullunnar vörur og halda þeim frá svæðum þar sem önnur dýr en lifandi samlokur, t.d. krabbadýr, eru meðhöndluð.

Um hreinlæti og hollustuhætti við vinnslu lifandi samloka gilda eftir því sem við á ákvæði reglugerðar um hollustuhætti við meðferð, vinnslu og dreifingu sjávarafla og fiskafurða.

VI. KAFLI

Hreinsibúnaður og hreinsun.

15. gr.

Verði mengunar vart á veiðsvæði eða í samlokum er heimilt að flytja þær í hreinsistöð sem Fiskistofa viðurkennir til þess að losa þær við mengunina.

Hreinsun lifandi samloka skal fara fram í samræmi við ákvæði viðauka 3.

VII. KAFLI

Pökkun og umbúðir.

16. gr.

Fyllsta hreinlætis skal gætt við pökkun lifandi samloka. Umbúðir mega ekki hafa áhrif á bragð, útlit eða lyktareinkenni þeirra og ekki bera í lifandi samlokur efni sem eru skaðleg heilsu manna. Þær skulu vera nógu sterkar til að veita samlokum fullnægjandi vernd.

Umbúðir fyrir lifandi samlokur skulu lokaðar og vera lokaðar frá afgreiðslustöð þar til þær berast neytanda eða smásala.

Ostrum skal pakka með kúptu hliðina niður.

Að öðru leyti gilda ákvæði reglugerðar um hollustuhætti við meðferð, vinnslu og dreifingu sjávarafla og fiskafurða.

VIII. KAFLI

Geymsla.

17. gr.

Lifandi samlokur skal geyma og flytja við bestu lífsskilyrði.

Í geymslu skal lifandi samlokum haldið við hitastig, sem ekki rýrir gæði eða lífsmöguleika þeirra og ekki má geyma þær við of lágan né of háan hita. Umbúðir mega ekki vera í beinni snertingu við geymslugólf heldur skulu þær settar á hreinan upphækkaðan stall eða hækkaðar á annan hátt þannig að komið sé í veg fyrir snertingu.

Lifandi samlokur má ekki úða með sjó eða vatni eftir að þeim hefur verið pakkað.

IX. KAFLI

Flutningur frá vinnslustöð.

18. gr.

Lifandi samlokur skal flytja í lokuðum flutningatækjum. Veggir innanvert og aðrir hlutar sem kunna að komast í snertingu við lifandi samlokur skulu gerðir úr tæringarþolnu efni, sem auðvelt er að þrífa.

Flutningatæki skulu þannig útbúin að unnt sé að halda í þeim hæfilegu hitastigi fyrir lifandi samlokur, enda sé það tilgreint á umbúðum og í farmbréfi.

Umbúðum með lifandi samlokum má ekki stafla beint á gólf flutningatækis eða gáms heldur skulu þær settar á upphækkaðan stall eða hækkaðar á annan hátt þannig að komið sé í veg fyrir snertingu.

Vörusendingar með lifandi samlokum til manneldis skulu fluttar í lokuðum pakkningum frá afgreiðslustöð þar til þær eru boðnar til sölu til neytanda eða smásala.

Lifandi samlokur má ekki flytja með öðrum afurðum sem kunna að menga þær.

Ef ís er notaður við flutning á lifandi samlokum skal hann gerður úr drykkjarhæfu vatni eða hreinum sjó.

X. KAFLI

Heilbrigðismerkingar.

19. gr.

Allar umbúðir til sendingar á lifandi samlokum skulu vera með heilbrigðismerkingum þar sem fram koma eftirfarandi atriði:

1. Upprunaland.

2. Tegund samloka, bæði almenna nafnið í markaðslandinu og latneska heitið.

3. Leyfisnúmer vinnslustöðvar og lotumerki framleiðslunnar svo unnt sé að rekja uppruna hennar til framleiðanda eða þess sem pakkaði samlokunum.

4. Dagsetning pökkunar.

5. Í stað dagsetningar um geymsluþol á fullpakkaðri vöru má koma yfirlýsingin: _Þessi skelfiskur skal vera lifandi við sölu."

Allar merkingar skulu vera varanlegar og vatnsþolnar og upplýsingar sem fram koma skulu vera augljósar og óafmáanlegar.

Lifandi samlokur skulu að öðru leyti merktar í samræmi við kröfur sem gerðar eru í viðkomandi markaðslandi.

Heilbrigðismerki skal prentað á umbúðir eða sett á sérstakan merkimiða sem síðan er festur á umbúðirnar eða settur innan á þær. Einnig má það vera fest með snúningi eða krókum. Ekki má nota sjálflímandi heilbrigðismerki nema ekki sé hægt að fjarlægja þau. Allar gerðir af heilbrigðismerkjum skulu vera einnota og ekki er heimilt að færa þau á milli framleiðslulota.

Heilbrigðismerki skal vera endingargott og vatnsþétt og upplýsingar á því læsilegar, óafmáanlegar og með skýrum stöfum.

Smásali skal geyma heilbrigðismerki, sem eru sett á vörusendingar með lifandi samlokum sem ekki er pakkað í sérstakar neytendaumbúðir, í að minnsta kosti 60 daga eftir að hann hefur skipt upp innihaldi vörusendingarinnar.

XI. KAFLI

Innra eftirlit.

20. gr.

Fyrirsvarsmenn vinnsluleyfishafa skulu gera nauðsynlegar ráðstafanir til þess að kröfur reglugerðar þessarar séu uppfylltar á öllum stigum veiða, ræktunar, meðferðar, framleiðslu og dreifingar lifandi samloka. Í þessu skyni eru þeir ábyrgir fyrir því að komið sé á fót innra eftirliti sem miðast við umfang og eðli starfseminnar og byggist á eftirfarandi meginreglum:

1. Að greina áhættuþætti í vinnslustöðinni miðað við öflun lifandi samloka og framleiðsluferli það sem notað er.

2. Að skipuleggja og koma á fót eftirlitskerfi til að fylgjast með og hafa eftirlit með slíkum áhættuþáttum.

3. Að taka sýni reglulega til greiningar á rannsóknastofu, sem Fiskistofa samþykkir til að kanna hvort samlokurnar, aðferðir við umlagningu eða hreinsun, þrif og gerileyðingu séu fullnægjandi og að unnið sé í samræmi við ákvæði reglugerðar þessarar.

4. Að geyma skriflegar skýrslur eða gögn sem skráð eru með varanlegum hætti varðandi framangreind atriði. Skráningar þessar skal geyma í a.m.k. tvö ár og vera aðgengilegar eftirlitsmönnum Fiskistofu þegar þeir óska þess.

21. gr.

Til þess að uppfylla kröfur um innra eftirlit vegna örveru- og efnamengunar, náttúrulegra eiturefna og skyldra áhættuþátta skulu vinnsluleyfishafar greina frá því í innra eftirliti sínu hvernig þeir fylgjast með uppruna samloka og tryggja að ákvæði 6. gr. þessarar reglugerðar séu uppfyllt.

22. gr.

Til þess að uppfylla ákvæði 6. gr. skulu vinnsluleyfishafar aðeins taka við lifandi samlokum af veiðiskipi sem hefur vinnsluleyfi og veiðileyfi til veiða á samlokum eða frá vinnslu sem hefur vinnsluleyfi.

Öll ílát eða umbúðir sem samlokum er landað í skulu merkt í samræmi við ákvæði 13. gr.

Vinnsluleyfishafar skulu halda skrár yfir allan landaðan afla með þeim upplýsingum sem getið er í 1.-6. tl. 13. gr.

XII. KAFLI

Opinbert eftirlit og verkaskipting.

A. Opinbert eftirlit.

23. gr.

Fiskistofa heldur skrá um vinnslustöðvar, sem hafa verið viðurkenndar og úthlutar þeim vinnsluleyfisnúmeri og tilkynnir hlutaðeigandi eftirlitsstofnunum í þeim markaðslöndum, sem þess óska, um vinnslustöðvar á skrá.

Fiskistofa annast reglulega skoðanir og eftirlit með vinnslustöðvum og hefur aðgang að öllum hlutum þeirra þar sem lifandi samlokur eru unnar eða geymdar. Fyrirsvarsmönnum vinnslustöðva er skylt að veita Fiskistofu allar þær upplýsingar og aðstoð sem nauðsynleg er við eftirlit og skoðun, þ.m.t. skráningar.

Fiskistofa ber ábyrgð á eftirliti með veiðisvæðum í samræmi við kröfur reglugerðar þessarar.

Fiskistofa skal koma á almennu heilbrigðiseftirlitskerfi til að sannreyna hvort kröfur reglugerðar þessarar séu uppfylltar þar með talið reglubundið eftirlit með umlagningu lifandi samloka og veiðisvæðum til að:

1. Forðast villandi upplýsingar að því er varðar uppruna- og viðtökustað lifandi samloka.

2. Hafa eftirlit með örverufræðilegum gæðum lifandi samloka með hliðsjón af veiði- og umlagningarsvæði.

3. Hafa eftirlit með því hvort svif sem framleiðir eitur finnist á veiði- og umlagningarsvæði og þörungaeitur í lifandi samlokum.

4. Hafa eftirlit með því hvort aðskotaefni finnist yfir leyfilegu hámarki.

24. gr.

Fiskistofa skal koma upp sýnatökuáætlun til að hafa reglulegt eftirlit, eða eftir þörfum þegar um er að ræða óreglubundin veiðitímabil, með því hvort óæskilegar örverur, mengandi efni eða svif sem framleiðir eitur finnast á veiði- og umlagningarsvæði. Þessi sýnatökuáætlun skal einkum miðast við:

1. Líklegar breytingar á saurmengun á hverju veiði- eða umlagningarsvæði.

2. Hugsanlegar breytingar á magni svifs sem inniheldur þörungaeitur á veiði- og umlagningarsvæðum.

3. Að sýnataka vegna eftirlits sé reglubundin til að nema breytingar á samsetningu svifs sem inniheldur eiturefni og landfræðilegri útbreiðslu þess.

4. Að fylgja eftir, með aukinni sýnatöku, upplýsingum sem vekja grun um að eiturefni hafi safnast fyrir í kjöti lifandi samloka.

5. Að auka sýnatöku til að hafa eftirlit með svifi á ræktunar- og veiðisvæðum með því að auka fjölda sýnatökustaða og fjölda sýna og með eiturprófunum á samlokum frá svæðum sem helst safna í sig þörungaeitri.

6. Að tryggja að lifandi samlokur frá viðkomandi svæði séu ekki settar á markað fyrr en viðunandi niðurstöður eiturprófana á nýjum sýnum liggja fyrir. Ef niðurstaða sýnatökuáætlunar sýnir að markaðssetning á lifandi samlokum kunni að stofna heilsu manna í hættu ber að loka viðkomandi veiðisvæði þar til aðstæður eru komnar í fyrra horf.

7. Hugsanlega mengun samloka á veiði- og umlagningarsvæði.

8. Að gera prófanir á rannsóknastofu til að hafa eftirlit með því hvort kröfum um lifandi samlokur beint til manneldis, sem mælt er fyrir um í viðauka 1 er fullnægt og setja upp eftirlitskerfi til að sannprófa hvort magn þörungaeiturs fer yfir öryggismörk.

25. gr.

Fiskistofa skal koma á heilbrigðiseftirlitskerfi til að sannreyna að farið sé að kröfum þessarar reglugerðar og hafa reglulegt eftirlit með vinnslustöðvum. Þetta eftirlit skal fela í sér skoðun:

1. Til að sannprófa hvort skilyrðum fyrir viðurkenningu er enn fullnægt.

2. Á þrifum á athafnasvæðum, tækjum, búnaði og hreinlæti starfsfólks.

3. Til að sannprófa hvort lifandi samlokur eru meðhöndlaðar á réttan hátt.

4. Á réttri notkun og starfsemi hreinsi- eða frágangskerfis.

5. Á skrám sem getið er um í viðauka 3.

6.Á réttri notkun heilbrigðismerkja. Heimilt er að þetta eftirlit taki til töku sýna til að prófa

á rannsóknastofu. Niðurstöður þessara prófana skulu tilkynntar þeim aðilum sem bera ábyrgð á viðkomandi starfsstöðvum.

7. Á geymslu- og flutningsaðstöðu fyrir vörusendingar með lifandi samlokum.

26. gr.

Fiskistofa skal setja sér starfsreglur til að fylgjast með að ákvæði reglugerðar þessarar séu uppfyllt. Reglurnar skulu m.a. taka til eftirfarandi atriða:

1. Örverufræðilegra gæða samloka af veiðisvæðum.

2. Hvort eitraðir þörungar finnist á veiðisvæði eða þörungaeitur í samlokum sé yfir leyfilegu hámarki.

3. Eftirlits með því hvort mengandi efni finnist yfir leyfilegu hámarki.

4. Innihalds eitraðra eða skaðlegra efna sem finnast í náttúrunni eða hafa verið losuð í umhverfið í slíku magni að reiknuð upptaka þeirra í gegnum fæðu fari yfir leyfilegan dagskammt (PDI), eða kunni að skemma bragð samlokanna.

5. Efri mörk fyrir innihald geislavirkra samsæta mega ekki fara yfir sett mörk fyrir matvæli.

6. Prófanir vegna eftirlits með því hvort kröfur í viðauka 1 eru uppfylltar skal gera á prófunarstofum sem Fiskistofa samþykkir.

27. gr.

Eftirlitsmönnum Fiskistofu er heimilt að taka sýni án endurgjalds til rannsóknar á rannsóknastofu sem Fiskistofa samþykkir, enda verði niðurstöður þeirra tilkynntar fyrirsvarsmönnum vinnslustöðva.

B. Verkaskipting stofnana.

28. gr.

Fiskistofa hefur með höndum framkvæmd reglugerðar þessarar og hefur opinbert eftirlit með því að farið sé að ákvæðum hennar. Slíkt eftirlit og umsjón felur einkum í sér eftirfarandi þætti:

1. Yfirumsjón með heilnæmiskönnun á veiðisvæðum fyrir lifandi samlokur og mat á stöðu þeirra. Við það mat skal hafa hliðsjón af kröfum, sem gerðar eru í þessu efni í samningum við stjórnvöld í landi því sem lifandi samlokur eru fluttar til. Fiskistofa kannar strandlengju við veiðisvæði með aðstoð sérfræðinga og annarra opinberra stofnana og ákveður hvar og hvenær sjósýni skuli tekin og hverjum skuli falin þessi sýnataka.

2. Fiskistofa heldur skýrslur um heilnæmiskannanir og flokkun veiðisvæða og miðlar upplýsingum þar að lútandi til ráðuneytis, vinnsluleyfishafa og veiðileyfishafa.

3. Útgáfu vinnsluleyfa eftir að gengið hefur verið úr skugga um að uppfyllt séu sett skilyrði laga og reglugerða.

4. Eftirlit með veiðum og aðstæðum við löndun, flutning, geymslu og vinnslu.

5. Skýrslugerð og miðlun upplýsinga til ráðuneytis, innlendra og erlendra eftirlitsstofnana og annarra aðila sem hlut eiga að máli.

6. Vörslu gagnasafns vegna eftirlits með lifandi samlokum. Þær opinberu stofnanir sem taka þátt í heilnæmiskönnun eða verkefnum varðandi veiði- eða gæðaeftirlit skulu láta Fiskistofu í té eintak af öllum niðurstöðum og skjölum þar að lútandi. Fiskistofa heldur til haga upplýsingum um flokkun og merkingu veiðisvæða, breytingar á flokkun þeirra og ákvæði sem auka kröfur til heilnæmis veiðisvæða.

29. gr.

Efna- og gerlaprófanir ásamt prófunum á þörungaeitri skulu gerðar á prófunarstofu sem Fiskistofa samþykkir. Prófunarstofa skal taka þátt í verkefnum um gæðaeftirlit í samræmi við samkomulag Fiskistofu við erlendar eftirlitsstofnanir.

30. gr.

Hafrannsóknastofnunin annast þörungagreiningar og þörungatalningar, mat á niðurstöðum, skýrslugjöf þar að lútandi til Fiskistofu og ráðgjöf um val á veiðisvæðum samloka.

XIII. KAFLI

Viðurlög og gildistaka.

31. gr.

Sjávarútvegsráðuneytið getur bannað hagnýtingu lifandi samloka af viðurkenndu veiðisvæði, sé talin hætta á því að skaðleg mengun berist inn á það. Sjávarútvegsráðuneytið getur lýst yfir veiðibanni á veiðisvæði eða hluta veiðisvæðis ef fjöldi eitraðra þörunga í sjósýnum eða innihald þörungaeiturs í lifandi samlokum nálgast alþjóðlega ákveðin viðmiðunarmörk, sbr. viðauka 1.

Fiskistofu er heimilt að stöðva vinnslu og dreifingu lifandi samloka sem ekki eru merktar í samræmi við ákvæði þessarar reglugerðar.

32. gr.

Fullnægi vinnsluleyfishafi ekki kröfum laga nr. 55/1998, reglugerðar um hollustuhætti við meðferð, vinnslu og dreifingu sjávarafla og fiskafurða eða reglugerðar þessarar skal Fiskistofa grípa til nauðsynlegra ráðstafana varðandi vinnsluleyfi viðkomandi samkvæmt VI. kafla laga nr. 55/1998 um meðferð, vinnslu og dreifingu sjávarafurða.

33. gr.

Brot á reglugerð þessari varða viðurlögum samkvæmt ákvæðum laga nr. 55/1998 um meðferð, vinnslu og dreifingu sjávarafurða.

Með mál út af brotum á reglugerð þessari skal farið að hætti opinberra mála.

34. gr.

Við gerð þessarar reglugerðar var tekið mið af tilskipunum ráðherraráðs Evrópusambandsins nr. 91/67, 91/492 og 91/493 og ákvörðunum framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins nr. 92/532, 93/22, 93/25, 93/51, 93/55, 93/169, 93/351, 93/383 og 94/356.

35. gr.

Reglugerð þessi sem sett er samkvæmt lögum nr. 55/1998 um meðferð, vinnslu og dreifingu sjávarafurða öðlast þegar gildi. Um leið fellur úr gildi reglugerð nr. 163/1996 um meðferð, vinnslu og sölu skelfisks.

Ákvæði til bráðabirgða.

Samlokur sem fengið hafa hitameðferð þannig að þær teljist unnin vara má undanþiggja ákvæðum um heilnæmiskannanir veiðisvæða. Slíkra undanþága skal sérstaklega getið í veiði- og vinnsluleyfum hlutaðeigandi aðila og jafnframt að þær megi fyrirvaralaust fella úr gildi ef öryggi neytenda eða samningar við erlendar opinberar eftirlitsstofnanir krefjast þess.

Sjávarútvegsráðuneytinu, 15. apríl 1999.

F. h. r.

Þorsteinn Geirsson.

Guðrún M. Eysteinsdóttir.

 

VIÐAUKI 1

Viðmiðunarmörk fyrir veiðisvæði og lifandi samlokur.

Lifandi samlokur skulu vera frá veiðisvæðum sem uppfylla kröfur þessarar reglugerðar.

1) Fiskistofa skal ákveða staðsetningu og endimörk veiðisvæða þannig að unnt sé að slá föstu á hvaða svæðum má:

a) Veiða samlokur beint til manneldis. Lifandi samlokur skulu uppfylla kröfur þessa viðauka og 26. gr. þessarar reglugerðar.

b) Veiða samlokur sem aðeins eru settar á markað til manneldis eftir meðhöndlun í hreinsunarstöð að lokinni umlagningu. Í fimm-glasa og þriggja-þynninga MPN-prófun eða með annarri gerlafræðilegri aðferð með samsvarandi nákvæmni mega ekki finnast í lifandi samlokum frá þessum svæðum meira en 6.000 saurkólígerlar í 100 g af kjöti eða 4.600 E. coli í 100 g af kjöti í 90% sýna. Eftir hreinsun eða umlagningu skulu kröfur þessa viðauka og 26. gr. hafa verið uppfylltar.

c) Veiða samlokur sem ekki er heimilt að markaðssetja fyrr en eftir umlagningu í langan tíma (að minnsta kosti tvo mánuði), hvort sem hreinsun fylgir eða eftir gagngera hreinsun í þann tíma sem ákveðinn skal af Fiskistofu þannig að kröfum a-liðar sé fullnægt. Í fimm-glasa og þriggja-þynninga MPN-prófun eða með annarri gerlafræðilegri aðferð með samsvarandi nákvæmni mega ekki finnast í lifandi samlokum frá þessum svæðum meira en 60.000 saurkólígerlar í 100 g af kjöti.

2) Lifandi samlokur skulu innihalda minna en 300 saurkólígerla eða minna en 230 Escherichia coli í 100 g af holdi og vökva miðað við MPN-próf með 5 glösum og þremur þynningum eða með annarri gerlafræðilegri aðferð með samsvarandi nákvæmni. Ekki má finnast Salmonella í 25 g holds.

3) Í sjósýnum frá viðurkenndum veiðisvæðum þar sem veiða má lifandi samlokur beint til manneldis skal heildarfjöldi kólígerla vera lægri en 70/100 ml og færri en 10% sýna með meira en 230/100 ml. Fjöldi saurkólígerla skal vera lægri en 14/100 ml og færri en 10% sýna með meira en 43/100 ml. Skoða skal a.m.k. 15 sýni.

4) Samanlagt innihald lamandi þörungaeiturs (PSP) í ætilegum hlutum lifandi samloka, þ.e.a.s. öllum líkamanum eða sérhverjum hluta sem er borðaður sér má ekki fara umfram 80 µg í 100 g. Sýnt skal fram á magn saxitoxíns með efnafræðilegri aðferð ef nauðsynlegt er talið. Ef niðurstöðurnar eru dregnar í efa skal miða við líffræðilega aðferð.

5) Þörungaeitur sem veldur niðurgangi (DSP) má ekki finnast í ætilegum hlutum lifandi samloka.

6) Innihald þörungaeiturs sem veldur minnisleysi (ASP) í ætilegum hlutum lifandi samloka má ekki fara umfram 20 µg/g.

7) Fiskistofa ákveður hvaða svæði eru viðurkennd til veiða á samlokum samkvæmt prófunum

á samlokum, sjósýnum og aðstæðum almennt. Sýnataka og prófanir skulu gerðar samkvæmt

frekari leiðbeiningum frá Fiskistofu.

8) Fiskistofa skal tilkynna þeim aðilum sem þessi reglugerð varðar, einkum framleiðendum og stjórnendum hreinsunar- og afgreiðslustöðva, þegar í stað um allar breytingar á endimörkum veiðisvæða og tímabundna eða endanlega lokun á þeim.

 

VIÐAUKI 2

Sérkröfur vegna lifandi samloka og umlagningar.

A. Sérkröfur.

Lifandi samlokur til beinnar neyslu skulu uppfylla eftirtaldar kröfur:

1.      Þær skulu vera ferskar og með lífsmarki þannig að þær sýni viðbrögð þegar bankað er í

þær. Samlokurnar skulu vera hreinar og eðlilegt vökvamagn á milli skeljanna.

2. Þær skulu uppfylla skilyrði sem fram koma í viðauka 1.

B. Umlagning.

Eftirtalin skilyrði skal uppfylla við umlagningu á lifandi samlokum:

1. Samlokur skal meðhöndla varlega þannig að þær geti hafið síun næringar eftir umlagningu.

2. Við umlagningu má þéttleiki lifandi samloka ekki vera meiri en svo að hreinsun geti átt sér

stað.

3. Lifandi samlokur skulu hafðar í sjó á umlagningarsvæði nægilega lengi til að lækka magn saurkólígerla undir þau mörk sem krafist er.

4. Fiskistofa metur hvað skuli vera lágmarkshitastig í sjó til þess að umlagning verði árangursrík fyrir hverja tegund samloka.

5. Umlagningarsvæði skulu greinilega afmörkuð með baujum, stólpum eða öðrum föstum búnaði eða kennileitum. Minnst fjarlægð á milli svæðanna skal vera 300 m. Sama fjarlægð skal vera milli ræktunarsvæða og umlagningarsvæða.

6. Staðir innan umlagningarsvæðis skulu aðskildir þannig að komist verði hjá því að farmar blandist. Tryggja skal að ekki sé hægt að umleggja nýjan farm áður en fyrri farmur hefur verið fjarlægður.

7. Ábyrgðarmaður umlagningarsvæðis skal halda skrá um það hvaðan samlokur koma, umlagningartíma, umlagningarstað og ákvörðunarstað farmsins að umlagningu lokinni.

8 Eftir tekju á umlagningarsvæði og í flutningi frá því svæði til vinnslustöðvar skal hverjum farmi fylgja merkispjald.

 

VIÐAUKI 3

Hreinsibúnaður og hreinsun.

Gæta skal fyllsta hreinlætis við meðhöndlun lifandi samloka sem ætlaðar eru til beinnar neyslu. Fiskistofa skal samþykkja aðstöðu og búnað til hreinsunar á lifandi samlokum. Hreinsibúnaði skal vel við haldið og skal hann uppfylla eftirtalin skilyrði:

1) Gólf og veggir í hreinsi- og sjótönkum skulu vera slétt með hörðu, vatnsþéttu yfirborði og vera auðveld að þrífa. Botn hreinsitanka skal vera með hæfilegum halla og fullnægjandi frárennsli.

2) Aurugar samlokur skal þvo úr neysluvatni eða hreinum sjó fyrir hreinsun.

3) Skylt er að nota hreinan sjó til að hreinsa lifandi samlokur.

4) Lifandi samlokur skal hreinsa þar til þær uppfylla kröfur varðandi örverur í lifandi samlokum, sbr. viðauka 1.

5) Í hreinsitanki skulu lifandi samlokur vera af sömu tegund og frá sama veiðisvæði eða svæðum með sambærilegu heilnæmisstigi. Þegar margir farmar eru meðhöndlaðir samtímis skal hreinsun haldið áfram jafnlengi og nauðsynlegt er fyrir þann farm sem krefst lengsta hreinsunartímans.

6) Tankar, sem notaðir eru við hreinsun skulu þannig gerðir að sjór streymi auðveldlega í gegnum þá. Lifandi samlokur mega ekki vera í þykkari lögum en svo að þær geti opnað sig við hreinsunina.

7) Fisk, krabbadýr eða önnur sjávardýr má ekki geyma í hreinsitanki þar sem hreinsun á lifandi samlokum fer fram.

8) Að lokinni hreinsun skal þvo lifandi samlokur með neysluvatni eða hreinum sjó. Ekki er heimilt að endurnýta skolvatnið

9) Skylt er að láta rannsaka gæði hreinsunar í viðurkenndri rannsóknastofu miðað við tilteknar örverufræðilegar forsendur. Halda skal skrár um niðurstöður af örverufræðilegum sýnum vegna:

a) Sjávar í hreinsibúnaði áður en hreinsun hefst.

b) Lifandi samloka áður en hreinsun hefst.

c) Lifandi samloka eftir hreinsun.

10) Sýnatökur og prófanir sem nefndar eru í 9. tl. hér á undan skulu gerðar skv. sýnatökureglum í viðauka 1.

11) Í vinnslustöð skal halda skrár um:

a) Dagsetningu og magn lifandi samloka sem berast til stöðvarinnar.

b) Hvenær fylla og tæma skuli hreinsibúnað.

c) Upplýsingar um hvert hreinsaðar samlokur hafa verið sendar.

12) Halda skal nákvæmar og auðlæsilegar skrár.

13) Vinnslustöð má aðeins taka við lifandi samlokum ef með fylgir merkispjald veiðiskips eða umlagningarstöðvar.

14) Vinnslustöðvar sem flytja lifandi samlokur til annarra vinnslustöðva skulu láta merkispjald fylgja með.

15) Á umbúðum um hreinsaðar samlokur skal koma fram að þær hafi verið hreinsaðar.

16) Meðferð, þar með talin sandhreinsun á lifandi samlokum, má ekki spilla þeim.

17) Hreinsibúnað skal nota samkvæmt leiðbeiningum frá Fiskistofu, einkum varðandi gerla- og efnaeiginleika sjávar.

18) Tæki og tankar hreinsibúnaðar mega ekki spilla lifandi samlokum.

19) Sandhreinsibúnaður, sem er rekinn aðskilinn frá vinnslustöð, skal sérstaklega viðurkenndur af Fiskistofu.

20) Flokkun á lifandi samlokum má ekki valda mengun eða breytingum á þeim, þannig að þær þoli verr flutning og geymslu eftir pökkun.

21) Lifandi samlokur skal þvo með hreinum sjó eða neysluvatni undir þrýstingi. Ekki er heimilt að endurnýta skolvatnið

22) Gegnumstreymi sjávar í hreinsitönkum skal miða við magn lifandi samloka í þeim.

23) Nægileg fjarlægð skal vera milli inntaks sjávar og skólpfrárennslis þannig að ekki sé hætta á mengun. Ef nauðsynlegt er að hreinsa sjóinn skal heimila vinnsluna eftir að Fiskistofa hefur sannreynt að hreinsun skili árangri. Drykkjarhæft vatn sem er notað til að undirbúa sjó úr helstu efnum hans skal vera í samræmi við reglugerð nr. 319/1995.

24) Hreinsunarkerfi verður að virka þannig að samlokur geti sem fyrst byrjað að sía til sín fæðu og losnað við mengun. Verja skal lifandi samlokur fyrir mengun og halda þeim við bestu lífsskilyrði eftir hreinsun.

25) Ekki skal taka við meira magni af lifandi samlokum til hreinsunar en hreinsunarstöð ræður við. Nauðsynlegt er að sjór fljóti vel yfir samlokurnar meðan á hreinsun þeirra stendur.

26) Hreinsunarstöð skal taka tillit til gagna er varða hráefnið, svo sem tegund samloka, upprunasvæði, sýklainnihald, o.s.frv., til að áætla hreinsunartímann svo tryggt sé að samlokurnar uppfylli kröfur um gerla, sbr. viðauka 1.

27) Athafnasvæði, búnað eða tæki má ekki nota í öðrum tilgangi en til að meðhöndla lifandi samlokur nema til þess komi leyfi frá Fiskistofu.

 


Þetta vefsvæði byggir á Eplica